María J. Gunnarsdóttir ver doktorsritgerð um öryggi neysluvatns

María J. Gunnarsdóttir − byggingartæknifræðingur, umhverfisfræðingur og fyrrum starfsmaður Samorku − varði á dögunum doktorsritgerð sína í umhverfis- og auðlindafræði, við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands. Titill ritgerðar Maríu er Öryggi neysluvatns: Reynsla af innra eftirliti vatnsveitna og áhættuþættir mengunar.

Ágrip af rannsókn Maríu:
Aðgangur að nægu og hreinu drykkjarvatni er ein af undirstöðum velferðar í hverju samfélagi. Mikilvægt er að tryggja að vatn njóti verndar bæði lagalega og í allri umgengi um vatnsauðlindina. Ísland flokkaði neysluvatn sem matvæli í matvælalöggjöf 1995. Með þeirri löggjöf voru lagðar skyldur á vatnsveitur að beita kerfisbundu fyrirbyggjandi innra eftirliti til að tryggja gæði neysluvatns samhliða lögbundnu ytra eftirliti heilbrigðiseftirlits og var þar meðal fyrstu þjóða til að lögleiða innra eftirlit. Markmið þessarar rannsóknar er að meta áhrif þessarar lagasetningar á vatnsveitur og hvort þeirra áhrifa gæti í gæðum vatnsins og í heilsufari íbúa. Einnig eru skoðaðir áhættuþættir lífrænnar mengunar og hversu langt hún getur borist með grunnvatni og notað líkan sem byggir á vatnafræðilegum og jarðfræðilegum aðstæðum og niðurstöður bornar saman við saurmengun neysluvatns sem olli nóróveirufaraldri hér á landi fyrir nokkrum árum.  Niðurstöðurnar sýna tölfræðilega marktækan mun á bæði betri neysluvatnsgæðum og bættri heilsu íbúa þar sem vatnsveitur hafa sett upp innra eftirlit. Rannsóknin leiddi einnig í ljós ávinning af innra eftirliti í rekstri vatnsveitna, hvað þarf að vera til staðar til að það virki vel og hverjar hindranirnar eru.

Verkefnið var unnið við Háskóla Íslands og var styrkt af Umhverfis- og auðlindasjóði Orkuveitu Reykjavíkur, Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, og Þróunarsamvinnustofnun.

Ritgerð Maríu má finna hér, á vef Háskóla Íslands.

Doktorsvörnin fór fram miðvikudaginn 30. maí, í Öskju. Andmælendur voru Dr. Steve Hrudey, prófessor emerítus, Analytical & Environmental Toxicology Division, Faculty of Medicine and Dentistry við University of Alberta í Kanada, og Dr. José Manuel Pereira Vieira, prófessor við University of Minho Largo do Paço í Portugal.

Leiðbeinendur voru Dr. Sigurður M. Garðarsson, prófessor og deildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar Háskóla Íslands; Dr. Jamie Bartram, prófessor og forstöðumaður ‘Water Institute at UNC’, Environmental Sciences and Engineering við Gillings School of Global Public Health, University of North Carolina at Chapel Hill, Bandaríkjunum; Dr. Hrund Ó. Andradóttir, dósent við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands; og Dr. Gunnar St. Jónsson, fagstjóri hjá Umhverfisstofnun.