TTH-Tæknilegir tengiskilmálar hitaveitna

Þessir tæknilegu tengiskilmálar gilda fyrir rekstur veitukerfa og tengingu hitakerfa við veitukerfi HS-veitna hf. Hita- og vatnsveitu Dalvíkur, Hitaveitu Bláskógabyggðar, Norðurorku hf. Hitaveitu Egilsstaða og Fella efh. Orkubús Vestfjarða hf.Hitaveitu Flúða og nágrennis, Orkuveitu Fjarðabyggðar, Hitaveitu Húnaþings vestra, Orkuveitu Húsavíkur ehf. Hitaveitu Mosfellsbæjar, Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Seltjarnarness, Rarik ohf. Hitaveitufélag Gnúpverja ehf. Selfossveitur bs. og Skagafjarðarveitur ehf. 

Með því að smella hér, má lesa skilmálana í heild sinni.

Hin nýja olía

Hin nýja „olía“.

Eftir Jeneen Interlandi (Newsweek)

Þýtt og endursagt af Pétri Kristjánssyni.

 

Á hverju ári, meðan þjóðir víða um heim kljást við að útvega nægjanlegt drykkjarvatn  renna um 2 milljarðar tonna vatns ónotað úr stöðuvatninu. Á þessu getur orðið breyting. Ef allt fer samkvæmt áætlun verða um 300.000 tonn af vatni úr Bláa vatni flutt með tankskipum, sem áður voru notuð í olíuflutninga, til átöppunarverksmiðju í grennd við Mumbai. Þaðan verður vatninu dreift til borga á þurrkasvæðum í Mið-Austurlöndum. Þetta verkefni er viðskiptahugmynd tveggja amerískra fyrirtækja True Alaska Bottling sem hefur keypt réttinn að flytja 300.000 tonn af vatni úr Bláa Vatni og S2C Global sem byggir átöppunaraðstöðuna í Indlandi. Ef verkefnið heppnastþá hafa fyrirtækin komið á laggirnar iðnaði sem Sitka-bær vonar að velti um 90 milljónum dollara (10 milljörðum ISK) og um leið leyst þau vandamál sem vatnsskortur veldur. Þau hafa jafnframt komið þessari lífsnauðsyn, vatninu, í hnattræn viðskipti.

 

Það er ekkert nýtt við flutning á vatni. New York borg flytur vatn í gegnum gangna- og pípukerfi sem teygir sig 200 km í norður að Catskillsfjöllum; Suður-Kalifornía fær vatn frá Sierra Nevadafjöllum og Colorado vatnasvæðinu sem er hundruðir kílómetra í norður og vestur af fylkinu. Fjarlægðin milli Alaska og Indlands er vissulega miklu meiri. En það er ekki fjarlægðin sem er áhyggjuefni heldur er það flutningur á svona miklu vatni úr opinberri umsýslu í einkavædda. “Vatn hefur verið þjóðarauðlind í opinberri umsjón í meira en 2.000 ár”, segir James Olson lögfræðingur sem sérhæfður er í vatnsrétti. „Að afhenda það til einkageirans virðist bæði siðferðislega rangt og hættulegt“.Í iðnríkjunum og þá sérstaklega í Bandaríkjunum er auðvelt að taka vatn sem sjálfsagðan hlut.  

Allir sjá að heimurinn stendur frammi fyrir ferskvatnsskorti. Víða í heiminum skreppa saman ár, vötn og votlendi hraðar en náttúran nær að endurnýja og iðnaður og efnanotkun mengar hratt það sem eftir stendur. Samtímis eykst hnattrænmengun. Goldman Sachs áætlar að vatnsnotkun í heiminum tvöfaldist á hverjum 20 árum og Sameinuðu þjóðirnar reikna með 30% aukningu í eftirspurn 2040.

 

Talsmenn einkavæðingar segja markaðinn best til þess fallinn að leysa vandamálið: aðeins ósýnilega höndin getur fært dreifingu og þörf í jafnvægi, og aðeins verðlagning markaðarins mun draga vatnsþörfina nægjanlega mikið niður til að vinna bug á vatnsskorti. En kostir markaðarins bitnar á verðinu. Með öðrum orðum varningurinn er seldur hæstbjóðanda, ekki til þeirra sem siðferðislega hafa mesta þörfina. Eftir því sem vandamálið eykst þurfa fyrirtæki eins og True Alaska, sem á rétt til gríðarlegra vatnsbirgða og hefur getuna til að flytja það með tankskipum, ekki nauðsynlega að vega og meta þarfir auðugra vatnsfrekra fyrirtækja eins og Coca Cola eða Nestlé á móti vatnsskorta sveitarfélögum í Fönix eða Gana; vatnsveitur í einkaeigu munu taka eins miklar tekjur og markaðurinn getur borið og eyða eins litlu og þær komast upp með í viðhald og umhverfisvernd. Annar varningur býr auðvitað við sams konar lög og aðstæður. En varðandi orku eða fæðu þá hafa neytendur oft val: þeir geta skipt úr olíu yfir í náttúrugas eða borðað kjúkling í stað nautakjöts. Það kemur ekkert í stað vatns ekki einu sinni Coca Cola. „Markaðnum er alveg sama um umhverfið“ segir Olson og „honum er alveg sama um mannréttindi, en gróði skiptir hann máli“.

 

Í iðnríkjunum og þá sérstaklega í Bandaríkjunum er auðvelt að taka vatn sem gefinn hlut. Ef opnað er fyrir einhvern krana þá frussast út gnægð af hreinu vatni, jafnvel í suð-vesturríkjunum þar sem Colorado vatnasvæðið er að kljást við ellefta þurrkaárið í röð. Í flestum borgum greiðir fólk ennþá mun minna fyrir vatnið en t.d. síma. Margir hafa ekki hugmynd um hvaðan vatnið kemur og láta sig litlu skipta hverjir eiga það. Þrátt fyrir það myndu væntanlega flestir samþykkja að vatn sé of verðmætt til að hver sem er geti átt það. En rétturinn til að taka vatn úr ám, vötnum eða grunnvatni er söluvarningur og einnig vatnsveiturnar með sínum vatnsbólum og dreifikerfum. Og þegar eftirspurn verður meiri en framboð mun verðmæti þessa varnings aukast gífurlega. Samkvæmt skýrslu Alþjóðabankans frá 2009 munu einkafjárfestingar í vatnsiðnaði tvöfaldast á næstu 5 árum og vatnsdreifimarkaðurinn sjálfur aukast um 20% á sama tíma.

 

Ólíkt skúrknum í Bond-myndinni „Quantum of Solace“, sem lumaði á ráðabruggi um að einoka ferskvatnið í Bólivíu, hafa hinir raunverulegu vatns-barónar ekki á sér slíka ímynd. Þeir eru hópar af kaupendum og seljendum – allt frá fjölþjóða risafyrirtækjum eins og Suez og Veolia, sem saman dreifa vatni til 260 milljóna heimila og fyrirtækja í heiminum, til vogunarsjóðaog áhættufjárfesta eins og t.d. olíu-barónsins T. Boone Pickens sem vill selja vatnið undir Texas Panhandle búgarði sínum til þyrstra borga eins og Dallas. „Vatnsmarkaðurinn hefur orðið mun áreiðanlegri síðustu 2 áratugina,“ segir Clay Landry, framkvæmdastjóri West Water Research, umboðsfyrirtækis sem sérhæfir sig í vatnsrétti. „Hann hefur þróast frá þeirri tegund viðskipta að gera handsalaðan samning „bak við flutningabílinn“ í mikilvægan markað með þátttöku einlægra fagfjárfesta í vaxandi mæli“.

 

Væntanlega hefur Olson áhyggjur af því að hver einasti vatnsdropi komist undir áhrif einkageirans. Og þegar það gerist mun heimurinn hafa dregið sér ný landamæri með aðgangi að vatnsauðlindum öðrum megin en án þeirra hinum megin. Sigurvegarar (Canada, Alska, Rússland) og þeir sem tapa (Indland, Sýrland, Jórdanía) verða aðrir en þeir sem áttu í olíudeilunum á tuttugustu öld, en undirrótin verður að miklu leyti sú sama: þjóðir sem geta hagnýtt sér stórar auðlindir munu dafna. Hinar verða skildar eftir og látnar deila um stöðugt þverrandi auðlindir. Sumar munu leggja í stríð.

 

Þar til nýlega hefur einkavæðing vatns fyrst og fremst tengst þriðja heiminum. Á tíunda áratug síðustu aldar setti Alþjóðabankinn einkavæðingu vatnsveitna sem skilyrði fyrir fjárhagslegri neyðaraðstoð á fátæk ríki, m.a. Bólivíu. Þetta var bæði ósanngjarnt og afdrifaríkt. Vonin var sú að markaðurinn myndi koma í veg fyrir spillingu og fjölþjóðafyrirtæki myndu fjárfesta í auðlindunum og koma meira vatni til fleira fólks. Um árið 2000  safnaðist fjöldi fólks saman á strætum borga í Bólivíu  í ofbeldisfullum mótmælaaðgerðum. Bechel, fjölþjóða samsteypan, hafði meira en tvöfaldað vatnsgjaldið og útilokað tugi þúsunda Bólivíubúa sem ekki gátu borgað frá vatni. Samsteypan sagði nauðsynlegt að lyfta verðinu til að mæta viðgerðum og vanhöldum á kerfinu. Gagnrýnisraddir sögðu að markmiðið væri aðeins það að viðhalda óraunhæfum gróðakröfum. Hvort það voru skilaboð mótmælenda til fyrirtækjanna eða eitthvað annað sem kom til þá var starfsemin endurheimt aftur í opinbera þjónustu árið 2001.

 

Núna leita fjárfestar að meira aðlaðandi fjárfestingarkostum og setja stefnuna á lönd með þverrandi vatni til dreifingar og gömul og lúin dreifikerfi en hafa betri fjárhag en Bólivía. “Þetta eru lönd sem hafa efni á því að borga,” segir Olson. “Þau hafa miklar viðhaldsþarfir, þverrandi vatnslindir en peninga.”

 

Hvergi á þetta betur við en í Kína, þar sem stöðugt verður að bora dýpra niður á grunnvatnið undir Peking. Samkvæmt nýlegri skýrslu frá Alþjóðabankanum þarf að bora niður á meira en 1000 m til að finna ferskvatn. Þetta hefur leitt til aukins borunarkostnaðar og gert vatnssamninga ábatasamari. Frá árinu 2000 þegar landið opnaði fyrir erlendar fjárfestingar í almenningsþjónustufyrirtækjum hefur fjöldi einkarekinna vatnsveitna aukist gífurlega. Einkafyrirtæki hafa keypt upp vatnsveitur vítt og breitt um landið og samhliða hefur vatnsgjaldið snarhækkað. “Það er meira en flestar fjölskyldur ráða við að borga,” segir Ge Yun, hagfræðingur hjá Náttúruverndarsjóði Xinjiangs-héraðs. “Þannig að eftir því sem einkareknum vatnsveitum fjölgar fækkar fólki sem hefur aðgang að þeim.”

 

Bandaríski alríkissjóðurinn sem á að styrkja og styðja við viðhald og endurbyggingar í vatnsveitum býr við erfiðan skort. Víða er þörfin mikil enda margar vatnsveitur stofnaðar um það leyti sem Henry Ford byggði fyrsta T-módelið. Ríkisstjórn Obama hefur tryggt 6 milljarða dollara til viðhalds sem Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna áætlar að kosti um 300 milljarða dollara. Á meðan bila um hálf milljón vatnslagna á hverju ári samkvæmt Bandarísku Vatnsveitusamtökunum, AWWA, og meira en 1,6 milljarður tonna vatns tapast í lekum kerfum. Sem viðbrögð við fjárskorti sjóðsins hafa hundruðir borga, þ.m.t. Pittsburgh, Chicago og Santa Fe, N.M., leitað fyrir sér með einkavæðingu. Það blasir við að slíkt getur virst skynsamlegt: kosnir embættismenn geta notað gróðann af sölu vatnsveitunnar til að rétta við slæman fjárhag borgarinnar og samtímis losnað við mikil fjárútlát vegna viðgerða og stækkunar kerfisins, að ekki sé minnst á að losna við pólitískar óvinsældir sem hækkun vatnsgjalda veldur.

 

Auðvitað er veruleikinn oft annar en vonir standa til. “Vatnsveitur eru dýrar í uppbyggingu og ekki er skynsamlegt að leggja fleiri en eitt dreifikerfi á hvert veitusvæði. Af þessum sökum er erfitt að koma á samkeppni, eina samkeppnin sem hægt er að koma við er þegar vatnsveitur eru boðnar út til kaups,” segir Wenonah Hauter, framkvæmdastjóri Food and Water Watch, sem eru samtök gegn einkavæðingu. “Eftir það hefur einkareksturinn í reynd einokun. Og þar sem 70-80% af eignum vatns- og fráveitna eru neðanjarðar er erfitt fyrir yfirvöld að fylgjast með framkvæmdum og efndum samningsaðilans.” Í sumum skýrslum um einkarekstur kemur fram að einkaaðilar fækka í starfsliði, vanrækja vatnsverndarsvæðin og koma kostnaði af umhverfismengun sem þeir valda yfir á sveitarfélagið.  Sem dæmi má nefna að þegar tvær fráveitur í rekstri Veolia menguðu San Francisco Flóa með milljónum lítra af skólpi var sveitafélagið þvingað til að fara í margmilljón dollara úrbætur á fráveitukerfinu.

 

Þó að margar borgir hlakki til að afhenda vatnsveitur sínar til einkageirans eru aðrar sem eyða stórfé í rándýr réttarhöld til að komast út úr slíkum samningum. Árið 2009 höfðaði sveitarfélagið Camden, N.J., mál gegn United Water (amerískt útibú franska risafyrirtækisins Suez) vegna ótútskýrðra reikninga upp á milljónatugi dollara, vegna vatnsleka, lítils viðhalds á vatnsveitunni og vegna afleitrar þjónustu. Í Milwaukee komst opinber eftirlitsaðili að því að sama fyriræki sveik samninga og slökkti á fráveitudælum til að spara peninga. Þetta leiddi til þess að milljónir tonna af óhreinsuðu skólpi rann út í Michiganvatn. Og í borginni Gary í Indiana, sem rifti samningi sínum við United Water eftir 12 ár, þar er því haldið fram að einkavæðingin hafi meira en tvöfaldað árlegan rekstrarkostnað veitnanna. “Þetta hefur haft öfug áhrif fyrir skattgreiðendur,” segir Hauter “Þetta er verra en skattur vegna þess að þeir nota peningana ekki til að viðhalda kerfinu.”

 

Fulltrúar United Water benda á að 95% samninga hafa verið endurnýjaðir og að fá slæm dæmi segi ekki alla söguna. “Við erum að fást við kerfi sem voru hönnuð og byggð undir lok síðari heimstyrjaldar,” segir forstjóri United Water, Bertrand Camus. “Við höfum líka mörg slæm dæmi sem bitnað hafa á okkur.” Staðreyndin með Gary, ef taka á dæmi, er sú að borgin einkavæddi veiturnar vegna þess að Umhverfisverndarstofnun þvingaði hana til að finna reynda rekstraraðila til að leysa fjölda vandamála. “Borgin sjálf hafði ekki þá sérfræðinga sem þurfti til að nota þá nýju tækni sem nauðsynleg er til að uppfylla alla nýju staðlana.” Segir Camus “Það höfum við.”

 

Staðreyndin er þessi: það að vatnið sé ómissandi gerir það ekkert ódýrara að ná í það, hreinsa það og dreifa því og breytir ekki þeirri staðreynd að minni aðgangur og meiri kröfur auka aðeins kostnaðinn. Alþjóðabankinn heldur því fram að hærra verð sé af hinu góða. Núna verðleggja engar opinberar vatnsveitur, hvergi, vatnið samkvæmt því hversu erfitt er að útvega það eða hversu kostnaðarsamt er að dreifa því. Talsmenn einkageirans halda því fram að þetta sé einmitt ástæðan fyrir hömlulausri ofnotkun. Ef vatnið kostar meira munum við fara betur með það.

 

Aðalvandamálið við þessa kenningu er það sem hagfræðingar kalla ósveigjanleiki verðsins: það skiptir ekki máli hvað vatnið kostar, það verður áfram nauðsynlegt til að lifa af. En þrátt fyrir niðurskurð á ónauðsynlegri vatnsnotkun eins og í grasvökvun, bílaþvott og sundlaugar þá getur notandinn engan veginn minnkað vatnsnotkunina í sama hlutfalli og verðið hækkar. “Frjálsa markaðsfræðin virkar vel þar sem kaupandinn hefur val,” segir Hauter. “En vatn er ekki eins og annar varningur, ekkert kemur í staðinn og ekki er hægt að sniðganga það.” Fjöldi rannsókna sýnir að þrátt fyrir miklar verðhækkanir draga notendur lítið úr notkun sinni, og það jafnvel í mestu hækkununum, það eru hinir fátæku sem þurfa að axla byrðarnar. Í langvarandi þurrkum sem herjuðu á Californíu á níunda áratugnum voru vatnsgjöld hækkuð um 100% og þá dróst notkun saman um 33%. Heimili sem þénuðu um 20.000 $ á ári drógu notkunina saman um 50% en þau sem þénuðu um 100.000 $ aðeins um 10%.

 

Gagnrýnendur segja að þrátt fyrir allt hafi einkareknar vatnsveitur takmarkaðan áhuga á að hvetja til aðhalds í vatnsnotkun; þegar vatnsnotkun minnkar dragast tekjur saman. Árið 2005 urðu aftur uppþot í Bólivíu þegar einkarekin vatnsveita hækkaði gjöldin upp fyrir það sem venjulegt fólk gat greitt. Fyrirtækið hafði stækkað dreifikerfið til úthverfa þar sem fátækt fólk býr. Íbúarnir voru vanir að búa við aðstæður án rennandi vatns úr krönum og komust af með afar lítið vatn og sú vatnsnotkun var ekki nægjanleg til að skila fyrirtækinu viðunandi gróða.

 

Sigurvegararnir á veraldar vatnsmarkaðinum eru hin fáu vatnsauðugu héruð á norðurhveli jarðar sem geta flutt með ábatasömum hætti stórar mikið af vatni langar vegalengdir. Rússneskur verktaki vill selja Síberíu-vatn til Kína; Kanadamenn og Bandaríkjamenn bítast um að selja kanadískt vatn til suð-vestur ríkja Bandaríkjanna svo fremi að kostnaður við stór flutningaskip komi ekki í veg fyrir það. Vegna samdráttar í heimsviðskiptum hafa slík skip lækkað verulega í verði. Ef Sitka áætlunin tekst gætu önnur vatnsauðug svæði fylgt fljótlega í kjölfarið.

 

Milli þeirra þjóða sem vilja græða á vatnsskortinum og þeirra sem geta keypt sig út úr vandamálunum eru lönd sem hvorki hafa vatn til að selja né peninga til að kaupa. Ef það er eitthvað sem vatn á sameiginlegt með olíu; þá er þaðað fólk mun fara í stríð út af því. Nú þegar hefur Pakistan ásakað Indland um að veita til sín of miklu vatni sem rennur um Himalayafjöll. Indland klagar Kína fyrir að hafa stórkostlega breytt árfarvegum sér í hag nálægt landamærum og þannig svipt aðrar þjóðir með landað landamærunum sanngjörnum rétti til vatns; Jórdanía og Sýrland deila um aðgang að frárennsli frá uppistöðulóni sem þjóðirnar byggðu sameiginlega.

 

Og hvað gerum við? Annars vegar líta flestar þjóðir á vatn sem grundvallarmannréttindi (Alsherjarþing Sameinuðuþjóðanna samþykkti samhljóða slíka ályktun í júlí s.l.). Hins vegar er kostnaður við að ná í og dreifa vatninu orðinn svo mikill að flest staðbundin stjórnvöld geta ekki axlað þann kostnað ein. Markaðurinn mun aldrei geta fullnægt báðum þessum andstæðu staðreyndum. Þetta þýðir að ríki og alríkisyfirvöld verða að taka afgerandi þátt í að stjórna þessum auðlindum. Ef fjárfest væri jafnmikið í vatnsveitum í Bandaríkjunum og alríkisstjórnin hefur fjárfest í öðrum almenningsþjónustufyrirtækjum myndi það ekki aðeins skapa störf heldur myndi það einnig létta á þeim fjárhagsþrengingum sem leiða svo margar sveitastjórnir til einkavæðingar. Það er ekki þar með sagt að iðnaðurinn hafi ekki líka hlutverki að gegna. Með réttri hvatningu getur hann þróað og dreift þeirri tækni sem nauðsynleg er til að gera vatnsdreifingu hagkvæmari og umhverfisvænni. Síðast en ekki síst verða opinberir- og einkaaðilar að vinna saman. Ef okkur tekst ekki núna að hugsa betur um vatnið komumst við senn í þrot.  Þegar það gerist mun engin verðlagning eða stjórnunaráætlun í heiminum bjarga okkur.

 

Heimild: Newsweek 18. Okt. 2010. höf. Jeneen Interlandi

Hvaða „einkavæðing“?

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Eva Joly, þingmaður Græningja á Evrópuþinginu og frambjóðandi í frönsku forsetakosningunum, segir á blaðamannafundi hérlendis að snúa eigi við þeirri þróun að einkaaðilar eignist hér orkuauðlindir. Hún spyr hvers vegna Íslendingar ættu að setja orkulindir í einkaeigu. Þetta kallar á aðra spurningu: Hvar er verið að einkavæða orkulindir á Íslandi í dag? Getur einhver nefnt dæmi um slíka þróun, eða svo mikið sem einhverja talsmenn hennar? Fyrir rúmlega tveimur árum var það raunar bundið hér í lög að orkuauðlindir í eigu opinberra aðila mætti eingöngu selja öðrum slíkum, eða fyrirtækjum í eigu opinberra aðila. Þessi umræða snýst þess vegna ekki um neitt.

Joly vill jafnframt stöðva kaup Magma Energy á HS Orku, og virðist af fréttum að dæma telja að þar hafi erlent fyrirtæki keypt orkuauðlindir á Reykjanesskaga. Svo er ekki, líkt og margoft hefur komið fram. HS Orka leigir afnotarétt af auðlindum í eigu sveitarfélaga og greiðir þeim auðlindagjald fyrir þann aðgang. Kaup Magma á meirihluta í HS Orku hafa hins vegar þegar farið fram og hafa jafnframt ítrekað verið úrskurðuð lögmæt viðskipti af opinberum aðilum. Þá fylgist Orkustofnun með því að við nýtingu auðlindanna sé fylgt skilmálum virkjunarleyfis og hefur stofnunin víðtækar heimildir til að bregðast við hugsanlegum frávikum ef þurfa þykir. Enginn hefur þó jafn ríka hagsmuni af góðri umgengni við þessar auðlindir og fyrirtækið sjálft.

Athygli vekur að Joly, sem gegnt hefur hlutverki ráðgjafa við íslenskt saksóknaraembætti, lýsti því yfir að væri hún ríkissaksóknari hér myndi hún hefja sakamálarannsókn á fyrrgreindum viðskiptum, sem þegar hafa ítrekað verið úrskurðuð lögmæt af opinberum aðilum. Um leið kom fram að á umræddum blaðamannafundi væri Joly fyrst og fremst að tala sem áhugamanneskja um orkumál og að hún gæti ekkert fullyrt um sumt af því sem hún teldi vera tilefni til rannsókna. Þarna var stjórnmálamaðurinn Eva Joly að tala. Ekki saksóknari, ekki lögmaður.

Enn um orkuauðlindir og erlent eignarhald á orkufyrirtækjum

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarna mánuði um orkuauðlindir á Íslandi, ekki síst í tengslum við kaup Magma Energy Sweden á meirihluta í HS Orku. Því miður er iðulega misfarið með ýmis atriði í þessari umræðu, þótt réttum upplýsingum hafi margoft verið komið áleiðis. Enn er ástæða til að árétta nokkur atriði í þessu sambandi.

Orkuauðlindin áfram í opinberri eigu
Fyrst ber að nefna að Magma hefur ekki keypt neinar orkuauðlindir á Íslandi, heldur leigir fyrirtækið afnotarétt af auðlindum í eigu sveitarfélaga.

HS Orka greiðir auðlindagjald
Þá ber að nefna að HS Orka greiðir umræddum sveitarfélögum – Grindavíkurbæ og Reykjanesbæ – auðlindagjald fyrir aðgang að nýtingu jarðhitaauðlinda á Reykjanesskaga. Gjaldið er reiknað skv. erlendum fyrirmyndum og tekur m.a. mið af því verðmæti sem auðlindirnar voru metnar á í fyrri viðskiptum með hluti í Hitaveitu Suðurnesja.

Lögleg viðskipti
Opinberir aðilar hafa nú ítekað úrskurðað að um lögmæt viðskipti var að ræða, þ.e. kaup Magma í HS Orku. Vandséð er hins vegar að hinn erlendi fjárfestir, sem hér batt fjármuni í góðri trú, hafi getað séð fyrir sér þá óvægnu gagnrýni sem þessi lögmætu viðskipti hafa sætt. Óskandi er að þessi reynsla verði ekki öðrum hugsanlegum fjárfestum tilefni til að leita annað.

Undarlegt tal um meintar verðhækkanir til neytenda
Þá er því iðulega haldið fram að þessi erlendi eigandi muni stuðla að hærra raforkuverði til neytenda hérlendis. Þar virðist gæta ýmiss konar misskilnings. Fyrir það fyrsta eru flutningur og dreifing raforku sérleyfisstarfsemi á hendi opinberra aðila, sem jafnframt sæta ströngu eftirliti Orkustofnunar. Alla jafna mynda flutningur og dreifing u.þ.b. helming raforkukostnaðar hins almenna neytanda. Framleiðsla og sala á raforku mynda alla jafna u.þ.b. helming kostnaðarins á móti. Þar er aftur um að ræða samkeppnissvið og eingöngu á þeim sviðum starfar HS Orka. Almennir neytendur geta skipt um orkusala með einu símtali. Vandséð er hvernig fyrirtæki með um 8% af heildarraforkuframleiðslunni í landinu ætti að geta stýrt verði slíks markaðar uppávið.

Sjálfbær nýting
Loks er því iðulega haldið fram að verið sé að ganga um of á jarðhitaauðlindina á Reykjanesskaga og nýtingin því ekki sjálfbær, þ.e. að jarðhitasvæðin nái ekki að endurnýja sig nægilega hratt miðað við þá nýtingu sem stunduð sé. Þessu er raunar iðulega haldið fram um jarðhitanýtingu hérlendis í stærra samhengi. Í þessu sambandi ber í fyrsta lagi að nefna að nýtingin er háð opinberu eftirliti, óháð eignarhaldi á umræddu orkufyrirtæki. Orkustofnun fylgist með því að fylgt sé skilmálum virkjunarleyfis og hefur stofnunin víðtækar heimildir til að bregðast við hugsanlegum frávikum ef þurfa þykir. Ef horft er til HS Orku og Reykjanesskaga sérstaklega ber einnig að nefna hjá fyrirtækinu starfa nokkrir af landsins færustu jarðhitasérfræðingum, sérfræðingar sem gjörþekkja þetta svæði, auk þess sem starfað er með ráðgjöfum annars staðar frá. Færi hins vegar allt á versta veg (sem Samorka sér ekki að hætta sé á) þannig að hvíla þyrfti auðlindina svo að fyrirtækið gæti ekki skilað umsaminni orku, þá væri það einkafyrirtækið HS Orka sem þyrfti að leysa úr þeirri stöðu. Orkustofnun myndi tryggja tilhlýðilega hvíld á auðlindinni til að hún fengi að jafna sig. Hagsmunir fyrirtækisins af því að ganga vel um auðlindina og ástunda þar sjálfbæra nýtingu eru þess vegna borðleggjandi, líkt og gildir um öll önnur orkufyrirtæki.

Húshitun með jarðhita: 67 milljarða króna sparnaður árið 2009

Þjóðhagslegur sparnaður af notkun jarðvarma í stað gasolíu til húshitunar nam 67 milljörðum króna árið 2009. Uppsafnaður núvirtur sparnaður nam 1.330 milljörðum króna yfir tímabilið 1970-2009. Mestur var hann 77 milljarðar króna árið 2008. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Orkustofnunar um efnahagslegan samanburð húshitunar með jarðhita og olíu árin 1970-2009. Sjá skýrsluna á vef Orkustofnunar.

Styttri aðgangur – hærra orkuverð

 

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Fréttablaðinu:

Um þessar mundir er unnið að gerð stjórnarfrumvarps þar sem meðal annars mun vera lagt upp með að stytta leyfilegan samningstíma varðandi afnotarétt af náttúruauðlindum í jarðhita og vatnsafli, í opinberri eigu. Samkvæmt lögum frá árinu 2008 er hámarkstími slíkra samninga nú 65 ár, en semja má um framlengingu að samningstímanum hálfnuðum (og þá aftur mest til 65 ára, heildarsamningstíminn getur því mestur orðið samtals 97,5 ár). Vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir hafa langan líftíma sem lengja má með reglulegu viðhaldi. Fjárfestingin er hins vegar mikil í upphafi. Ljóst er að styttri nýtingartími á auðlindinni hefur í för með sér hærri arðsemiskröfu og því væntanlega hærra orkuverð.

Þetta má setja upp í einfalt tilbúið dæmi, en í töflunni hér að neðan má sjá hvaða áhrif stytting nýtingartímans myndi væntanlega hafa á orkuverð ef viðkomandi virkjun ætti að geta borið sig. Við miðum hér við litla jarðvarmavirkjun með 10 megavatta (MW) uppsettu afli og gefum okkur að byggingarkostnaður sé um 2,2 milljónir dollara fyrir hvert MW, eða tæpar 260 milljónir króna á genginu 118. Nýtingarhlutfall virkjunarinnar er áætlað 63% (framleiðsla fyrir almennan markað), rekstrar- og viðhaldskostnaður er áætlaður 2% af fjárfestingunni, veginn fjármagnskostnaður er áætlaður 7,5% (sem um leið er þá lágmarksarðsemiskrafa) og loks er verðbólga á líftíma virkjunarinnar áætluð 2,5%. Til þess að hægt sé að afskrifa þessa virkjun á 65 ára tímabili þarf orkuverðið að vera að minnsta kosti 2,82 krónur á kílóvattstund (kWst). 

Dæmi um áhrif styttingar líftíma virkjunar á orkuverð
Orkuverð (heildsala, kr.) Líftími virkjunar, ár Hækkun frá 65 ára líftíma
2,82 65  
3,08 40   9,2%
3,39 30 20,2%

Ef við hins vegar styttum líftíma virkjunarinnar niður í 40 ár þá þarf þetta sama orkuverð, að öðrum forsendum óbreyttum, að vera að minnsta kosti 3,08 krónur per kWst, eða 9,2% hærra. Sé líftíminn enn styttur niður í 30 ár þarf orkuverðið að vera að minnsta kosti 3,39 krónur, 20,2% hærra en ef líftíminn væri 65 ár.

Njótum ódýrrar orku
Við Íslendingar njótum einhvers lægsta raforkuverðs sem þekkist á Vesturlöndum. Á dögunum kom þannig fram að eftir að boðaðar gjaldskrárhækkanir Orkuveitu Reykjavíkur taka gildi mun raforkukostnaður í öðrum höfuðborgum Norðurlandanna eftir sem áður verða frá 28% (í Helsinki) til 203% (í Kaupmannahöfn) hærri en hjá íbúum á veitusvæði Orkuveitunnar, miðað við sömu raforkunotkun. Ef borinn er saman húshitunarkostnaður milli þessara sömu höfuðborga er munurinn enn meiri, Íslendingum í hag. Þessi lági orkukostnaður er hins vegar ekki sjálfgefinn. Stytting leyfilegs samningstíma um aðgang að orkuauðlindum þýðir að sjálfsögðu hærri arðsemiskröfu og því væntanlega hærra orkuverð til heimila, fyrirtækja og stofnana.

Jarðhitanýting: Búnaður og þekking á leið úr landi

 

Ályktun stjórnar Samorku:

Jarðhitanýting: Búnaður og þekking á leið úr landi
framkvæmdir verða dýrari og flóknari,
viðhald og öryggismál sett í uppnám

Stjórn Samorku lýsir verulegum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin vegna tafa á verkefnum í jarðhitanýtingu hérlendis. Á örfáum misserum hefur orðið gríðarlegur tekjusamdráttur hjá lykilþjónustuaðilum orkufyrirtækja á borð við Jarðboranir, ÍSOR-Íslenskar orkurannsóknir og verkfræðistofurnar. Miklum fjölda sérhæfðs starfsfólks hefur verið sagt upp störfum eða það horfið til verkefna erlendis. Á sama hátt er verið að undirbúa flutning jarðhitabora úr landi. Þessar tafir geta aðeins leitt til þess að sérþekking í rannsóknum og orkunýtingu hérlendis glatast, sem hefur í för með sér að í framtíðinni verða framkvæmdir dýrari og flóknari en ella og verulega mun draga úr nauðsynlegum rannsóknum og þróun á jarðhitakerfum landsins. 

Þessi þróun mun ennfremur hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir almennt viðhald á jarðhitamannvirkjum í rekstri, og hefur ekki síður alvarlegar afleiðingar fyrir rekstur og öryggismál þeirra virkjana og hitaveitna sem starfandi eru. Sérhæfðan búnað og starfsfólk hefur þurft og mun í framtíðinni þurfa að kalla til með stuttum fyrirvara til að lagfæra og eða hemja jarðhitaholur vegna bilana, útfellinga eða óvæntra atburða á borð við jarðskjálfta. Án teljandi verkefna á sviði nýframkvæmda er hins vegar erfitt ef ekki ómögulegt að halda hér úti slíkri viðbúnaðargetu.

Til að tryggja áfram aðgengi að þeirri sérhæfðu þjónustu sem jarðhitanýting þarf á að halda hvetur stjórn Samorku stjórnvöld og aðra hlutaðeigandi til að greiða götu þeirra arðbæru verkefna sem íslensk orkufyrirtæki hafa verið með í undirbúningi svo þau komist til framkvæmda sem fyrst.

Segulsvið á Íslandi svipað og í Svíþjóð

Geislavarnir ríkisins og Brunamálastofnun hafa gert rannsókn á segulsviði í rúmlega 130 íbúðum. Niðurstöður benda til að segulsviðið í íbúðum á Íslandi sé svipað og í Svíþjóð og frágangur raflagna á Íslandi og í Svíþjóð er sambærilegur. Niðurstöðurnar gefa ekki tilefni til umfangsmeiri rannsókna á segulsviði í íbúðarhúsnæði á Íslandi, að mati stofnanna. Sjá nánar á vefsíðu Brunamálastofnunar.

Þrír Íslendingar í stjórn Alþjóðajarðhitasambandsins (IGA)

Í sumar fóru fram rafrænar kosningar til stjórnar Alþjóðajarðhitasambandsins (IGA). Þrír Íslendingar voru í kjöri og allir fengu þeir margfalt atkvæðavægi Íslands og náðu glæsilegu kjöri til setu í 30 manna stjórn félagsins næstu þrjú árin. Þessi niðurstaða hlýtur að endurspegla virðingu fagmanna á jarðhitasviðinu gagnvart starfi íslenskra kollega og viðleitni okkar til að stuðla að frekari útbreyðslu jarðhitanýtingar í heiminum. Sjá nánar á vef Jarðhitafélags Íslands.

Magmahringekjan

Blaðagrein Franz Árnasonar, formanns Samorku:

Samorka, sem eru samtök orku-og veitufyrirtækja, hafa til þessa setið hjá í þeim dansi sem stiginn hefur verið á hinum pólitíska vettvangi að undanförnu varðandi kaup hins kanadíska fyrirtækis Magma á hlut í HS-orku, í gegnum sænskt dótturfélag. HS-orka, Orkuveita Reykjavíkur og önnur þau orkufyrirtæki sem eru aðilar að Magmaumræðunni eru öll aðilar að Samorku og því eðlilegt að Samorka láti sig málið varða. Starfsemi Samorku felst m.a. í því að tryggja,að félagar innan samtakanna starfi samkvæmt þeim lögum og reglum og því starfsumhverfi sem fyrirtækjunum er búið á hverjum tíma. Stjórnvöld og Samorka hafa átt farsælt samstarf í áranna rás varðandi umbætur á rekstrarumhverfi þessa mikilvæga málaflokks innan samfélags okkar. Því skal fullyrt að aðildarfélagar samtakanna hafa lagt metnað sinn í að starfa samkvæmt þeim lögum sem í gildi hafa verið á hverjum tíma og ekki stundað nokkur undanskot hvað það varðar.

Farið að lögum
Því er það mjög óþægilegt, svo ekki sé fastar kveðið að orði, að verða vitni að því hvernig rætt er um orkufyrirtækin sem koma að Magmamálinu og þeim núið um nasir lögbrotum og óeðlilegum starfsháttum. Innan samtakanna sjá menn ekki annað en að við sölu á hlutum í HS Orku hf. hafi verið farið eftir þeim lögum sem gilda um mál af þessu tagi. Ef lögin eru gölluð eða samrýmast ekki þjóðarvilja þá er það löggjafans að  breyta lögunum. Þó skal haft í huga að slíkar lagabreytingar má ekki gera eftir dagspöntunum þegar einstökum þegnum eða þingmönnum finnast lögin ósanngjörn og umræða um afturvirk lög á aldrei rétt á sér.

Í Magmamálinu hafa allar staðreyndir legið fyrir í marga mánuði og lagaramminn hefur verið fyrir hendi. Aðdragandinn er líka það langur og ferlið allt á þann veg að stjórnvöld hafa haft fulla vitneskju um málsatvik og því oft haft tækifæri til að koma þar að, annað hvort sem kaupendur eða með því að breyta lögum í tæka tíð. 

Auðlindin áfram í opinberri eigu
Margsinnis hefur komið fram að hér er ekki verið að selja auðlind. Hér er um að ræða að leigja aðgang til nýtingar á auðlind um ákveðin tíma. Auðlindin  verður áfram  í eigu opinberra aðila sem njóta munu afraksturs af þeirri eign auk þess sem nýtingin er undir ströngu eftirliti Orkustofnunar. Einu gildir í raun í þessu sambandi hvort orkuframleiðandinn er í opinberri eigu, innlendur eða erlendur. Ríkið setur lagarammann og ríkið stýrir nýtingunni í raun, t.d. í gegnum virkjunarleyfisskilmála hverju sinni.

Bent hefur verið á að æskilegt hefði verið að innlendir aðilar hefðu keypt fala hluti í HS-orku og hafa lífeyrissjóðir landsmanna verið nefndir. Víst er um að lífeyrissjóðirnir skoðuðu málið vandlega en féllu frá hugmyndinni. Við getum velt fyrir okkur ástæðunum, en skyldi ástæðan vera sú að arðurinn af rekstri orkufyrirtækja sé ekki slík auðsuppspretta sem stundum er látið í veðri vaka?

Eitt er víst að ef ætlunin er að nýta orkuauðlindirnar til framfara fyrir borgara þessa lands, þá þarf að virkja þær.  Orkulind skapar ekki arð og atvinnu nema hún sé virkjuð. Til að virkja orkuauðlindir þarf fjármagn sem tæpast er tiltækt hjá ríkissjóði eða öðrum innlendum aðilum og því er erlent fjármagn nauðsynlegt. Nú hefur erlendur aðili, sem sérhæfir sig á þessu sviði, gefið sig fram og er tilbúinn til að taka þátt í uppbyggingunni, samkvæmt íslenskum lögum, og taka áhættuna sem því fylgir. Þeim mun undarlegra er að þegar svo er komið skulu nokkrir alþingismenn og jafnvel ráðherrar gera  því skóna að æskilegt og jafnvel nauðsynlegt sé að stöðva þetta ferli.

Áhrif á orðspor Íslands
Það er ef til vill ekki í verkahring samtaka á borð við Samorku að segja stjórnvöldum fyrir verkum en með hliðsjón af því góða samstarfi sem ávallt hefur ríkt milli þessara aðila, þá er ekki óeðlilegt að samtökin vari við afleiðingunum þess að grípa til óyndisúrræða. Síkur gjörningur hefur ekki bara áhrif á þetta ákveðna kanadíska fyrirtæki, heldur mun þetta hafa áhrif á orðspor okkar sem ekki er of gott fyrir. Aðrir erlendir aðilar sem  kunna að vera tilbúnir til að fjárfesta í íslensku atvinnulífi í framtíðinni munu hugsa sinn gang ef farið verður offari af hálfu stjórnvalda í þessu máli.