7. apríl 2015 Vatn og sjálfbær þróun Grein Sigurjóns Norberg Kjærnested í Morgunblaðinu Þann 22. mars síðastliðinn var Dagur vatnsins haldinn hátíðlegur um heim allan. Dagur vatnsins er árlega tilefni til þess að fagna vatnsauðlindinni, hvetja til góðrar umgengni um hana og sérstaklega hérna á Íslandi, vera þakklát fyrir hversu vel við búum, til dæmis m.t.t neysluvatns, húshitunar og grænnar raforkuvinnslu. Í ár er þema Dags vatnsins vatn og sjálfbær þróun. Mikilvægi sjálfbærrar nýtingu vatns um heim allan hefur sennilega aldrei verið meira, og á næstu árum og áratugum mun það enn aukast. Hvort sem um er að ræða matvæli, orku, hreinlæti og heilbrigði, efnahagsvöxt og lífsskilyrði almennt, þá er mikilvægi vatnsins gríðarlegt. Í dag er ástandið í heiminum þannig að 748 milljón einstaklinga hafa ekki aðgang að fullnægjandi drykkjarvatni og 2,5 milljarður hefur ekki aðgang að fullnægjandi salernisaðstöðu og eru þetta tölur sem stefna í ranga átt. Vatnið er notað í svo miklu meira en margir gera sér grein fyrir og með fólksfjölgum og sérlega auknum efnahagsumsvifum eykst notkun á vatni gríðarlega. Sem dæmi má nefna að 10 lítra af vatni þarf til að búa til eitt A4 blað, til að búa til 500 grömm af plasti þarf 91 lítra af vatni og til að framleiða einn smábíl þarf meira vatn en fyllir 50 metra langa sundlaug. Því er spáð að vatnsnotkun í iðnaði í heiminum muni meira en þrefaldast til ársins 2050. Eina leiðin til að svara þessari auknu eftirspurn, er að fara betur með auðlindina, vernda hana og vinna að sjálfbærri nýtingu hennar um heim allan. Hérna á Íslandi er það hluti af okkar grunnlífsgæðum að við höfum nóg af vatni. Vatnsveitur um land allt veita hreinu og heilnæmu vatni til íbúa landsins – neysluvatni sem er með því allra hreinasta og besta sem fáanlegt er á byggðu bóli. En hvers vegna er ástandið svona gott? Svarið er að íslenskar vatnsveitur leggja gríðarlega vinnu og metnað í að tryggja hreint og heilnæmt neysluvatn. Mikil vandvirk vinna er lögð í skipulag og umsjón vatnsverndar, allt ferlið við flutning vatnsins frá vatnsbóli til neytenda og almennt gæðaumsjón vatnsins. Það er reynsla, þekking og metnaður íslenskra vatnsveitna og starfsmanna þeirra sem tryggir okkur þessi mikilvægu lífsgæði. Þó að auðlindin sé stór og við fá sem erum að nýta hana, þá er engu að síður ábyrgðarmál að nýta auðlindina skynsamlega og fara vel með hana. Neysla Íslendinga á vatni per einstakling er mun hærri en hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við – t.d meira en 50% hærri en hjá þeirri Norðurlandaþjóð sem næst kemst okkur. Það er því vel tilefni til þess að hvetja Íslendinga bæði til þess að nýta vatnið skynsamlega, og til þess að fara vel með vatnsauðlindina um land allt.