Elko menntafyrirtæki ársins og Bara tala menntasproti ársins

Menntaverðlaun atvinnulífsins eru veitt fyrirtækjum sem skara fram úr í fræðslu- og menntamálum. Elko var útnefnt Menntafyrirtæki ársins og Bara tala hlaut Menntasprotann 2024. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór í Hörpu í gær, miðvikudaginn 14. febrúar.

ELKO uppfyllir öll viðmið menntaverðlauna atvinnulífsins með skipulagðri og markvissri fræðslu innan fyrirtækisins þar sem þátttaka starfsfólks er góð enda hvatning til frekari þekkingaröflunar til staðar. Elko sýnir með fræðsluáætlun, skýrum mælikvörðum og mælingum að árangur fræðslustarfsins er mikill og góður.

Ljóst er að stefnumiðuð og markviss vinna í fræðslumálum starfsfólks hefur lagt grunn að mjög góðum árangri í þeirri vegferð fyrirtækisins að auka ánægju starfsfólks og fylgja stefnunni eftir um ánægðustu viðskiptavinina. Þá er eftirtektarvert að fyrirtækið hefur einnig stutt við viðskiptavini sína og sitt ytra umhverfi þegar kemur að menntun og fræðslu, til dæmis með foreldrafræðslu um raftækjanotkun barna.

Bara tala hlaut Menntasprotann árið 2024.

Bara tala er íslenskur menntasproti sem hóf starfsemi sína árið 2023. Bara tala nýtir sér gervigreind og íslenska máltækni til að veita fyrirtækjum og stofnunum stafrænt og gagnvirkt íslenskunám fyrir erlent starfsfólk sitt. Boðið er upp á grunnnámskeið í íslensku fyrir vinnustaði, en einnig er boðið upp á starfstengt íslenskunám sem er þróað í góðu samstarfi við fyrirtækin og er þannig sérsniðið að atvinnulífinu.

Með Bara tala gefst fyrirtækjum tækifæri til að þjálfa starfsfólkið sitt í íslensku með áherslu á orðaforða og setningar sem notast er við á vinnustöðum. Hjá Bara tala er áhersla lögð á hljóð, myndefni og talmál og eykur þar með orðarforða, hlustunarfærni og þjálfar aðfluttra í að tala íslensku.

Í dag hefur fjöldi atvinnurekenda innleitt Bara tala fyrir erlenda starfsfólkið sitt en alls hafa yfir 20 stór fyrirtæki innleitt Bara tala, sjö sveitarfélög og Vinnumálastofnun veitir einnig erlendu fólki í atvinnuleit aðgang að lausninni. Nú síðast gerði Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fimm ára samning við Bara tala um að þróa og innleiða stafræna íslenskukennslu fyrir allt fólk í heilbrigðis-, félags- og umönnunargreinum. Á innan við einu ári hefur Bara tala gjörbylt íslenskukennslu fyrir erlent starfsfólk og ljóst er að lausnin Bara tala er komin til að vera.

Yfirskrift menntadagsins að þessu sinni var Göngum í takt: Er menntakerfið að halda í við þarfir atvinnulífsins? og hér má horfa á fundinn á upptöku: https://vimeo.com/912263935?share=copy