Iðnaðarráðherra: Vonbrigði með rammaáætlun

Í ávarpi sínu á aðalfundi Samorku sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, brýnt að styrkja flutningskerfi raforku. Hún tók heils hugar undir ályktun aðalfundar Samorku í þeim efnum, þar sem vonir eru bundnar við frumvarp hennar um eflingu kerfisáætlunar og tillögu hennar til þingsályktunar um málefni loftlína og strengja. Sjálf sagðist ráðherrann binda vonir við að umrædd þingmál yrðu afgreidd á yfirstandandi vorþingi.

Jafnframt tók Ragnheiður Elín undir ályktun aðalfundar Samorku um stöðu rammaáætlunar og sagði að áfangaskýrsla verkefnisstjórnar 3. áfanga, þar sem lagt er til að (einungis) Hvammsvirkjun verði færð í nýtingarflokk hefði valdið sér töluverðum vonbrigðum. Lýsti hún stuðningi við fyrirliggjandi breytingartillögu meirihluta atvinnuveganefndar, þar sem lagt er til að fleiri kostir verði færðir í nýtingarflokk, enda yrði núverandi eftirspurn eftir orku ekki mætt án nýrra virkjana.

Ennfremur ræddi ráðherrann um jöfnunargjald á raforkudreifingu o.fl. Erindi ráðherra má nálgast hér á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.