Jarðhitanýting: Búnaður og þekking á leið úr landi

 

Ályktun stjórnar Samorku:

Jarðhitanýting: Búnaður og þekking á leið úr landi
framkvæmdir verða dýrari og flóknari,
viðhald og öryggismál sett í uppnám

Stjórn Samorku lýsir verulegum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin vegna tafa á verkefnum í jarðhitanýtingu hérlendis. Á örfáum misserum hefur orðið gríðarlegur tekjusamdráttur hjá lykilþjónustuaðilum orkufyrirtækja á borð við Jarðboranir, ÍSOR-Íslenskar orkurannsóknir og verkfræðistofurnar. Miklum fjölda sérhæfðs starfsfólks hefur verið sagt upp störfum eða það horfið til verkefna erlendis. Á sama hátt er verið að undirbúa flutning jarðhitabora úr landi. Þessar tafir geta aðeins leitt til þess að sérþekking í rannsóknum og orkunýtingu hérlendis glatast, sem hefur í för með sér að í framtíðinni verða framkvæmdir dýrari og flóknari en ella og verulega mun draga úr nauðsynlegum rannsóknum og þróun á jarðhitakerfum landsins. 

Þessi þróun mun ennfremur hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir almennt viðhald á jarðhitamannvirkjum í rekstri, og hefur ekki síður alvarlegar afleiðingar fyrir rekstur og öryggismál þeirra virkjana og hitaveitna sem starfandi eru. Sérhæfðan búnað og starfsfólk hefur þurft og mun í framtíðinni þurfa að kalla til með stuttum fyrirvara til að lagfæra og eða hemja jarðhitaholur vegna bilana, útfellinga eða óvæntra atburða á borð við jarðskjálfta. Án teljandi verkefna á sviði nýframkvæmda er hins vegar erfitt ef ekki ómögulegt að halda hér úti slíkri viðbúnaðargetu.

Til að tryggja áfram aðgengi að þeirri sérhæfðu þjónustu sem jarðhitanýting þarf á að halda hvetur stjórn Samorku stjórnvöld og aðra hlutaðeigandi til að greiða götu þeirra arðbæru verkefna sem íslensk orkufyrirtæki hafa verið með í undirbúningi svo þau komist til framkvæmda sem fyrst.