Af virkjunum og stóriðju

Á næstu vikum má gera ráð fyrir að í samfélaginu fari fram talsverðar umræður um orkumál, ekki síst í samhengi við sölu á raforku til stóriðju. Samorka vill leggja sitt af mörkum til að umræðan geti orðið vel upplýst og í því skyni eru hér sett fram nokkur efnisatriði í þessu sambandi, í stuttu og vonandi aðgengilegu máli.

Takmarkaður hluti orkunnar verið nýttur. Á Íslandi hafa um 40%* efnahagslega hagkvæmra orkukosta í vatnsafli þegar verið virkjaðir. Í löndum á borð við Noreg, Svíþjóð, Finnland, Frakkland, Spán, Sviss, Austurríki og Ítalíu er þessi tala á bilinu 70-90%. Hér hafa 20% orkukosta í jarðvarma verið virkjaðir og er þá ekki tekið tillit til hugsanlega stóraukinnar orkugetu með djúpborunum.
   * M.v. nýjasta mat Orkustofnunar. Talan væri 30% m.v. eldra mat stofnunarinnar og er raunar 16% að mati Jakobs Björnssonar, fyrrverandi orkumálastjóra.

Mjög stór hluti Íslands verndaður. Nú þegar hafa um 20% af flatarmáli Íslands verið friðlýst. Hækka má þessa tölu í 30-40% ef t.d. eru talin með svæði á náttúruminjaskrá og vatnsverndarsvæði Mývatns. Á sama tíma er þessi tala um 10% í Svíþjóð og Finnlandi en stefnan í báðum löndum hefur verið tekin á 15%.

Hátt hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa. Hér á landi teljast um 80% allrar frumorkunotkunar til endurnýjanlegrar orku. Til samanburðar má nefna að meðaltalið innan ESB eru 8,5%, en markmiðið er að ná þeirri tölu upp í 20% árið 2020. Ný ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur sett stefnuna á að þar verði þetta hlutfall 10% árið 2012, en nú er hlutfallið þar um 5%.

Ágæt arðsemi. Flest undanfarin ár hefur arðsemi af orkusölu til stóriðju verið góð. Árið 2008 er hins vegar, hjá orkufyrirtækjum líkt og flestum öðrum fyrirtækjum, mjög sérstakt í þessu sambandi. Mikil gengislækkun krónunnar hefur haft mikil áhrif á efnahagsreikninga margra fyrirtækjannna og þá lækkaði álverð mikið á alþjóðlegum mörkuðum síðari hluta ársins, líkt og margar aðrar afurðir og vörur (svo sem olía, fiskur, stál…). Afkoman var því yfirleitt ekki góð árið 2008 en þrátt fyrir áföllin eru þessi fyrirtæki, orkufyrirtækin og stóriðjan, enn að framleiða verðmæti fyrir íslenskt þjóðarbú.
 
Lágt raforkuverð til heimila. Um 80% raforkunnar hér á landi fara til stóriðju. Raforkuverð til heimila er mun lægra hérlendis en í flestum okkar nágrannalöndum. Þannig kostar meðalheimilisnotkun á rafmagni í Reykjavík einungis um fjórðung af því sem hún kostar í Kaupmannahöfn. Ennfremur hefur almennt raforkuverð árum saman farið lækkandi hér á landi, að teknu tilliti til þróunar vísitölu verðlags, samhliða aukinni raforkusölu til stóriðju.

Lægra verð til stærstu viðskiptavinanna. Stærstu viðskiptavinirnir, stóriðjufyrirtækin, greiða að sjálfsögðu lægra verð en þeir sem kaupa margfalt minna magn, líkt og gildir um flestar tegundir viðskipta. Raforka er ekki geymd á lager, hana þarf að nýta samtímis framleiðslu. Fyrirtæki í stóriðju eru skuldbundin til að kaupa sama mikla magnið allan sólarhringinn alla daga ársins. Slíkir samningar eru afar mikils virði fyrir raforkufyrirtækin og forsenda fjárfestinga og uppbyggingar sem nýtist öðrum viðskiptavinum. Þá taka þessi fyrirtæki við raforkunni beint af flutningskerfinu og greiða því sjálf eigin dreifingarkostnað, sem annars er alla jafna a.m.k. þriðjungur raforkuverðs.

Erlend fjárfesting einkum í stóriðju. Bein erlend fjárfesting í íslensku atvinnulífi hefur að langmestu leyti verið í stóriðju. Þetta kemur skýrt fram í gögnum Seðlabankans. Bankinn heldur yfirlit yfir fjármunaeign erlendra aðila í íslensku atvinnulífi (hlutabréfaeign erlendra aðila í íslenskum félögum meðtalin þar) og þar er stóriðjan langumfangsmest, ef undan eru skildar fjárfestingar eignarhaldsfélaga, sem skráð voru erlendis, í íslenskum bönkum á árunum 2005-2007 (nýjustu tölur Seðlabankans). Sú þróun mun hafa haldið eitthvað áfram árið 2008, en því miður stendur ekki mikið eftir í dag af þeim fjárhæðum sem þarna mældust af hálfu fjármálaþjónustunnar. Í árslok 2007 var hlutur stóriðju um 50% af erlendri fjármunaeign í íslensku atvinnulífi, ef hlutur fjármálaþjónustu er ekki með talinn.

Lítið brot af veltu bankanna. Við fall bankanna sl. haust námu erlendar skuldir þeirra um 9.500 milljörðum króna. Á árunum 2001-2008 námu fjárfestingar í stóriðju um 185 milljörðum króna en fjárfestingar orku- og veitufyrirtækja (að vatns-, hita- og fráveitum meðtöldum) alls 354 milljörðum. Í dag eru síðarnefndu fjárfestingarnar grundvöllur að verðmætasköpun og grunnþjónustu við borgarana. Því miður verður það ekki sagt um mikið af þessu lánsfé bankanna.

Um þriðjungur heildarveltu álveranna verður eftir í íslensku hagkerfi, 55 milljarðar árið 2008. Á Íslandi starfa þrjú álver. Samtals nam velta þeirra árið 2008 um 2.050 milljónum Bandaríkjadala, eða rúmlega 164 milljörðum króna miðað við meðalgengi dollars árið 2008 (sem var 80,07 krónur). Iðnaðarráðuneytið hefur áætlað að um þriðjungur af heildarveltunni verði eftir í íslensku hagkerfi (en a.m.k. sum álfyrirtækjanna telja hlutfallið um 40%). Fyrir árið 2008 væru það þá 683 milljónir dala, eða tæpir 55 milljarðar íslenskra króna. Þess má geta að þegar þetta er ritað, 3. apríl 2009, er gengi dollars kr. 119.

Hagstæðustu viðskiptin. Þótt hér sé fjallað um sölu á raforku til stóriðju þá er það að sjálfsögðu ekkert markmið í sjálfu sér að selja raforku til þeirra fyrirtækja. Þetta eru hins vegar lang stærstu viðskiptavinir íslenskra orkufyrirtækja, sem skoða auðvitað alla kosti við töku ákvarðana um sölu á raforku hverju sinni og velja þá hagkvæmustu.

Hagnaður til útlanda? Hagnaður af rekstri álvera á Íslandi rennur til útlanda, með sama hætti og við Íslendingar fáum verulegan virðisauka af starfsemi ýmissa fyrirtækja okkar erlendis. Má þar í gegnum tíðina nefna ýmis iðnfyrirtæki og fyrirtæki í sölu sjávarafurða og í fiskvinnslu erlendis. Þetta byggist á fjárfestingum okkar í útlöndum. Alls staðar í heiminum eru stjórnvöld að reyna að laða til sín erlenda fjárfestingu enda bein tengsl á milli hennar og hagvaxtar. Álfyrirtækin hafa kosið að fjárfesta á Íslandi og grundvallast þær ákvarðanir á sameiginlegum hagsmunum okkar Íslendinga og þeirra. Þessar fjárfestingar hafa gert okkur kleift að nýta áður ónýttar orkuauðlindir. Í formi áls erum við að flytja út vistvæna orku.

Eignamyndun og fjárfestingagrundvöllur. Bygging ál- og orkuvera hefur að verulegu leyti verið fjármagnaður með erlendu lánsfé. Á bakvið vaxtagreiðslur og afborganir af erlendum lánum er hins vegar eignamyndun á Íslandi. Þegar greitt hefur verið af lánunum standa eftir skuldlausar eignir sem mala gull. Innlendir fjárfestar hafa verið tregir til að fjármagna þessa uppbyggingu og hafa t.d. fremur kosið að fjárfesta í bönkum og eignarhaldsfélögum.

Tæp 5.000 störf vegna áliðnaðar. Samtals starfa nú um 1.450 manns hjá álfyrirtækjum á Íslandi. Áætlað hefur verið (af Nýsi hf.) að hverju slíku starfi fylgi um 2,4 afleidd störf, sem gerir tæp 3.500 afleidd störf, eða samtals tæp 5.000 störf. Samtals kaupa álfyrirtækin á Íslandi vörur og þjónustu af hátt á annað þúsund íslenskra fyrirtækja. Gróflega áætlað kaupir hvert álver þjónustu af fyrirtækjum fyrir 6-10 milljarða á ári eða ríflega 20 milljarða samtals. Að stærstum hluta fer þessi upphæð í laun til starfsmanna hjá umræddum fyrirtækjum.

Vel launuð störf og forysta í öryggismálum. Fyrir liggur að meðallaun hjá hvoru tveggja stóriðjufyrirtækjum og orkufyrirtækjum eru mun hærri en meðallaun í samfélaginu almennt. Orku- og veitufyrirtæki leggja mjög mikla áherslu á öryggismál og eiga m.a. gott samstarf um þau á vettvangi Samorku. Á engan er þó hallað þegar fullyrt er að stóriðjufyrirtækin hafi lengi verið í fararbroddi á þessu sviði á íslenskum vinnumarkaði og innleitt hér vinnubrögð sem verið hafa öðrum til eftirbreytni.

Hátt þekkingarstig. Árið 2006 voru unnin 730 ársverk háskóla- og tæknimenntaðra hjá íslenskum orku- og veitufyrirtækjum, þar af 500 ársverk verk- og tæknifræðinga, og tæp 500 ársverk iðnmenntaðra. Í stóriðju er svipaða sögu að segja, þar sem um 40% starfsfólksins er með háskóla- eða tæknimenntun. Loks starfa hundruðir sérfræðinga í verkfræðistofum og víðar m.a. við að þjónusta þessi fyrirtæki.

Forsenda glæstrar nýsköpunar og frumkvöðlastarfa. Kraftmikil nýsköpun og frumkvöðlastarf hafa risið hér á landi í tengslum við hvoru tveggja orku- og áliðnaðinn og má nefna fjölda þekkingarfyrirtækja í því sambandi, verkfræðiráðgjafar-, hönnunar- og framleiðslufyrirtæki sem jafnvel hafa markaðssett sínar afurðir og þjónustu víða um heim.

Traust fyrirtæki, fara ekki langt. Mikil fjárfesting liggur að baki álfyrirtækjum. Hér á landi eru þau gjarnan skuldbundin til að kaupa tiltekið magn af raforku um árabil og yrðu að standa við þá samninga þótt framleiðsla stöðvaðist af öðrum orsökum. Þessi fyrirtæki taka sig ekki svo auðveldlega upp og færa sig um set.

Umhverfismálin í fyrirrúmi hjá veitum og orkufyrirtækjum. Umhverfismálin skipa stóran sess í rekstri orku- og veitufyrirtækja, hvort sem um er að ræða virkjanir vegna nýtingar endurnýjanlegra orkulinda eða framkvæmdir vegna vatnsveitna og fráveitna. Áhersla er jafnan lögð á að umgangast landið með virðingu, að öllu raski sé haldið í lágmarki, frágangur í verklok sé til fyrirmyndar og raunar að tekið sé tillit til náttúru og umhverfis í allri starfseminni. Ennfremur hafa mörg orku- og veitufyrirtæki lagt áherslu á að bæta innviði ferðamennsku og útivistar á virkjunarsvæðum. Þá hafa fyrirtækin oft lagst í hreinsunarátak á einstökum svæðum áður en hafist hefur verið handa við framkvæmdir. Loks hafa sumar fráveitur gert stórátak í hreinsun strandlengjunnar og vatnsveitur sjá landsmönnum öllum fyrir vistvænu neysluvatni.

Yfir milljarður til sérstakra umhverfisverkefna. Kostnaður vegna slíkra umhverfisverkefna er ekki alltaf sundurgreinanlegur og umframkostnað vegna almennra áherslna á umhverfismál – svo sem að vinnuflokkar fari helst fótgangandi um viðkvæm svæði – er útilokað að taka saman. Að beiðni Samorku tóku orku- og veitufyrirtæki hins vegar saman (í ársbyrjun 2007) hversu miklum fjármunum þau hafa verið að verja með beinum hætti til sérstakra verkefna á sviði umhverfismála. Niðurstaðan er sú að á árunum 2001-2006 greiddu orku- og veitufyrirtæki á Íslandi samtals um 1.050 milljónir króna vegna sérstakra verkefna á eigin vegum á sviði umhverfismála, svo sem vegna landbætingar, göngustígagerðar og hreinsunarverkefna. Á sama tíma greiddu þessi fyrirtæki yfir 500 milljónir króna í styrki til annarra aðila vegna rannsókna og vísinda sem meðal annars hafa tengst umhverfismálum.

Yfir hundrað þúsund ferðamenn? Loks má nefna það hér að miklar vonir eru bundnar við ferðaþjónustu sem vaxtargrein í íslensku atvinnulífi. Óhætt er að fullyrða að orkufyrirtækin leggi þar sitt af mörkum. Sum þeirra hafa lagt mikinn kostnað í gerð göngustíga, uppgræðslu og kortagerð af svæðum í nágrenni sinna virkjana, að ógleymdri aðstöðu sem beinlínis er reist til að taka á móti gestum. Gera má ráð fyrir að á annað hundrað þúsund ferðamanna muni heimsækja virkjanir á Íslandi í sumar, enda endurnýjanleg orka því miður af skornum skammti víða annars staðar. Ef horft er til stærstu orkusölufyrirtækjanna hafa árlega um 20 til 30 þúsund ferðamenn heimsótt virkjanir og upplýsingamiðstöðvar Landsvirkjunar, í byrjun árs 2009 heimsóttu um fimm þúsund manns Hellisheiðarvirkjun á mánuði og mun sú tala hækka verulega í sumar, og þá fer gestum Hitaveitu Suðurnesja ört fjölgandi eftir opnun Orkuversins Jarðar í Reykjanesvirkjun.

Ennfremur má geta þess að vinsælir ferðamannastaðir á borð við Bláa lónið og Perluna eru beintengdir orkuiðnaði eða afsprengi hans. Þannig er Bláa lónið hluti af Auðlindagarðinum í Svartsengi en lónið sóttu 407 þúsund manns árið 2008. Perlan er byggð á heitavatnstönkum Orkuveitu Reykjavíkur. 570 þúsund manns komu í Perluna árið 2008.