Mikil aukning á blautklútum í fráveitukerfinu

Gríðarlegt magn af rusli berst nú í hreinsistöðvar fráveitu Veitna í Klettagörðum og í Ánanaustum, samkvæmt tilkynningu frá Veitum. Magn blautklúta, sem hent er í salerni, hafi aukist margfalt undanfarna daga og skapar það mikið álag á allan búnað hreinsistöðva og starfsfólk. Mikil vinna og kostnaður felst í því að hreinsa dælur og farga ruslinu og þegar álag er mikið aukast líkur á bilunum í búnaði með tilheyrandi afleiðingum.

Við hvetjum fólk til að nota ekki klósettin sem ruslafötur. Blautklútar, hvort sem þeir eru notaðir á andlit og líkama eða til þrifa og sótthreinsunar, eiga heima í ruslinu.

Fráveitan er málið

Grein eftir Pál Erland, framkvæmdastjóra Samorku.

Fráveitan er málið
Fráveitumál eru eitt mikilvægasta umhverfismálið og snýr bæði að lýðheilsu og góðri umgengni við náttúruna. Á undanförnum áratugum hafa sveitarfélög og veitufyrirtæki í þeirra eigu lyft grettistaki í að bæta fráveitukerfi og fjölga skólphreinsistöðvum víða um land. Á árunum 1992-2005 fór hlutfall landsmanna sem búa við skólphreinsun úr 6% í 68%. Árið 2018 var hlutfallið komið í 79%, þegar uppbyggingu skólphreinsunar lauk á Akranesi og í Borgarnesi og hefur hlutfallið haldist nær óbreytt síðan.

Þrátt fyrir úrbætur síðustu ára þarf enn gera betur í fráveitumálum víða. Í skýrslu Samtaka iðnaðarins um stöðu innviða í landinu, sem kom út í október 2017, kom fram að fjárfestinga væri hvað sárast þörf í fráveitu og vegakerfi. Bæta þurfi ástand fráveitulagna, koma upp skólphreinsun og styrkja kerfin til að draga úr flóðahættu. Þetta kosti á bilinu 50-80 milljarða. Þar af kostar aukin skólphreinsun til samræmis við núgildandi reglur um 20 milljarða.

Stórar framkvæmdir í fráveitum eru þung fjárhagsleg byrði fyrir sveitarfélög og er það steinn í götu þess að allir landsmenn búi við góða fráveitu. Samorka hefur bent á að skoða þurfi aðkomu ríkisins að kostnaði við fráveituframkvæmdir, til dæmis með því að taka upp að nýju endurgreiðslu virðisaukaskatts við slíkar framkvæmdir. Mikið hefur áunnist á síðustu áratugum í uppbyggingu fráveitna og urðu framfarir mestar á þeim tíma sem slíkt endurgreiðslukerfi var í gildi, frá árinu 1995 til 2008.

Á Alþingi hefur nú verið lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt til þess að styðja við úrbætur í þessum mikilvæga málaflokki. Einnig er starfshópur ráðuneyta umhverfis-, fjármála-, og sveitarstjórnarmála að skoða mögulegar leiðir til frekari stuðnings við fráveituframkvæmdir. Samorka hvetur alþingismenn til að styðja við hið nýja frumvarp og aðrar aðgerðir sem stuðla að uppbyggingu hreinsimannvirkja og úrbótum í fráveitumálum um allt land. Verkefnið er brýnt og snýst um að koma hlutfallinu úr 79% í 100% – í þágu umhverfisins og allra landsmanna.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. nóvember 2019.

Hvers virði er góð salernisaðstaða?

Alþjóðlegi klósettdagurinn er í dag, 19. nóvember.

Fjórir og hálfur milljarður manna í heiminum í dag hefur ekki aðgengi að salerni sem tengt er öruggu fráveitukerfi og hátt í 700 þúsund manns þurfa að gera þarfir sínar utandyra á degi hverjum. Afleiðingin er meðal annars sú að um tveir milljarðar jarðarbúa nýta drykkjarvatnsuppsprettur sem eru mengaðar af saur og hátt í hálf milljón manna deyr árlega vegna niðurgangspesta.

Sameinuðu þjóðirnar halda alþjóðlegan dag klósettsins hátíðalegan á hverju ári og vilja þar með minna á þær úrbætur sem þarf til í þessum málaflokki. Sjálfbærnimarkmið þeirra miða meðal annars að því að allir geti búið við viðunandi hreinlæti  og að ómeðhöndlað skólp verði minnkað um helming.

Góð fráveita bjargar mannslífum, veitir fólki reisn og veitir betri tækifæri til að rífa sig upp úr sárri fátækt.

Nánari upplýsingar um alþjóðlega klósettdaginn má finna á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna.

Veitur hafa einnig minnt á daginn í dag, til dæmis með því að minna á að klósettið er ekki ruslafata.

Hvað er fráveita?

Fráveitan veitir mikilvæga þjónustu sem enginn getur verið án en fæstir leiða hugann að í amstri dagsins. Fráveitan flytur frárennsli heimila og fyrirtækja, regnvatn frá götum og lóðum, og í sumum hverfum bakrás hitaveitu í sjó með viðkomu í hreinsistöð. Hreinsunarferli skólpsins skapar náttúrunni sjálfri skilyrði til að taka við næringarríku skólpinu og farga því án þess að skaða vistkerfið. Það sýna ítarlegar rannsóknir á Faxaflóa meðal annars; að losunin hefur lítil sem engin áhrif á gæði sjávar.

Samorka styður frumvarp um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna fráveituframkvæmda

Á aðalfundi Samorku þann 6. mars 2019 var eftirfarandi ályktun um fráveitumál samþykkt:

Samorka hvetur til þess að ríkið stuðli að uppbyggingu hreinsimannvirkja og úrbótum í fráveitumálum þar sem þörf er á með því að taka upp endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna fráveituframkvæmda. Mikið hefur áunnist á síðustu áratugum í uppbyggingu fráveitna og urðu framfarir mestar á þeim tíma sem slíkt endurgreiðslukerfi var í gildi.

Fráveitumál eru eitt mikilvægasta umhverfismál samtímans. Á undanförnum áratugum hefur grettistaki verið lyft í að fjölga skólphreinsistöðvum um land allt. Á árunum 1992-2005 fór hlutfall landsmanna sem skólp er hreinsað hjá úr 6% í 68%. Árið 2017 var hlutfallið komið í 77%.

Gera má enn betur í fráveitumálum um land allt. Í skýrslu Samtaka iðnaðarins um stöðu innviða í landinu, sem kom út í október 2017, kom fram að fjárfestinga væri hvað sárast þörf í fráveitu og vegakerfi. Bæta þyrfti ástand lagnakerfanna, klára að hreinsa skólp og að styrkja þurfi kerfið til að draga úr flóðahættu. Þetta kosti á bilinu 50-80 milljarða. Þar af kostar aukin skólphreinsun um 20 milljarða.

Stórar framkvæmdir eru þung fjárhagsleg byrði fyrir sveitarfélög, sér í lagi þau sem eru lítil og meðalstór og er þar með steinn í götu þess að allir landsmenn búi við góða fráveitu. Það ætti því að skoða frekari aðkomu ríkisins að kostnaði við fráveituframkvæmdir, til dæmis með endurgreiðslu virðisaukaskatts.

Á Alþingi hefur verið lagt frumvarp til laga um breytingu á lögum virðisaukaskatt (171. mál). Í frumvarpinu kemur fram að það „felur í sér að sveitarfélög fái framvegis fulla endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna fráveituframkvæmda“. Þá kemur einnig fram að kostnaður ríkisins vegna frumvarpsins sé óverulegur þar sem ólíklegt þyki að sveitarfélögin leggi í fjárfrekar framkvæmdir á þessu sviði án fjárhagslegs stuðnings ríkisins. Samorka hvetur til þess að frumvarp þetta nái fram að ganga.

Óskað eftir erindum á NORDIWA 2019

Óskað er eftir tillögum að erindum fyrir norrænu fráveituráðstefnuna 2019, NORDIWA. Ráðstefnan er stærsti viðburður í fráveitumálum á Norðurlöndum og að þessu sinni haldin í Helsinki í Finnlandi dagana 23. – 25. september 2019. Á ráðstefnunni koma saman helstu sérfræðingar Norðurlandanna í fráveitumálum; framkvæmdastjórar, framkvæmdaaðilar, skipulagssérfræðingar, rannsakendur, verkfræðingar, ráðgjafar og fleiri sem áhuga og þekkingu hafa á málaflokknum og loftslagsmálum á Norðurlöndum.

Skilafrestur fyrir tillögur að erindi er til 23. janúar 2019. Nánari upplýsingar eru að finna á heimasíðu ráðstefnunnar.

Samorka hvetur alla áhugasama um fráveitumál og áskoranir fráveitna vegna loftslagsbreytinga að senda inn erindi.

Lægsta hlutfall neysluútgjalda til orku- og veituþjónustu á Íslandi

Orku- og veituþjónusta, eða heitt vatn, kalt vatn, rafmagn og fráveita, þykir nauðsynleg þjónusta á hverju heimili. Afar mismunandi er hversu mikið þarf að greiða fyrir þessa þjónustu í nágrannalöndum Íslands og hversu hátt hlutfall það er af neysluútgjöldum.

Íslensk heimili greiða langlægsta hlutfall neysluútgjalda á Norðurlöndunum fyrir orku- og veituþjónustu. Heimili í Danmörku greiðir rúmlega þrefalt hærra hlutfall en hér á landi.

Sé miðað við gögn frá stærstu veitufyrirtækjum í höfuðborgum Norðurlandanna og útgjaldarannsókn, sem framkvæmd er af hagstofum Norðurlandanna, kemur fram að 3.75% neysluútgjalda meðalheimilis í Reykjavík er varið í orku- og veituþjónustu. Hlutfallið er hins vegar 12% fyrir heimili í Kaupmannahöfn og er hæst þar af Norðurlöndunum. Heimili í Stokkhólmi þarf að greiða svipað hlutfall og í Kaupmannahöfn, eða tæp 11%. Í Osló, þar sem hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum er næstlægst, greiðir meðalheimilið um 7% og í Helsinki er hlutfallið tæplega 9%.

 

Í Reykjavík er hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum heimila lægst í öllum flokkum; fyrir rafmagn, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu.

 

Heildarkostnað meðalheimilis fyrir orku- og veituþjónustu í höfuðborgum Norðurlandanna má sjá hér fyrir neðan.

Lokaáfanganum náð í skólphreinsun á höfuðborgarsvæðinu

Nýja stöðin var tekin í notkun fimmtudaginn 23. nóvember 2017.

Ný hreinsistöð skólps á Kjalarnesi hefur tekin í notkun. Þar með er allt þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu tengt við hreinsistöðva og því risavaxna verkefni, sem uppbyggingarátak fráveitu höfuðborgarinnar hefur verið frá árinu 1995, er lokið. Hreinsun strandlengjunnar í kjölfarið hefur verið nefnd stærsta skref í umhverfishreinsun sem stigið hefur verið hér á landi.

Hönnun hreinsistöðvarinnar á Kjalarnesi hófst 2006 og var smíði hennar boðin út í áföngum 2007 og 2008. Á árunum 2008-2010 voru mannvirkin byggð, dælubrunnar settir niður og megnið af lagnavinnu klárað. Hrunið og slæm fjárhagsleg staða Orkuveitu Reykjavíkur á þessum tíma varð svo til þess að framkvæmdum var frestað. Þær hófust svo aftur með lagningu sjólagnar árið 2015. Stöðin þjónar íbúum Grundahverfis þar sem búa á sjötta hundrað manns.

Hreinsistöðin hreinsar öll gróf efni úr skólpinu auk þess að sía frá sand og fitu. Skólpinu er því næst dælt um kílómetra út í sjó.

Veitur buðu Kjalnesingum og öðrum Reykvíkingum að skoða nýju stöðina þegar hún var tekin í notkun og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, ávarpaði gesti ásamt Ingu Dóru Hrólfsdóttur, framkvæmdastjóra Veitna.

Borgarstjóri óskaði Kjalnesingum til hamingju með nýju hreinsistöðina

Inga Dóra kynnir nýju trektina frá Veitum, sem ætlað er að auðvelda fólki að safna og endurvinna olíu frá matargerð í stað þess að hella henni í fráveituna

 

Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri fráveitu hjá Veitum

 

 

 

 

Stórt stökk framundan í fráveitumálum

Fundurinn var vel sóttur

Skólp verður hreinsað hjá 90% landsmanna eftir fimm ár nái þær framkvæmdir sem áætlaðar eru fram að ganga. Í dag er hlutfallið 77%. Á þessu ári bætast hátt í 10.000 landsmenn í þann hóp að búa við skólphreinsun þegar nýjar hreinsistöðvar í Borgarnesi, á Akranesi og á Kjalarnesi verða teknar í notkun. Þetta kom fram í nýrri greiningu EFLU um framtíðarhorfur í fráveitumálum og kynnt var á opnum fundi Samorku, Hlúum að fráveitunni, sem haldinn var í tilefni af alþjóðlegum degi klósettsins.

 

Reynir Sævarsson, fagstjóri vatns- og fráveitna hjá EFLU, kynnir greiningu sína á fundinum

Reynir Sævarsson, fagstjóri vatns- og fráveitna hjá verkfræðistofunni EFLU rýndi í nýlega skýrslu Samtaka iðnaðarins um stöðu innviða í landinu þar sem kom fram að fjárfestinga væri sárast þörf í fráveitu og vegakerfi. Reynir segir þurfa að bæta ástand lagnakerfanna, klára að hreinsa skólp, hreinsa meira ofanvatn og að styrkja þurfi kerfið til að draga úr flóðahættu. Þetta kosti á bilinu 50-80 milljarða, þar af kosti skólphreinsunin um 20 milljarða.

Á næstu fimm árum er fyrirséð að fjárfest verði í skólphreinsistöðvum fyrir um fimm milljarða og mun það hífa hlutfall landsmanna sem tengdir eru slíkum stöðvum úr 77% í 90%. Síðustu 10% séu alltaf erfiðust að mati Reynis, en þar eru um að ræða minnstu byggðir landsins og rotþrær við sumarhús.

 

 

Helgi Jóhannesson ásamt Jóhönnu B. Hansen fundarstjóra

Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku, kallaði eftir því að staða og sjálfstæði fráveitna yrði tryggð, þannig að fjármunir sem ætlaðir væru fráveitumálum færu raunverulega í uppbyggingu og rekstur fráveitna hjá sveitarfélögum. Helgi sagði kostnað við framkvæmdir mikinn og fráveitugjöld nái oft á tíðum ekki upp í þann kostnað nema að litlum hluta, þar sem þau miðast við fasteignamat sem oft á tíðum er lágt í litlum bæjarfélögum. Það ætti einnig að skoða frekari aðkomu ríkisins að kostnaði við fráveituframkvæmdir, til dæmis með endurgreiðslu virðisaukaskatts.

 

Þá fjallaði Íris Þórarinsdóttir um fjölbreytt viðfangsefni fráveitu í nútímasamfélagi og martröðina í pípunum; blautþurrkur og önnur efni eða hluti sem fólk setur í klósettið í stað ruslatunnunnar. Nefndi hún til dæmis efni, sem hafa endilega áhrif á kerfin hjá fráveitunum heldur á viðtakann svo sem lyf og fíkniefni.

Einnig fjallaði Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, um það grettistak sem lyft hefur verið í fráveitumálum hér á landi undanfarna áratugi. Á árunum 1992-2005 fór hlutfall landsmanna sem tengdir eru skólphreinistöð úr 6% í 68% og nú árið 2017 er hlutfallið orðið 77%. Gríðarlegt rask fylgi slíkum framkvæmdum sem standi yfir mánuðum saman þannig að ekki mætti gleyma þessu mikla átaki sem ráðist var í þrátt fyrir að gera mætti enn betur eins og staðan er í dag.

Hér má sjá fyrirlestrana í heild sinni:

Grettistaki lyft í fráveitumálum síðustu áratugi

Undanfarna áratugi hefur verið lyft grettistaki í fráveitumálum hér á landi. Fyrir 25 árum, árið 1992, voru eingöngu 6% landsmanna tengd skólphreinsistöð en á því næsta verður hlutfallið 84%, miðað við áætlanir.

Upplýsingarnar sem fram koma í úttekt Umhverfisstofnunar um ástand skólphreinsimála og fjallað var um í hádegisfréttum RÚV 11. september 2017 sýna vissulega að betur hefði mátt standa að þessum málum á árunum 2010-2014. En um leið vill Samorka benda á að umrætt tímabil er óheppilegt til sérstakrar úttektar. Þessi ár voru sveitarfélögum erfið í kjölfar efnahagshrunsins og ekki mikið svigrúm til framkvæmda. Stuðningur frá ríkinu, sem samþykkt hafði verið að veita í þessar framkvæmdir, féllu niður og hafa ekki verið settir aftur á. Frá 2014 hafa framkvæmdir farið aftur af stað sem munu breyta skólphreinsimálum til hins betra. Má þar nefna hönnun og útboð nýrrar hreinsistöðvar á Akureyri og framundan eru stórar framkvæmdir í pípunum, sem mun hækka hlutfall landsmanna sem tengdir eru við skólphreinsistöð allverulega.

Á Íslandi gilda ströngustu kröfur í Evrópu um losun skólps í sjó og hafa ítarlegar rannsóknir á viðtaka fyrir fráveitu í Reykjavík sýnt að losun hefur hverfandi áhrif á lífríkið.

Fráveitumál eru eitt stærsta umhverfismál samtímans og er verkefninu ekki lokið þó að því miði vel áfram. Til að uppbygging skólphreinsikerfis geti haldið áfram eins og áætlað er, er mikilvægt að lög og reglugerðir fyrir fráveitu verði ekki íþyngjandi fyrir sveitarfélögin í landinu.

Samorka tekur undir með Umhverfisstofnun að hreint vatn er ein mikilvægasta auðlind Íslendinga og fagnar allri umræðu um að bera skuli virðingu fyrir henni. Allir þurfa að ganga vel um fráveitukerfin og muna að klósettið er ekki ruslafata – ýtum ekki undir kostnaðarsamar og óþarfa aðgerðir í skólphreinsun.

Norræna fráveituráðstefnan 2017: Kallað eftir erindum

NORDIWA 2017

NORDIWA, norræna fráveituráðstefnan, verður haldin í Árhúsum í Danmörku dagana 10.-12. október 2017.

Nú óskar skipulagsnefnd eftir útdráttum úr erindum.

Útdrátturinn má eigi vera lengri en 600 orð á hálfri A4 blaðsíðu og skal vera á ensku. Tekið verður við innsendum útdráttum til og með 6. mars.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna, umfjöllunarefni hennar, hvernig senda skuli inn erindi og önnur praktísk mál má á eftirfarandi PDF skjali: Nordiwa 2017: Call for abstracts (4,1 MB) og einnig á heimasíðu ráðstefnunnar.