Mikil vonbrigði með rammaáætlun

Samorka lýsir í umsögn sinni miklum vonbrigðum með tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða – rammaáætlun. Samtökin gera alvarlegar athugasemdir við það vinnulag sem viðhaft hefur verið við gerð tillögunnar, allt frá því að verkefnisstjórnin skilaði sínum faglegu niðurstöðum til ráðherra í júlí 2011. Í kjölfarið tók við tvöfalt ógagnsætt ferli og allar hinar fjölmörgu breytingar frá niðurstöðum verkefnisstjórnar hafa verið í sömu átt, þ.e. í þá átt að draga úr áherslum orkunýtingar. Faglegri vinnu verkefnisstjórnar hefur í raun verið varpað fyrir róða og niðurstaðan verður líklega ekki annað en stefna núverandi stjórnvalda í verndun og nýtingu, en ekki sú sátt um málaflokkinn sem vonast hafði verið eftir að áralöng vinna verkefnisstjórnar gæti orðið grundvöllur að. Umsögn Samorku má nálgast hér, og fylgiskjal með henni hér, þar sem tillagan er borin saman við niðurstöður verkefnisstjórnar.

Þjóðhagslegur ávinningur jarðhitanýtingar 55-95 milljarðar á ári

Umfang þjóðhagslegs ávinnings af jarðhitanýtingu er á bilinu 55-95 milljarðar á ári. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Daða Más Kristóferssonar, dósents í auðlindahagfræði við Háskóla Íslands, á vorfundi Jarðhitafélags Íslands sem haldinn var í Arion banka. Á fundinum fjölluðu fulltrúar HS Orku, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og RARIK jafnframt um helstu jarðhitaframkvæmdir á döfinni hjá fyrirtækjunum. Erindi fundarins má nálgast á vef Jarðhitafélagsins.
 

21 af 40 efstu virkjunarkostunum í bið eða vernd

Þingsályktunartillaga um rammaáætlun hefur verið lögð fram í ríkisstjórn. Skv. fréttatilkynningu hafa þær breytingar orðið frá drögum að tillögunni sem kynnt voru sl. sumar að sex virkjunarkostir til viðbótar hafa nú verið færðir úr nýtingarflokki í biðflokk – Holtavirkjun, Hvammsvirkjun, Skrokkölduvirkjun, Hágönguvirkjanir (1. og 2. áfangi) og Urriðafossvirkjun. Þessum virkjunarkostum raðaði verkefnisstjórn um gerð rammaáætlunar á bilinu 15-28 af 69 virkjunarkostum (ath. að nr. 55 og 60 eru alls 11 kostir, tvö svæði  flokkuð þar saman), frá sjónarhorni nýtingar, í skýrslu sinni sem skilað var í júní sl. (sjá töflu 7.2).  Alls eru því 21 af 40 efstu virkjunarkostunum, skv. endanlegri röðun verkefnisstjórnar, settir í biðflokk eða verndarflokk, skv. tillögunni. Þeir eru:

Í biðflokk, af efstu 40 kostum verkefnisstjórnar:
Holtavirkjun
Hvammsvirkjun
Austurengjar
Skrokkölduvirkjun
Innstidalur
Trölladyngja
Þverárdalur
Hágönguvirkjun, 1. áfangi
Hágönguvirkjun, 2. áfangi
Urriðafossvirkjun
Hólmsárvirkjun neðri
Hagavatnsvirkjun
Fljótshnjúksvirkjun
Hólmsárvirkjun – án miðlunar

Í verndarflokk, af efstu 40 kostum verkefnisstjórnar:
Bitra
Norðlingaölduveita
Brennisteinsfjöll
Grændalur
Tungnárlón
Bjallavirkjun
Gjástykki
 

Vorfundur Jarðhitafélagsins: Ávinningur og verkefni framundan

Vorfundur Jarðhitafélags Íslands verður haldinn í Arion banka þriðjudaginn 17. apríl. Þar mun Daði Már Kristófersson, dósent í auðlindahagfræði við Háskóla Íslands, fjalla um þjóðhagslegan ávinning af jarðhitanýtingu. Þá munu fulltrúar HS Orku, RARIK, Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar fjalla um helstu framkvæmdir á döfinni. Fundurinn hefst kl. 14:00, í húsakynnum Arion banka, Borgartúni 19. Sjá nánar á vefsíðu Jarðhitafélagsins.

Hagkvæmnisrök styðja langa leigusamninga orkuauðlinda

Sterk hagfræðileg rök hníga að löngum leigusamningum orkuauðlinda og mikilvægt er að viðurkenna að stytting leigutíma er kostnaðarsöm. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Daða Más Kristóferssonar, dósents í auðlindahagfræði við Háskóla Íslands, á aðalfundi Samorku. Daði fjallaði um gjaldtöku, leigutíma og arðsemi orkunýtingar. Daði segir of stuttan leigutíma hindra arðbærar framkvæmdir auk þess sem langur leigutími vinni gegn svokölluðum leigjendavanda, þar sem skammtímahagsmunir leigutaka séu aðrir en langtímahagsmunir leigusala.

Daði fjallaði um kosti og galla mismunandi aðferða við gjaldtöku en lýsti efasemdum um hvort forsendur væru fyrir sérstakri skattlagningu á nýtingu orkuauðlina, m.a. þar sem ekki væri sýnilegur umframhagnaður hjá orkufyrirtækjum. Þá gæti skattur vegna umhverfisáhrifa verið réttlætanlegur en þó ekki flatur skattur þar sem slik áhrif væru jú mjög breytileg. Daði fjallaði m.a. um lágt raforkuverð á Íslandi og sagði auðlindarentuna því í raun renna til viðskiptavina, sem á Íslandi eru í flestum tilvikum einmitt eigendur fyrirtækjanna, þ.e. almenningur.

Sjá erindi Daða Más Kristóferssonar.
 

Iðnaðarráðherra: Rétt að fjölga hér orkukaupendum

Oddný G. Harðardóttir, starfandi iðnaðarráðherra, ávarpaði opna dagskrá aðalfundar Samorku. Í ávarpi sínu fjallaði Oddný m.a. um orkuskipti í samgöngum, mótun heildstæðrar orkustefnu og vinnu við gerð rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu náttúrusvæða. Oddný sagði áliðnaðinn hafa myndað hér grunn að öflugu orkusamfélagi sem byggja mætti á, en sagðist telja okkur farnast best ef okkur tækist að fjölga hér orkukaupendum og ef að flóra þeirra yrði sem fjölbreyttust.

Oddný G. Harðardóttir, starfandi iðnaðarráðherra, ávarpaði opna dagskrá aðalfundar Samorku. Í ávarpi sínu fjallaði Oddný m.a. um orkuskipti í samgöngum, mótun heildstæðrar orkustefnu og vinnu við gerð rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu náttúrusvæða. Oddný sagði áliðnaðinn hafa myndað hér grunn að öflugu orkusamfélagi sem byggja mætti á, en sagðist telja okkur farnast best ef okkur tækist að fjölga hér orkukaupendum og ef að flóra þeirra yrði sem fjölbreyttust. Hún sagði stjórnvöld og Samorku eiga sameiginlega hagsmuni í þróun hvata til orkuskipta í samgöngum og í að byggja þar upp innviði. Loks þakkaði ráðherra Samorku fyrir gott samstarf á liðnum árum, fyrir hönd iðnaðarráðuneytisins, og vonaðist eftir gefandi samstarfi á komandi árum.

Ávarp Oddnýjar má nálgast hér á vef iðnaðarráðuneytisins.

 

Aðalfundur Samorku: Vonbrigði með stöðu rammaáætlunar

Ályktun aðalfundar Samorku, 17. febrúar 2012:

 

Vonbrigði með stöðu rammaáætlunar

Aðalfundur Samorku lýsir yfir vonbrigðum með stöðuna og ferlið við gerð þingsályktunar um vernd og orkunýtingu náttúrusvæða – rammaáætlun. Samorka gagnrýndi á sínum tíma ýmsar breytingar sem urðu á forsendum verkefnisstjórnar, þar sem fjöldi orkukosta var útilokaður frá nýtingarflokki. Samtökin fögnuðu þó faglegum niðurstöðum af áralöngu starfi verkefnisstjórnar í júní 2011. Í því faglega ferli höfðu sjónarmið um náttúruvernd mikið vægi og almenningur fékk ítrekuð tækifæri til að setja fram sjónarmið, sem í kjölfarið voru metin á faglegan hátt í vinnu verkefnisstjórnar. Var það von Samorku að þessi ágæta vinna gæti orðið grundvöllur fyrir aukinni sátt um orkunýtingu og verndun. Miklar tafir hafa nú orðið á þessu ferli, með tilheyrandi óvissu. Í drögum að tillögu til þingsályktunar sem kynnt voru í ágúst hafði verið vikið frá faglegri forgangsröðun verkefnisstjórnar og niðurstöður hennar eru nú staddar öðru sinni í ógegnsæju samningaferli á vettvangi stjórnvalda.

Stærð einstakra flokka og röðun í þá er að sjálfsögðu ákvörðun Alþingis. Að mati Samorku væri hins vegar vænlegast að styðjast einfaldlega við faglega röðun verkefnisstjórnar frá því í júní 2011. Sú leið ætti að mati samtakanna að geta stuðlað að nokkuð víðtækri sátt um rammaáætlun. Fundurinn minnir jafnframt á að Íslendingar hafa nú þegar stigið mjög stór skref til verndar náttúru landsins og t.d. gengið mun lengra en hin Norðurlöndin í þeim efnum.

Auðlindamálin ekki til umhverfisráðuneytis
Þá ítrekar aðalfundur Samorku andstöðu samtakanna við hugmyndir um að færa auðlindarannsóknir og auðlindastýringu undir umhverfisráðuneytið. Það væri að mati Samorku óeðlileg stjórnsýsla að sama ráðuneyti gegndi lykilhlutverki varðandi rannsóknir og nýtingu annars vegar, og færi með umhverfismat og skipulagsmál hins vegar.