Samráð og lög um náttúruvernd

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Samráð og lög um náttúruvernd

Mikið hefur verið rætt og ritað um allt hið mikla samráð sem viðhaft hafi verið við gerð lagafrumvarps um náttúruvernd á síðasta kjörtímabili. Frumvarpið varð að lögum en gildistökunni var frestað og nú hefur verið boðað að lagt verði til að lögin verði afturkölluð og núgildandi lög, frá árinu 1999, gildi þannig áfram. Samráð er hins vegar teygjanlegt hugtak. Eitt er að gefa aðilum færi á að setja fram sjónarmið, annað er að tekið sé tillit til þeirra sjónarmiða.

Þröngur hópur höfunda
Mikil vinna var lögð í gerð frumvarpsins. Meðal annars var unnin svokölluð hvítbók um náttúruvernd í því sambandi, tæpar 500 blaðsíður að lengd. Hvítbókina vann hins vegar afar þröngur hópur fólks. Starfsfólk umhverfisráðuneytisins og stofnana þess, háskólafólk sem mikið hefur unnið fyrir ráðuneytið og fulltrúi frjálsra félagasamtaka á sviði náttúruverndar. Enginn fulltrúi atvinnulífs, sveitarfélaga, útivistarfólks og þannig mætti áfram telja. Þetta er ekki uppskriftin að víðtækri sátt um þennan málaflokk.

Lítið gert með athugasemdir
Hvítbókin fór í umsagnarferli en óljóst er hvað gert var við umsagnirnar því hún kom aldrei út aftur í breyttu formi. Síðar gaf ráðuneytið út drög að frumvarpi til umsagnar, sem bar öll einkenni hvítbókarinnar hvað sem umsögnum um hana leið. Aftur stóð undirritaður að gerð umsagnar en ekki var að sjá að tekið hefði verið tillit til efnisatriða hennar þegar frumvarpið var síðar lagt fram á Alþingi. Enn hófst þá umsagnarferli en nú á vegum Alþingis. Frumvarpið tók síðan litlum breytingum í meðförum þingsins.

Hér verða ekki raktar þær fjölmörgu og alvarlegu athugasemdir sem Samorka, Samtök atvinnulífsins, Samband íslenskra sveitarfélaga, samtök útivistarfólks og fjöldinn allur af öðrum aðilum gerði við þetta frumvarp. Hér skal það hins vegar áréttað að hið meinta víðtæka samráð sem sagt er hafa verið viðhaft einkenndist allt þetta langa ferli af því sama: Lítið sem ekkert tillit var tekið til ítrekaðra og alvarlegra athugasemda þessara fjölmörgu aðila.

Sæstrengur, stöðuskjal Samorku

Lagning sæstrengs til Evrópu hefur lengi verið til skoðunar á Íslandi. Ljóst er að mikil tækifæri  geta falist í lagningu slíks strengs, en áætlað er að nettó útflutningstekjur gætu orðið allt að 76 milljarðar króna á ári. Um leið er ýmsum spurningum ósvarað og enn mikil óvissa um ýmsar forsendur. Samorka hefur tekið saman stutt skjal um stöðu málsins, þar sem finna má aðgengileg svör við ýmsum algengum spurningum um hugsanleg áhrif af lagningu sæstrengs. Stöðuskjalið má nálgast hér.

Skýrsla GAMMA: Sæstrengur hagkvæmur fyrir íslensk heimili

Íslendingar eru mestu raforkuframleiðendur heims ef miðað er við höfðatölu og hafa álíka hagsmuni af hækkun raforkuverðs og hækkun fiskverðs. Heimilin nýta aðeins 5% raforkunnar, sem er unnin á Íslandi, þar sem 90% landsmanna hafa aðgang að hitaveitu. Með tilkomu sæstrengs mun raforkuverð á Íslandi til heimila áfram vera lágt og jafnvel óbreytt frá því dag kjósi stjórnvöld það. Tiltölulega auðvelt er að endurdreifa hagnaði orkufyrirtækja til heimilanna; til dæmis mætti tryggja þeim óbreytt raforkuverð, lækka skatta eða greiða þeim út arð í einhverju formi. Einnig væri hægt að niðurgreiða sérstaklega raforku til þeirra 9 þúsund heimila er nýta rafkyndingu með svipuðum hætti og gert er nú.

Tvöföldun tekna Landsvirkjunar gæti skilað tekjuauka til íslensks samfélags upp á um 40 milljarða á ári, sem jafngildir um það bil árlegu heildarframlagi ríkisins til reksturs á Landspítalanum. Þetta kemur fram í skýrslu sem fjármálafyrirtækið GAMMA vann fyrir Landsvirkjun til að greina áhrif sæstrengs á hag íslenskra heimila. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.

Ný virkjun í Glerá

Framkvæmdastjóri Fallorku ehf. og bæjarstjórinn á Akureyri hafa undirritað samning um að Fallorka reisi og reki 3,3 MW vatnsaflsvirkjun í Glerá ofan bæjarins. Meginmarkmið með framkvæmdinni er að nýta endurnýjanlega náttúruauðlind til að framleiða raforku á hagstæðu verði fyrir viðskiptavini Fallorku sem eru að stórum hluta Akureyringar, að því er fram kemur í frétt hér á vef Akureyrarbæjar.

Unnið að hreinsun brennisteinsvetnis

Nú er að hefjast bygging gasskiljustöðvar við Hellisheiðarvirkjun með það hlutverk að hreinsa brennisteinsvetni úr útblæstri virkjunarinnar. Smíðinni á að ljúka í mars 2014 en hún er mikilvægur þáttur í SulFix-verkefni Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjunar og HS Orku. Markmið þess verkefnis er að þróa og byggja hagkvæmar lausnir svo starfsemi jarðgufuvirkjana fyrirtækjanna uppfylli ákvæði reglugerðar um brennisteinsvetni í andrúmslofti, sem sett var árið 2010. Sjá nánar á vef OR.

Enn af rammaáætlun

Ummæli iðnaðarráðherra um Norðlingaölduveitu hafa kallað fram nokkrar umræður. Meðal annars hefur komið fram að um sé að ræða orkukost sem raðað hafi verið í verndarflokk skv. tillögum sérfræðinga rammaáætlunar. Það er ekki rétt og ástæða til að benda á fáein atriði í þessu sambandi:

1. Norðlingaölduveita 566-567,5 m.y.s. er einn þeirra orkukosta sem Alþingi hefur raðað í verndarflokk.
 
2. Sérfræðingar rammaáætlunar − verkefnisstjórnin − röðuðu þessum orkukosti hins vegar fyrir ofan miðju frá sjónarhorni nýtingar, eða nr. 30 af 69 kostum. Fyrrgreind niðurstaða Alþingis varðandi þennan orkukost var því ekki á grundvelli vinnu sérfræðinga rammaáætlunar, ekki fremur en gildir raunar um marga aðra kosti. Ætla mætti að honum hefði verið raðað í nýtingarflokk, e.t.v. í biðflokk, ef Alþingi hefði fylgt niðurstöðum verkefnisstjórnar.

3. Komi fram tillaga um aðra útfærslu á umræddri veituframkvæmd mun sú tillaga fara sína leið í ferli rammaáætlunar, á vegum nýrrar verkefnisstjórnar sem skipuð var í apríl sl.

4. Slík tillaga hefur þó ekki komið fram.

Ferðafólk heimsækir virkjanir

Mikill fjöldi gesta heimsækir íslenskar virkjanir og upplýsingamiðstöðvar orku- og veitufyrirtækja á ári hverju, alls nokkuð á annað hundrað þúsund manns. Virkjanir og orkumannvirki eru aðgengileg gestum víða um land og víða hafa verið settar upp sýningar og boðið upp á sérstaka leiðsögn fyrir ferðamenn. Erlendir gestir eru margir áhugasamir um nýtingu vatnsafls og ekki síður jarðhita (sem færri þekkja), en fjöldi Íslendinga sækir einnig heim orkumannvirkin og sýningar orkufyrirtækjanna. Ennfremur taka þessi fyrirtæki á móti fjölda gesta í sínum höfuðstöðvum. Þá sækja fleiri hundruð þúsund gesta heim ferðamannastaði sem tengjast virkjunum og orkunýtingu með beinum hætti, svo sem Bláa lónið, Perluna og Jarðböðin við Mývatn.

Um 50 þúsund gestir í Hellisheiðarvirkjun
Flestir gestir heimsækja Hellisheiðarvirkjun, um fimmtíu þúsund á ári, en fyrirtækið Orkusýn rekur þar jarðhitasýningu sem opin er alla daga. Sjá nánar á vef Orkusýnar.

Kárahnjúkar, vindmyllur, gagnvirk orkusýning…
Gestastofur Landsvirkjunar eru opnar á sumrin, en tekið er á móti hópum eftir samkomulagi yfir vetrartímann. Skoða má gagnvirka orkusýningu í Búrfellsstöð og einnig er boðið upp á reglulegar skoðunarferðir um Kárahnjúkasvæðið, kynningu á vindmyllum o.fl. Fjölsóttasta stöð Landsvirkjunar er Kröflustöð þar sem tekið er á móti um tíu þúsund gestum á ári. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.

Sýningin Orkuverið Jörð
HS Orka tekur á móti hópum í virkjunum sínum samkvæmt samkomulagi en í Reykjanesvirkjun starfrækir fyrirtækið sýninguna Orkuverið Jörð, sem opin er um helgar yfir sumarmánuðina, eða eftir samkomulagi. Sjá nánar á vef HS Orku.

Fleiri virkjanir má nefna, t.d. hina 100 ára gömlu Fjarðarselsvirkjun þar sem RARIK starfrækir minjasafn og tekið er á móti hópum. Loks taka Orkubú Vestfjarða, Orkusalan, Fallorka, Norðurorka o.fl. gjarnan á móti hópum og ferðafólki samkvæmt samkomulagi hverju sinni, ýmist í sínum höfuðstöðvum eða virkjunum.