10. júlí 2013 Ferðafólk heimsækir virkjanir Mikill fjöldi gesta heimsækir íslenskar virkjanir og upplýsingamiðstöðvar orku- og veitufyrirtækja á ári hverju, alls nokkuð á annað hundrað þúsund manns. Virkjanir og orkumannvirki eru aðgengileg gestum víða um land og víða hafa verið settar upp sýningar og boðið upp á sérstaka leiðsögn fyrir ferðamenn. Erlendir gestir eru margir áhugasamir um nýtingu vatnsafls og ekki síður jarðhita (sem færri þekkja), en fjöldi Íslendinga sækir einnig heim orkumannvirkin og sýningar orkufyrirtækjanna. Ennfremur taka þessi fyrirtæki á móti fjölda gesta í sínum höfuðstöðvum. Þá sækja fleiri hundruð þúsund gesta heim ferðamannastaði sem tengjast virkjunum og orkunýtingu með beinum hætti, svo sem Bláa lónið, Perluna og Jarðböðin við Mývatn. Um 50 þúsund gestir í Hellisheiðarvirkjun Flestir gestir heimsækja Hellisheiðarvirkjun, um fimmtíu þúsund á ári, en fyrirtækið Orkusýn rekur þar jarðhitasýningu sem opin er alla daga. Sjá nánar á vef Orkusýnar. Kárahnjúkar, vindmyllur, gagnvirk orkusýning… Gestastofur Landsvirkjunar eru opnar á sumrin, en tekið er á móti hópum eftir samkomulagi yfir vetrartímann. Skoða má gagnvirka orkusýningu í Búrfellsstöð og einnig er boðið upp á reglulegar skoðunarferðir um Kárahnjúkasvæðið, kynningu á vindmyllum o.fl. Fjölsóttasta stöð Landsvirkjunar er Kröflustöð þar sem tekið er á móti um tíu þúsund gestum á ári. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar. Sýningin Orkuverið Jörð HS Orka tekur á móti hópum í virkjunum sínum samkvæmt samkomulagi en í Reykjanesvirkjun starfrækir fyrirtækið sýninguna Orkuverið Jörð, sem opin er um helgar yfir sumarmánuðina, eða eftir samkomulagi. Sjá nánar á vef HS Orku. Fleiri virkjanir má nefna, t.d. hina 100 ára gömlu Fjarðarselsvirkjun þar sem RARIK starfrækir minjasafn og tekið er á móti hópum. Loks taka Orkubú Vestfjarða, Orkusalan, Fallorka, Norðurorka o.fl. gjarnan á móti hópum og ferðafólki samkvæmt samkomulagi hverju sinni, ýmist í sínum höfuðstöðvum eða virkjunum.