Ályktun aðalfundar Samorku: Raforkukerfi í alvarlegum vanda, þrír nýir skattar, fleiri orkukosti í nýtingarflokk

Ályktun aðalfundar Samorku, 20. febrúar 2015:

Raforkukerfi í alvarlegum og vaxandi vanda

Aðalfundur Samorku fagnar frumvarpi iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem styrkir kerfisáætlun Landsnets, sem og tillögu til þingsályktunar um málefni loftlína og strengja. Íslenska raforkukerfið er í alvarlegum og sífellt vaxandi vanda vegna hindrana í vegi uppbyggingar og eðlilegs viðhalds á flutningskerfi raforku. Fjöldi fyrirtækja verður fyrir tjóni og uppbygging atvinnulífs heilla landshluta býr við takmarkanir af þessum sökum. Óskandi er að sterkari staða kerfisáætlunar og skýrari leiðsögn stjórnvalda hvað varðar loftlínur og strengi muni einfalda nauðsynlega uppbyggingu og viðhald og þannig tryggja betur afhendingaröryggi raforku sem verið hefur óviðunandi víða um land undanfarin ár.

Þrír nýir skattar
Aðalfundur Samorku lýsir áhyggjum af því sem virðist vera orðin ný stefna stjórnvalda, að fjármagna almennar aðgerðir eða breytingar í stjórnsýslu með nýjum álögum á orku- og veitufyrirtæki. Þrír nýir skattar á umrædd fyrirtæki eru nú í undibúningi innan stjórnarráðsins eða til afgreiðslu á Alþingi.* Í öllum tilvikum er um að ræða almennar aðgerðir stjórnvalda, sem sannarlega hafa ýmislegt til síns ágætis en ættu að mati Samorku einfaldlega að fjármagnast með almennu skattfé ríkissjóðs. Þjónusta orku- og veitufyrirtækja kemur vissulega við sögu á flestum sviðum atvinnulífs og daglegs lífs landsmanna. Það gerir rekstur þeirra ekki að almennum skattstofni fyrir öll þessi sömu svið atvinnu- og mannlífs í landinu. Það er enda ljóst að viðskiptavinirnir, heimilin og atvinnulífið í landinu, bera á endanum allan slíkan kostnað sem lagður er á orku- og veitufyrirtækin.

Vantar orkukosti í nýtingarflokk
Loks hvetur aðalfundur Samorku þingheim til að færa fleiri orkukosti í nýtingarflokk rammaáætlunar og leiðrétta þannig þær breytingar sem gerðar voru af hálfu stjórnvalda að loknu faglegu ferli verkefnisstjórnar 2. áfanga. Vaxandi fjöldi fjárfesta óskar nú eftir samningum um raforkukaup í magni sem engin leið verður að mæta á komandi árum án fjölgunar vænlegra orkukosta í nýtingarflokki rammaáætlunar.

————————–
* Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um nýtt jöfnunargjald á dreifingu raforku (107. mál), en gjaldið leggst á dreifiveitur raforku. Einnig liggur fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um stjórn vatnamála (511. mál), þar sem kynnt er til sögunnar ný gjaldtaka sem leggst á vatnsafls- og jarðhitavirkjanir, hitaveitur, vatnsveitur og fráveitur. Loks mun í undirbúningi að taka upp nýtt netöryggisgjald á grundvelli laga um almannavarnir. Á gjaldið að leggjast á orku- og veitufyrirtæki, fjarskiptafyrirtæki, fjármálafyrirtæki og rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu.