7. janúar 2013 Breytingar á orkusköttum um áramót Á síðasta starfsdegi sínum fyrir jól samþykkti Alþingi breytingar á orkusköttum, m.a. á sölu á raforku og heitu vatni. Báðir skattar voru fyrst kynntir til sögunnar í árslok 2009 og áttu að verða tímabundnir til þriggja ára. Nú hefur verið samþykkt að 2% skattur á sölu á heitu vatni (smásöluverð) verði varanlegur en að skattur á selda raforku hækki úr 12 aurum á kílóvattstund (kWst) í 12,6 aura. Með þeirri hækkun er í athugasemdum með frumvarpinu vísað til verðlagsbreytinga. Þá á skatturinn á raforku að falla niður í árslok 2015. Sjá nánar í bandormi um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem samþykktur var 22. desember (16. og 17. gr. um raforkuskattinn) og í frumvarpinu (sjá m.a. athugasemdir, lið 2.7, varðandi m.a. varanlegan skatt á heitt vatn).