Gríðarleg uppbygging raforkusæstrengja í Norður-Evrópu

Framundan er gríðarleg uppbygging raforkusæstrengja milli Norðurlandanna og annarra Evrópuríkja, en vatnsaflið í Noregi og Svíþjóð býður upp á nauðsynlegan stöðugleika á móti t.d. vindorku. Danmörk er orðin háð innflutningi á grænni raforku og eftirspurnin fer ört vaxandi í Þýskalandi, Englandi og víðar. Norðmenn flytja þegar út meira en sem nemur heildarraforkuframleiðslunni hérlendis og hyggjast margfalda það magn.

Þýskaland, England o.fl. Evrópuríki þurfa að stórefla innflutning sinn á grænni raforku á næstu árum og áratugum, í ljósi stefnu um stóraukinn hlut endurnýjanlegrar orku. Norðmenn ætla sér stóra hluti á þessum vaxandi markaði, en vatnsaflið býður upp á nauðsynlegan stöðugleika á móti t.d. vindorku þar sem framboðið er mjög sveiflukennt. Danmörk er t.d. orðin háð innflutningi á grænni raforku þar sem vindorkan getur legið niðri þótt eftirspurnin sé mikil.

Vaxandi þörf er því á samtengingu raforkukerfa þessara landa og fyrirséð er uppbygging á sæstrengjum til og frá Danmörku fyrir á fimmta hundrað milljarð íslenskra króna á næstu árum. Er þar einkum horft til nýrra strengja til Noregs,  Svíþjóðar og Þýskalands. Þar við bætast áform Norðmanna um nýja sæstrengi  til Englands og Þýskalands, sem taka á í notkun innan fárra ára.

Norðmenn stórhuga
Árið 2012 fluttu Norðmenn út raforku um sæstreng sem svaraði til átján teravattstundum (TWst), en heildarraforkuframleiðslan hérlendis nemur nú um sautján TWst á ári. Þeir gera sér hins vegar vonir um að stórauka þetta magn, um allt að 54 TWst á ári.

Um þessa þróun má lesa í fréttabréfi Dansk Energi (sjá Nyhedsbladet nr. 1 2013, bls. 12-13).

Útboð á götuljósum

Boðið var út á Evrópska efnahagssvæðinu, EES.

Alls sóttu 20 aðilar útboðsgögn en tilboð bárust frá 9 aðilum, alls 25 tilboð að meðtöldum frávikstilboðum.

Tilboðsupphæðir lágu á bilinu kr. 78.000.000.- til kr. 337.000.000.-

Tilboðin fara nú til úrvinnslu hjá innkaupastjóranefnd Samorku og er niðurstöðu að vænta fljótlega.

Norðmenn sjá jafn mikil tækifæri í grænni orku og í olíu. Mun meiri græn orka hér, per íbúa.

Íslendingar framleiða nær tvöfalt meiri raforku á hvern íbúa en Norðmenn og höfum við þó gengið helmingi skemur í nýtingu okkar endurnýjanlegu orkulinda. Því vekur það athygli að Norðmenn telja jafn mikil tækifæri framundan í sölu á endurnýjanlegri orku um sæstreng og á sviði olíu- og gasútflutnings samanlagt.

Norðmenn sjá fyrir gríðarleg tækifæri í orkuiðnaði á komandi árum. Á nýliðnum ársfundi norsku Samtaka atvinnulífsins − sem forsætis- og orkumálaráðherrar Noregs tóku m.a. þátt í − ríkti mikil samstaða um áframhaldandi nýtingu orkuauðlinda, jafnt í olíu og gasi sem í endurnýjanlegum orkugjöfum. Norðmenn búa að miklu vatnsafli og flytja talsvert af endurnýjanlegri orku út til annarra Evrópulanda gegnum sæstrengi. Útflutningur Norðmanna á olíu og gasi er e.t.v. þekktari en raforkuútflutningur þeirra, en fram kom á fundinum að Norðmenn telja jafn mikil tækifæri framundan í sölu á endurnýjanlegri orku og á sviði olíu- og gasútflutnings.

ESB kallar á græna orku
Þar vísast m.a. til þess að Alþjóðaorkustofnunin (IEA) telur að notkun raforku í heiminum muni aukast um 70% fram til ársins 2035, auk þess sem Evrópusambandið hyggst grípa til umfangsmikilla aðgerða á sviði orku- og loftslagsmála á komandi árum, í því skyni að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Ráðgert er að 80-95% af orkuþörfinni verði mætt með endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir árið 2050, en þar gegna vind- og sólarorka stóru hlutverki.  Þeir orkugjafar eru þó háðir miklum sveiflum og eygja Norðmenn ákveðin sóknarfæri í krafti vatnsaflsins til að tryggja meiri stöðugleika í framboði endurnýjanlegrar orku í Evrópu, með sölu á grænni raforku um sæstrengi. Slíkir strengir hafa þegar verið lagðir til Danmerkur og Hollands og eru tveir til viðbótar, til Þýskalands og Bretlands, ráðgerðir innan fárra ára.   

Græna orkan mun meiri hér, á hvern íbúa
Athygli vekur hve mikil tækifæri Norðmenn fjalla um á sviði útflutnings endurnýjanlegrar orku, en þótt þeir framleiði meira af grænni raforku en Íslendingar er framleiðslan hér mun meiri á hvern íbúa talið. Sama gildir þegar horft er til ónýttrar orkugetu, en Norðmenn hafa þegar virkjað mun hærra hlutfall sinna endurnýjanlegu orkugjafa en Íslendingar hafa gert.

Nánast öll raforka sem framleidd er á Íslandi er græn raforka, framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum – vatnsafli og jarðhita. Alls eru nú framleiddar hér um 17 teravattstundir (TWst) á ári, eða um þriðjungur af áætlaðri orkugetu (um 50 TWst) í vatnsafli og jarðvarma. Norðmenn búa yfir miklu vatnsafli, en alls er orkugetan í vatnsafli þar áætluð um 214 TWst á ári. Þar af nýta Norðmenn nú um 130 TWst (61%) og aðrar 34 TWst (15%) eru í einhvers konar nýtingarferli eða hluti af nýtingaráætlunum. Norðmenn hafa því þegar stigið mun stærri skref en Íslendingar í nýtingu sinna endurnýjanlegu orkuauðlinda og hyggjast halda áfram að auka nýtinguna. Raforkuframleiðsla á Íslandi er þó mun meiri á hvern íbúa en í Noregi, eða 54 Megavattstundir hérlendis (MWst) á móti 30 MWst í Noregi. Hlutfallslega séð verður því að ætla að tækifærin á sviði endurnýjanlegrar orku séu mun meiri hérlendis en í Noregi, þar sem þau eru nú talin jafnast á við tækifærin á sviði olíu- og gasútflutnings.

Breytingar á orkusköttum um áramót

Á síðasta starfsdegi sínum fyrir jól samþykkti Alþingi breytingar á orkusköttum, m.a. á sölu á raforku og heitu vatni. Báðir skattar voru fyrst kynntir til sögunnar í árslok 2009 og áttu að verða tímabundnir til þriggja ára. Nú hefur verið samþykkt að 2% skattur á sölu á heitu vatni (smásöluverð) verði varanlegur en að skattur á selda raforku hækki úr 12 aurum á kílóvattstund (kWst) í 12,6 aura. Með þeirri hækkun er í athugasemdum með frumvarpinu vísað til verðlagsbreytinga. Þá á skatturinn á raforku að falla niður í árslok 2015. Sjá nánar í bandormi um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem samþykktur var 22. desember (16. og 17. gr. um raforkuskattinn) og í frumvarpinu (sjá m.a. athugasemdir, lið 2.7, varðandi m.a. varanlegan skatt á heitt vatn).

 

Stjórn Samorku ályktar: Tillaga um rammaáætlun óásættanleg

 

Stjórn Samorku samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum 3. janúar:

Tillaga um rammaáætlun óásættanleg

Atkvæði verða greidd um tillögu til þingsályktunar um vernd og nýtingu landsvæða (rammaáætlun) mánudaginn 14. janúar nk., skv. starfsáætlun Alþingis. Stjórn Samorku telur fyrirliggjandi tillögu óásættanlega. Tillagan víkur í veigamiklum atriðum frá faglegri niðurstöðu verkefnisstjórnar, sem vera átti grundvöllur sáttar um málaflokkinn. Fjöldi orkukosta sem verkefnisstjórnin raðaði ofarlega út frá sjónarhorni orkunýtingar eru í tillögunni ýmist settir í biðflokk eða verndarflokk. Þar á meðal eru ýmsir hagkvæmustu og best rannsökuðu kostirnir, kostir sem farið hafa í gegnum umhverfismat og eru jafnvel þegar komnir á skipulag í viðkomandi sveitarfélögum.

Ljóst er að engin sátt getur orðið um þessa niðurstöðu, sem varpar fyrir róða áralangri faglegri vinnu verkefnisstjórnar. Samþykkt tillögunnar, óbreyttrar, örfáum mánuðum fyrir þingkosningar mun á engan hátt eyða óvissu að mati Samorku.