21. febrúar 2014 Orkugeirinn grundvöllur þekkingarstarfa Um helming allra 900 ársverka á íslenskum verkfræðistofum og ráðgjafarfyrirtækjum má rekja til orkutengdra verkefna. Þar af eru tæp 150 ársverk í erlendum verkefnum. Alls starfa um eitt þúsund verkfræðingar, tæknifræðingar og raunvísindafólk hjá orkufyrirtækjum, veitufyrirtækjum og í orkutengdum greinum hérlendis. Þá er fróðlegt að sjá hvernig fjöldi nemenda í verk- og tæknifræði hefur þróast algjörlega í takti við aukna raforkuframleiðslu í landinu. Þetta kom fram í erindi Guðrúnar Sævarsdóttur, forseta verk- og tæknifræðideildar Háskólans í Reykjavík, á aðalfundi Samorku. Guðrún segir þekkingarstörf ekki verða til í tómarúmi. Uppbygging þekkingar kringum grunnatvinnuvegi leiði af sér tækifæri á öðrum sviðum og orkugeirinn hafi byggt upp sterkan þekkingargrunn á Íslandi. Sjá erindi (glærur) Guðrúnar.