Orku- og veitufyrirtæki fá viðurkenningu Jafvægisvogarinnar

HS Orka, Landsvirkjun, Norðurorka, Orkusalan, Orkuveita Reykjavíkur og Veitur hlutu öll viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis Félags kvenna í atvinnulífinu, í gær. Viðurkenninguna hljóta þau fyrirtæki, sveitarfélög og opinberir aðilar sem náð hafa að jafna kynjahlutföll í framkvæmdastjórnum.

Alls fengu 89 fyrirtæki, sveitarfélög og opinberir aðilar viðurkenninguna í ár sem er metfjöldi. Lista yfir alla viðurkenningarhafa má finna á heimasíðu FKA.

Að Jafnvægisvoginni standa, auk FKA, forsætisráðuneytið, Creditinfo, Deloitte, Pipar\TBWA, RÚV, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá. Tilgangur verkefnisins er meðal annars að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja a.m.k. 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi og að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir.