Hátíðarkveðja og opnunartímar

Samorka óskar öllum gleðilegrar jólahátíðar með þökkum fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.

Skrifstofa Samorku er að mestu leyti opin á milli jóla og nýárs, en best er að hafa samband við starfsfólk með tölvupósti eða síma.

Opnað fyrir pantanir á básum á Fagþingi 2024

Fagþing raforku verður haldið á Hótel Örk í Hveragerði dagana 23. – 24. maí. Fyrirtækjum gefst kostur á að taka þátt í vöru- og þjónustusýningu þingsins á þar til gerðum sýningarsvæðum.

Á fagþinginu kemur starfsfólk aðildarfyrirtækja Samorku saman og má gera ráð fyrir að þar verði forstjórar fyrirtækja í raforkumálum, framkvæmdastjórar, millistjórnendur, starfsfólk í framkvæmdum, innkaupastjórar og almennt starfsfólk. Aðsókn á fagþing Samorku farið vaxandi ár frá ári enda hafa þau fest sig í sessi sem hápunktur fræðslu- og þekkingarmiðlunar fyrir aðildarfyrirtæki Samorku. Við gerum ráð fyrir á þriðja hundrað gestum á þingið. Bás á vöru- og þjónustusýningu er því gott tækifæri til að kynna sig.

Þá stendur þeim fyrirtækjum sem eru með bás til boða að vera með stuttan fyrirlestur eða kynningu í þar til gerðri málstofu. Þetta hefur gefist vel og verið vel sótt.

Allar nánari upplýsingar um sýninguna gefur Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku. Best er að senda fyrirspurnir á lovisa@samorka.is.

Landsvirkjun er umhverfisfyrirtæki ársins

Landsvirkjun var í dag útnefnt Umhverfisfyrirtæki ársins þegar Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru kynnt í dag. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin. Carbon Recycling International hlaut verðlaun fyrir framtak ársins á sviði umhverfismála. 

Landsvirkjun fer með umsjón mikilvægra náttúruauðlinda landsins og gerir það á ábyrgan og auðmjúkan hátt. Lögð er áhersla á að þekkja umhverfisáhrif starfseminnar, draga úr þeim og koma í veg fyrir frávik. 

Fyrirtækið hefur verið með vottað umhverfisstjórnunarkerfi í hátt í 20 ár og hefur sýnt framsýni og forystu þegar kemur að útgáfu og birtingu umhverfisupplýsinga og aðgerða. Lögð er áhersla á að hámarka verðmæti þeirra auðlinda sem fyrirtækinu er falið með sjálfbærni og hagkvæmni að leiðarljósi. Þannig hefur fyrirtækið markvisst innleitt sjálfbæra nýtingu í starfsemi sína, hámarkað nýtni og dregið úr úrgangi og losun tengdri starfsemi sinni. 

Fyrirtækið tekur hlutverk sitt og áhrif í samfélaginu alvarlega og gengur lengra en lög og reglur segja til um þegar kemur að áhrifum frá starfsemi fyrirtækisins. Landsvirkjun leggur áherslu á að styðja við alla virðiskeðju sína í loftslags vegferðinni. Fyrirtækið horfir út fyrir starfsemi sína þegar kemur að samdrætti í samfélagslosun og þeim áhrifum sem Landsvirkjun getur haft á heildarlosun Íslands. Fyrirtækið fékk fyrst íslenskra fyrirtækja hæstu einkunn fyrir stýringu eigin loftslagsáhrifa frá alþjóðlegu samtökunum CDP. 

Landsvirkjun hefur sett sér markmið um nettó kolefnishlutleysi árið 2025 og var með fyrstu fyrirtækjum landsins að kynna markmið sín opinberlega. Fyrirtækið vinnur markvisst að því að draga úr kolefniskræfni raforkuvinnslu sinnar með metnaðarfullri aðgerðaráætlun og skýrum, tölulegum og tímasettum markmiðum sem eru aðgengileg öllum. 

Þar að auki hefur Landsvirkjun nýtt sér framúrskarandi árangur í umhverfismálum til fjármögnunar með útgáfu grænna skuldabréfa fyrst íslenskra fyrirtækja. Því frumkvæði var tekið eftir, bæði erlendis og hérlendis og hafa mörg íslensk fyrirtæki fylgt í spor Landsvirkjunar með slíkum útgáfum. 

Fyrirtækið er í forystu í loftslags- og umhverfismálum og má með sanni segja að aðgerðir og vinnubrögð endurspegli þann metnað og önnur fyrirtæki geti tekið sér Landsvirkjun til fyrirmyndar. Landsvirkjun ber því vel titilinn umhverfisfyrirtæki ársins 2023. 

Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun, þakkaði verðlaunin og þá viðurkenningu sem í þeim fælist fyrir umfangsmikið starf Landsvirkjunar í umhverfis- og loftslagsmálum. „Í umhverfismálum þurfum við öll að vinna saman enda er ávinningurinn okkar allra og komandi kynslóða,“ sagði Jóna. 

Verðlaunamyndbandið sem sýnt var á Umhverfisdegi atvinnulífsins 2023 er Guðni Th. Jóhannesson veitti Landsvirkjun verðlaunin.

CRI hlaut Umhverfisframtak ársins

Carbon Recycling International (CRI) hefur síðastliðin 15 ár skapað sér sérstöðu sem frumkvöðull við hagnýtingu á koltvísýringi á heimsvísu. Emissions-to-liquid (ETL) tækni félagsins umbreytir koltvísýringi og vetni í metanól sem nýta má sem rafeldsneyti eða sem hráefni í efnavinnslu og hefur mun minni umhverfisáhrif en hefðbundið jarðefnaeldsneyti. 

Carbon Recycling International gangsetti nýlega nýja efnaverksmiðju í Kína sem hefur þann möguleika að endurnýta 150.000 tonn af koltvísýring á ári. Íslenskt hugvit og verkfræðileg hönnun CRI mun stuðla að einni bestu orkunýtni í þessari tegund iðnaðarframleiðslu og framleiða um 100.000 tonn af sjálfbæru metanóli á ári. 

Framleiðslutæknin var þróuð og sannreynd í verksmiðju félagsins í Svartsengi. Félagið var þá fyrsta fyrirtækið í heiminum til að framleiða og selja vottað rafeldsneyti. Þrautseigja og framsýni Carbon Recycling International hefur skilað áhrifum út fyrir landsteina og framtak þeirra mun leggja til í baráttu á heimsvísu við samdrátt í losun koltvísýrings. 

Verðlaunamyndbandið sem sýnt var á Umhverfisdegi atvinnulífsins 2023 er Guðni Th. Jóhannesson veitti CRI verðlaunin.

Það er ljóst á þeim fjölda tilnefninga sem bárust inn til umhverfisverðlauna Samtaka atvinnulífsins að umhverfis- og loftslagsmál eru sífellt að verða stærri hluti af daglegum rekstri og ákvarðanatöku fyrirtækja á Íslandi. Fjölmargar umsóknir bárust og fjöldi fyrirtækja vinna ötult starf á þessu sviði.  

Í dómnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sitja Sandra Rán Ásgrímsdóttir, formaður, Elma Sif Einarsdóttir og Reynir Smári Atlason. 

Umhverfisdagur atvinnulífsins í beinni

Umhverfisdagur atvinnulífsins er haldinn hátíðlegur í Hörpu í dag kl. 13:00-15:00 undir yfirskriftinni Á rauðu ljósi?

Hér má fylgjast með streymi af viðburðinum:

Dagurinn í ár er tileinkaður Loftslagsvegvísum atvinnulífsins sem afhentir voru Guðlaugi Þór Þórðarsyni umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra á vormánuðum. Þar komu fram 332 tillögur að aðgerðum sem eiga að stuðla að auknum samdrætti í losun atvinnugreinanna. Fróðlegar umræður og margmiðlunarefni fylla dagskrá sem lýkur með hinum árlegu Umhverfisverðlaunum atvinnulífsins sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhendir.

Dagurinn er sameiginlegt verkefni SA, SAF, Samorku, SFF, SFS, SI og SVÞ.

Bretta þarf upp ermar til að ná settum markmiðum – Guðlaugur Þór Þórðarson

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segir stjórnmálin hafa brugðist í grænorkumálum og sofið hafi verið á verðinum í gegnum tíðina. Staðan í orkuöryggi þjóðarinnar sé alvarlegri en fólk átti sig á. Þó sé ekki öll nótt úti enn, en bretta þurfi upp ermar til að ná settum markmiðum í loftslagsmálum. Ísland hafi alla burði til að verða mekka græns hugvits.

Guðlaugur Þór og Lovísa Árnadóttir fara yfir víðan völl í orkumálunum í þessum þætti.

Þátturinn var tekinn upp 9. nóvember, degi áður en Grindavík var rýmd vegna yfirvofandi eldgosahættu.

Verndum mikilvæga innviði

Einstakir atburðir eiga sér nú stað á Reykjanesi. Skjálftavirkni og yfirvofandi hætta á eldgosi hafa lamað hluta byggðar og hugur allra Íslendinga er með Grindvíkingum sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Í námunda við mestu jarðhræringarnar eru orku- og veituinnviðir sem þjóna lykilhlutverki á Reykjanesskaganum öllum.

Orkuverið í Svartsengi sér nálægt 30.000 manns á Reykjanesskaga fyrir lífsnauðsynjum og lífsgæðum. Það hefur þjónað byggðinni á Suðurnesjum í áratugi og byggst upp samhliða vexti á svæðinu. Í orkuverinu er framleidd raforka, heitt og kalt vatn og dreifikerfi HS Veitna og Grindavíkurbæjar kemur þessu til endanotenda. Þá eru á Suðurnesjum aðrir samfélagslega mikilvægir innviðir s.s. línur og strengir til flutnings raforku auk lagna sem flytja heitt vatn. Starfsfólk allra þeirra fyrirtækja sem reka þessa innviði hefur, líkt og aðrir viðbragðsaðilar í stjórnkerfinu, unnið mikið starf og sýnt aðdáunarverða elju í að mæta þeim áskorunum sem uppi eru.

Komi til alvarlegrar röskunar á starfsemi orkuversins í Svartsengi, hvað þá varanlegs tjóns, verða áhrifin ekki bundin við Grindavík heldur Reykjanesskagann allan. Rofni vatns- eða hitaveita, tímabundið eða varanlega, er ljóst að áhrifin verða mikil á heimili fólks og starfsemi fyrirtækja á öllum Suðurnesjum. Sama gildir ef verulegt tjón verður á flutningsmannvirkjum raforku.

Verkefni stjórnvalda gerast ekki mikið umfangsmeiri og mikilvægt er að stjórnmálamenn hefji sig yfir dægurþras og forgangsraði með hliðsjón af þeim miklu sameiginlegu hagsmunum sem nú er stefnt í hættu.

Samorka fagnar skjótum viðbrögðum stjórnvalda við þeirri vá sem nú steðjar að byggð og innviðum á Reykjanesi með því að leggja fram frumvarp til laga um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesi. Markmið frumvarpsins er að verja mikilvæga innviði og aðra almannahagsmuni á Reykjanesskaga fyrir hugsanlegum eldsumbrotum.

Með frumvarpinu er ráðherra sem fer með málefni almannavarna, við tiltekin skilyrði, veitt heimild til að heimila fyrirbyggjandi aðgerðir gegn áhrifum eldsumbrota. Slík heimild verður vitaskuld alltaf byggð á besta mati færustu vísindamanna í náttúruvísindum og sérfræðinga sem geta metið hvað raunhæft er að reyna til að sporna gegn náttúruöflunum.  Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að ákvæði í sérlögum um framkvæmdir víki við slíkar aðstæður.

Eins og fram kemur í frumvarpinu er það frumskylda ríkisvaldsins að vernda mikilvæga innviði samfélagsins og aðra almannahagsmuni fyrir tjóni af völdum náttúruvár.

Tryggja þarf heimildir svo unnt sé að hefja framkvæmdir til að fyrirbyggja, afstýra eða draga úr tjóni á mikilvægum innviðum áður en það kann að reynast of seint. Er þar sérsaklega vísað til orkuversins í Svartsengi og eftir atvikum dreifi- og flutningslagna á því svæði sem nú steðjar hætta að. Samorka styður áform um að frumvarp til laga um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga verði að lögum svo skjótt sem verða má.

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. nóvember 2023.

Útflutningsbanni íslenskra upprunaábyrgða aflétt

AIB (Association of Issuing Bodies) hefur úrskurðað að Ísland uppfylli allar kröfur upprunaábyrgðarkerfis þess og verður ekki gripið til frekar ráðstafana gagnvart Landsneti eða íslenskum upprunaábyrgðum. Óvissu um sölu íslenskra upprunaábyrgða er því aflétt án fyrirvara. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem birt er á heimasíðu AIB.

AIB stöðvaði í lok apríl á þessu ári sölu á íslenskum upprunaábyrgðum vegna gruns um tvítalningu (double counting) þeirra hér á landi. Banninu var aflétt skömmu síðar með fyrirvara um úrbótaáætlun Landsnets og Orkustofnunar á upprunaábyrgðakerfinu. Eftir ítarlega gagnaöflun og greiningarvinnu er niðurstaðan sú að Ísland uppfylli allar kröfur og er málinu því lokið.

Á heimasíðu Stjórnarráðsins er vitnað í Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, þar sem hann segir niðurstöðu AIB alls ekki koma á óvart, enda í samræmi við niðurstöður Orkustofnunar og hinnar þýsku stofnunar UBA.

„Það eru gríðarlega mikilvægt að það sé búið að aflétta þessari óvissu gagnvart okkar innlendu fyrirtækjum og viðskiptavinum þeirra, innlendra sem erlendra. Það er ljóst, það sem við vissum vel að það var aldrei brotalöm í löggjöf eða framfylgd þeirra hér á landi sem er að fullu leyti í samræmi við reglur annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Því kom bannið á sínum tíma mjög á óvart og að okkar mati óþarflega harkalegt inngrip byggt á veikum grunni eins og niðurstaðan leiðir bersýnilega í ljós.“

Frumskógur leyfisveitinga

Að fá leyfi til virkjanaframkvæmda er langt og strangt ferli. Eins og staðan er í dag tekur það að lágmarki um 12 ár en dæmi eru um mun lengri tíma. Að margra mati er hægt að stytta ferlið talsvert og gera það skilvirkara án þess að slá af gæðakröfum. Það sé hreinlega nauðsynlegt nú þegar við hlaupum í kappi við tímann til að standast þær skuldbindingar sem við höfum gengist undir í loftslagsmálum.

Ásbjörn Blöndal, framkvæmdastjóri þróunar- og auðlindasviðs hjá HS Orku og Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun eru viðmælendur þáttarins. Þau fara yfir þennan frumskóg leyfisveitinga dagsins í dag og ræða hvernig gera mætti betur.

Orku- og veitufyrirtæki fá viðurkenningu Jafvægisvogarinnar

HS Orka, Landsvirkjun, Norðurorka, Orkusalan, Orkuveita Reykjavíkur og Veitur hlutu öll viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis Félags kvenna í atvinnulífinu, í gær. Viðurkenninguna hljóta þau fyrirtæki, sveitarfélög og opinberir aðilar sem náð hafa að jafna kynjahlutföll í framkvæmdastjórnum.

Alls fengu 89 fyrirtæki, sveitarfélög og opinberir aðilar viðurkenninguna í ár sem er metfjöldi. Lista yfir alla viðurkenningarhafa má finna á heimasíðu FKA.

Að Jafnvægisvoginni standa, auk FKA, forsætisráðuneytið, Creditinfo, Deloitte, Pipar\TBWA, RÚV, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá. Tilgangur verkefnisins er meðal annars að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja a.m.k. 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi og að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir.