Bara piss, kúk og klósettpappír í klósettið!

Á hverju ári koma um 120 tonn af ýmsum óæskilegum úrgangi í hreinsistöðvar Klettagarða og Ánanaust í Reykjavík. Það þýðir að hálft kíló af rusli fer í klósettin eða niðurföll á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu! Þá er óupptalið hvað safnast í fráveitukerfi annars staðar á landinu.

Í dag, 19. nóvember er alþjóðlegur dagur klósettsins, World Toilet Day. Honum er ætlað að vekja athygli á og vinna að sjálfbærnimarkmiði númer 6 hjá Sameinuðu þjóðunum; Hreint vatn og hreinlætisaðstaða.  Í ár er þema dagsins „Sjálfbært hreinlæti og loftslagsbreytingar“.

Á Íslandi er gott aðgengi að klósetti. Hins vegar er úrgangur í fráveitu vandamál um allt land. Hann skaðar lífríkið, þyngir rekstur fráveitukerfa og eykur kostnað sveitarfélaga vegna hreinsunar og förgunar á úrgangi um tugi milljóna króna á ári. Blautþurrkur, sótthreinsiklútar, tannþráður, smokkar, eyrnapinnar, bómullahnoðrar, hár og annar úrgangur á ekki heima í fráveitukerfinu okkar.

Samorka og Umhverfisstofnun hafa í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðiseftirlitin látið gera kynningarefni sem allir geta nýtt sér og deilt áfram að vild. Með jákvæðum og einföldum skilaboðum hvetjum við alla til að setja bara piss, kúk og klósettpappír í klósettin.

Hér má sjá lag með þessum einföldu skilaboðum:

Kynningarefni ásamt nánari upplýsingum um verkefnið má finna á heimasíðunni klosettvinir.is.