Gríðarleg uppbygging raforkusæstrengja í Norður-Evrópu

Framundan er gríðarleg uppbygging raforkusæstrengja milli Norðurlandanna og annarra Evrópuríkja, en vatnsaflið í Noregi og Svíþjóð býður upp á nauðsynlegan stöðugleika á móti t.d. vindorku. Danmörk er orðin háð innflutningi á grænni raforku og eftirspurnin fer ört vaxandi í Þýskalandi, Englandi og víðar. Norðmenn flytja þegar út meira en sem nemur heildarraforkuframleiðslunni hérlendis og hyggjast margfalda það magn.

Þýskaland, England o.fl. Evrópuríki þurfa að stórefla innflutning sinn á grænni raforku á næstu árum og áratugum, í ljósi stefnu um stóraukinn hlut endurnýjanlegrar orku. Norðmenn ætla sér stóra hluti á þessum vaxandi markaði, en vatnsaflið býður upp á nauðsynlegan stöðugleika á móti t.d. vindorku þar sem framboðið er mjög sveiflukennt. Danmörk er t.d. orðin háð innflutningi á grænni raforku þar sem vindorkan getur legið niðri þótt eftirspurnin sé mikil.

Vaxandi þörf er því á samtengingu raforkukerfa þessara landa og fyrirséð er uppbygging á sæstrengjum til og frá Danmörku fyrir á fimmta hundrað milljarð íslenskra króna á næstu árum. Er þar einkum horft til nýrra strengja til Noregs,  Svíþjóðar og Þýskalands. Þar við bætast áform Norðmanna um nýja sæstrengi  til Englands og Þýskalands, sem taka á í notkun innan fárra ára.

Norðmenn stórhuga
Árið 2012 fluttu Norðmenn út raforku um sæstreng sem svaraði til átján teravattstundum (TWst), en heildarraforkuframleiðslan hérlendis nemur nú um sautján TWst á ári. Þeir gera sér hins vegar vonir um að stórauka þetta magn, um allt að 54 TWst á ári.

Um þessa þróun má lesa í fréttabréfi Dansk Energi (sjá Nyhedsbladet nr. 1 2013, bls. 12-13).