Ályktun aðalfundar Samorku: Miklar fjárfestingar framundan – hámörkun arðsemi

Ályktun aðalfundar Samorku:

Miklar fjárfestingar framundan – hámörkun arðsemi

Miklar fjárfestingar eru framundan við flutningskerfi raforku, sem þörf er á að efla og endurnýja. Á sama tíma hafa komið fram kröfur um að farin verði leið jarðstrengja í stað loftlína, sem á svo hárri spennu er alla jafna miklum mun dýrari framkvæmd. Aðalfundur Samorku minnir á að verulegur kostnaður við nauðsynlega endurnýjun flutningskerfisins birtist í reikningum til heimila, fyrirtækja og stofnana. Allar ákvarðanir um að fara leiðir sem fela í sér tugi milljarða króna í viðbótarkostnað munu óumflýjanlega endurspeglast í hærri reikningum til sömu aðila.

Þá hvetur Samorka  til þess að hérlendis fari fram víðtæk og opin umræða um leiðir til hámörkunar á arðsemi og verðmætasköpun af sölu endurnýjanlegrar orku. Athygli vekur að Norðmenn telja sín tækifæri af sölu endurnýjanlegrar orku jafn verðmæt og af sölu á olíu, en hérlendis er orkugetan í endurnýjanlegri orku þreföld á hvern íbúa miðað við Noreg. Íslendingar búa því að gríðarlegum tækifærum á þessu sviði.

Vonbrigði með rammaáætlun
Aðalfundur Samorku lýsir yfir vonbrigðum með niðurstöðu Alþingis um rammaáætlun, sem víkur í veigamiklum atriðum frá faglegri niðurstöðu verkefnisstjórnar. Margir hagkvæmustu og best rannsökuðu orkukostirnir, sem verkefnisstjórn raðaði ofarlega út frá sjónarhorni nýtingar, höfnuðu ýmist í biðflokki eða verndarflokki. Vandséð er að sátt geti orðið um þessa niðurstöðu, að mati Samorku.

Tryggvi Þór endurkjörinn formaður Samorku

Á aðalfundi Samorku var Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri RARIK endurkjörinn formaður til tveggja ára, en hann tók við formennsku í samtökunum í febrúar 2011. Einnig voru endurkjörnir til stjórnarsetu þeir Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar og Júlíus Jónsson forstjóri HS Orku. Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku kemur nýr inn sem varamaður í stjórn, en Ágúst Torfi Hauksson sagði af sér sem varamaður í stjórn á liðnu ári eftir að hann hætti störfum hjá Norðurorku. Einnig voru endurkjörnir sem varamenn í stjórn þeir Dagur Jónsson vatnsveitustjóri í Hafnarfirði og Guðmundur Davíðsson  framkvæmdastjóri Hitaveitu Egilsstaða og Fella. Öll voru þau kjörin til tveggja ára, nema Helgi sem var kjörinn til eins árs í stað Ágústar Torfa.

Fyrir sátu sem aðalmenn í stjórn, kjörin til tveggja ára á aðalfundi 2012, þau Guðrún Erla Jónsdóttir framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur, Kristján Haraldsson orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða og Þórður Guðmundsson forstjóri Landsnets.

Stjórn Samorku er þá þannig skipuð að loknum aðalfundi Samorku:

Aðalmenn:
Tryggvi Þór Haraldsson, RARIK, formaður
Bjarni Bjarnason, Orkuveitu Reykjavíkur
Guðrún Erla Jónsdóttir, Orkuveitu Húsavíkur
Hörður Arnarson, Landsvirkjun
Júlíus Jónsson, HS Orku
Kristján Haraldsson, Orkubúi Vestfjarða
Þórður Guðmundsson, Landsneti

Varamenn:
Dagur Jónsson, Vatnsveitu Hafnarfjarðar
Guðmundur Davíðsson, Hitaveitu Egilsstaða og Fella
Helgi Jóhannesson, Norðurorku

Aðalfundur Samorku föstudaginn 22. febrúar

Aðalfundur Samorku verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 22. febrúar. Venjuleg aðalfundarstörf hefjast kl. 11:00 en skráning kl. 10:30.

13:30 Opin dagskrá aðalfundar Samorku, Hvammi:

Setning:  Formaður Samorku

Ávarp:     Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvegaráðherra
           
Erindi:     Langtímauppbygging flutningskerfis raforku
               Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets

14:30      Kaffiveitingar í fundarlok
 

Græn orka: Meiri tækifæri hér en af olíu í Noregi?

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Íslendingar framleiða nær tvöfalt meiri raforku á hvern íbúa en Norðmenn og höfum við þó gengið helmingi skemur í nýtingu okkar endurnýjanlegu orkulinda. Því vekur það athygli að Norðmenn telja jafn mikil tækifæri framundan í sölu á endurnýjanlegri orku um sæstreng og á sviði olíu- og gasútflutnings samanlagt.

Á nýliðnum ársfundi norsku Samtaka atvinnulífsins, sem forsætis- og orkumálaráðherrar Noregs tóku m.a. þátt í, ríkti mikil samstaða um áframhaldandi nýtingu orkuauðlinda − olíu, gass og vatnsafls. Fram kom að Norðmenn telja jafn mikil tækifæri framundan í sölu á endurnýjanlegri orku um sæstreng og á sviði olíu- og gasútflutnings. Þar vísast m.a. til þess að Alþjóðaorkustofnunin (IEA) telur að notkun raforku í heiminum muni aukast um 70% fram til ársins 2035, auk þess sem Evrópusambandið hyggst grípa til umfangsmikilla aðgerða í því skyni að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Þar gegna vind- og sólarorka stóru hlutverki. Þeir orkugjafar eru þó háðir miklum sveiflum og eygja Norðmenn ákveðin sóknarfæri í krafti vatnsaflsins til að tryggja meiri stöðugleika í framboði endurnýjanlegrar orku í Evrópu, með sölu á raforku um sæstrengi. Slíkir strengir hafa þegar verið lagðir til Danmerkur og Hollands og eru tveir til viðbótar, til Þýskalands og Bretlands, ráðgerðir innan fárra ára.

Græna orkan mun meiri hér, á hvern íbúa
Athygli vekur hve mikil tækifæri Norðmenn fjalla um á sviði útflutnings endurnýjanlegrar orku, en þótt þeir framleiði meira heildarmagn af raforku en Íslendingar er framleiðslan hér mun meiri á hvern íbúa talið, eða 54 megavattstundir á móti 30 í Noregi. Þá hafa Norðmenn þegar virkjað um tvo þriðju hluta af sinni orkugetu í vatnsafli, á meðan Íslendingar hafa virkjað um þriðjung af áætlaðri orkugetu landsins í vatnsafli og jarðhita.

Hlutfallslega séð verður því að ætla að tækifærin á sviði endurnýjanlegrar orku séu mun meiri hérlendis en í Noregi, þar sem þau eru nú talin jafnast á við tækifærin á sviði olíu- og gasútflutnings.

Forrit WHO um virkni innri eftirlitskerfa vatnsveitna

Samorka hefur fengið Maríu J. Gunnarsdóttur til að þýða og staðfæra forrit WHO (Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar) um virkni innra eftirlits vatnsveitna. María var jafnframt leiðbeinandi á námskeiði Samorku um notkun forritsins, sem haldið var í lok október sl. Nú er hægt að nálgast á forritið á vef WHO.

Smellið á linkinn hér, eða afritið hann hér að neðan og límið inn í vafra. Þar er hægt að velja að hlaða niður (e. Download, hægra megin á síðunni) forritinu og vista sem excel skjal. Síðan er farið inn í excel-skjalið og upp í security warning, hakað við þar sem stendur enable this content (og þá fer rauða svæðið af). Loks er hægt að velja íslensku undir language, en þá er m.a. hægt að nálgast þar leiðbeiningar á íslensku.

Linkurinn á síðuna (ef ekki virkar að smella hér fyrir ofan):
http://www.who.int/water_sanitation_health/publications/wsp_qa_tool/en/index1.html

Fyrstu vindmyllur Landsvirkjunar gangsettar

Fyrstu vindmyllur Landsvirkjunar voru gangsettar í hvínandi roki við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 14. febrúar. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði við tilefnið að litið til framtíðar gæti vindorka orðið þriðja stoðin í orkukerfi Landsvirkjunar, ásamt vatnsafli og jarðvarma. Áhugavert væri að athuga hvernig vindorka nýttist Íslendingum í samspili með vatnsorku en sveigjanleiki vatnsorkunnar gæti aukið verðmæti vindorkunnar. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.

Gríðarleg uppbygging raforkusæstrengja í Norður-Evrópu

Framundan er gríðarleg uppbygging raforkusæstrengja milli Norðurlandanna og annarra Evrópuríkja, en vatnsaflið í Noregi og Svíþjóð býður upp á nauðsynlegan stöðugleika á móti t.d. vindorku. Danmörk er orðin háð innflutningi á grænni raforku og eftirspurnin fer ört vaxandi í Þýskalandi, Englandi og víðar. Norðmenn flytja þegar út meira en sem nemur heildarraforkuframleiðslunni hérlendis og hyggjast margfalda það magn.

Þýskaland, England o.fl. Evrópuríki þurfa að stórefla innflutning sinn á grænni raforku á næstu árum og áratugum, í ljósi stefnu um stóraukinn hlut endurnýjanlegrar orku. Norðmenn ætla sér stóra hluti á þessum vaxandi markaði, en vatnsaflið býður upp á nauðsynlegan stöðugleika á móti t.d. vindorku þar sem framboðið er mjög sveiflukennt. Danmörk er t.d. orðin háð innflutningi á grænni raforku þar sem vindorkan getur legið niðri þótt eftirspurnin sé mikil.

Vaxandi þörf er því á samtengingu raforkukerfa þessara landa og fyrirséð er uppbygging á sæstrengjum til og frá Danmörku fyrir á fimmta hundrað milljarð íslenskra króna á næstu árum. Er þar einkum horft til nýrra strengja til Noregs,  Svíþjóðar og Þýskalands. Þar við bætast áform Norðmanna um nýja sæstrengi  til Englands og Þýskalands, sem taka á í notkun innan fárra ára.

Norðmenn stórhuga
Árið 2012 fluttu Norðmenn út raforku um sæstreng sem svaraði til átján teravattstundum (TWst), en heildarraforkuframleiðslan hérlendis nemur nú um sautján TWst á ári. Þeir gera sér hins vegar vonir um að stórauka þetta magn, um allt að 54 TWst á ári.

Um þessa þróun má lesa í fréttabréfi Dansk Energi (sjá Nyhedsbladet nr. 1 2013, bls. 12-13).

Útboð á götuljósum

Boðið var út á Evrópska efnahagssvæðinu, EES.

Alls sóttu 20 aðilar útboðsgögn en tilboð bárust frá 9 aðilum, alls 25 tilboð að meðtöldum frávikstilboðum.

Tilboðsupphæðir lágu á bilinu kr. 78.000.000.- til kr. 337.000.000.-

Tilboðin fara nú til úrvinnslu hjá innkaupastjóranefnd Samorku og er niðurstöðu að vænta fljótlega.