Sigurjón Kjærnested til Samorku

Samorka hefur ráðið Sigurjón Norberg Kjærnested vélaverkfræðing í starf framkvæmdastjóra veitusviðs samtakanna. Sigurjón er með M.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands. Sigurjón hefur m.a. starfað sem aðstoðarkennari við Háskóla Íslands og frá árinu 2011 hefur hann starfað hjá verkfræðistofunni Mannvit. 

Sigurjón er formaður vélaverkfræðideildar Verkfræðingafélags Íslands, 1. varaþingmaður Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi og fyrrverandi formaður Sambands ungra framsóknarmanna. Hann hefur störf hjá Samorku í byrjun september.

Hagkvæmni sæstrengs áfram til skoðunar

Ráðgjafarhópur iðnaðar- og viðskiptaráðherra um lagningu sæstrengs til Evrópu hefur skilað tillögum sínum til ráðherra. Ráðgjafarhópurinn var samhljóða í sinni ályktun að frekari upplýsingar þurfi til að unnt sé að fullyrða um þjóðhagslega hagkvæmni þess að leggja sæstreng milli Íslands og Bretlands, en áætlað er að nettó útflutningstekjur af flutningi raforku um sæstreng geti orðið allt að 76 milljarðar króna á ári. Lagt er til að haldið verði áfram að kortleggja alla þætti verkefnisins hér innanlands um leið og leitað verði svara um möguleg rekstrar- og eignarhaldsmódel hjá viðsemjendum í Bretlandi. Sjá skýrsluna á vef atvinnuvegaráðuneytis.

Fyrirtæki opna dyrnar til að efla verk- og tæknimenntun

Samtök atvinnulífsins hvöttu á dögunum fyrirtæki til að taka þátt í að efla verk- og tæknimenntun með því að kynna atvinnulífið fyrir nemendum og kennurum grunn- og framhaldsskóla. Skemmst er frá því að segja að viðbrögðin voru mjög jákvæð og brugðust fyrirtækin skjótt við kallinu. Um 50 fyrirtæki − m.a. nokkur orku- og veitufyrirtæki − hafa nú þegar lýst yfir áhuga á efla starfsmenntun með því að taka þátt en fleiri geta bæst í hópinn. Sjá nánar á vef SA.

Starf framkvæmdastjóra veitusviðs

Samorka auglýsir laust til umsóknar starf framkvæmdastjóra hita-, vatns- og fráveitusviðs á skrifstofu samtakanna.

Helstu verkefni:
•    Umsjón með starfi fagráða umræddra veitusviða o.fl. hópa á vegum samtakanna
•    Umsjón með vinnslu handbóka og tæknilegra tengiskilmála
•    Skipulagning og umsjón með framkvæmd námskeiða og funda
•    Þátttaka í mótun stefnu um starfsumhverfi veitnanna og í samskiptum við ráðuneyti og opinberar stofnanir

Menntunar- og hæfniskröfur:
•    Tæknimenntun á sviði bygginga eða véla og/eða önnur menntun sem nýtist í starfi
•    Góð almenn tölvufærni
•    Góð íslensku- og enskukunnátta, Norðurlandamál einnig kostur
•    Frumkvæði, metnaður og sjálfstæði í vinnubrögðum
•    Færni og lipurð í mannlegum samskiptum
•    Starfsreynsla hjá veitufyrirtæki er mikill kostur

Umsóknir skulu sendar til framkvæmdastjóra, Gústafs Adolfs Skúlasonar (gustaf (hjá) samorka.is), sem einnig veitir upplýsingar um starfið.

Umsóknarfrestur er til 14. júní nk., en gert er ráð fyrir að nýr starfsmaður hefji störf mánudaginn 2. september.
 

Af raforku og „stóriðjustefnu“

Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Davíð Þorláksson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, skrifar grein í Morgunblaðið 7. maí þar sem hann hvetur hægrimenn til að hætta svokallaðri stóriðjustefnu. Hér er ekki ætlunin að svara fyrir hönd annarra hægrimanna. Hins vegar er rétt að benda á ákveðin atriði varðandi raforkuverð og svokallaða stóriðjustefnu.

Ábyrgðargjald til eigenda
Davíð segir hið opinbera sjá stóriðjunni fyrir ódýrri orku sem hann rekur til opinberra ábyrgða á lánsfjármögnun orkufyrirtækja. Þær skili lágum fjármagnskostnaði sem aftur skili sér svo í lægra orkuverði til stóriðjunnar. Nú er það hins vegar svo að samkvæmt lögum nr. 144/2010 og lögum nr. 21/2011 greiða Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun ábyrgðargjald af þeim lánaskuldbindingum sem ábyrgð eigenda er á, gjald sem svarar að fullu til þeirrar ívilnunar sem fyrirtækin eru talin (af óháðum aðilum) njóta á grunni ábyrgða eigenda. Þriðja fyrirtækið sem selur raforku til stóriðju, HS Orka hf., er í eigu einkaaðila og nýtur engra opinberra ábyrgða á sínum lánasamningum. Ekki þarf því að óttast að orkufyrirtæki séu að bjóða lágt orkuverð á þessum grundvelli.

Tækifæri með sæstreng
Hins vegar er það rétt að stóriðjufyrirtæki hafa (líkt og allir aðrir) getað nálgast samkeppnishæf verð fyrir raforku hér á landi, enda landið lítill og einangraður raforkumarkaður. Sú staða gæti reyndar breyst með lagningu sæstrengs til Evrópu sem nú er til ítarlegrar skoðunar. Með tilkomu slíkrar tengingar væri hægt að afla mun hærri orkuverða en núverandi markaðsaðstæður bjóða upp á.  Þannig vekur athygli að Norðmenn telja sín tækifæri af sölu endurnýjanlegrar orku jafn verðmæt og af sölu á olíu. Hérlendis er orkugetan í endurnýjanlegri orku þreföld á hvern íbúa miðað við Noreg og því ljóst að Íslendingar búa að gríðarlegum tækifærum á þessu sviði.

Íslensk orkufyrirtæki halda ekki uppi því sem oft er nefnt stóriðjustefna. Það er ekkert markmið orkufyrirtækja að hér sé ráðist í tilteknar tegundir fjárfestinga í atvinnulífinu. Framleiðendur raforku vilja einfaldlega hámarka arðsemi og verðmætasköpun af sölu endurnýjanlegrar orku, að sjálfsögðu að uppfylltum öllum skilyrðum um umhverfiskröfur og leyfisveitingar. Fjölmargir aðrir hafa hins vegar kallað eftir aukinni fjárfestingu í íslensku atvinnulífi, en hún mun vera í lágmarki þessi árin. Samningar um kaup á miklu magni af raforku eru oft nauðsynleg forsenda slíkra fjárfestinga, en hagsmunir orkuframleiðenda snúast í þessu samhengi einfaldlega um arðsemi umræddra orkusölusamninga.
 

Brennisteinsvetni og förgun affallsvatns á aðalfundi Jarðhitafélagsins 30. apríl

Jarðhitafélag Íslands heldur aðalfund sinn þriðjudaginn 30. apríl í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum fjallar Bjarni Már Júlíusson, verkefnastjóri, um brennisteinsvetni og Þráinn Friðriksson, jarðefnafræðingur hjá ÍSOR, fjallar um förgun affallsvatns frá jarðhitavirkjunum. Sjá nánar á vef Jarðhitafélags Íslands.