Af virkjunum og stóriðju

Á næstu vikum má gera ráð fyrir að í samfélaginu fari fram talsverðar umræður um orkumál, ekki síst í samhengi við sölu á raforku til stóriðju. Samorka vill leggja sitt af mörkum til að umræðan geti orðið vel upplýst og í því skyni eru hér sett fram nokkur efnisatriði í þessu sambandi, í stuttu og vonandi aðgengilegu máli.

Takmarkaður hluti orkunnar verið nýttur. Á Íslandi hafa um 40%* efnahagslega hagkvæmra orkukosta í vatnsafli þegar verið virkjaðir. Í löndum á borð við Noreg, Svíþjóð, Finnland, Frakkland, Spán, Sviss, Austurríki og Ítalíu er þessi tala á bilinu 70-90%. Hér hafa 20% orkukosta í jarðvarma verið virkjaðir og er þá ekki tekið tillit til hugsanlega stóraukinnar orkugetu með djúpborunum.
   * M.v. nýjasta mat Orkustofnunar. Talan væri 30% m.v. eldra mat stofnunarinnar og er raunar 16% að mati Jakobs Björnssonar, fyrrverandi orkumálastjóra.

Mjög stór hluti Íslands verndaður. Nú þegar hafa um 20% af flatarmáli Íslands verið friðlýst. Hækka má þessa tölu í 30-40% ef t.d. eru talin með svæði á náttúruminjaskrá og vatnsverndarsvæði Mývatns. Á sama tíma er þessi tala um 10% í Svíþjóð og Finnlandi en stefnan í báðum löndum hefur verið tekin á 15%.

Hátt hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa. Hér á landi teljast um 80% allrar frumorkunotkunar til endurnýjanlegrar orku. Til samanburðar má nefna að meðaltalið innan ESB eru 8,5%, en markmiðið er að ná þeirri tölu upp í 20% árið 2020. Ný ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur sett stefnuna á að þar verði þetta hlutfall 10% árið 2012, en nú er hlutfallið þar um 5%.

Ágæt arðsemi. Flest undanfarin ár hefur arðsemi af orkusölu til stóriðju verið góð. Árið 2008 er hins vegar, hjá orkufyrirtækjum líkt og flestum öðrum fyrirtækjum, mjög sérstakt í þessu sambandi. Mikil gengislækkun krónunnar hefur haft mikil áhrif á efnahagsreikninga margra fyrirtækjannna og þá lækkaði álverð mikið á alþjóðlegum mörkuðum síðari hluta ársins, líkt og margar aðrar afurðir og vörur (svo sem olía, fiskur, stál…). Afkoman var því yfirleitt ekki góð árið 2008 en þrátt fyrir áföllin eru þessi fyrirtæki, orkufyrirtækin og stóriðjan, enn að framleiða verðmæti fyrir íslenskt þjóðarbú.
 
Lágt raforkuverð til heimila. Um 80% raforkunnar hér á landi fara til stóriðju. Raforkuverð til heimila er mun lægra hérlendis en í flestum okkar nágrannalöndum. Þannig kostar meðalheimilisnotkun á rafmagni í Reykjavík einungis um fjórðung af því sem hún kostar í Kaupmannahöfn. Ennfremur hefur almennt raforkuverð árum saman farið lækkandi hér á landi, að teknu tilliti til þróunar vísitölu verðlags, samhliða aukinni raforkusölu til stóriðju.

Lægra verð til stærstu viðskiptavinanna. Stærstu viðskiptavinirnir, stóriðjufyrirtækin, greiða að sjálfsögðu lægra verð en þeir sem kaupa margfalt minna magn, líkt og gildir um flestar tegundir viðskipta. Raforka er ekki geymd á lager, hana þarf að nýta samtímis framleiðslu. Fyrirtæki í stóriðju eru skuldbundin til að kaupa sama mikla magnið allan sólarhringinn alla daga ársins. Slíkir samningar eru afar mikils virði fyrir raforkufyrirtækin og forsenda fjárfestinga og uppbyggingar sem nýtist öðrum viðskiptavinum. Þá taka þessi fyrirtæki við raforkunni beint af flutningskerfinu og greiða því sjálf eigin dreifingarkostnað, sem annars er alla jafna a.m.k. þriðjungur raforkuverðs.

Erlend fjárfesting einkum í stóriðju. Bein erlend fjárfesting í íslensku atvinnulífi hefur að langmestu leyti verið í stóriðju. Þetta kemur skýrt fram í gögnum Seðlabankans. Bankinn heldur yfirlit yfir fjármunaeign erlendra aðila í íslensku atvinnulífi (hlutabréfaeign erlendra aðila í íslenskum félögum meðtalin þar) og þar er stóriðjan langumfangsmest, ef undan eru skildar fjárfestingar eignarhaldsfélaga, sem skráð voru erlendis, í íslenskum bönkum á árunum 2005-2007 (nýjustu tölur Seðlabankans). Sú þróun mun hafa haldið eitthvað áfram árið 2008, en því miður stendur ekki mikið eftir í dag af þeim fjárhæðum sem þarna mældust af hálfu fjármálaþjónustunnar. Í árslok 2007 var hlutur stóriðju um 50% af erlendri fjármunaeign í íslensku atvinnulífi, ef hlutur fjármálaþjónustu er ekki með talinn.

Lítið brot af veltu bankanna. Við fall bankanna sl. haust námu erlendar skuldir þeirra um 9.500 milljörðum króna. Á árunum 2001-2008 námu fjárfestingar í stóriðju um 185 milljörðum króna en fjárfestingar orku- og veitufyrirtækja (að vatns-, hita- og fráveitum meðtöldum) alls 354 milljörðum. Í dag eru síðarnefndu fjárfestingarnar grundvöllur að verðmætasköpun og grunnþjónustu við borgarana. Því miður verður það ekki sagt um mikið af þessu lánsfé bankanna.

Um þriðjungur heildarveltu álveranna verður eftir í íslensku hagkerfi, 55 milljarðar árið 2008. Á Íslandi starfa þrjú álver. Samtals nam velta þeirra árið 2008 um 2.050 milljónum Bandaríkjadala, eða rúmlega 164 milljörðum króna miðað við meðalgengi dollars árið 2008 (sem var 80,07 krónur). Iðnaðarráðuneytið hefur áætlað að um þriðjungur af heildarveltunni verði eftir í íslensku hagkerfi (en a.m.k. sum álfyrirtækjanna telja hlutfallið um 40%). Fyrir árið 2008 væru það þá 683 milljónir dala, eða tæpir 55 milljarðar íslenskra króna. Þess má geta að þegar þetta er ritað, 3. apríl 2009, er gengi dollars kr. 119.

Hagstæðustu viðskiptin. Þótt hér sé fjallað um sölu á raforku til stóriðju þá er það að sjálfsögðu ekkert markmið í sjálfu sér að selja raforku til þeirra fyrirtækja. Þetta eru hins vegar lang stærstu viðskiptavinir íslenskra orkufyrirtækja, sem skoða auðvitað alla kosti við töku ákvarðana um sölu á raforku hverju sinni og velja þá hagkvæmustu.

Hagnaður til útlanda? Hagnaður af rekstri álvera á Íslandi rennur til útlanda, með sama hætti og við Íslendingar fáum verulegan virðisauka af starfsemi ýmissa fyrirtækja okkar erlendis. Má þar í gegnum tíðina nefna ýmis iðnfyrirtæki og fyrirtæki í sölu sjávarafurða og í fiskvinnslu erlendis. Þetta byggist á fjárfestingum okkar í útlöndum. Alls staðar í heiminum eru stjórnvöld að reyna að laða til sín erlenda fjárfestingu enda bein tengsl á milli hennar og hagvaxtar. Álfyrirtækin hafa kosið að fjárfesta á Íslandi og grundvallast þær ákvarðanir á sameiginlegum hagsmunum okkar Íslendinga og þeirra. Þessar fjárfestingar hafa gert okkur kleift að nýta áður ónýttar orkuauðlindir. Í formi áls erum við að flytja út vistvæna orku.

Eignamyndun og fjárfestingagrundvöllur. Bygging ál- og orkuvera hefur að verulegu leyti verið fjármagnaður með erlendu lánsfé. Á bakvið vaxtagreiðslur og afborganir af erlendum lánum er hins vegar eignamyndun á Íslandi. Þegar greitt hefur verið af lánunum standa eftir skuldlausar eignir sem mala gull. Innlendir fjárfestar hafa verið tregir til að fjármagna þessa uppbyggingu og hafa t.d. fremur kosið að fjárfesta í bönkum og eignarhaldsfélögum.

Tæp 5.000 störf vegna áliðnaðar. Samtals starfa nú um 1.450 manns hjá álfyrirtækjum á Íslandi. Áætlað hefur verið (af Nýsi hf.) að hverju slíku starfi fylgi um 2,4 afleidd störf, sem gerir tæp 3.500 afleidd störf, eða samtals tæp 5.000 störf. Samtals kaupa álfyrirtækin á Íslandi vörur og þjónustu af hátt á annað þúsund íslenskra fyrirtækja. Gróflega áætlað kaupir hvert álver þjónustu af fyrirtækjum fyrir 6-10 milljarða á ári eða ríflega 20 milljarða samtals. Að stærstum hluta fer þessi upphæð í laun til starfsmanna hjá umræddum fyrirtækjum.

Vel launuð störf og forysta í öryggismálum. Fyrir liggur að meðallaun hjá hvoru tveggja stóriðjufyrirtækjum og orkufyrirtækjum eru mun hærri en meðallaun í samfélaginu almennt. Orku- og veitufyrirtæki leggja mjög mikla áherslu á öryggismál og eiga m.a. gott samstarf um þau á vettvangi Samorku. Á engan er þó hallað þegar fullyrt er að stóriðjufyrirtækin hafi lengi verið í fararbroddi á þessu sviði á íslenskum vinnumarkaði og innleitt hér vinnubrögð sem verið hafa öðrum til eftirbreytni.

Hátt þekkingarstig. Árið 2006 voru unnin 730 ársverk háskóla- og tæknimenntaðra hjá íslenskum orku- og veitufyrirtækjum, þar af 500 ársverk verk- og tæknifræðinga, og tæp 500 ársverk iðnmenntaðra. Í stóriðju er svipaða sögu að segja, þar sem um 40% starfsfólksins er með háskóla- eða tæknimenntun. Loks starfa hundruðir sérfræðinga í verkfræðistofum og víðar m.a. við að þjónusta þessi fyrirtæki.

Forsenda glæstrar nýsköpunar og frumkvöðlastarfa. Kraftmikil nýsköpun og frumkvöðlastarf hafa risið hér á landi í tengslum við hvoru tveggja orku- og áliðnaðinn og má nefna fjölda þekkingarfyrirtækja í því sambandi, verkfræðiráðgjafar-, hönnunar- og framleiðslufyrirtæki sem jafnvel hafa markaðssett sínar afurðir og þjónustu víða um heim.

Traust fyrirtæki, fara ekki langt. Mikil fjárfesting liggur að baki álfyrirtækjum. Hér á landi eru þau gjarnan skuldbundin til að kaupa tiltekið magn af raforku um árabil og yrðu að standa við þá samninga þótt framleiðsla stöðvaðist af öðrum orsökum. Þessi fyrirtæki taka sig ekki svo auðveldlega upp og færa sig um set.

Umhverfismálin í fyrirrúmi hjá veitum og orkufyrirtækjum. Umhverfismálin skipa stóran sess í rekstri orku- og veitufyrirtækja, hvort sem um er að ræða virkjanir vegna nýtingar endurnýjanlegra orkulinda eða framkvæmdir vegna vatnsveitna og fráveitna. Áhersla er jafnan lögð á að umgangast landið með virðingu, að öllu raski sé haldið í lágmarki, frágangur í verklok sé til fyrirmyndar og raunar að tekið sé tillit til náttúru og umhverfis í allri starfseminni. Ennfremur hafa mörg orku- og veitufyrirtæki lagt áherslu á að bæta innviði ferðamennsku og útivistar á virkjunarsvæðum. Þá hafa fyrirtækin oft lagst í hreinsunarátak á einstökum svæðum áður en hafist hefur verið handa við framkvæmdir. Loks hafa sumar fráveitur gert stórátak í hreinsun strandlengjunnar og vatnsveitur sjá landsmönnum öllum fyrir vistvænu neysluvatni.

Yfir milljarður til sérstakra umhverfisverkefna. Kostnaður vegna slíkra umhverfisverkefna er ekki alltaf sundurgreinanlegur og umframkostnað vegna almennra áherslna á umhverfismál – svo sem að vinnuflokkar fari helst fótgangandi um viðkvæm svæði – er útilokað að taka saman. Að beiðni Samorku tóku orku- og veitufyrirtæki hins vegar saman (í ársbyrjun 2007) hversu miklum fjármunum þau hafa verið að verja með beinum hætti til sérstakra verkefna á sviði umhverfismála. Niðurstaðan er sú að á árunum 2001-2006 greiddu orku- og veitufyrirtæki á Íslandi samtals um 1.050 milljónir króna vegna sérstakra verkefna á eigin vegum á sviði umhverfismála, svo sem vegna landbætingar, göngustígagerðar og hreinsunarverkefna. Á sama tíma greiddu þessi fyrirtæki yfir 500 milljónir króna í styrki til annarra aðila vegna rannsókna og vísinda sem meðal annars hafa tengst umhverfismálum.

Yfir hundrað þúsund ferðamenn? Loks má nefna það hér að miklar vonir eru bundnar við ferðaþjónustu sem vaxtargrein í íslensku atvinnulífi. Óhætt er að fullyrða að orkufyrirtækin leggi þar sitt af mörkum. Sum þeirra hafa lagt mikinn kostnað í gerð göngustíga, uppgræðslu og kortagerð af svæðum í nágrenni sinna virkjana, að ógleymdri aðstöðu sem beinlínis er reist til að taka á móti gestum. Gera má ráð fyrir að á annað hundrað þúsund ferðamanna muni heimsækja virkjanir á Íslandi í sumar, enda endurnýjanleg orka því miður af skornum skammti víða annars staðar. Ef horft er til stærstu orkusölufyrirtækjanna hafa árlega um 20 til 30 þúsund ferðamenn heimsótt virkjanir og upplýsingamiðstöðvar Landsvirkjunar, í byrjun árs 2009 heimsóttu um fimm þúsund manns Hellisheiðarvirkjun á mánuði og mun sú tala hækka verulega í sumar, og þá fer gestum Hitaveitu Suðurnesja ört fjölgandi eftir opnun Orkuversins Jarðar í Reykjanesvirkjun.

Ennfremur má geta þess að vinsælir ferðamannastaðir á borð við Bláa lónið og Perluna eru beintengdir orkuiðnaði eða afsprengi hans. Þannig er Bláa lónið hluti af Auðlindagarðinum í Svartsengi en lónið sóttu 407 þúsund manns árið 2008. Perlan er byggð á heitavatnstönkum Orkuveitu Reykjavíkur. 570 þúsund manns komu í Perluna árið 2008.

 

Mikil þátttaka á öryggisnámskeiði Samorku

Hátt í eitt hundrað manns sóttu öryggisnámskeið fyrir rafiðnaðarmenn sem Samorka hélt í húsakynnum Orkuveitu Reykjavíkur við Bæjarháls dagana 1. og 2. apríl. Fjallað var um öryggismál rafvirkja og er það liður í því að fyrirbyggja vinnuslys hjá veitunum. Sérhvert slys er einu slysi of mikið. Við viljum að sjálfsögðu að allt starfsfólk komi heilt heim frá vinnu að loknum vinnudegi. Þessi fundur er viðleitni í átt til þess að svo megi verða.. Sjá dagskrá námskeiðsins hér. Með því að smella á ljómaða hlekki á dagskránni, má sjá fyrirlestrarglærurnar.

Samorka leggst gegn tillögum um breytingar á stjórnarskrá

Fyrir Alþingi liggur frumvarp til stjórnskipunarlaga, þar sem m.a. eru lagðar til breytingar er varða ákvæði um auðlindir og umhverfismál. Í umsögn sinni um frumvarpið leggst Samorka gegn því að ákvæðið verði samþykkt nú, og leggur til að umfjöllun um þau atriði verði frestað. Í niðurlagi umsagnar Samorku segir:

„Hér að framan hafa verið rakin dæmi um ófullnægjandi skilgreiningar hugtaka sem valdið geta réttaróvissu, um skörun við vinnu sem nú á sér stað á vegum stjórnvalda við útfærslu nýlegra lagasetninga, um óljós atriði er varða spurninguna um nýnæmi og fordæmi frá nágrannalöndum, um að efnisatriði frumvarpsins hafi ekki fengið þá almennu umfjöllun í samfélaginu sem æskileg hlýtur að teljast við breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins og um skort á upplýsingum um þær lagabreytingar sem samþykkt frumvarpsins kann að hafa í för með sér. Hæst ber þó sá afar skammi tími sem umsagnaraðilum um frumvarpið er ætlaður, til þess að móta afstöðu til tillagna um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Af þessum ástæðum leggur Samorka til að frestað verði að taka inn í stjórnarskrána efnisatriði 1. gr. frumvarpsins.“

Sjá umsögn Samorku hér.

Rafmagnsöryggissviðið flutt til Brunamálastofnunar.

Alþingi samþykkti í vikunni lög um flutning á Rafmagnsöryggissviði Neytendastofu til Brunamálastofnunar. Þessi breyting hefur verið alllengi í farvatninu. Hugmyndin var að rafmagnsöryggissviðið flyttist í hina nýju stofnun, Byggingastofnun, en frumvarp um heildarlög um Byggingastofnun hafa verið lengi í undirbúningi en eru enn ósamþykkt. Það hefur orðið að niðurstöðu að Brunamálastofnun taki þennan þátt að sér, að minnstakosti þangað til umrædd lög hljóta brautargengi.

Hér má sjá hin nýju lög

 

Rafmagnið ódýrast á Íslandi, fjórðungur verðsins í Danmörku

Samorka hefur borið saman rafmagnskostnað heimila í höfuðborgum Norðurlandanna. Gerður er samanburður á kostnaði heimila sem nota 4000 kWh á ári (ekki upphitunarkostnaður). Notast er við opinberar reiknivélar í hverju landi vegna sölu á samkeppnismarkaði, en upplýsingar á heimasíðum dreififyrirtækjanna í borgunum varðandi flutnings- og dreifingarkostnað. Söluverð miðast við rafmagnsverð 11. febrúar 2009 og samning um eins árs viðskipti. Gengi á íslensku krónunni er einnig miðað við þann dag, en vegna bankakreppunnar og gengisbreytinga er gengi 1. júlí einnig haft til samanburðar.

Niðurstöður sýna að fyrir bankahrunið var heimilisrafmagnið ódýrast í Helsinki og Reykjavík fylgdi fast á eftir, síðan Osló og Stokkhólmur og dýrast var það í Kaupmannahöfn. En eftir gengisfallið á íslensku krónunni er staðan sú að rafmagnið er ódýrast í Reykjavík en litlu dýrara í Helsinki. Í Osló er rafmagnið um 35% dýrara en í Reykjavík og um 63% dýrara í Stokkhólmi. Í Kaupmannahöfn er rafmagnið hins vegar langsamlega dýrast, eða meira en fjórfalt dýrara en í Reykjavík.

Krafa um 15-20% samdrátt í losun fyrir 2020?

Pétur Reimarsson, forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins, fjallaði um loftslagsbreytingar og orkunýtingu í erindi á aðalfundi Samorku. Pétur fjallaði m.a. um hækkandi hitastig jarðar síðustu aldir, aukna losun gróðurhúsalofttegunda og um mikilvægi þess að draga úr þeirri losun, þótt hann varaði við svonefndum heimsendaspám í þessum efnum. Lang stærsta hluta losunarinnar má rekja til brennslu á jarðefnaeldsneytum (olía, kol og gas). Pétur sagði ljóst að gríðarlegt átak þyrfti í orkumálum heimsins til að ná niður útstreymi gróðurhúsalofttegunda, og að það yrði afar kostnaðarsamt. Bætt orkunýting, kjarnorka, kolefnisförgun og aukin nýting endurnýjanlegra orkugjafa eru helstu leiðirnar í þessum efnum. Að óbreyttu mun heildarlosun frá orkuvinnslu tvöfaldast á árunum 2000 til 2030, og mun aukningin nánast öll eiga sér stað í þróunarlöndum á borð við Kína og Indland. Hér á landi er nánast ekkert útstreymi vegna vatnsaflsvirkjana og hverfandi lítið vegna jarðvarmavinnslu.

ESB-reglur þegar í gildi hér
Pétur greindi frá því að viðskiptakerfi ESB með loftslagsheimildir er þegar orðinn hluti af EES-samningnum. Frá og með árinu 2013 þurfa þannig orkufyrirtæki að afla sér losunarkvóta af uppboði fyrir hvers kyns losun gróðurhúsalofttegunda, en grænu vottorðin sem sum íslensk raforkufyrirtæki hafa verið að selja munu koma þar á móti. Jafnvel er talið að hitaveitur muni hugsanlega fá einhvern aðgang að þeim markaði. Almennt eru markmið einstakra ríkja um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda miðuð við landsframleiðslu. Á vettvangi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna er stefnt að því að ná samkomulagi um framhald svokallaðrar Kyoto-bókunar í lok þessa árs. Miðað við núverandi forsendur á vettvangi ESB má ætla að Ísland muni þurfa að takast á hendur skuldbindingar um 15-20% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2020 (í almennu útstreymi, en þar verða stóriðja, flutningar o.fl. utan við), þar sem miðað er við losun árið 2005.

Hér á landi verða eingöngu 4% losunarinnar rakin til rafmagns og hita og því ljóst að þetta krefjandi verkefni snýr að takmörkuðu en þó einhverju leyti að íslenskum orkufyrirtækjum. Hérlendis verða annars 41% losunar rakin til iðnaðar og efnanotkunar, 23% til samgangna, 15% til sjávarútvegs, 12% til landbúnaðar og 5% til úrgangs.

Sjá erindi (glærur) Péturs Reimarssonar.

Aðild að ESB: Lítil áhrif á yfirráðarétt og nýtingu orkuauðlinda

Ekki er hægt að halda fram að hugsanleg full aðild Íslands að ESB myndi hafa veruleg áhrif á stöðu okkar og möguleika varðandi yfirráðarétt og nýtingu jarðrænna auðlinda. Þetta er niðurstaða Guðna A. Jóhannessonar orkumálastjóra, sem flutti erindi á aðalfundi Samorku um íslenskar orkulindir og ESB. Guðni sagði þó jafnframt að hugsanlegar viðræður þyrftu að byggja á nákvæmri greiningu á þeirri aðlögun að reglum ESB sem þegar hefur verið samið um og þeim reglum sem eftir er að semja um. Allar helstu lagagerðir ESB á sviði orkumála hefðu þó þegar verið teknar upp í EES-samninginn og innleiddar á Íslandi, sumar þeirra með sérstökum aðlögunum vegna sérstöðu Íslands. Við inngöngu í ESB þyrfti að tryggja í aðildarsamningi að þær aðlaganir giltu áfram, þar sem þær ættu enn við. Fyrirkomulag eignarhalds náttúruauðlinda væri hins vegar ekki viðfangsefni ESB, heldur alfarið á hendi aðildarríkjanna.

Kostir, gallar, tækifæri og ógnanir
Guðni sagði bæði kosti og galla, ógnanir og tækifæri fólgin í hugsanlegri aðild að ESB, fyrir íslenska orkugeirann. Þannig myndi aðild t.d. hafa í för með sér aukna skriffinsku og dýrari stjórnsýslu og samskipti. Eins gætu t.d. ýmsar tilskipanir haft hér áhrif í framtíðinni, t.d. um skattlagningu á orku og um söfnun olíubirgða. Á hinn bóginn væru jafnframt kostir og tækifæri fólgin í aðild að ESB. Þannig gæti aðild t.d. skapað íslenskum orkufyrirtækjum greiðari aðgang að ýmsum verkefnum sem tengdust umhverfisstefnu ESB og áherslunni á endurnýjanlegar orkulindir sem við erum svo rík af. Aðildinni fylgdu einnig m.a. aukin tækifæri til áhrifa á stefnumótun sambandsins og þá væru tækifæri t.d. fólgin í aukinni nýtingu jarðhita í sumum aðildarríkjum ESB og í bættum aðgangi að rannsóknarsamstarfi og loftslagstengdum verkefnum.

Loks kom fram hjá Guðna að á annan tug erlendra fyrirtækja hafa nú þegar óskað upplýsinga vegna hugsanlegrar olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Sjá erindi (glærur) Guðna A. Jóhannessonar.

 

 

 

„Niðurgreiðsluhali“ nýrra hitaveitna að fullu uppgreiddur

Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri iðnaðarráðuneytis, flutti aðalfundi Samorku ávarp Össurar Skarphéðinssonar utanríkis- og iðnaðarráðherra (sem forfallaðist vegna veikinda). Í ávarpi ráðherra kom m.a. fram að gert er ráð fyrir að nefnd um endurskoðun raforkulaga muni ljúka störfum í haust. Þá kom fram að sá dráttur sem hafði orðið á niðurgreiðslum til nýrra hitaveitna, nefndur „hali“, sem aðalfundur Samorku ályktaði m.a. vegna á aðalfundi 2008, væri nú að fullu uppgreiddur.

Í ávarpi ráðherra var ennfremur fjallað um ýmsar viðræður sem um þessar mundir eiga sér stað um hugsanlega uppbyggingu á orkufrekum iðnaði hérlendis, um samstarf við Mitsubishi um þróun rafmagnsbíla, nýja alþjóðlega stofnun um endurnýjanlega orku, samstarf við vísindastofnanir í Bandaríkjunum um rannsóknir á nýtingu háhita, og um þá framtíðarsýn að Ísland verði sjálfbært orkuríki í krafti bættrar tækni til nýtingar endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum.

Loks kom fram að iðnaðarráðherra hefur ákveðið að styðja við umsókn Jarðhitafélags Íslands um að hýsa World Geothermal Congress á Íslandi árið 2015. Þingið er haldið á fimm ára fresti og ef af verður munu um 2.000 jarðhitasérfræðingar víða að úr heiminum þinga á Íslandi.

Ályktun aðalfundar Samorku: raunlækkun orkuverðs til fjölda ára

Ályktun aðalfundar Samorku, 20. febrúar 2009:

Raunlækkun orkuverðs til fjölda ára

Árum saman hefur verð á bæði heitu vatni og raforku farið lækkandi um land allt, að teknu tilliti til verðlagsþróunar almennt, ef frá eru skilin áhrif kerfisbreytinga sem raforkulög frá árinu 2003 höfðu í för með sér. Verð á raforku til almennra notenda er lægra hérlendis en í helstu samanburðarlöndum og hefur lengi verið. Þetta er ekki sjálfsögð niðurstaða í svo dreifbýlu landi og erfiðu yfirferðar. Sömu sögu má segja um verðlagningu á heitu vatni, sem hefur árum saman farið lækkandi, að teknu tilliti til verðlagsþróunar almennt, enda er húshitunarkostnaður mun lægri hér en í nágrannalöndunum.

Á tímum samdráttar í efnahagslífinu munu íslensk orku- og veitufyrirtæki standa vörð um öfluga grunnþjónustu í samfélaginu, þjónustu á borð við rafmagn, heitt og kalt vatn, og fráveitu. Samorka leggur hins vegar áherslu á að í sumum tilfellum gerir lagaramminn nánast kröfu um taprekstur af veitustarfsemi. Á þetta við um tekjumörk dreifingar og flutnings raforku, sem líkt hefur verið við lögbundinn taprekstur. Nú stendur yfir endurskoðun raforkulaga. Brýnt er að sú vinna skili niðurstöðu um rýmkun tekjumarka dreifingar- og flutningsfyrirtækja, til að koma í veg fyrir áframhaldandi taprekstur á reikning eigendanna.

Orka án losunar
Íslendingar búa að miklum auðlindum á orkusviði og er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkunotkun hvergi hærra en á Íslandi. Afar mikilvægt er að íslenskar endurnýjanlegar orkulindir njóti áfram sömu viðurkenningar og við gerð Kyoto-bókunarinnar við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna og leggur Samorka áherslu á að íslensk stjórnvöld tryggi eftir fremsta megni að svonefnt íslenskt ákvæði eða sambærilegt verði áfram við lýði. Þessi stefna er í samræmi við markmið loftslagssamningsins og er hluti af lausninni á sviði loftslagsmála. Of þröngar alþjóðlegar skuldbindingar í þessum efnum takmarka að sjálfsögðu tækifæri okkar til að nýta okkar endurnýjanlegu orkulindir, ekki vegna losunar frá orkuverum heldur vegna hugsanlegrar losunar frá þeim atvinnufyrirtækjum sem kynnu að vilja kaupa orkuna.

Erlend fjárfesting mikilvæg
Erlend fjárfesting í íslensku atvinnulífi er e.t.v. mikilvægari en nokkru sinni um þessar mundir. Endurnýjanleg orka er eitt helsta aðdráttaraflið í þeim efnum og ýmis tækifæri fyrir íslenskt efnahagslíf tengd nýtingu hennar við ýmiss konar framleiðslu- og þjónustustarfsemi. Afar mikilvægt er að íslensk stjórnvöld vinni með hugsanlegum fjárfestum og íslenskt laga- og regluumhverfi virki hvetjandi á erlenda fjárfesta.

Vatnsvernd í forgrunn
Aðgangur að hreinu drykkjarvatni er betri hér á landi en víðast hvar annars staðar. Standa þarf vörð um þessa stöðu en undanfarin ár hefur víða gætt tilhneigingar til þess að þrengja að vatnsverndarsvæðum í þágu byggingarframkvæmda. Víða hefur nú hægst á framkvæmdum en áfram er hugað að skipulagsmálum framtíðaruppbyggingar. Samorka hvetur ríki og sveitarfélög til að tryggja að vatnsvernd verði þar höfð í forgrunni.