„Massapóstur“ á þingnefnd

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

 

„Massapóstur“ á þingnefnd
 

Alls liggja nú á fjórða hundrað umsagnir fyrir hjá atvinnuveganefnd Alþingis um tillögu til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða − rammaáætlun. Er þetta óvenjulegur fjöldi en hátt á þriðja hundrað einstaklinga hafa sent inn umsagnir í eigin nafni. Margar þeirra umsagna eru afar keimlíkar og fyrirmynd að þeim texta hefur mátt finna á vefsíðum ýmissa náttúruverndarsamtaka. Kemur þar ítrekað fram sú fullyrðing að mikilvægt sé að sem flestir sendi inn umsagnir vegna þess að „magnið“ geti haft áhrif. Umræddar umsagnir eru sumar í formi tölvupósta og finna má dæmi um að í efnislínu (subject) komi fram orðasambandið „Massapóstur á Atvinnuveganefnd“.

Þetta er allt gott og blessað en bætir litlum upplýsingum við fyrir nefndina. Þótt einn hópur kjósi að skipuleggja sig með slíkum hætti segir það ekkert um afstöðu alls þorra landsmanna og ekki er mikið um viðbótar rök í mörgum þessara umsagna.

Lýðræði og virkjanir
Ef leggja á áherslu á sjónarmið um lýðræðislega aðkomu má minna á að sumir virkjanakostirnir hafa t.d. þegar farið í gegnum lýðræðislegt ferli mats á umhverfisáhrifum, með tilheyrandi opnum umsagnarferlum og ákvarðanatöku lýðræðislega kjörinna fulltrúa á sviði skipulagsmála. Jafnvel eru dæmi um að virkjanakostir hafi verið kosningamál í síðustu sveitarstjórnarkosningum og stuðningsmenn umræddra virkjana borið þar sigur úr býtum. Reyndar gerir sú tillaga sem nú liggur fyrir Alþingi ráð fyrir að sumir virkjanakostir þar sem mati á umhverfisáhrifum er lokið og aðalskipulag og stuðningur sveitarstjórna liggur fyrir fari í bið- eða verndarflokk, þótt verkefnisstjórn hafi raðað þeim mjög framarlega í sínu áralanga faglega ferli. Sem kunnugt er hefur niðurstöðum þess faglega ferlis verið varpað fyrir róða í fyrirliggjandi tillögu, í tvöföldu óljósu ferli á vettvangi stjórnmálanna, en það er önnur umræða.

Samorka getur hins vegar glatt þingheim með því að ekki stendur til að samtökin hvetji framvegis til sendinga á „massapósti“ til þingnefnda um einstök þingmál.