Málþing VAFRÍ um fráveitulausnir á viðkvæmum svæðum

Vatns- og fráveitufélag Íslands (VAFRÍ) býður til opins málþings um fráveitulausnir á viðkvæmum svæðum og er áherslan á fráveitumál við Þingvallavatn. Málþingið er haldið í samstarfi við Samorku, Háskóla Íslands, Orkuveitu Reykjavíkur, Umhverfisstofnun, Ferðamálastofu og Þjóðgarðinn á Þingvöllum.

 

Tilgangur málþingsins er að fara yfir stöðu mála og fá fram upplýsingar um hvaða lausnir eru í boði og hafa verið notaðar við svipaðar aðstæður og við Þingvallavatn. Einn reyndasti sérfræðingur Norðmanna á sviði óhefðbundna skólplausna, prófessor Petter D. Jenssen, mun kynna mögulegar lausnir fyrir dreifbýli og viðkvæm svæði, og deila reynslu sinni og nágrannalanda af slíkum lausnum. Einnig verða kynningar um bakgrunnsrannsóknir á Þingvallavatni og nýjar rannsóknir nemenda Háskóla Íslands á óhefðbundnum skólplausnum.

 

Málþingið verður haldið í sal Orkuveitu Reykjavíkur föstudaginn 8. maí 2015 fyrir hádegi. Nánari dagskrá má finna á heimasíðu VAFRÍ

Vatn og sjálfbær þróun

Grein Sigurjóns Norberg Kjærnested í Morgunblaðinu

Þann 22. mars síðastliðinn var Dagur vatnsins haldinn hátíðlegur um heim allan. Dagur vatnsins er árlega tilefni til þess að fagna vatnsauðlindinni, hvetja til góðrar umgengni um hana og sérstaklega hérna á Íslandi, vera þakklát fyrir hversu vel við búum, til dæmis m.t.t neysluvatns, húshitunar og grænnar raforkuvinnslu.

Í ár er þema Dags vatnsins vatn og sjálfbær þróun. Mikilvægi sjálfbærrar nýtingu vatns um heim allan hefur sennilega aldrei verið meira, og á næstu árum og áratugum mun það enn aukast. Hvort sem um er að ræða matvæli, orku, hreinlæti og heilbrigði, efnahagsvöxt og lífsskilyrði almennt, þá er mikilvægi vatnsins gríðarlegt. Í dag er ástandið í heiminum þannig að 748 milljón einstaklinga hafa ekki aðgang að fullnægjandi drykkjarvatni og 2,5 milljarður hefur ekki aðgang að fullnægjandi salernisaðstöðu og eru þetta tölur sem stefna í ranga átt.

Vatnið er notað í svo miklu meira en margir gera sér grein fyrir og með fólksfjölgum og sérlega auknum efnahagsumsvifum eykst notkun á vatni gríðarlega. Sem dæmi má nefna að 10 lítra af vatni þarf til að búa til eitt A4 blað, til að búa til 500 grömm af plasti þarf 91 lítra af vatni og til að framleiða einn smábíl þarf meira vatn en fyllir 50 metra langa sundlaug. Því er spáð að vatnsnotkun í iðnaði í heiminum muni meira en þrefaldast til ársins 2050. Eina leiðin til að svara þessari auknu eftirspurn, er að fara betur með auðlindina, vernda hana og vinna að sjálfbærri nýtingu hennar um heim allan.

Hérna á Íslandi er það hluti af okkar grunnlífsgæðum að við höfum nóg af vatni. Vatnsveitur um land allt veita hreinu og heilnæmu vatni til íbúa landsins – neysluvatni sem er með því allra hreinasta og besta sem fáanlegt er á byggðu bóli. En hvers vegna er ástandið svona gott? Svarið er að íslenskar vatnsveitur leggja gríðarlega vinnu og metnað í að tryggja hreint og heilnæmt neysluvatn. Mikil vandvirk vinna er lögð í skipulag og umsjón vatnsverndar, allt ferlið við flutning vatnsins frá vatnsbóli til neytenda og almennt gæðaumsjón vatnsins. Það er reynsla, þekking og metnaður íslenskra vatnsveitna og starfsmanna þeirra sem tryggir okkur þessi mikilvægu lífsgæði.

Þó að auðlindin sé stór og við fá sem erum að nýta hana, þá er engu að síður ábyrgðarmál að nýta auðlindina skynsamlega og fara vel með hana. Neysla Íslendinga á vatni per einstakling er mun hærri en hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við – t.d meira en 50% hærri en hjá þeirri Norðurlandaþjóð sem næst kemst okkur. Það er því vel tilefni til þess að hvetja Íslendinga bæði til þess að nýta vatnið skynsamlega, og til þess að fara vel með vatnsauðlindina um land allt. 

Ársfundur Norðurorku 2015

Ársfundur Norðurorku hf. verður haldinn í Menningarhúsinu Hofi föstudaginn 27. mars 2015, kl. 15:00. Á fundinum eru tvö meginþemu, vatnsvernd og menntamál og verða mörg áhugaverð erindi flutt á fundinum, t.d mun Sigurjón Kjærnested, framkvæmdastjóri veitusviðs Samorku flytja erindi um nýtt samstarfsverkefni Samorku og Neyðarlínunnar á sviði vatnsverndar. Frekari upplýsingar um fundinn má finna á heimasíðu Norðurorku.

Orkan ódýrust hérlendis

Húshitun er mun ódýrari í Reykjavík en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna. Raforka til heimila sömuleiðis. Kalda vatnið er á svipuðu verði og í Stokkhólmi en mun ódýrara en í hinum norrænu höfuðborgunum og fráveituþjónustan er næst ódýrust í Reykjavík, á eftir Stokkhólmi. Þetta kemur fram í gögnum sem Orkuveita Reykjavíkur hefur tekið saman. Heilt yfir er orku- og veitukostnaður viðmiðunarheimilis lang lægstur í Reykjavík, eða innan við 20 þúsund krónur á mánuði, á meðan kostnaðurinn í höfuðborgum hinna Norðurlandanna er á bilinu 45 til 62 þúsund krónur á mánuði. Sjá nánar hér á vef Orkuveitu Reykjavíkur.

Dagur vatnsins 2015 – Vatn og sjálfbær þróun

Þann 22. mars er Dagur vatnsins haldinn hátíðlegur um allan heim. Dagur vatnsins er árlega tilefni til þess að fagna vatnsauðlindinni, hvetja til góðrar umgengni um hana og sérstaklega hérna á Íslandi, vera þakklát fyrir hversu vel við búum. Þema dagsins í ár er vatn og sjálfbær þróun og vill Samorka að því tilefni koma á framfæri hvatningu til góðrar umgengni um vatnsauðlindina og skynsamlegrar nýtingar á henni. Frekari umfjöllun um Dag vatnsins má finna á heimasíðu samtakanna sem árlega skipuleggja Dag vatnsins: United Nations Water.

Við vekjum einnig athygli á áhugaverðum fróðleik um kalda vatnið hér á heimasíðu Samorku og á heimasíðu Orkuveitu Reykjavikur þar sem verður á næstu dögum sérstaklega beint sjónum að kalda vatninu.

Erindi af vorfundi Jarðhitafélags Íslands

Vorfundur Jarðhitafélags Íslands var haldinn þann 19. mars síðastliðinn í húsakynnum Landsvirkjunar. Fundurinn, sem var haldinn í beinu framhaldi af aðalfundi félagsins, var vel sóttur en þegar mest var voru yfir 50 manns á fundinum. Þema fundarins var: „Erindi Íslendinga á WGC 2015“. Erindi fyrirlesara má finna á heimasíðu JHFÍ.

Vindmyllur með mjög góða nýtingu

Nýting vindmyllanna fyrir ofan Búrfell var afar góð á fyrsta heila rekstrarári þeirra, raunar með því allra hæsta í heiminum, eða 44%. Á heimsvísu er meðaltalið um 28%.Tvö svæði hafa verið til frekari skoðunar af hálfu Landsvirkjunar fyrir mögulega framtíðaruppbyggingu á sviði vindorku: Þjórsár- og Tungnaársvæðið og einnig virkjanasvæði Blöndustöðvar. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.

Vísindadagur Orkuveitu Reykjavíkur og Orku Náttúrunnar 20. mars

Árlegur Vísindadagur Orkuveitu Reykjavíkur og Orku náttúrunnar verður haldinn föstudaginn 20. mars næstkomandi. Í ár hefst vísindadagurinn á sólmyrkva! Ráðstefnugestum verður boðið út á svalir á höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur við Bæjarháls og boðið að rýna í gegnum til þess gerð gleraugu á sólmyrkvann áður en gengið verður til dagskrár. Þar verður boðið upp á kynningu á 14 vísindaverkefnum, sem unnin hafa verið af fyrirtækjunum tveimur eða í samstarfi við þau. Skráningar er óskað og stendur hún yfir á vef Orkuveitu Reykjavíkur.