„Evrópumeistarar í notkun kerfisvarna“

Raforkunotendur utan Suðvesturlands búa við minni gæði rafmagns og meiri líkur á truflunum og skerðingum í raforkuafhendingu en notendur Suðvestanlands. Þetta kom fram í erindi Ragnars Guðmannssonar, yfirmanns stjórnstöðvar Landsnets, á aðalfundi Samorku, þar sem hann fjallaði einkum um flutning raforku inn á Norður- og Austurland. Ragnar greindi m.a. frá því að við aðstæður eins og í dag, loðnuvertíð og lágt útihitastig, á sér stað mikill flutningur raforku til Austurlands og því fylgdi  mikil hætta á truflunum, jafnvel skerðingum. Kerfið er svo veikt, að farið er að tala um að Íslendingar (Landsnet) séu orðnir Evrópumeistarar í notkun kerfisvarna og í álagsstýringum flutningskerfis. Slík álagsstýring felst í skerðingum á orkuafhendingu og tilflutningi á álagi á milli svæða. Þá myndast  svokallaður „eyjarekstur“ í raforkukerfinu, sem er afar áhættusamur og ótryggur. Þessi vandi sem upp er kominn verður ekki lagfærður, nema með verulegu átaki í gerð öflugra flutningslína.

Nauðsynlegt að styrkja kerfið
Í kerfisáætlun Landsnets er fjallað um mismunandi valkosti til að auka og tryggja orkuflutninginn. Helstu kostir eru hálendislína og öflug styrking byggðalínu. Til að ná fram ásættanlegu öryggi raforkuafhendingar á Norður- og Austurlandi verður að bregðast fljótt og vel við með línustyrkingum. Þannig styrkist atvinnulífið þar sem afhendingaröryggi raforku er núna óviðunandi.

Sjá erindi Ragnars.