Guðrún Erla og Kristján ný í stjórn Samorku

Á aðalfundi Samorku voru tveir nýir fulltrúar kjörnir í stjórn samtakanna: Guðrún Erla Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur, og Kristján Haraldsson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða. Þá var Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, endurkjörinn til stjórnarsetu. Öll voru þau kjörin til tveggja ára. Guðrún Erla og Kristján taka sæti Franz Árnasonar, fyrrverandi forstjóra Norðurorku og Páls Pálssonar, veitustjóra Skagafjarðarveitna. Ágúst Torfi Hauksson, forstjóri Norðurorku, var kjörinn varamaður í stað Kristjáns Haraldssonar. Loks var Guðmundur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hitaveitu Egilsstaða og Fella, endurkjörinn sem varamaður í stjórn.

Stjórn Samorku skipa því, að loknum aðalfundi 2012:
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Guðrún Erla Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur
Júlíus J. Jónsson, forstjóri HS Orku
Kristján Haraldsson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða
Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, formaður
Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets

Varamenn:
Ágúst Torfi Hauksson, forstjóri Norðurorku
Dagur Jónsson, vatnsveitustjóri Vatnsveitu Hafnarfjarðar
Guðmundur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hitaveitu Egilsstaða og Fella

Tryggvi Þór var kjörinn formaður til tveggja ára á aðalfundi 2011, en stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum á fyrsta fundi að loknum aðalfundi 2012.

Aðalfundur Samorku föstudaginn 17. febrúar

Aðalfundur Samorku verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 17. febrúar. Venjuleg aðalfundarstörf hefjast kl. 10:30 og hafa aðalfundarfulltrúar fengið senda dagskrá og önnur gögn.

13:30 Opin dagskrá aðalfundar Samorku, Hvammi:

Setning:    Tryggvi Þór Haraldsson, formaður Samorku

Ávarp:       Oddný G. Harðardóttir, starfandi iðnaðarráðherra

Erindi:       Gjaldtaka, leigutími og arðsemi orkunýtingar
                 Dr. Daði Már Kristófersson, dósent í auðlindahagfræði við Háskóla Íslands

14:45  Kaffiveitingar í fundarlok

 

Orkunýting og ferðaþjónusta

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

  

Orkunýting og ferðaþjónusta

 „Víða getur ferðaþjónusta og orkuvinnsla farið vel saman.“ Svo segir m.a. í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um drög að þingsályktunartillögu um vernd og orkunýtingu náttúrusvæða – rammaáætlun. Samtökin leggjast hins vegar gegn orkunýtingu á tilteknum svæðum. En hver eru tengsl orkunýtingar og ferðaþjónustu?

Græna orkan trekkir
Fyrst ber að nefna að í tengslum við landkynningu er gjarnan leitað til íslenskra orkufyrirtækja og þau fengin til að setja þar nýtingu endurnýjanlegrar orku í forgrunn. Þá heimsækir mikill fjöldi gesta íslenskar virkjanir og upplýsingamiðstöðvar orku- og veitufyrirtækja á ári hverju, alls vel á annað hundrað þúsund. Aukinn hlutur endurnýjanlegra orkugjafa hefur enda lengi verið eitt helsta viðfangsefni opinberrar stefnumótunar víða um heim en þar er Ísland í einstakri stöðu. Erlendir gestir vilja því gjarnan kynna sér nýtingu umhverfisvænnar orku hérlendis, þ.e. vatnsafls og ekki síður jarðhita (sem færri þekkja). Þá hafa sum orku- og veitufyrirtæki lagt verulega fjármuni í gerð göngustíga, uppgræðslu og kortagerð af svæðum í nágrenni sinna virkjana, að ógleymdri aðstöðu sem beinlínis er reist til að taka á móti gestum. Loks taka þessi fyrirtæki á móti fjölda gesta í sínum höfuðstöðvum. Oft er þar ekki um að ræða ferðamenn í hefðbundnum skilningi, heldur erlenda gesti úr heimum vísinda, viðskipta og stjórnmála – „verðmæta“ ferðamenn sem hingað koma ekki síst vegna grænu orkunnar.

Bláa lónið er afsprengi jarðhitavirkjunar. Lónið sækja um 400 þúsund manns á ári. Perlan er byggð á heitavatnstönkum. Um 600 þúsund manns koma í Perluna á ári hverju. Helstu leiðir ferðamanna inn á hálendi Íslands eru eftir vegum sem upphaflega tengjast framkvæmdum við virkjanir og línulagnir. Þannig mætti áfram telja. Eins og öll önnur fyrirtæki nýta loks orku- og veitufyrirtæki þjónustu flugfélaga, gistihúsa, bílaleiga, rútubíla, veitingaaðila o.s.frv., ekki síst á tímum virkjanaframkvæmda. Hagsmunir greinanna fara því vel saman. 

Af virkjunum og hagsmunum komandi kynslóða

 Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

 

Af virkjunum og hagsmunum komandi kynslóða

Oft heyrum við áréttað mikilvægi þess að staðinn sé vörður um hagsmuni komandi kynslóða, ekki síst þegar færð eru rök gegn framkvæmdum við virkjun vatnsafls eða jarðhita. En hvaða hugsun er þarna að baki?

Ef ég byggi hús á tiltekinni lóð, er ég þá að hafa af komandi kynslóðum tækifærið til að reisa öðru vísi hús á þeirri sömu lóð? Tæplega, enda væntanlega hægur vandi að rífa húsið og byggja nýtt. Hvað með orkuna, verð ég búinn að klára hana fyrir komandi kynslóðum ef ég reisi virkjun í dag? Augljóslega ekki, við erum að tala um sjálfbæra nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Komandi kynslóðir munu hins vegar njóta ávaxtanna af því ef fyrri kynslóðir hafa reist slíkar virkjanir, sem enn skapa verðmæti mörgum áratugum eftir að upphafleg fjárfesting hefur verið afskrifuð líkt og dæmin sanna. Óvirkjað vatnsafl eða jarðhiti skila á hinn bóginn engum tekjum í skilningi orkusölu.

Hér er því væntanlega horft til beinna efnahagsáhrifa af sjálfum virkjanaframkvæmdunum og tengdum framkvæmdum í uppbyggingu atvinnulífs (sem skilja eftir verðmætaskapandi atvinnustarfsemi til frambúðar), eða til sjónarmiða um náttúruvernd.

Öruggast að gera ekki neitt?
Auðvitað eru það skiljanleg sjónarmið að við sem lifum hér í dag eigum ekki að taka ákvarðanir um röskun á tilteknum orkuríkum náttúrusvæðum og hafa þannig ákvörðunarvald af komandi kynslóðum í þeim efnum. Á meðan skila umrædd svæði hins vegar engum verðmætum í skilningi orkusölu og tengdrar atvinnustarfsemi. En hvenær má þá taka ákvarðanir um orkunýtingu? Verða ekki alltaf einhverjar komandi kynslóðir? Og hvað með aðrar framkvæmdir en orkunýtingu? Fangelsi á Hólmsheiði? Stórt og áberandi verslunarhúsnæði í fallegri hlíð eða hrauni?

Þetta þykja sumum ef til vill minniháttar ákvarðanir í samanburði við nýjar virkjanir, en vitum við hvað komandi kynslóðum mun þykja um það? Ekki hef ég neitt umboð til að tjá mig í nafni komandi kynslóða. Veit ekki hvaðan ýmsir aðrir telja sig hafa slíkt umboð. Öruggast væri ef til vill að gera aldrei neitt, en þá taka komandi kynslóðir kannski ekki við sérlega spennandi búi.

 

Rafmagnseftirlitsgjald tvöfaldað

Alþingi samþykkti á dögunum (17. desember) frumvarp iðnaðarráðherra um tvöföldun á eftirlitsgjaldi með flutningsfyrirtæki og dreifiveitum raforku. Gjaldið skilaði á liðnu ári um 50 milljónum króna en mun því á næsta ári skila um 100 milljónum.

Samorka benti í umsögn sinni um frumvarpið á að allur kostnaður sem lagður er á flutning og dreifingu raforku greiðist á endanum af kaupendum orkunnar. Þá hafi dreifi- og flutningsveitur verið reknar samkvæmt ítrustu kröfum laga og reglna og vel innan settra tekjumarka. Tvöföldun á umfangi eftirlitsins yrði því að teljast nokkuð rausnarlegt og án nægjanlegs tilefnis.

Þess má loks geta að auk framgreinds eftirlitsgjalds greiða raforkufyrirtækin um 180 milljónir á ári til rafmagnseftirlits Mannvirkjastofnunar, sem raunar hefur undanfarin ár einungis að hluta til verið varið til eftirlitsins en afgangurinn orðið eftir í ríkissjóði (um 70 milljónir króna).

Erindi af veitustjórafundi

Fjölsóttur veitustjórafundur var haldinn fimmtudaginn 1. desember. Tryggvi Þór Haraldsson formaður opnaði fundinn og forstjóri Neytendastofu afhenti forstjóra Norðurorku vottun fyrir sölumæla. Þá voru flutt þrjú erindi, sem nálgast má hér að neðan.

Virkjunarframkvæmdir á Norðausturlandi
Pálmar Óli Magnússon, framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs Landsvirkjunar

Jarðskjálftavirkni við niðurdælingu jarðhitavökva
Ólafur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR

Ný sveitarstjórnarlög og veitufyrirtækin
Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga

Haustfundur Jarðhitafélagsins 6. desember – Sérstaða jarðhitanýtingar á Íslandi

Jarðhitafélag Íslands heldur haustfund sinn þriðjudaginn 6. desember, í Orkugarði að Grensásvegi, og hefst fundurinn kl. 13:00. Yfirskrift fundarins að þessu sinni er Sérstaða jarðhitanýtingar á Íslandi, og verður m.a. fjallað um stofnkostnað jarðvarmavirkjana, boranir, rannsóknir, klasasamstarf og aðkomu Íslendinga að jarðhitaverkefnum erlendis. Sjá dagskrá fundarins á vef Jarðhitafélagsins.

Flutningslínur í jörð – hærri raforkukostnaður

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:
 

Flutningslínur í jörð – hærri raforkukostnaður
 
Nokkur umræða hefur verið um það undanfarið að leggja beri flutningslínur raforku í jörð. Mikil þróun hefur orðið í þeim efnum undanfarna áratugi hvað dreifikerfið varðar og nú er svo komið að við sjáum hvergi loftlínur til dreifingar á raforku í þéttbýli. Öll slík dreifikerfi hafa verið grafin í jörðu, hérlendis. Þá hafa loftlínur víðast hvar vikið fyrir jarðstrengjum í dreifikerfum á landsbyggðinni. Fyrir flutningsminni mannvirki er kostnaður strengja oftast nær sambærilegur við loftlínur, sé horft til síðustu tveggja áratuga eða svo. Orkufyrirtækin hafa nýtt sér þetta við uppbyggingu og endurnýjun kerfanna og valið jarðstrengi í stað loftlína. Þessi þróun mun halda áfram og hlutfall strengja enn vaxa í framtíðinni.

Aukin umhverfisáhrif
Hins vegar er kostnaður við flutningsmeiri jarðstrengi ennþá mikill. Á hærri flutningsspennum (220 kV) er kostnaður við jarðstrengi 5-7 faldur kostnaður við sambærilega loftlínu. Meginskýringin felst í tæknilegum mun á jarðstrengjum og loftlínum, mun sem vex með aukinni flutningsþörf og hærri spennu. Umhverfisáhrif jarðstrengja á lægri spennustigum eru til þess að gera lítil en aukast með hækkandi spennustigi. Sjónræn áhrif loftlína eru almennt meiri en mun auðveldara er að skila landi í sambærilegu ástandi eftir notkun þeirra en jarðstrengja. Sem dæmi má nefna hrauni þakin svæði, þar sem margra metra breiðir skurðir eru augljóslega meira og varanlegra inngrip í náttúruna en möstrin. Hvergi í heiminum hefur enda verið farið út á þá braut að leggja flutningskerfi raforku alfarið í jörð. Víða um land er hins vegar þörf á eflingu flutningskerfisins og ljóst að efling kerfisins hlýtur að vera forgangsatriði, umfram margfalt dýrari framkvæmdir við færslu á loftlínum í jörð.

Hærri raforkukostnaður
Almennt myndar flutningur raforku (sem Landsnet annast fyrir allt landið) nú rúm 10% af endanlegum raforkukostnaði neytenda. Dreifing myndar tæp 45%, en hvoru tveggja telst til sérleyfisstarfsemi sem lítur ströngum reglum og eftirliti Orkustofnunar varðandi tekjumörk, gjaldskrár og arðsemi (framleiðsla og sala á raforku eru hins vegar samkeppnissvið og mynda hvor um sig rúm 40% og tæp 5% af endanlegum raforkukostnaði). Ljóst er, að ef tekin yrði um það pólitísk ákvörðun að hefjast handa við að færa flutningslínur Landsnets í jörðu myndi það valda gríðarlegum kostnaðarauka fyrir fyrirtækið. Ef allt flutningskerfið yrði endurbyggt með jarðstrengjum yrði umframkostnaðurinn á bilinu 400-500 milljarðar króna. Afleiðingarnar af því yrðu augljóslega veruleg hækkun raforkukostnaðar um land allt og væntanlega miklar seinkanir á eflingu flutningskerfisins þar sem þess er helst þörf.

Hitaveitur spöruðu landsmönnum 2.420 milljarða – Óhagkvæmt að setja upp rennslismæla fyrir kalt vatn

Ef jarðvarma til húshitunar á Íslandi nyti ekki við er líklegt að olía væri nýtt í staðinn. Að mati Orkustofnunar nemur uppsafnaður sparnaður Íslendinga af því að nota jarðvarma í stað olíu á árunum 1970-2010 um 2.420 milljörðum kr. á verðlagi í júní 2010 og er þá miðað við 5% raunvexti. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um nýtingu vatns á Íslandi. Í skýrslunni er fjallað um vatnsveitur, hitaveitur, raforkuframleiðslu, fráveitur o.fl.

Kostnaður allt að 2,5 milljarðar við að setja upp rennslismæla fyrir kalt vatn
Fram kemur að Íslendingar nýta um tvöfalt meira af ferskvatni en flestar nágrannaþjóðir okkar, eða um 269 rúmmetra hver á ári á tímabilinu 2005-2007. Samkvæmt vatnatilskipun ESB ber aðildarríkjum að stefna að því að verðlagning vatns hvetji notendur til að nýta auðlindina á hagkvæman hátt, en greiðsla fyrir nýtingu í samræmi við magn skapar slíkan hvata. Hagfræðistofnun bendir á að þar sem kalt vatn er almennt ekki selt um rennslismæla til heimila hérlendis – heldur er gjaldtakan víðast hvar áætluð út frá fasteignamati – þá uppfyllum við ekki þessi ákvæði tilskipunarinnar. Stofnunin bendir hins vegar á að það mundi skv. lauslegu mati kosta allt að 2,5 milljarða króna að setja upp rennslismæla í öll íbúðarhús. „Vegna þess hve Ísland er auðugt af vatni er óvíst hvort ávinningur af skilvirkari nýtingu vatns sé kostnaðarins virði og hvort hagkvæmara sé fyrir Ísland að halda í núverandi fyrirkomulag þótt það samræmist ekki vatnatilskipuninni,“ segir í skýrslu Hagfræðistofnunar.

Skýrslu Hagfræðistofnunar má nálgast hér á vef Umhverfisstofnunar.