Menntadagur atvinnulífsins 2024

Menntadagur atvinnulífsins 2024 verður haldinn í Hörpu miðvikudaginn 14. febrúar nk. kl. 09:00 – 10:30. Yfirskrift menntadagsins í ár er Göngum í takt: Er menntakerfið að halda í við þarfir atvinnulífsins?

Á fundinum kynnum við uppfærðar niðurstöður könnunar Gallup á eftirspurn eftir vinnuafli þvert á atvinnugreinar í því augnamiði að skilgreina nauðsynlegar aðgerðir svo vinnuaflsskortur hamli ekki vexti í atvinnulífinu. Rödd atvinnulífsins fær að heyrast sem fyrr og ráðherrar málaflokksins mæta í umræður þar sem menntakerfið er krufið með tilliti til færniþarfar á vinnumarkaði.

Þá eru hin árlegu menntaverðlaun atvinnulífsins veitt í tveimur flokkum af Forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni.

Menntadagur atvinnulífsins er árlegur viðburður og samstarfsverkefni Samorku , Samtaka ferðaþjónustunnar , Samtaka fjármálafyrirtækja , Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi , Samtaka iðnaðarins , Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

Skráningar er óskað á fundinn og það er gert á heimasíðu SA.