Aðild að ESB: Lítil áhrif á yfirráðarétt og nýtingu orkuauðlinda

Ekki er hægt að halda fram að hugsanleg full aðild Íslands að ESB myndi hafa veruleg áhrif á stöðu okkar og möguleika varðandi yfirráðarétt og nýtingu jarðrænna auðlinda. Þetta er niðurstaða Guðna A. Jóhannessonar orkumálastjóra, sem flutti erindi á aðalfundi Samorku um íslenskar orkulindir og ESB. Guðni sagði þó jafnframt að hugsanlegar viðræður þyrftu að byggja á nákvæmri greiningu á þeirri aðlögun að reglum ESB sem þegar hefur verið samið um og þeim reglum sem eftir er að semja um. Allar helstu lagagerðir ESB á sviði orkumála hefðu þó þegar verið teknar upp í EES-samninginn og innleiddar á Íslandi, sumar þeirra með sérstökum aðlögunum vegna sérstöðu Íslands. Við inngöngu í ESB þyrfti að tryggja í aðildarsamningi að þær aðlaganir giltu áfram, þar sem þær ættu enn við. Fyrirkomulag eignarhalds náttúruauðlinda væri hins vegar ekki viðfangsefni ESB, heldur alfarið á hendi aðildarríkjanna.

Kostir, gallar, tækifæri og ógnanir
Guðni sagði bæði kosti og galla, ógnanir og tækifæri fólgin í hugsanlegri aðild að ESB, fyrir íslenska orkugeirann. Þannig myndi aðild t.d. hafa í för með sér aukna skriffinsku og dýrari stjórnsýslu og samskipti. Eins gætu t.d. ýmsar tilskipanir haft hér áhrif í framtíðinni, t.d. um skattlagningu á orku og um söfnun olíubirgða. Á hinn bóginn væru jafnframt kostir og tækifæri fólgin í aðild að ESB. Þannig gæti aðild t.d. skapað íslenskum orkufyrirtækjum greiðari aðgang að ýmsum verkefnum sem tengdust umhverfisstefnu ESB og áherslunni á endurnýjanlegar orkulindir sem við erum svo rík af. Aðildinni fylgdu einnig m.a. aukin tækifæri til áhrifa á stefnumótun sambandsins og þá væru tækifæri t.d. fólgin í aukinni nýtingu jarðhita í sumum aðildarríkjum ESB og í bættum aðgangi að rannsóknarsamstarfi og loftslagstengdum verkefnum.

Loks kom fram hjá Guðna að á annan tug erlendra fyrirtækja hafa nú þegar óskað upplýsinga vegna hugsanlegrar olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Sjá erindi (glærur) Guðna A. Jóhannessonar.