Nýjar víddir jarðvarmans á haustfundi JHFÍ

Haustfundur JHFÍ verður haldinn fimmtudaginn 13. október næstkomandi, frá 15:00-16:30. Fundurinn verður haldinn hjá Orkuveitu Reykjavíkur, að Bæjarhálsi 1, 110 Reykjavík.

Þema fundarins er „Nýjar víddir jarðvarmans“ og kaffi og meðlæti er í boði OR.

Dagskrá:

15:00 – 15:05
Setning fundarins Kristín Vala Matthíasdóttir, formaður Jarðhitafélags Íslands

15:05 – 15:10
Úthlutun á styrk JHFÍ

15:10 – 15:15
Ávarp fundarstjóra Fulltrúi frá Konum í Orkumálum

15:15 – 15:30
Vistferilsgreining á rafmagni og heitu vatni frá Hellisheiðarvirkjun Marta Rós Karlsdóttir, forstöðumaður auðlinda, Orku Náttúrunnar

15:30 – 15:45
CarbFix verkefnið: Kolefnisbinding á jarðhitasvæðum Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir, doktorsnemi í jarðefnafræði, Háskóla Íslands

15:45 – 15:55
Uppfærsla á þrívíðu hugmyndalíkani af jarðhitasvæðinu í Kröflu Unnur Þorsteinsdóttir, jarðfræðingur, ÍSOR

15:55 – 16:05
Efnisval og prófanir á húðunarefnum fyrir Jarðhitahverfla Helen Ósk Haraldsdóttir, meistaranemi, Háskóla Íslands

16:05 – 16:20
Role of multidisciplinary geothermal exploration for drilling, monitoring and modelling Maryam Khodayar, jarðfræðingur, ÍSOR

16:20 – 16:30
Lokaorð fundarstjóra og fundarslit

Norræna vatnsveituráðstefnan í Hörpu

Helgi Jóhannesson, stjórnarformaður Samorku, setur Norrænu vatnsveituráðstefnuna í Hörpu
Helgi Jóhannesson, stjórnarformaður Samorku, setur Norrænu vatnsveituráðstefnuna í Hörpu

Fátt er mikilvægara en aðgengi að heilnæmu og góðu vatni. Til þess þarf góðar vatnsveitur, reglubundnar rannsóknir og framþróun.

Norræna vatnsveituráðstefnan, sú tíunda í röðinni, hófst í Hörpu í Reykjavík í dag, miðvikudaginn 28. september. Þar koma saman helstu vísindamenn og sérfræðingar Norðurlandanna í drykkjarvatni. Um 300 manns taka þátt í ráðstefnunni og flutt verða hátt í 100 erindi um helstu viðfangsefni vatnsveitna á Norðurlöndum.

Helgi Jóhannesson, stjórnarformaður Samorku og framkvæmdastjóri Norðurorku, setti ráðstefnuna og bauð gesti velkomna. Þá ávarpaði Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fundargesti. Hann ræddi mikilvægi drykkjarvatns og hversu mikilvægt hreint vatn er ímynd Íslands.

Aðalfyrirlesarar dagsins eru María Jóna Gunnarsdóttir frá Háskóla Íslands og Mia Bondelind hjá Chalmers Tekniske Högskola í Gautaborg í Svíþjóð.

María Jóna fjallaði um það sem huga þarf að hjá litlum vatnsveitum á Norðurlöndum (þ.m.t. á Íslandi), sem lúta oft öðrum eftirlitsreglum en þær stærri vegna þess að þær eru oft til einkanota eða þjónusta lítið landsvæði. Hins vegar sjá þær nú í auknum mæli töluvert stærri fjölda fólks fyrir vatni vegna fleiri ferðamanna. Fylgjast þurfi betur með þessu, því flest frávik sem mælast í drykkjarvatni á Norðurlöndum koma frá litlum vatnsveitum. Litlar vatnsveitur þjónusta um þrjár milljónir íbúa á Norðurlöndum.

María Jóna Gunnarsdóttir flytur erindi sitt um litlar vatnsveitur á Norðurlöndum.
María Jóna Gunnarsdóttir flytur erindi sitt um litlar vatnsveitur á Norðurlöndum.

María Jóna telur nauðsynlegt að skylda litlar vatnsveitur til að gangast undir reglubundið eftirlit og taka upp innra eftirlit, til að ganga úr skugga um að vatnið sem þær veita sé heilnæmt.

Mia Bondelind fjallaði um traust fólks á vatnsveitum, áhættumat almennings þegar kemur að drykkjarvatni og almennt um viðhorf til drykkjarvatns, þar sem Norðurlandabúar taki hreinu drykkjarvatni almennt sem sjálfsögðum hlut.

Mia Bondelind flytur erindi sitt um viðhorf til drykkjarvatns
Mia Bondelind flytur erindi sitt um viðhorf til drykkjarvatns

Bondelind sagði mikilvægt að almenningur hafi góðan aðgang að upplýsingum og að vatnsveitur leggi sig fram við að veita þær, bæði þegar allt gengur eðlilega fyrir sig og ef eitthvað fer úrskeiðis.

Norræna vatnsveituráðstefnan er haldin annað hvert ár og nú í tíunda sinn. Ráðstefnunni lýkur á föstudag. Nánari upplýsingar um dagskrá og almennar upplýsingar um ráðstefnuna má finna á heimasíðu hennar.

Ísland önnur umhverfisvænsta þjóð heims

Ísland er önnur umhverfisvænsta þjóð heimsins samkvæmt nýrri umhverfisvísitölu Yale háskólans í Bandaríkjunum. Þessi skemmtilega staðreynd þarf ekki endilega að koma á óvart því staða Íslands er mjög sterk í alþjóðasamhengi vegna gnægðar vistvænnar orku hér á landi.

Hlutfall endurnýjanlegrar orku við rafmagnsframleiðslu og húshitun er ríflega 99% á Íslandi og vegur þyngst í að skila Íslandi svo ofarlega á lista. Einnig er hlutfall útblásturs gróðurhúsalofttegunda vegna bruna jarðefnaeldsneytis við raforku- og varmaframleiðslu 0%. Í öðrum löndum Evrópu nær þessi tala allt að 80%.

Finnland kemur best út samkvæmt vísitölunni og Danmörk og Svíþjóð koma fast á hæla Íslandi.

 

 

Þorsteinn Þorsteinsson hjá Markaðsrýni vakti nýlega athygli á þessa nýju vísitölu Yale, Yale‘s Environmental Performance Index (EPI).

Þótt að vísitalan sýni hversu framarlega Ísland er þegar kemur að loftslagsmálum, þá má ná enn betri árangri. Eins og staðan er í dag er hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum lágt í samanburði við önnur lönd, eða 3,3%, en rafbílum fer þó hratt fjölgandi. Þarna liggja langstærstu tækifæri Íslands í loftlagsmálum; Að skipta um orkugjafa í bíla- og skipaflota landsins og minnka þannig útblástur gróðurhúsalofttegunda allverulega.

Hægt er að skoða skýrslu Yale í heild sinni á vefnum og lesa sér betur til um forsendur og niðurstöður EPI.

 

Nýjungar í starfsmenntun

Fundaröðin Menntun og mannauður hefst þriðjudaginn 20. september í Húsi atvinnulífsins. Fjallað verður um nýjungar í starfsmenntun að þessu sinni og hvað er í gangi í málaflokknum þetta haustið. Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök iðnaðarins, Samorka og Samtök verslunar og þjónustu standa að fundaröðinni sem mun standa til vors 2017.
 

Íslensk fyrirtæki greiða lágt raforkuverð

Íslensk fyrirtæki greiða einn lægsta rafmagnsreikninginn í Evrópu. Fyrirtæki á Ítalíu, í Bretlandi og Þýskalandi þurfa að borga ríflega tvöfalt meira en fyrirtæki á Íslandi.

Raforkuverðið sjálft, þegar litið er framhjá flutningi og opinberum gjöldum, er næstlægst á Íslandi í Evrópu.

Samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs er því mjög hagstæð að þessu leyti, en líkt og víðar í slíkum samanburði hefur mikil gengisstyrking íslensku krónunnar undanfarin misseri áhrif til veikingar á þeirri samkeppnisstöðu. Flutnings- og dreifikostnaður er yfir meðallagi hér á landi, en auk gengisstyrkingar skýrist sú staða að sjálfsögðu af miklu dreifbýli og afar krefjandi flutningsleiðum.

Á Íslandi greiða fyrirtæki lág opinber gjöld, eins og sjá má á eftirfarandi línuriti.

Hér má sjá hvar Ísland stendur í evrópskum samanburði þegar allt er tekið með.

Samfélagslegur ávinningur af landtengingum fyrir skip

Draga mætti verulega úr útblæstri frá sjávargeiranum með því að gera öllum skipum sem liggja við höfn kleift að tengjast rafmagni í landi. Einnig myndu slíkar landtengingar styrkja uppbyggingu byggða við hafnarsvæði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu, sem unnin var fyrir Faxaflóahafnir, Orkuveitu Reykjavíkur, Veitur ohf. og Reykjavíkurborg.

Samkvæmt Evróputilskipun skulu öll skip, sem liggja við höfn í tvo tíma eða lengur, tengja sig við rafmagn í landi ef kostur er. Ef slík tenging er ekki til staðar, skipið ekki búið tengibúnaði, eða ef höfnin ræður ekki við að þjónusta tiltekna stærð af skipum, þarf að keyra ljósavélar um borð í skipunum til að halda nauðsynlegum búnaði í gangi með tilheyrandi útblæstri og hávaðamengun.

Kostnaður við að bæta landtengingar í höfnum Faxaflóahafna og gera þannig mögulegt að öll skip geti tengst þar rafmagni er um 5,5 milljarðar króna. Það myndi draga verulega úr útblæstri frá sjávargeiranum, eða um tæplega 4% og hafa þannig í för með sér verulegan ávinning fyrir samfélagið. Einnig er gert er ráð fyrir að núverandi raforkusala Faxaflóahafna myndi sjöfaldast.

Nánari upplýsingar má sjá í skýrslunni sjálfri, sem umhverfisverkfræðingurinn Darri Eyþórsson vann.

Skuldir lækkað um 37% frá 2009

Skuldir hjá átta stærstu orku- og veitufyrirtækjum landsins hafa lækkað um 338 milljarða, eða tæp 37%, milli 2009 og 2015 á föstu verðlagi.

Á sama tíma hefur eigið fé vaxið um 32,6% og er nú samtals um 493 milljarðar. Þessi árangur á sex árum sýnir öflugt tekjustreymi, aðhald í rekstri og sterkara gengi krónunnar.

Orkufyrirtæki landsins eru langflest í opinberri eigu og endurspegla tölurnar því einnig lægri skuldir þjóðarbúsins.

Á sama tíma greiða Íslendingar mjög samkeppnishæft verð fyrir raforku, fráveitu, vatns– og hitaveituþjónustu miðað við okkar helstu samanburðarlönd.

OR dregur enn úr losun við orkuvinnslu

Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög ætla draga úr útblæstri jarðhitalofts við orkuvinnslu ON á háhitasvæðum, styðja við vistvæna samgöngumáta starfsmanna og endurheimta votlendi með því að grafa ofan í skurði á landareignum OR.

Þetta kemur fram í loftlagsmarkmiðum OR samstæðunnar þar sem fyrirtækið skuldbindur sig til að minnka kolefnisspor samstæðunnar um helming til ársins 2030.

Einnig á að auka endurvinnsluhlutfall útgangs og draga úr matarsóun.

Nánar er fjallað um markmiðin á heimasíðu OR.

 

OR Logo 502x170

 

 

 

Húshitunarkostnaður langlægstur í Reykjavík

Það kostar fimmfalt meira á ári að hita húsið sitt í Helsinki en í Reykjavík. Húshitunarkostnaður er langlægstur á Íslandi og er þrefalt minni en þar sem næstódýrast er að hita.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt Samorku um húshitunarkostnað á Norðurlöndum. Stuðst er við tölur frá stærstu veitufyrirtækjum í hverri höfuðborg.

Árlegur kostnaður við að hita heimili á Íslandi er rúmar 85 þús krónur á ári fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu . Íbúi í Helsinki þarf að borga hátt í hálfa milljón árlega, eða um 428 þús krónur. Í Stokkhólmi er næstdýrast að hita húsið sitt eða rúmlega 300 þús krónur á ári. Íbúar í Kaupmannahöfn og Osló borga svipað á ári, eða tæplega 300 þús krónur.

Skattar vega nokkuð þungt á húshitunarreikningi Norðurlandabúa, en auk virðisaukaskatts er innheimtur sérstakur orkuskattur. Á Íslandi er hann 2% á heitt vatn.

 

Langflest heimili landsins eru hituð upp með heitu vatni (jarðhita), eða 90%. Í Reykjavík er þetta hlutfall 100%. Auk þess að vera ódýr kostur, er jarðhiti endurnýjanlegur og umhverfisvænn orkugjafi. Á hinum Norðurlöndum er að mestu notast við raforku eða jarðefnaeldsneyti við upphitun húsa.

Styrkir til að sækja alþjóðlegar jarðhitaráðstefnur

Jarðhitafélag Íslands veitir í ár háskólanemum, í fögum tengdum jarðhita, styrk til að sækja alþjóðlegar jarðhitaráðstefnur. Styrknum er ætlað að nýtast til að greiða ferða- og uppihaldskostnað og/eða ráðstefnugjöld.

Um er að ræða 2 styrki til framhaldsnema í háskólanámi (MS/Ph.D) að upphæð allt að kr. 300.000 fyrir hvern styrk. Stjórn félagsins mun velja styrkþega úr hópi umsækjenda.

Eftirtalin atriði geta orðið til að styrkja einstakar umsóknir:
– Umsækjandi verði með erindi eða annað slíkt hlutverk á viðkomandi ráðstefnu.
– Nám umsækjanda sé komið vel á veg.
– Umsækjandi sé í fullu námi.
– Lokaverkefni umsækjanda eða efni erindis geti haft hagnýtt gildi hérlendis.
– Umsækjandi búi að starfsreynslu tengdri jarðhitanýtingu.
– Umsækjandi sé félagsmaður í Jarðhitafélagi Íslands.

Umsóknum um styrki fyrir árið 2016 ber að skila til Sigurjóns Norberg Kjærnested, ritara stjórnar Jarðhitafélagsins, í netfangið sigurjon@samorka.is (eða með pósti til Sigurjóns á skrifstofu Samorku, merkt v. Jarðhitafélags Íslands, Borgartúni 35, 105 Reykjavík), eigi síðar en mánudaginn 12. september 2016. Umsóknum fylgi upplýsingar um námsferil, efni og stöðu lokaverkefnis eða ráðgerðs erindis á ráðstefnu, hagnýtt gildi verkefnis hérlendis, starfsreynslu tengda jarðhitarannsóknum eða -nýtingu ef við á, ásamt upplýsingum um þá ráðstefnu sem viðkomandi hyggst sækja.