„Niðurgreiðsluhali“ nýrra hitaveitna að fullu uppgreiddur

Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri iðnaðarráðuneytis, flutti aðalfundi Samorku ávarp Össurar Skarphéðinssonar utanríkis- og iðnaðarráðherra (sem forfallaðist vegna veikinda). Í ávarpi ráðherra kom m.a. fram að gert er ráð fyrir að nefnd um endurskoðun raforkulaga muni ljúka störfum í haust. Þá kom fram að sá dráttur sem hafði orðið á niðurgreiðslum til nýrra hitaveitna, nefndur „hali“, sem aðalfundur Samorku ályktaði m.a. vegna á aðalfundi 2008, væri nú að fullu uppgreiddur.

Í ávarpi ráðherra var ennfremur fjallað um ýmsar viðræður sem um þessar mundir eiga sér stað um hugsanlega uppbyggingu á orkufrekum iðnaði hérlendis, um samstarf við Mitsubishi um þróun rafmagnsbíla, nýja alþjóðlega stofnun um endurnýjanlega orku, samstarf við vísindastofnanir í Bandaríkjunum um rannsóknir á nýtingu háhita, og um þá framtíðarsýn að Ísland verði sjálfbært orkuríki í krafti bættrar tækni til nýtingar endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum.

Loks kom fram að iðnaðarráðherra hefur ákveðið að styðja við umsókn Jarðhitafélags Íslands um að hýsa World Geothermal Congress á Íslandi árið 2015. Þingið er haldið á fimm ára fresti og ef af verður munu um 2.000 jarðhitasérfræðingar víða að úr heiminum þinga á Íslandi.