Stjórn Samorku ályktar: Tillaga um rammaáætlun óásættanleg

 

Stjórn Samorku samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum 3. janúar:

Tillaga um rammaáætlun óásættanleg

Atkvæði verða greidd um tillögu til þingsályktunar um vernd og nýtingu landsvæða (rammaáætlun) mánudaginn 14. janúar nk., skv. starfsáætlun Alþingis. Stjórn Samorku telur fyrirliggjandi tillögu óásættanlega. Tillagan víkur í veigamiklum atriðum frá faglegri niðurstöðu verkefnisstjórnar, sem vera átti grundvöllur sáttar um málaflokkinn. Fjöldi orkukosta sem verkefnisstjórnin raðaði ofarlega út frá sjónarhorni orkunýtingar eru í tillögunni ýmist settir í biðflokk eða verndarflokk. Þar á meðal eru ýmsir hagkvæmustu og best rannsökuðu kostirnir, kostir sem farið hafa í gegnum umhverfismat og eru jafnvel þegar komnir á skipulag í viðkomandi sveitarfélögum.

Ljóst er að engin sátt getur orðið um þessa niðurstöðu, sem varpar fyrir róða áralangri faglegri vinnu verkefnisstjórnar. Samþykkt tillögunnar, óbreyttrar, örfáum mánuðum fyrir þingkosningar mun á engan hátt eyða óvissu að mati Samorku.