Ekki fagleg rammaáætlun

Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Fyrir Alþingi liggur tillaga meirihlutans að rammaáætlun. Því er iðulega haldið fram að hún sé byggð á faglegri vinnu verkefnisstjórnar. Það er afar langsótt túlkun, því segja má að átján orkukostir hafi verið færðir niður í biðflokk eða verndarflokk eftir að verkefnisstjórnin skilaði sinni röðun. Enginn kostur hefur verið færður upp í nýtingarflokk. Oft er sagt að sex orkukostir hafi verið færðir úr nýtingarflokki niður í biðflokk í meðförum stjórnarflokkanna, en sú aðgerð var einfaldlega framhald annarrar þar sem aðrir tólf kostir voru færðir niður. Lítið stendur því í raun eftir af þeirri röðun orkukosta sem verkefnisstjórn um gerð rammaáætlunar skilaði af sér í júlí 2011.

Orkufyrirtækin tilnefndu einn hinna tólf fulltrúa sem sátu í verkefnisstjórninni. Hún vann mikið og faglegt starf, meðal annars á grundvelli ítrekaðra umsagnarferla, og skilaði af sér röðun sextíu og sex orkukosta út frá sjónarhorni nýtingar (tafla 7.2 í skýrslu verkefnisstjórnar). Röðun verkefnisstjórnar er þó auðvitað ekki hafin yfir gagnrýni fremur en önnur mannanna verk. Meðal stjórnenda og lykilstarfsmanna orkufyrirtækja gætti vissulega óánægjuradda með röðun tiltekinna orkukosta sem viðkomandi þekktu vel til. Á vettvangi Samorku varð það hins vegar sameiginleg niðurstaða allra orkufyrirtækjanna að fagna þeirri góðu og faglegu vinnu sem unnin var af verkefnisstjórninni og lýsa yfir von um að alfarið yrði stuðst við hennar niðurstöður. Það er að mati Samorku leiðin til að almenn sátt geti skapast um rammaáætlun.

Ógegnsætt breytingaferli
Í kjölfarið tók við algerlega ógagnsætt ferli á vettvangi tveggja ráðuneyta sumarið 2011 þar sem tólf orkukostir færðust niður listann og var ýmist raðað í biðflokk eða verndarflokk í drögum að tillögu um rammaáætlun, þrátt fyrir að hafa verið raðað ofarlega af verkefnisstjórninni. Enn var svo efnt til umsagnarferlis haustið 2011 en úrvinnslan algerlega ógagnsæ á vettvangi tveggja ráðuneyta og í kjölfarið voru sex orkukostir til viðbótar færðir niður listann, að þessu sinni úr nýtingarflokki í biðflokk. Hér til hliðar má sjá lista yfir þá orkukosti sem tillagan raðar ýmist í biðflokk eða verndarflokk, þótt ætla mætti annað út frá röðun verkefnisstjórnar. Þarna er meðal annars að finna suma mest rannsökuðu og hagkvæmustu orkukostina, sem jafnvel er þegar gert ráð fyrir á aðalskipulagi og mati á umhverfisáhrifum löngu lokið.

Þetta er staðan í dag. Tillagan liggur fyrir, en hún er ekki nema að afar takmörkuðu leyti byggð á faglegri vinnu verkefnisstjórnarinnar. Alþingi ræður því auðvitað hvort hún verður samþykkt óbreytt, en verði það niðurstaðan er algerlega ljóst að engin sátt mun ríkja um niðurstöðuna og hætt við að hún verði eingöngu til afar skamms tíma.

MÁLÞING á vegum Vatns- og fráveitufélags Íslands (VAFRÍ).

Fagaðilar munu kynna tæknilausnir sem hafa verið innleiddar á Íslandi og ræða hvernig rekstur á þessum fyrstu árum hefur gengið. Einnig verða almenn erindi um stöðu lífrænnar hreinsunar á Íslandi, fræðin á bak við lífræna hreinsun, og hver ávinningurinn er. Þingið er haldið á vegum Vatns- og fráveitufélag Íslands (VAFRÍ) í samvinnu við Háskóla Íslands, Orkuveitu Reykjavíkur, Samorku og Umhverfisstofnun.

Nánari dagskrá er að finna í viðhengi og á vefsíðu VAFRÍ http://www.vafri.hi.is/

Allir eru velkomnir!

Vinsamlegast skráið þátttöku í síðasta lagi mánudaginn 5. nóvember á netfangið iris.thorarinsdottir@or.is

 

 

 

 

 

Námskeið um innra eftirliti vatnsveitna

 

Alþjóða heilbrigðisstofnunin WHO hefur látið gera tölvuforrit til þess að fylgjast með og greina áhrif og virkni innra eftirlits vatnsveitna.  Samorka hefur  fengið notkunarleyfi á forritinu og hefur Dr. María Jóna Gunnarsdóttir tekið að sér að þýða það og laga að íslenskum aðstæðum. Þessu verki miðar vel áfram og er áformað að kynna það á námskeiði dagana 29. og 30. okt. n.k.

Námskeiðið verður á Grand Hótel í salnum Háteigi, sjá dagskrá undir – Námskeið og fundir hér til hægri á heimasíðunni.

„Massapóstur“ á þingnefnd

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

 

„Massapóstur“ á þingnefnd
 

Alls liggja nú á fjórða hundrað umsagnir fyrir hjá atvinnuveganefnd Alþingis um tillögu til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða − rammaáætlun. Er þetta óvenjulegur fjöldi en hátt á þriðja hundrað einstaklinga hafa sent inn umsagnir í eigin nafni. Margar þeirra umsagna eru afar keimlíkar og fyrirmynd að þeim texta hefur mátt finna á vefsíðum ýmissa náttúruverndarsamtaka. Kemur þar ítrekað fram sú fullyrðing að mikilvægt sé að sem flestir sendi inn umsagnir vegna þess að „magnið“ geti haft áhrif. Umræddar umsagnir eru sumar í formi tölvupósta og finna má dæmi um að í efnislínu (subject) komi fram orðasambandið „Massapóstur á Atvinnuveganefnd“.

Þetta er allt gott og blessað en bætir litlum upplýsingum við fyrir nefndina. Þótt einn hópur kjósi að skipuleggja sig með slíkum hætti segir það ekkert um afstöðu alls þorra landsmanna og ekki er mikið um viðbótar rök í mörgum þessara umsagna.

Lýðræði og virkjanir
Ef leggja á áherslu á sjónarmið um lýðræðislega aðkomu má minna á að sumir virkjanakostirnir hafa t.d. þegar farið í gegnum lýðræðislegt ferli mats á umhverfisáhrifum, með tilheyrandi opnum umsagnarferlum og ákvarðanatöku lýðræðislega kjörinna fulltrúa á sviði skipulagsmála. Jafnvel eru dæmi um að virkjanakostir hafi verið kosningamál í síðustu sveitarstjórnarkosningum og stuðningsmenn umræddra virkjana borið þar sigur úr býtum. Reyndar gerir sú tillaga sem nú liggur fyrir Alþingi ráð fyrir að sumir virkjanakostir þar sem mati á umhverfisáhrifum er lokið og aðalskipulag og stuðningur sveitarstjórna liggur fyrir fari í bið- eða verndarflokk, þótt verkefnisstjórn hafi raðað þeim mjög framarlega í sínu áralanga faglega ferli. Sem kunnugt er hefur niðurstöðum þess faglega ferlis verið varpað fyrir róða í fyrirliggjandi tillögu, í tvöföldu óljósu ferli á vettvangi stjórnmálanna, en það er önnur umræða.

Samorka getur hins vegar glatt þingheim með því að ekki stendur til að samtökin hvetji framvegis til sendinga á „massapósti“ til þingnefnda um einstök þingmál.

María J. Gunnarsdóttir ver doktorsritgerð um öryggi neysluvatns

María J. Gunnarsdóttir − byggingartæknifræðingur, umhverfisfræðingur og fyrrum starfsmaður Samorku − varði á dögunum doktorsritgerð sína í umhverfis- og auðlindafræði, við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands. Titill ritgerðar Maríu er Öryggi neysluvatns: Reynsla af innra eftirliti vatnsveitna og áhættuþættir mengunar.

Ágrip af rannsókn Maríu:
Aðgangur að nægu og hreinu drykkjarvatni er ein af undirstöðum velferðar í hverju samfélagi. Mikilvægt er að tryggja að vatn njóti verndar bæði lagalega og í allri umgengi um vatnsauðlindina. Ísland flokkaði neysluvatn sem matvæli í matvælalöggjöf 1995. Með þeirri löggjöf voru lagðar skyldur á vatnsveitur að beita kerfisbundu fyrirbyggjandi innra eftirliti til að tryggja gæði neysluvatns samhliða lögbundnu ytra eftirliti heilbrigðiseftirlits og var þar meðal fyrstu þjóða til að lögleiða innra eftirlit. Markmið þessarar rannsóknar er að meta áhrif þessarar lagasetningar á vatnsveitur og hvort þeirra áhrifa gæti í gæðum vatnsins og í heilsufari íbúa. Einnig eru skoðaðir áhættuþættir lífrænnar mengunar og hversu langt hún getur borist með grunnvatni og notað líkan sem byggir á vatnafræðilegum og jarðfræðilegum aðstæðum og niðurstöður bornar saman við saurmengun neysluvatns sem olli nóróveirufaraldri hér á landi fyrir nokkrum árum.  Niðurstöðurnar sýna tölfræðilega marktækan mun á bæði betri neysluvatnsgæðum og bættri heilsu íbúa þar sem vatnsveitur hafa sett upp innra eftirlit. Rannsóknin leiddi einnig í ljós ávinning af innra eftirliti í rekstri vatnsveitna, hvað þarf að vera til staðar til að það virki vel og hverjar hindranirnar eru.

Verkefnið var unnið við Háskóla Íslands og var styrkt af Umhverfis- og auðlindasjóði Orkuveitu Reykjavíkur, Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, og Þróunarsamvinnustofnun.

Ritgerð Maríu má finna hér, á vef Háskóla Íslands.

Doktorsvörnin fór fram miðvikudaginn 30. maí, í Öskju. Andmælendur voru Dr. Steve Hrudey, prófessor emerítus, Analytical & Environmental Toxicology Division, Faculty of Medicine and Dentistry við University of Alberta í Kanada, og Dr. José Manuel Pereira Vieira, prófessor við University of Minho Largo do Paço í Portugal.

Leiðbeinendur voru Dr. Sigurður M. Garðarsson, prófessor og deildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar Háskóla Íslands; Dr. Jamie Bartram, prófessor og forstöðumaður ‘Water Institute at UNC’, Environmental Sciences and Engineering við Gillings School of Global Public Health, University of North Carolina at Chapel Hill, Bandaríkjunum; Dr. Hrund Ó. Andradóttir, dósent við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands; og Dr. Gunnar St. Jónsson, fagstjóri hjá Umhverfisstofnun.