10. mars 2021 Berglind Rán kjörin formaður Samorku Berglind Ólafsdóttir er nýr formaður Samorku. Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar, var í dag kjörin formaður Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja. Hún er fyrsta konan sem gegnir embætti formanns Samorku í sögu samtakanna. Berglind tekur við af Helga Jóhannessyni, forstjóra Norðurorku, sem gegnt hefur stöðunni síðustu fimm ár. Helgi var kjörinn aðalmaður í stjórn til næstu tveggja ára ásamt þeim Sigurði Þór Haraldssyni, veitustjóra hjá Selfossveitum, og Tómasi Má Sigurðssyni, forstjóra HS Orku. Í stjórn sitja jafnframt áfram þau Gestur Pétursson, forstjóri Veitna, Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets og Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar. Þá var Helga Jóhanna Oddsdóttir sviðsstjóri hjá HS Veitum kjörin varamaður í stjórn Samorku í fyrsta sinn. Þau Arndís Ósk Ólafsdóttir, forstöðumaður hjá Veitum, Elías Jónatansson, orkubússtjóri hjá Orkubúi Vestfjarða, Gunnar Hrafn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar sitja áfram sem varamenn í stjórn. Stjórn Samorku, að loknum aðalfundi 2021, skipa: Aðalmenn: Berglind Rán Ólafsdóttir, formaður stjórnar, Orku náttúrunnar Gestur Pétursson, Veitum Guðmundur Ingi Ásmundsson, Landsneti Helgi Jóhannesson, Norðurorku, Kristín Linda Árnadóttir, Landsvirkjun Sigurður Þór Haraldsson, Selfossveitum Tómas Már Sigurðsson, HS Orku Varamenn: Arndís Ósk Ólafsdóttir, Veitum Elías Jónatansson, Orkubúi Vestfjarða Gunnar Hrafn Gunnarsson, Orkuveitu Húsavíkur Helga Jóhanna Oddsdóttir, HS Veitum Hörður Arnarson, Landsvirkjun
1. mars 2021 Ásbjörg og Jóna í yfirstjórn Landsvirkjunar Tveir nýir framkvæmdastjórar hafa verið ráðnir til starfa hjá Landsvirkjun, þær Ásbjörg Kristinsdóttir og Jóna Bjarnadóttir. Ásbjörg verður framkvæmdastjóri á sviði framkvæmda. Hún hefur starfað hjá Landsvirkjun með hléum frá árinu 2002, undanfarin ár sem forstöðumaður á framkvæmdasviði. Ásbjörg stýrði byggingu Búrfellsstöðvar II, fyrst kvenna á Íslandi til að stýra slíku verkefni. Hún er með doktorspróf í verkfræði og stjórnun frá MIT. Jóna verður framkvæmdastjóri nýs sviðs samfélags- og umhverfis. Jóna hóf störf hjá Landsvirkjun árið 2014 en hefur frá árinu 2017 veitt deild umhverfis og auðlinda forstöðu. Hún er með meistaragráðu í umhverfisstjórnun og stefnumótun frá háskólanum í Lundi. Jóna hefur mikla reynslu af umhverfismálum og samvinnu við hagaðila. Um leið og Ásbjörg og Jóna taka við framkvæmdastjórastöðum sínum verða ýmsar aðrar breytingar á skipulagi Landsvirkjunar. Þannig hefur Einar Mathiesen, sem áður stýrði orkusviði fyrirtækisins tekið við nýju sviði vinds og jarðvarma. Jafnframt hefur Gunnar Guðni Tómasson tekið við sem framkvæmdastjóri nýs sviðs vatnsafls, en hann stýrði áður framkvæmdasviði. Eftir þessar breytingar eiga 8 framkvæmdastjórar sæti í framkvæmdastjórn Landsvirkjunar og eru kynjahlutföll nú jöfn, í fyrsta skipti í tæplega 56 ára sögu fyrirtækisins.
1. mars 2021 Ráðin forstöðukona Framtíðarsýnar og reksturs Guðbjörg Sæunn Friðriksdóttirforstöðumaður framtíðarsýnar og reksturs í vinnurými Veitna að Bæjarhálsi Guðbjörg Sæunn Friðriksdóttir hefur verið ráðin forstöðukona Framtíðarsýnar og reksturs hjá Veitum. Hún útskrifaðist með BS próf í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010 og með M.Sc próf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2012. Að námi loknu hóf Guðbjörg störf á framleiðslusviði Össurar, fyrst sem ferilseigandi á CNC renniverkstæðinu þar til hún tók við öryggis- og umbótasviði framleiðslu og síðar starfaði hún sem framleiðslustjóri silikondeildar. Guðbjörg Sæunn var ráðin forstöðumaður fráveitu Veitna árið 2019 en tekur nú við nýju sviði í breyttu skipulagi fyrirtækisins. Framtíðarsýn og rekstri er ætlað að stuðla að framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini Veitna með stöðugum umbótum auk þess að leiða vegferð fyrirtækisins í átt að frekari skilvirkni í fjárfestingum og rekstrarkostnaði. Undir sviðið heyra svæðisfulltrúar, verkefnastjórar, fageftirlit, hönnun, vöruþjónusta, gagnagreining, stefnumótun og umhverfis- og skipulagsmál.
18. febrúar 2021 Grænn hagvöxtur Vel heppnuð endurreisn íslensks efnahagslífs að heimsfaraldri COVID-19 afstöðnum er eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar. Störfum hefur fækkað verulega en skráð atvinnuleysi nam tæpum 11% í desember sl. Afkoma þjóðarinnar er verulega háð útflutningstekjum og því er fjölgun atvinnutækifæra óhjákvæmilega háð vexti og afkomu útflutningsfyrirtækja. Undir núverandi kringumstæðum er því nauðsynlegt að huga að umhverfi atvinnulífsins í því skyni að hlúa að útflutningsframleiðslu. Reynslan kennir okkur að með þeim hætti er unnt að skapa fyrirtækjum forsendur til skapa ný og fjölbreytt störf sem eru vel launuð. Það er m.ö.o. tímabært að stuðla að gjaldeyrissköpun og byggja upp samkeppnishæfni innlendra fyrirtækja. Að heimsfaraldrinum frátöldum blasa við fleiri áskoranir sem einnig geta talist til tækifæra. Það færist í aukana að mengun og losun koltvísýrings hafi kostnað í för með sér í rekstri fyrirtækja, t.d. vegna reglubyrði, skatta og annarrar verðlagningar. Stærsta sjáanlega tækifæri íslenskra fyrirtækja felst því óhjákvæmilega í uppbyggingu á grænum grunni þar sem áhersla er lögð á atvinnustarfsemi byggða á grænum fjárfestingum. Á það við um fjárfestingar einkaaðila, hins opinbera og fyrirtækja í þess eigu. Með því að leggja rækt við að draga úr mengun og losun batnar nýting orku og auðlinda. Slík viðleitni kallar á mannvit og skapar þannig atvinnutækifæri. Með reynslunni eykst hæfni manna og fyrirtækja sem aftur bætir samkeppnisstöðu þeirra. Í því ljósi verður að teljast hyggilegt að stefnumótun beinist að tækifærum til grænnar atvinnusköpunar í öllum atvinnugreinum. Nýsköpun og þróun tæknilausna draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og lágmarka kolefnisspor fyrirtækja. Hagur allra batnar. Með tímanum hefur orkuframleiðsla orðið æ mikilvægari þáttur. Orka leikur lykilhlutverk í samfélagi nútímans og hagvöxtur er samofinn beislun og nýtingu hennar. Í alþjóðlegum samanburði er sérstaða Íslands mikil þegar kemur að hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa í frumorkunotkun. Þökk sé því að hér á landi eru rafmagnið og heita vatnið af endurnýjanlegum uppruna. Þegar framangreint hlutfall árið 2019 er skoðað kemur í ljósi að á Íslandi nam það 85% en einvörðungu 19,7% í Evrópu og 26,6% í heiminum öllum. Íslendingar hafa náð eftirtektarverðum árangri við útskipti jarðefnaeldsneytis fyrir hreina orkugjafa. Við erum því í einstakri stöðu til að ganga lengra með því að auka nýtingu innlendra, hagkvæmra og hreinna orkugjafa í samgöngum. Ef við höldum rétt á spilunum getum við Íslendingar raunverulega orðið fyrirmynd annarra þjóða og slík ásýnd eykur ein og sér seljanleika innlendra vara og þjónustu. Stjórnvöld í gjörvöllum heiminum leggja áherslu á orkuskipti og gera ráð fyrir að orkuskipti muni fyrr en varir ná til allra samgangna, á landi, á sjó og í lofti. Á þessum tímapunkti virðist sýnt að framleiðsla á svonefndu rafeldsneyti, orkugjöfum eða orkuberum, muni gegna lykilhlutverki. Eru þá ótalin önnur tækifæri svo sem framleiðsla á orkugeymslum, grænmeti og öðrum matvælum, þörungum o.fl. sem mun kalla á framboð sjálfbærrar og grænnar orku. Við eygjum tækifæri til útflutnings á bæði orkuþekkingu og orku í formi rafeldsneytis. Fari svo sem horfir gæti hér sprottið upp nýr og spennandi iðnaður sem mundi grundvallast á öflugri atvinnusköpun, nýsköpun, gjaldeyrissparnaði og ávinningi í loftslagsmálum. Á Norðurlöndunum er gert ráð fyrir að grænn vöxtur muni auka eftirspurn eftir raforku. Í Danmörku er áætlað að eftirspurnin muni tvöfaldast til ársins 2030, aukast um 35% í Noregi til ársins 2050, um þriðjung til ársins 2045 í Svíþjóð og um tæp 60% í Finnlandi til 2050. Samkvæmt sviðsmyndum raforkuspár 2020–2060 þarf að auka orkuframleiðslu til að mæta þörfum samfélagsins hér á landi. Sviðsmyndin „græn framtíð“ gerir ráð fyrir að orkuþörfin aukist um 37% en allt að 69% samkvæmt sviðsmyndinni „aukin stórnotkun“ 2019–2060. Raforkukerfið er því forsenda efnahagslegra framfara. Ætla má að framtíðarnotendur verði virkir þátttakendur í orkuskiptum og þar með örlagavaldar þegar kemur að markmiðum í loftslagsmálum. Fjórða iðnbyltingin verður fyrst og fremst raforkudrifin, þar sem gagnaver, snjallvæðing og gervigreind munu leika lykilhlutverkin. Í þessu samhengi er því mikilvægt að horfa til framtíðar, leggja áherslu á orkuskipti og fullnýta þau tækifæri sem Íslandi standa til boða. Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur Samorku. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 18. febrúar 2021 og hana má finna á vb.is.
1. febrúar 2021 Opnað á umsóknir um styrki til fráveituframkvæmda Ný fráveita Norðurorku á Akureyri Samorka vekur athygli á því að opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki til fráveituframkvæmda. Styrkfjárhæð nemur að jafnaði 20% af staðfestum heildarkostnaði styrkhæfrar fráveituframkvæmdar. Styrkfjárhæð skal þó aldrei verða hærri en 30% af heildarkostnaði og að jafnaði aldrei lægri en 15%. Umsóknum skal fylgja verk- og tímaáætlun fyrir þá áfanga framkvæmdar sem sótt er um styrk fyrir og uppfærðar upplýsingar um framkvæmdina og kostnað frá samþykktri áætlun eftir því sem við á, auk afrita af greiddum reikningum eftir atvikum. Umsóknarfrestur vegna styrkjanna er til 31. mars 2021. Skila skal inn umsóknum á rafrænu formi á eyðublaðavef Stjórnarráðsins. Sjá nánari upplýsingar um skilyrði fyrir styrki í auglýsingu á vef Stjórnarráðsins.
1. febrúar 2021 Tilnefningar óskast til Nýsköpunarverðlauna Samorku Samorka óskar eftir tilnefningum til Nýsköpunarverðlauna Samorku, sem afhent verða á ársfundi samtakanna 10. mars. Nýsköpun hefur ávallt verið stór hluti af orku- og veitugeiranum á Íslandi og hefur ný þekking og framsýni lagt grunninn að lífsgæðum í landinu og verðmætasköpun. Á ársfundi Samorku verður fjallað um þessa grósku í fortíð, nútíð og framtíð. Samorka ætlar að verðlauna framúrskarandi nýsköpunarfyrirtæki á ársfundinum. Við leitum að nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem byggja á: Tæknilausnum fyrir orku- og veitugeirann eða þjónustu við orku- og veitufyrirtæki Nýtingu orku, heits vatns, neysluvatns eða fráveitu og/eða annarra auðlindastrauma til nýsköpunar Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum mun velja úr þeim tilnefningum sem berast. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf. Óskað er eftir að greinargerð sé skilað að hámarki tvær A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar. Orku- og veitufyrirtækin í landinu standa að Nýsköpunarverðlaununum og verða því ekki á meðal verðlaunahafa. Tilnefningar sendist á samorka@samorka.is fyrir 24. febrúar. Farið verður með tilnefningarnar sem trúnaðarmál.
Græn endurreisn Samorka býður til fundar um græna endurreisn miðvikudaginn 3. febrúar kl. 13. Hugtakið græn endurreisn hefur verið notað um viðspyrnu efnahagslífsins eftir COVID-19 heimsfaraldurinn. En hvað felst í þessu hugtaki? Hvað þarf til að ná grænni endurreisn? Hver eru helstu tækifærin og hverjar eru áskoranirnar? Fundurinn er byggður upp á stutttum erindum, viðtalsbrotum við fólk í atvinnulífinu og pallborðsumræðum. Dagskrá: Einkenni kórónukreppunnar – Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA Lykillinn að grænni endurreisn – Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku Pallborðsumræður: Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar. Á fundinum koma einnig fram (í formi viðtalsbrota): Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskóla Íslands Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins Sigurður Markússon, nýsköpunarstjóri hjá Landsvirkjun Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku Fundarstjóri: Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku Fundinum verður streymt:
27. janúar 2021 Nýir forstöðumenn hjá Veitum Hrefna Hallgrímsdóttir, forstöðumaður hitaveitu. Hrefna Hallgrímsdóttir er nýr forstöðumaður hitaveitu hjá Veitum og Diljá Rudolfsdóttir er nýr forstöðumaður snjallvæðingar. Hrefna tekur við stóru búi en Veitur reka þrettán hitaveitur sem þjóna um 65% íslensku þjóðarinnar. Fimm hitaveitnanna eru á Vesturlandi, sjö á Suðurlandi og sú langstærsta er á höfuðborgarsvæðinu. Heita vatnið í hana er fengið frá virkjunum systurfélagsins Orku náttúrunnar á Hellisheiði og Nesjavöllum og úr borholum Veitna á lághitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ. Hrefna útskrifaðist með B.Sc í vélaverkfræði frá Háskóla Reykjavíkur árið 2013 og hefur starfað hjá Elkem Ísland síðustu 12 ár sem framkvæmdastjóri og leiðtogi. Diljá Rudólfsdóttir, forstöðukona snjallvæðingar og stafrænnar þróunar. Diljá mun vinna að gerð hermilíkana af veitukerfum sem nýta má til að gera rekstur þeirra hagkvæmari og öruggari og tengja þau nýju snjallmælakerfi sem Veitur munu taka í notkun á næstu árum. Einnig mun hún leggja áherslu á notkun gervigreindar og snjallvæðingar í þjónustu við viðskiptavini Veitna. Diljá útskrifaðist með B.Sc. gráðu í gervigreind (Artificial Intelligence) frá Háskólanum í Edinborg árið 2013. Hún hefur síðan unnið við stafræna innleiðingu og snjallvæðingu hjá fjármálafyrirtækjum og bönkum í Skotlandi, m.a. hjá lífeyrissjóðnum Standard Life, Tesco Bank og Fortune 500 fyrirtækinu FIS sem býður upp á margvíslegar fjármála- og hugbúnaðarlausnir og þjónustu.
Menntadagur atvinnulífsins 2021 Menntadagur atvinnulífsins fer fram 4. febrúar 2021 en þetta er í áttunda sinn sem dagurinn er haldinn. Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins. Á menntadeginum fer fjölbreytt og skemmtileg dagskrá fram með rafrænum hætti. Meðal innslaga í þættinum eru: Greiningar- og nýsköpunarhæfni Finnur Oddsson, forstjóri Haga Virkni í námi og námsaðgerðum Ingvi Hrannar, kennari og frumkvöðull Lausnamiðuð nálgun Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka Gagnrýnin hugsun og greining Kristín Friðgeirsdótir, alþjóðlegur stjórnendaráðgjafi Sköpun, frumleiki og frumkvæði Dóra Jóhannsdóttir, leikkona Forysta og félagsleg áhrif Tryggvi Þorgeirsson, stofnandi og eigandi Sidekick Health Tækninotkun, eftirlit og stjórn Anna María Pálsdóttir, Marel – framkvæmdastjóri nýsköpunar og þróunar Tæknihönnun og forritun Ægir Már Þórisson Advania, forstjóri Advania Seigla, streituþol og sveigjanleiki Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra Rökhugsun, lausn vandamála og hugmyndafræði Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Eyris Vaxtar hjá Eyri Venture Management. Menntatorg atvinnulífsins verður á sínum stað undir stjórn Söru Daggar Svanhildardóttur, verkefnastjóra mennta- og fræðslumála SVÞ og líflegar umræður um menntamál Íslendinga í víðu samhengi setja svip sinn á þáttinn. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA stýrir þætti. Það verður forvitnilegt að sjá hvaða fyrirtæki bætast í hóp þeirra fyrirtækja sem hafa hlotið menntaverðlaun atvinnulífsins til þessa. Orkuveita Reykjavíkur er menntafyrirtæki ársins 2020 og Samkaup menntasproti ársins 2020. Skráning er hafin á vef Samtaka atvinnulífsins.
20. janúar 2021 Laki Power fær 335 milljóna króna styrk frá ESB Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Laki Power, sem þróar og framleiðir tæki til þess að fylgjast með ástandi háspennulína, hefur hlotið 2,1 milljóna evra styrk, jafnvirði um 335 milljóna króna, frá Evrópusambandinu til að þróa tæknina áfram og efla sölu- og markaðsstarf á erlendum mörkuðum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, afhenti Óskari H. Valtýssyni, stofnanda Laka Power, nýlega stuðningsbréf frá íslenskum stjórnvöldum sem auðveldar sókn á erlenda markaði. Styrkurinn er hluti af sérstökum stuðningi Evrópusambandsins við nýsköpun þar sem markmiðið er að styrkja þau fyrirtæki sem eiga mesta möguleika á að vaxa á alþjóðlegum mörkuðum. Laki Power er eitt af 38 fyrirtækjum í Evrópu sem hljóta styrkinn eftir strangt matsferli, en alls bárust yfir 4,200 umsókn¬ir og hafa þær aldrei verið fleiri. Laki Power var stofnað árið 2015 til að þróa uppfinningu Óskars H. Valtýssonar á tæknibúnaði sem er hengdur upp á háspennulínur og fylgist nákvæmlega með ástandi þeirra. Tæknin gerir fyrirtækjum sem annast flutning og dreifingu raforku kleift að hafa nákvæmt eftirlit með ísingu, eldi og umferð fólks við línurnar í rauntíma. Úrvinnsla gagnanna fer fram í skýjalausnum sem Laki Power hefur hannað og mun nú leggja áherslu á að þróa enn frekar með tilkomu styrksins. Óskar H. Valtýsson, stofnandi Laki Power, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra nýsköpunarmála í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnu- og nýsköpunarráðherra: „Tæknin sem Laki Power hefur þróað er gott dæmi um þá krafta sem hægt er að leysa úr læðingi með góðu umhverfi og stuðningi við nýsköpun hér á landi. Nýsköpun skiptir gríðarlega miklu máli fyrir atvinnusköpun framtíðar og þar eru grænar lausnir og sjálfbærni ofarlega á blaði. Það verður mjög spennandi að fylgjast með sókn fyrirtækisins inn á alþjóðlega markaði um leið og til verða eftirsótt störf hér á landi.“ Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Laka Power: „Þessi styrkveiting er mikil viðurkenning á starfi Laka Power undanfarin sex ár og á þeim sóknartækifærum sem fyrirtækið stendur nú frammi fyrir. Innan við eitt prósent fyrirtækja sem sækja um styrkinn fá hann þannig að við erum komin í hóp mest spennandi nýsköpunarfyrirtækja Evrópu. Styrkurinn mun hjálpa okkur að sækja fram á erlendum mörkuðum og við að ráða inn fleira starfsfólk á sviði hugbúnaðar, rafbúnaðar og framleiðslu til að sækja enn hraðar fram á mörkuðum um al lan heim.“