Af raforku og „stóriðjustefnu“

Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Davíð Þorláksson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, skrifar grein í Morgunblaðið 7. maí þar sem hann hvetur hægrimenn til að hætta svokallaðri stóriðjustefnu. Hér er ekki ætlunin að svara fyrir hönd annarra hægrimanna. Hins vegar er rétt að benda á ákveðin atriði varðandi raforkuverð og svokallaða stóriðjustefnu.

Ábyrgðargjald til eigenda
Davíð segir hið opinbera sjá stóriðjunni fyrir ódýrri orku sem hann rekur til opinberra ábyrgða á lánsfjármögnun orkufyrirtækja. Þær skili lágum fjármagnskostnaði sem aftur skili sér svo í lægra orkuverði til stóriðjunnar. Nú er það hins vegar svo að samkvæmt lögum nr. 144/2010 og lögum nr. 21/2011 greiða Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun ábyrgðargjald af þeim lánaskuldbindingum sem ábyrgð eigenda er á, gjald sem svarar að fullu til þeirrar ívilnunar sem fyrirtækin eru talin (af óháðum aðilum) njóta á grunni ábyrgða eigenda. Þriðja fyrirtækið sem selur raforku til stóriðju, HS Orka hf., er í eigu einkaaðila og nýtur engra opinberra ábyrgða á sínum lánasamningum. Ekki þarf því að óttast að orkufyrirtæki séu að bjóða lágt orkuverð á þessum grundvelli.

Tækifæri með sæstreng
Hins vegar er það rétt að stóriðjufyrirtæki hafa (líkt og allir aðrir) getað nálgast samkeppnishæf verð fyrir raforku hér á landi, enda landið lítill og einangraður raforkumarkaður. Sú staða gæti reyndar breyst með lagningu sæstrengs til Evrópu sem nú er til ítarlegrar skoðunar. Með tilkomu slíkrar tengingar væri hægt að afla mun hærri orkuverða en núverandi markaðsaðstæður bjóða upp á.  Þannig vekur athygli að Norðmenn telja sín tækifæri af sölu endurnýjanlegrar orku jafn verðmæt og af sölu á olíu. Hérlendis er orkugetan í endurnýjanlegri orku þreföld á hvern íbúa miðað við Noreg og því ljóst að Íslendingar búa að gríðarlegum tækifærum á þessu sviði.

Íslensk orkufyrirtæki halda ekki uppi því sem oft er nefnt stóriðjustefna. Það er ekkert markmið orkufyrirtækja að hér sé ráðist í tilteknar tegundir fjárfestinga í atvinnulífinu. Framleiðendur raforku vilja einfaldlega hámarka arðsemi og verðmætasköpun af sölu endurnýjanlegrar orku, að sjálfsögðu að uppfylltum öllum skilyrðum um umhverfiskröfur og leyfisveitingar. Fjölmargir aðrir hafa hins vegar kallað eftir aukinni fjárfestingu í íslensku atvinnulífi, en hún mun vera í lágmarki þessi árin. Samningar um kaup á miklu magni af raforku eru oft nauðsynleg forsenda slíkra fjárfestinga, en hagsmunir orkuframleiðenda snúast í þessu samhengi einfaldlega um arðsemi umræddra orkusölusamninga.