Umtalsverð fasteignagjöld sveitarfélaga af vindorkuverum 

Núverandi skattframkvæmd vegna fasteignagjalda gæti árlega skilað sveitarfélögum milljörðum í fasteignagjöld á líftíma vindorkuverkefna samkvæmt greiningu sem Deloitte hefur unnið fyrir Samorku, samtök orku- og veitufyrirtækja.  

Deloitte áætlar að fasteignagjöld til sveitarfélags vegna 100 MW vindorkuvers yfir 25 ára tímabil gætu numið 1,6 – 3,5 milljörðum króna. Áætluð fasteignagjöld til sveitarfélags vegna 100 MW vindorkuverks gætu numið 65-139 milljónir króna á ári. Fjárhæðarbilið helgast af því að reglur um fasteignaskatta leiða til mismunandi álagningar gagnvart ólíkum tegundum vindmylla.   

Í skýrslu Deloitte er í fjórum mismunandi dæmum áætluð árleg fasteignagjöld á hvert MW og eru þau á bilinu 700 þúsund – 1,4 milljónir króna, eftir mismundi stærð og umfangi vindmyllu 

„Greining Deloitte dregur fram að núverandi kerfi fasteignagjalda virkar, skilar fasteignagjöldum til sveitarfélaga og mun skila umtalsverðum fjárhæðum. Það er enda eðlilegt að sveitarfélag hafi efnahagslegan ávinning af framkvæmdum og grænni orkuvinnslu innan marka þeirra,“ segir Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku.  

„Niðurstaða Deloitte undirstrikar enn fremur að ekki er ástæða til að láta vinnu stjórnvalda varðandi  fasteignagjöld eða jöfnunarsjóð sveitarfélaga tefja fyrir grænum orkuverkefnum þar sem fyrirtæki telja grundvöll fyrir byggingu þeirra og sveitarfélag hafa hug á uppbyggingu.“ 

„Umræða um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga á ekki að standa í vegi fyrir stjórnsýslumeðferð og leyfisveitingum vegna vindorkuverkefna. Það er hins vegar eðlilegt að ríki og sveitarfélög, lýðræðislega kjörnir fulltrúar, eigi og leiði samtalið um fjármögnun sveitarfélaga til lykta án þess að það hafi neikvæð áhrif á uppbyggingu grænnar orkuvinnslu.“ 

Samantekt Deloitte má nálgast hér fyrir neðan.

Nýsköpunarverðlaun Samorku 2024: Óskað eftir tilnefningum

Nýsköpun hefur ávallt verið stór hluti af orku- og veitugeiranum á Íslandi og hefur ný þekking og framsýni lagt grunninn að lífsgæðum í landinu og verðmætasköpun.

Samorka óskar eftir tilnefningum til Nýsköpunarverðlauna Samorku, sem afhent verða á opnum fundi þann 12. desember í Grósku. Þetta verður í fjórða sinn sem verðlaunin eru afhent.

Samorka leitar að framúrskarandi nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem byggja á:

  • Orku- og/eða veitutengdum tæknilausnum eða þjónustu við orku- og veitufyrirtæki
  • Nýtingu orku, heits vatns, neysluvatns eða fráveitu og/eða annarra auðlindastrauma til nýsköpunar

Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum mun velja úr þeim tilnefningum sem berast. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf.

Óskað er eftir að greinargerð sé skilað að hámarki tvær A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar.

Orku- og veitufyrirtækin í landinu standa að Nýsköpunarverðlaununum og verða því ekki á meðal verðlaunahafa.

Tilnefningar sendist á samorka@samorka.is til og með 6. nóvember. Farið verður með tilnefningarnar sem trúnaðarmál.

Árið 2023 hlaut Atmonia Nýsköpunarverðlaun Samorku.

Auglýst eftir umsóknum um styrki til fráveituframkvæmda

Opnað hefur verið á ný fyrir umsóknir sveitarfélaga um styrki til fráveituframkvæmda. Umsóknarfrestur vegna styrkjanna er til og með 30. nóvember 2024.

Skilyrði fyrir styrkveitingu er að fráveituframkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við áætlun sem hlotið hefur samþykki umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.

Styrkhæfar fráveituframkvæmdir eru framkvæmdir við safnkerfi fráveitna, hreinsivirki, dælustöðvar og útrásir. Einnig framkvæmdir við hreinsun ofanvatns, svo sem til að draga úr mengun af völdum örplasts en rannsóknir hafa sýnt að megnið af örplastsmengun berst til sjávar með ofanvatni. Meðal skilyrða fyrir að fráveituframkvæmd teljist styrkhæf er að kostnaður hafi fallið til eftir 1. janúar 2020.

Umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi á eyðublaðavef Stjórnarráðsins.

Nánari upplýsingar má finna á vef Stjórnarráðsins.

Í samkeppni um vindinn

Framtíðarsýnin er samfélag knúið áfram af 100% grænni orku. Jafnt og öruggt aðgengi allra að orku á samkeppnishæfu verði á virkum orkumarkaði. Snjallt og sveigjanlegt orkukerfi þar sem engu er sóað. Þetta er bara brot af þeirri framtíðarsýn sem birtist okkur í Orkustefnu til ársins 2050. Hún er skýr, falleg og óumdeild. Leiðin þangað er hins vegar ekki bein og breið og fjölmörg mál sem þarf að leysa úr á vettvangi stjórnmála og stjórnsýslu á næstu árum. Mikil og snörp umræða hefur verið um vindorku undanfarnar vikur í tengslum við virkjunarleyfi Landsvirkjunar fyrir Búrfellslund og áform um uppbyggingu í vindorku víðar um land. Mörgum vex í augum hvaða áhrif vindorkuver munu hafa á náttúru og umhverfi á meðan aðrir hafa áhyggjur af því að erlendir aðilar komi að orkuframleiðslu á Íslandi, enn aðrir hafa áhyggjur af tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og er þá bara það helsta talið til. Þetta eru verkefni sem þarf að ræða og leysa.

Mikilvæg skref hafa nú þegar verið stigin. Nýsamþykkt Landsskipulagsstefna fyrir árin 2024-2038 leggur áherslu á orkuskiptin, kolefnishlutleysi, uppbyggingu í grænni orku og þar með talið nýtingu vindorku. Við afgreiðslu Landsskipulagsstefnu á Alþingi greiddu 45 þingmenn henni atkvæði og enginn sagði „nei“. Stjórnvöld hafa sett markmið og undirgengist skuldbindingar um kolefnishlutleysi og jarðefnaeldsneytislaust Ísland. Alþingi mun á haustmánuðum taka til meðferðar í annað sinn þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi. Í raun má segja að Alþingi, stjórnsýslan, atvinnuvegir landsins og almenningur allur sé á fleygiferð í átt að kolefnishlutleysi – rétt eins og aðrar þjóðir í kringum okkur.

Græna byltingin

Það er vel þekkt staðreynd að virk samkeppni skilar sér í lægra verði og betri þjónustu. Virk samkeppni er einnig lykilforsenda nýsköpunar og hagvaxtar. Græna byltingin í Evrópu er keyrð áfram í öflugu markaðshagkerfi þar sem kraftar samkeppninnar fá að njóta sín. Nýjum lausnum og leiðum við orkuöflun og orkunýtni fleygir enda fram víðast hvar. Meginstef grænu byltingarinnar er að Evrópa verði alfarið knúin grænni orku og virk samkeppni á raforkumarkaði tryggi hag neytenda og samkeppnishæfni álfunnar – rétt eins og framtíðarsýnin fyrir Ísland árið 2050 birtist okkur.

Í nýútgefnum Raforkuvísum Orkustofnunar eru birtar tölur um áætlaðar fjárfestingar raforkugeirans fyrir árin 2024 – 2028. Þar kemur fram að heildarfjárfestingar fyrir þetta tímabil eru um 500 milljarðar.

Það er því full ástæða til að sjá það sem fagnaðarefni að bæði innlendir og erlendir aðilar séu tilbúnir að koma að orkuframleiðslu hér á landi á næstu árum og áratugum. Orkan sem verður framleidd mun svo nýtast til að mæta framtíðarorkuþörf þjóðarinnar, bæði heimila landsins, fyrirtækja og iðnaðar.

Það er engin ástæða til að ætla annað en að aukin samkeppni á orkumarkaði, þ.m.t. með innkomu erlendra aðila í orkuframleiðslu, muni ekki skila sér til allra þeirra fyrirtækja og neytenda sem þurfa á rafmagni að halda, dag frá degi. Rétt eins og kröftug samkeppni hefur leitt af sér nýjungar og lækkað vöruverð á öðrum mörkuðum – mun væntanlega það sama gerast á þessum markaði.

Hvað með vind á hafi?

Í umræðunni eru hugmyndir um fjölda annarra orkukosta og möguleika til orkuöflunar og orkunýtni, bæði hér heima og erlendis. Má þar nefna birtuorku, vindorku á hafi, virkjun sjávarfalla og kjarnorku. Þá fleygir fram tækni í tengslum við rafhlöðulausnir og orkunýtni. Víða í Evrópu er mikil uppbygging og þróun í gangi varðandi alla þessa orkukosti og orkutækni og væntanlega mun flest af því berast hingað til lands fyrr en síðar. Í dag er því þó þannig farið að það er langtum dýrara að framleiða rafmagn með vindorku á hafi og kjarnorku en með vind eða sól á landi. Verkefni um vindorku á hafi og kjarnorku verða því nánast eingöngu að veruleika í dag með miklum ríkisstyrkjum og stuðningi. Víðast hvar í hinum vestræna heimi hafa stjórnvöld sett skýrar áætlanir um hve mikið þurfi að auka grænorkuframleiðslu á næstu árum. Þá er bæði í Evrópu og Bandaríkjunum gríðarlegum fjármunum varið af hálfu hins opinbera til að auka grænorkuframleiðslu til að tryggja orkusjálfstæði og orkuskiptin.

Það er lykilatriði í áframhaldandi samkeppnishæfni samfélags okkar að öflugir fjárfestar og fyrirtæki sjái sér hag í að taka þátt í uppbyggingu samfélagsins og það geti farið fram án umfangsmikilla ríkisstyrkja.

Katrín Helga Hallgrímsdóttir, lögfræðingur Samorku skrifaði greinina, sem birtist fyrst í Viðskiptablaðinu miðvikudaginn 11. september 2024.

Álag og líðan

Að vinna við yfirvofandi ógn og mikla óvissu veldur talsverðu álagi. Hér heyrum við hvaða áhrif þetta hefur haft á starfsfólk og stjórnendur ræða um þá áskorun að halda utan um starfsfólkið við þessar aðstæður.
Myndband frá ársfundi Samorku 2024.

Upplifunin

Hlaupið undan rennandi hrauni, flautandi gasmælar, unnið undir vökulu auga sérsveitar og drónaflugs.
Að vinna við óvenjulegar aðstæður kallar á óvenjulegar upplifanir.

Björgun hitaveitu

Hraun rann á ógnarhraða yfir Njarðvíkuræðina með þeim afleiðingum að byggð á Reykjanesi varð heitavatnslaus í kuldanum í janúar. Með þrautseigju, elju og sameiginlegu átaki margra aðila tókst að koma nýrri lögn í gagnið á mettíma. Hér er sagt frá björgun hitaveitunnar við ótrúlegar aðstæður.

Undirbúningur fyrir jarðhræringar

Allt frá því að jarðhræringar hófust á Reykjanesi árið 2021 hefur staðið yfir mjög þétt samtal á milli orku- og veitufyrirtækjanna á svæðinu. Tíminn var nýttur í vísindastörf, prófanir, sviðsmyndagreiningar, uppfærslu á neyðaráætlunum og fleira.

Myndband frá ársfundi Samorku 2024.