Áform um styttingu á leigutíma orkuauðlinda, en liðkað fyrir endurnýjun leigusamninga

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra ávarpaði aðalfund Samorku. Fagnaði hún nýundirrituðum samningum um byggingu nýs kísilvers í Helguvík og fjallaði jafnframt um miklar endurbætur og uppfærslu hjá álveri Rio Tinto í Straumsvík og fjármögnun Landsvirkjunar í Búðarhálsvirkjun. Sagði Katrín þessar framkvæmdir marka ákveðinn vendipunkt í fjárfestingum í íslensku atvinnulífi.

Þá sagði Katrín unnið að gerð frumvarps til laga um styttingu á leigutíma orkuauðlinda, og að haft yrði samráð við Samorku og aðildarfyrirtæki samtakanna í þeirri vinnu. Hún sagði einnig skoðaða möguleika á að liðka fyrir endurnýjun gildandi leigusamninga, enda væru viðkomandi orkufyrirtæki að ganga vel um auðlindina.

Ennfremur fjallaði Katrín drög að orkustefnu, erlenda eftirspurn eftir sérþekkingu Íslendinga í nýtingu orkuauðlinda, samningaviðræður við Magma Energy um styttingu á leigutíma á orkuauðlindum á Reykjanesi, mikilvægi vinnunar við gerð rammaáætlunar sem hún sagðist nú sjá fyrir endan á, væntanlegt frumvarp til breytinga á vatnalögum, frumvarp til breytinga á raforkulögum, mikilvægi aukins hlutar grænnar orku í samgöngum o.fl.

Katrín þakkaði loks Samorku fyrir gott samstarf í ýmsum málum og sagðist treysta á áframhald þess góða samstarfs.

Erindi Katrínar er væntanlegt á vef iðnaðarráðuneytisins.

Ályktun aðalfundar Samorku: Ný gjaldtaka og styttri leigutími auðlinda þýðir hærra orkuverð

 

Ályktun aðalfundar Samorku, 18. febrúar 2011:

Ný gjaldtaka og styttri leigutími auðlinda þýðir hærra orkuverð

Íslenska þjóðin býr að gríðarlegum auðlindum þar sem eru hreint neysluvatn, vatnsafl og jarðvarmi. Þessum auðlindum fylgja mikil tækifæri til verðmætasköpunar og bættra lífskjara. Auðlindirnar eru þó takmarkaðar og afar mikilvægt að áhersla sé lögð á góða arðsemi við nýtingu þeirra, með sjálfbærum hætti og í góðri sátt við umhverfið.

Stjórnvöld áforma nú aukna gjaldtöku af nýtingu orkuauðlinda. Samorka minnir á að ný gjaldtaka skapar ekki ný verðmæti. Arður almennings af orkuauðlindunum hefur ekki síst verið fólginn í mun lægri orkuverðum og neysluvatnskostnaði en gerist í nágrannalöndum okkar. Aukin gjaldtaka sem lögð er, eftir atvikum á raforku, heitt vatn og neysluvatn, hvort sem er í formi auðlindagjalds eða skatta, leiðir til hærra verðs jafnt til heimila sem atvinnulífs.

Sama gildir um hugmyndir um mikla styttingu leigutíma orkuauðlinda. Slík stytting leiðir til hærri ávöxtunarkröfu samfara styttri afskriftartíma og með tímanum til hærra orkuverðs á Íslandi, jafnt til heimila sem atvinnulífs. Enginn hefur meiri hagsmuni af sjálfbærri nýtingu orkuauðlindanna en orkufyrirtækin sem þær nýta. Uppbygging jarðhitavirkjana er þess vegna gjarnan í þrepum sem fara samhliða bættri þekkingu á jarðhitasvæðinu og getur tekið nokkra áratugi. Stuttur leigutími gengur því gegn eðlilegum forsendum sjálfbærni í jarðhitanýtingu.

Standa verður við gerða samninga
Samorka varar við öllum áformum stjórnvalda um að „vinda ofan af“ löglega gerðum samningum við einkaaðila á sviði orkunýtingar. Hætt er við að slíkir gjörningar hafi verulega neikvæð áhrif á áhuga fjárfesta í íslensku atvinnulífi. Minnt er á að orkuauðlindir í opinberri eigu má ekki framselja einkaaðilum, lögum samkvæmt.

Gegn tilfærslu rannsókna og auðlindastýringar til umhverfisráðuneytis
Loks varar Samorka við hugmyndum um að færa auðlindarannsóknir og auðlindastýringu undir umhverfisráðuneytið. Það væri að mati Samorku óeðlileg stjórnsýsla að sami ráðherra gegndi lykilhlutverki varðandi rannsóknir og nýtingu annars vegar, og færi með umhverfismat og skipulagsmál hins vegar.

Tryggvi Þór Haraldsson kjörinn formaður Samorku

Á aðalfundi Samorku var Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, kjörinn formaður samtakanna. Tryggvi tekur við af Franz Árnasyni, forstjóra Norðurorku, sem gegnt hefur formennsku í Samorku undanfarin fjögur ár. Þá var Bjarni Bjarnason, sem senn tekur við starfi forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, kjörinn nýr í stjórnina. Bjarni tekur sæti Hjörleifs B. Kvaran sem sagði sig úr stjórn Samorku í kjölfar starfsloka hjá Orkuveitu Reykjavíkur í ágúst sl. Stjórn Samorku verður að öðru leyti óbreytt, en hana skipa því næsta árið:

Tryggvi Þór Haraldsson, RARIK, formaður
Bjarni Bjarnason, Orkuveitu Reykjavíkur
Franz Árnason, Norðurorku
Hörður Arnarson, Landsvirkjun
Júlíus Jónsson, HS Orku
Páll Pálsson, Skagafjarðarveitum
Þórður Guðmundsson, Landsneti
 
Varamenn:
Dagur Jónsson, Vatnsveitu Hafnarfjarðar
Guðmundur Davíðsson, Hitaveitu Egilsstaða og Fella
Kristján Haraldsson, Orkubúi Vestfjarða

Aðalfundur Samorku föstudaginn 18. febrúar

Aðalfundur Samorku verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 18. febrúar. Venjuleg aðalfundarstörf hefjast kl. 10:30 og fá aðalfundarfulltrúar senda dagskrá og önnur gögn.

13:30 Opin dagskrá aðalfundar Samorku, Hvammi

Setning:    Nýkjörinn formaður Samorku

Ávarp:       Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra

Erindi:       Vatnsveitur og vatnsauðlindin
                 Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra

                 Hlutverk veitufyrirtækja – þjónusta, arðsemi, afkoma
                 Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar

IGA-skrifstofan flyst til Þýskalands

Skrifstofa Alþjóðajarðhitasambandsins, IGA (International Geothermal Association), flyst til Bochum í Þýskalandi nú um áramótin, en Samorka hefur hýst skrifstofuna frá því árið 2004. Árni Ragnarsson, sem undanfarin ár hefur verið framkvæmdastjóri IGA í hálfu starfi á móti hálfu starfi hjá ÍSOR, snýr aftur til ÍSOR í fullt starf um áramótin. Samorka þakkar bæði Árna og IGA fyrir ánægjulegt og gott samstarf á undanförum árum og óskar Árna velgengni í starfi hjá ÍSOR, jafnframt því sem samtökin óska þess að starfsemi IGA muni halda áfram að blómstra á nýjum stað.

Húshitun margfalt dýrari á hinum Norðurlöndunum

Íslendingar búa að miklum mun ódýrari húshitun en nágrannar okkar á hinum Norðurlöndunum. Ef miðað er við meðaltals orkuþörf fyrir 135 m2 einbýlishús í Reykjavík greiðir slíkt heimili rúmlega 85 þúsund krónur á ári fyrir húshitun og heitt kranavatn. Í höfuðborgum hinna Norðurlandanna væri reikningurinn fyrir sömu orkunotkun á bilinu 260 til 530 þúsund krónur, eða 206-523% hærri en í Reykjavík.

Í samanburðinum er miðað við gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur, sem sér meirihluta landsmanna fyrir heitu vatni. Verðið er sambærilegt hjá öðrum jarðhitaveitum hérlendis, en alls eru um 90% húsa á Íslandi hituð með jarðhita. Þorri þeirra 10% húsa sem ekki hafa aðgang að jarðhita nota rafkyndingu sem alla jafna er dýrari, en nýtur þó niðurgreiðslna og er eftir sem áður mun ódýrari en gengur og gerist í samanburðarlöndum.

Viðmiðun samanburðarins fyrir hin Norðurlöndin eru gjaldskrár stærstu hitaveitna / orkudreifingarfyrirtækja í höfuðborgum þeirra, þ.e. Helsinki Energi, Hafslund í Osló, AB Fortum í Stokkhólmi og Københavns Energi. Miðað er við miðgengi Seðlabanka Íslands 16. desember 2010. Hér er sem fyrr segir miðað við meðaltals orkuþörf fyrir upphitun og heitt kranavatn í 135 m2 einbýlishúsi í Reykjavík, eða 32.000 kWst (32 MWst) ársnotkun. Öll verð í samanburðinum eru með virðisaukaskatti og öðrum gjöldum.

Sjálbær nýting jarðhitans

 

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Hverjir hafa mesta hagsmuni af því að orkuauðlindir séu nýttar á sjálfbæran hátt? Augljóslega þau orkufyrirtæki sem nýta umræddar auðlindir. Jarðhitinn er alþjóðlega skilgreindur sem endurnýjanleg orkulind, líkt og vatnsaflið ásamt fleirum. Ágætir fræðimenn hafa bent á að hægt sé að nýta jarðhitann þannig að ekki verði flokkað undir sjálfbæra nýtingu. Þetta hafa hins vegar sumir aðrir lesið á þann hátt að verið sé að nýta jarðhitann á ósjálfbæran hátt hérlendis. En hverjir ættu að gera það og hvers vegna? Það eru jú orkufyrirtækin sjálf sem hafa mesta hagsmuni af góðri umgengni við auðlindina. Þar við bætist að nýtingin fer fram undir eftirliti Orkustofnunar, sem hefur heimildir til inngripa ef hún telur að nýtingin sé ekki í samræmi við starfsleyfisskilmála.

Önnur algeng gagnrýni á nýtingu jarðvarmans hérlendis snýr að þeirri orku sem ekki nýtist, svo sem þar sem hitinn er eingöngu nýttur til raforkuframleiðslu. Nú eru raunar einnig mörg dæmi um margþætta nýtingu jarðhitans. Svartsengi er sérlega glæsilegt dæmi í þeim efnum. Þar er jarðhitinn nýttur til húshitunar, raforkuframleiðslu, heilsubaða með tilheyrandi ferðaþjónustu og húðvöruframleiðslu (Bláa lónið), að ógleymdri metanól framleiðslunni úr koltvísýringnum, sem nú er í undirbúningi á vegum fyrirtækisins Carbon Recycling International.

Risastór gróðurhús?
Í þessu orkunýtingarsamhengi er nú iðulega spurt hví „við“ séum ekki að byggja hér risavaxin gróðurhús, til að nýta þann varma sem jarðhitavirkjanir eru ekki að nýta í dag. Við þessu er einfalt svar: Hver sá sem hefur áhuga á að stofna til slíkrar starfsemi er án efa mjög velkominn í viðræður við viðkomandi orkufyrirtæki. Þær viðræður yrðu hins vegar að vera á viðskiptalegum forsendum, um orkuverð, orkuform o.s.frv. Vandséð er hins vegar að íslenskir garðyrkjubændur yrðu ánægðir með að orkufyrirtækin, sem flest eru í opinberri eigu, færu sjálf í samkeppni við þá í framleiðslu á grænmeti.

Samorka mótmælir hugmyndum um niðurskurð til nýrra hitaveitna á köldum svæðum

 

Ályktun stjórnar Samorku:

Samorka mótmælir hugmyndum um niðurskurð
til nýrra hitaveitna á köldum svæðum

Stjórn Samorku hafa borist upplýsingar um að til skoðunar sé að skerða fjárveitingar úr ríkissjóði vegna framkvæmda við nýjar hitaveitur á svokölluðum köldum svæðum. Stjórnin mótmælir slíkum áætlunum, einkum hvað varðar framkvæmdir sem þegar eru hafnar eða hafa verið undirbúnar á forsendum sem nú kunna að bregðast. Styrkir úr ríkissjóði til uppbyggingar nýrra hitaveitna hafa alla jafna reynst vera þjóðhagslega arðbær ráðstöfun opinberra fjármuna. Til lengri tíma litið þýðir niðurskurður á fjárveitingum til nýrra hitaveitna einfaldlega hærri niðurgreiðslur vegna olíu- og rafhitunar, að öðru óbreyttu. Stjórn Samorku skorar á stjórnvöld að hverfa frá áformum um skert framlög til hitaveituframkvæmda.