Rafmagnið ódýrast á Íslandi, fjórðungur verðsins í Danmörku

Samorka hefur borið saman rafmagnskostnað heimila í höfuðborgum Norðurlandanna. Gerður er samanburður á kostnaði heimila sem nota 4000 kWh á ári (ekki upphitunarkostnaður). Notast er við opinberar reiknivélar í hverju landi vegna sölu á samkeppnismarkaði, en upplýsingar á heimasíðum dreififyrirtækjanna í borgunum varðandi flutnings- og dreifingarkostnað. Söluverð miðast við rafmagnsverð 11. febrúar 2009 og samning um eins árs viðskipti. Gengi á íslensku krónunni er einnig miðað við þann dag, en vegna bankakreppunnar og gengisbreytinga er gengi 1. júlí einnig haft til samanburðar.

Niðurstöður sýna að fyrir bankahrunið var heimilisrafmagnið ódýrast í Helsinki og Reykjavík fylgdi fast á eftir, síðan Osló og Stokkhólmur og dýrast var það í Kaupmannahöfn. En eftir gengisfallið á íslensku krónunni er staðan sú að rafmagnið er ódýrast í Reykjavík en litlu dýrara í Helsinki. Í Osló er rafmagnið um 35% dýrara en í Reykjavík og um 63% dýrara í Stokkhólmi. Í Kaupmannahöfn er rafmagnið hins vegar langsamlega dýrast, eða meira en fjórfalt dýrara en í Reykjavík.