Iðnaðarráðherra fundar með orkumálaráðherra Bretlands

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra mun í næsta mánuði funda með orkumálaráðherra Bretlands, m.a. til að ræða um hugsanlegan raforkustreng milli Íslands og Bretlands. Þetta kom fram í ávarpi ráðherra á aðalfundi Samorku. Ráðherrann tók undir með ályktun aðalfundar Samorku og sagði mikilvægt að skoða forsendur þessa verkefnis vel og vandlega. Hún sagði vinnu þegar hafna í ráðuneytinu á grundvelli álits ráðgjafarhóps og nefndarálits atvinnuveganefndar Alþingis og tók fram að hún teldi rétt að forræði málsins færðist algerlega til stjórnvalda.

Ragnheiður Elín tók jafnframt undir með ályktun aðalfundar Samorku um mikilvægi þess að sátt næðist um rammaáætlun. Sagðist hún ekki hafa farið leynt með að henni þætti nauðsynlegt að endurskoða nokkur atriði þeirrar rammaáætlunar sem samþykkt var á liðnu ári, á skjön við faglega vinnu sem unnin var fyrir meðferð málsins á Alþingi.

Loks fjallaði ráðherrann um mikilvægi uppbyggingar flutningskerfis raforku á Íslandi og í því sambandi m.a. um væntanlegt frumvarp til breytinga á raforkulögum þar sem efla á formlega stöðu kerfisáætlunar Landsnets.

Erindi ráðherra er væntanlegt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.