Ályktun aðalfundar Samorku: raunlækkun orkuverðs til fjölda ára

Ályktun aðalfundar Samorku, 20. febrúar 2009:

Raunlækkun orkuverðs til fjölda ára

Árum saman hefur verð á bæði heitu vatni og raforku farið lækkandi um land allt, að teknu tilliti til verðlagsþróunar almennt, ef frá eru skilin áhrif kerfisbreytinga sem raforkulög frá árinu 2003 höfðu í för með sér. Verð á raforku til almennra notenda er lægra hérlendis en í helstu samanburðarlöndum og hefur lengi verið. Þetta er ekki sjálfsögð niðurstaða í svo dreifbýlu landi og erfiðu yfirferðar. Sömu sögu má segja um verðlagningu á heitu vatni, sem hefur árum saman farið lækkandi, að teknu tilliti til verðlagsþróunar almennt, enda er húshitunarkostnaður mun lægri hér en í nágrannalöndunum.

Á tímum samdráttar í efnahagslífinu munu íslensk orku- og veitufyrirtæki standa vörð um öfluga grunnþjónustu í samfélaginu, þjónustu á borð við rafmagn, heitt og kalt vatn, og fráveitu. Samorka leggur hins vegar áherslu á að í sumum tilfellum gerir lagaramminn nánast kröfu um taprekstur af veitustarfsemi. Á þetta við um tekjumörk dreifingar og flutnings raforku, sem líkt hefur verið við lögbundinn taprekstur. Nú stendur yfir endurskoðun raforkulaga. Brýnt er að sú vinna skili niðurstöðu um rýmkun tekjumarka dreifingar- og flutningsfyrirtækja, til að koma í veg fyrir áframhaldandi taprekstur á reikning eigendanna.

Orka án losunar
Íslendingar búa að miklum auðlindum á orkusviði og er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkunotkun hvergi hærra en á Íslandi. Afar mikilvægt er að íslenskar endurnýjanlegar orkulindir njóti áfram sömu viðurkenningar og við gerð Kyoto-bókunarinnar við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna og leggur Samorka áherslu á að íslensk stjórnvöld tryggi eftir fremsta megni að svonefnt íslenskt ákvæði eða sambærilegt verði áfram við lýði. Þessi stefna er í samræmi við markmið loftslagssamningsins og er hluti af lausninni á sviði loftslagsmála. Of þröngar alþjóðlegar skuldbindingar í þessum efnum takmarka að sjálfsögðu tækifæri okkar til að nýta okkar endurnýjanlegu orkulindir, ekki vegna losunar frá orkuverum heldur vegna hugsanlegrar losunar frá þeim atvinnufyrirtækjum sem kynnu að vilja kaupa orkuna.

Erlend fjárfesting mikilvæg
Erlend fjárfesting í íslensku atvinnulífi er e.t.v. mikilvægari en nokkru sinni um þessar mundir. Endurnýjanleg orka er eitt helsta aðdráttaraflið í þeim efnum og ýmis tækifæri fyrir íslenskt efnahagslíf tengd nýtingu hennar við ýmiss konar framleiðslu- og þjónustustarfsemi. Afar mikilvægt er að íslensk stjórnvöld vinni með hugsanlegum fjárfestum og íslenskt laga- og regluumhverfi virki hvetjandi á erlenda fjárfesta.

Vatnsvernd í forgrunn
Aðgangur að hreinu drykkjarvatni er betri hér á landi en víðast hvar annars staðar. Standa þarf vörð um þessa stöðu en undanfarin ár hefur víða gætt tilhneigingar til þess að þrengja að vatnsverndarsvæðum í þágu byggingarframkvæmda. Víða hefur nú hægst á framkvæmdum en áfram er hugað að skipulagsmálum framtíðaruppbyggingar. Samorka hvetur ríki og sveitarfélög til að tryggja að vatnsvernd verði þar höfð í forgrunni.