Losar Alþingi um leyfisveitinga-flækjuna?

Á bak við hverja virkjun, hverja jarðvinnu og hverja raflínu liggur langt og strangt ferli skipulags og leyfisveitinga. Í orku- og veitumálum hafa leyfisveitingar og skipulagsmál, á vegum ríkis og sveitarfélaga, orðið að þröskuldi sem hægir á orkuskiptum, fjárfestingum og samkeppnishæfni þjóðarinnar. Ísland hefur ekki efni á að viðhalda slíku ástandi mikið lengur.

Í ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála hefur á undanförnum árum verið unnið hörðum höndum að því að móta löggjöf til einföldunar á leyfisveitingaferlum og hafa þó nokkur frumvörp í þá veru farið í gegnum samráð í samráðsgátt stjórnvalda og verið lögð fyrir Alþingi sem lagafrumvörp. Búast má við að á síðustu dögum þingsins verði teknar ákvarðanir um það hvaða þingmál hljóta afgreiðslu og hvaða þingmál þurfa að bíða til næsta vetrar. Þar sem nokkuð góð sátt virðist vera meðal þingflokka um mikilvægi þess að á Íslandi verði hægt að virkja orku til að stuðla að orkuskiptum, viðhalda samkeppnishæfni þjóðarinnar og mæta ört vaxandi samfélagi má ætla, eða að minnsta kosti vona, að þau lagafrumvörp sem snúa að einföldun leyfisveitinga komist í gegnum þingið að þessu sinni.

Um alla Evrópu er verið að stíga mikilvæg skref til að tryggja að lönd komist í gegnum orkuskiptin, að kolefnishlutleysi verði náð á næstu áratugum og að Evrópa verði óháð jarðaefnaeldsneyti frá ríkjum sem ekki er hægt að treysta með tilliti til öryggis- og varnarmála.

Frá Þýskalandi má finna gott dæmi um raunverulegan árangur í þessum efnum. Þannig tókst Þjóðverjum að margfalda leyfisveitingar fyrir vindorku – úr innan við 2 GW árið 2022 í næstum 15 GW árið 2024. Þetta var ekki tilviljun, heldur afrakstur yfirgripsmikillar lagasetningar og markvissra aðgerða; umsóknarferli voru stytt, ábyrgð skýrð, málsmeðferðarreglur einfaldaðar og endurnýjanleg orka skilgreind sem almannahagsmunamál. Settar voru skýrar kröfur um landnýtingu til að tryggja að land yrði nýtt undir vindorku og sveitarstjórnarstigið tæki ábyrgð og bæri skyldur í þeim efnum. Með breytingum á fjölda laga og skýrri stefnumótun stjórnvalda fór kerfið að virka og leyfi eru nú afgreidd fljótt og örugglega.

Á Íslandi eru nú nokkur frumvörp í þinglegri meðferð sem varða einföldun regluverks, rammaáætlun og stjórnsýslu leyfisveitinga. Flest þeirra mála hafa verið í vinnslu í ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála síðan á síðasta kjörtímabili og ættu að njóta víðtæks þingsstuðnings. Þá verður að undirstrika að í núverandi kerfi rammaáætlunar er það á ábyrgð þingsins að orkunýtingarflokkkur rammaáætlunar mæti ávallt þörfum þjóðarinnar um orkuframleiðslu og orkuöryggi til lengri tíma.

Að samþykkja þessi frumvörp nú – áður en Alþingi fer í sumarhlé – væri tákn um vilja og skynsemi, að stjórnsýsla og lagasetning geti unnið með framtíðarsýn þjóðarinnar, en ekki á móti henni. Við vitum hvert við viljum fara. Til að komast þangað þurfum við stjórnsýslu sem virkar – og löggjafarvald sem treystir henni til þess.

Grein eftir Katrínu Helgu Hallgrímsdóttur, lögfræðing Samorku. Greinin birtist fyrst á visir.is miðvikudaginn 11. júní 2025.

Evrópusambandið kynnir stefnu um viðnámsþrótt vatns

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti þann 4. júní nýja Evrópska stefnu um viðnámsþrótt vatns (European Water Resilience Strategy). Hún hefur það að markmiði að vernda og endurheimta vatnshringrásina, tryggja öllum hreint vatn á viðráðanlegu verði auk þess að byggja upp sjálfbæra og samkeppnishæfa vatnstengda efnahagsstarfsemi í Evrópu með góðan viðnámsþrótt. Birna Guttormsdóttir, sem nú starfar sem sérfræðingur hjá Framkvæmdstjórninni, hefur verið í lykilhlutverki við að undirbúa stefnuna á undanförnum mánuðum.

Stefnan er yfirgripsmikil og hefur það hlutverk að styðja aðildarríki ESB við skilvirka stjórnun á nýtingu vatns bæði með innleiðingu núverandi vatnslöggjafar ESB og með yfir 30 sérstökum aðgerðum. Aðildarríkin, héraðsstjórnir og sveitarfélög, en einnig almenningur og fyrirtæki, eru í lykilhlutverki við að hrinda stefnunni í framkvæmd.

„Vatn er ekki bara auðlind, það er okkar líflína. Öfgar í veðurfari valda því hins vegar að álag á þessa auðlind er mikið og nú þegar glíma 30% af landssvæðum í Evrópu við árlegan vatnsskort,“ segir Jessika Roswall, sem fer með umhverfismál, viðnámsþrótt vatns og málefni samkeppnishæfs hringrásarhagkerfis, í framkvæmdastjórninni. „Vatn er sameiginleg auðlind og því sameiginleg ábyrgð, við verðum öll að byrja að nota vatn á skilvirkari hátt,“ bætti Roswall við þegar hún kynnti stefnuna ásamt Teresu Ribera, einum af varaforsetum framkvæmdastjórnarinnar.

Myndatexti: Fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB, Jessika Roswall og Teresu Ribera kynna stefnuna um viðnámsþrótt vatns á fréttamannafundi í Brussel, 4. júní.
Fulltrúar framkvæmdastjórnar ESB, Jessika Roswall og Teresu Ribera kynna stefnuna um viðnámsþrótt vatns á fréttamannafundi í Brussel, 4. júní.

Stefnan hefur eins og fyrr sagði tengingu við aðrar vatnsgerðir ESB en þar ber helst að nefna vatnatilskipunina og fráveitutilskipunina. Það er því ástæða fyrir íslensk stjórnvöld, Samorku og haghafa hér á landi að fylgjast með framkvæmd hennar. Þær 30 aðgerðir sem lagðar eru til í stefnunni fela m.a. í sér:

· Skipulagðar samræður við aðildarríki ESB um framkvæmd lagaramma sambandsins.

· Fjárfestingaráætlun að verðmæti yfir 15 milljarða evra með stuðningi frá EIB (Evrópska fjárfestingabankanum),

· Áætlun um stafræna umbreytingu og gervigreind í vatnsstjórnun,

· Stofnun evrópskrar vatnsakademíu og nýsköpunarstefnu fyrir vatnsþol,

· Sterkara rauntímaviðvörunarkerfi gegn flóðum og þurrkum.

Frá og með desember 2025 verður haldið sérstakt þing um viðnámsþrótt vatns annað hvert ár til að fylgjast með framvindu stefnunnar og stefnt er á að gera áfangamat á henni árið 2027.

Nýr forseti Eurelectric leggur áherslu á samkeppnishæfni og orkuöryggi

Markus Rauramo, forstjóri finnska orkufyrirtækisins Fortum, er nýr forseti Eurelectric, Evrópusamtaka rafiðnaðarins, sem Samorka er aðili að. Hann tók við stjórnartaumunum á aðalfundi Eurelectric í Brussel 2. júní ásamt tveimur nýjum varaforsetum, Catherine MacGregor, forstjóra franska orkufyrirtækisins Engie og Georgios Stassis, stjórnarformanni og forstjóra gríska orkufyrirtækisins PPC.  Ný forysta samtakanna leggur áherslu á metnaðarfulla framtíðarsýn um græna rafvæðingu Evrópu sem styrki samkeppnishæfni álfunnar og orkuöryggi. Þá sé mikilvægt að stíga ný skref til að kanna hvernig stafræn umbreyting og notkun gervigreindar skili sem mestum ávinningi í framtíðinni.

Ný forysta Eurelectric. Mynd: DAVID PLAS PHOTOGRAPHY

„Núna er ekki rétti tíminn til að hika. Við þurfum að rafvæða til að stuðla að orkuskiptum, iðnvæða til að standa okkur í samkeppninni og stafræn umbreyting er lykillinn að forystu,“ sagði Markus Rauramo þegar hann tók við sem forseti Eurelectric. „Látum verkin tala og byggjum upp örugga og sterka Evrópu sem er í leiðtogahlutverkinu á öld hreinnar orku,“ er haft eftir nýja forsetanum í fréttatilkynningu Eurelectric.

Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku, sat aðalfund Eurelectric og sækir einnig „Power Summit“ ráðstefnu samtakanna í Brussel 3. – 4. júni þar sem fulltrúar orkugeirans í Evrópu og víðar að koma saman. Hópur fulltrúa úr íslenska orku- og veitugeiranum situr sömuleiðis ráðstefnuna og leit við á skrifstofu Samorku í Brussel  2. júní, til að kynnast starfsemi skrifstofunnar.

Hópur fulltrúa úr orku- og veitugeiranum heimsækir Svein Helgason verkefnastjóra erlends samstarfs á norrænu skrifstofuna í Brussel.

Fréttatilkynning Eurelectric:

FInnur Beck framkvæmdastjóri Samorku (lengst t.h.) ásamt íslenska hópnum á Power Summit

Snjöll samvinna er sterkasta vopnið

Netárásum á mikilvæga inniviði hefur fjölgað mikið sem kallar á öflugar varnir um tæknibúnað. Kristrún Lilja Júlíusdóttir, forstöðukona hjá Orkuveitunni, ræddi við Svein Helgason á Samorkuþingi 2025 um öryggismál og hvernig samtal, traust og samvinna getur skipt sköpum í að verja innviði á Íslandi.

Sveinn og Kristrún Lilja ræða saman á Samorkuþingi 2025.

Öryggi og áfallaþol innviða

Karl Steinar Valsson yfirlögreglustjónn hjá ríkislögreglustjóra var annar frummælenda í lokamálstofu Samorkuþings 2025 þar sem fjallað var um áfallaþol mikilvægra innviða hér á landi og orkuöryggi í ljósi þróunar í Evrópu. Í viðtali við Svein Helgason, verkefnastjóra erlends samtarfs hjá Samorku, leggur Karl Steinar m.a. áherslu á virkt samtal og samvinnu milli lögreglu og orku- og veitugeirans til að efla enn frekar vernd innviða og öryggi. Karl Steinar segir það hafa verið mjög gagnlegt að heyra sjónarmið háttsettra stjórnenda í geiranum í málstofunni og sömuleiðis hvað Kristian Ruby, framkvæmdastjóri Eurelectric, hafði að segja í sinni framsöguræðu.

Viðtalið var tekið síðdegis þann 23. maí.

Karl Steinar flytur erindi sitt á Samorkuþingi 2025

Metaðsókn að Samorkuþingi

Aldrei hafa fleiri sótt Samorkuþing en í ár. Búist er við um 620 gestum í Hofi á meðan á þinginu stendur.

Samorkuþing er stærsta fagráðstefna landsins í orku- og veitutengdri starfsemi og er haldið á þriggja ára fresti á Akureyri. Í ár er boðið upp á um 130 fyrirlestra í alls 25 málstofum um fjölbreytt viðfangsefni orku- og veitufyrirtækja á Íslandi.

Á heimasíðu þingsins, www.samorkuthing.is, má sjá dagskrána í heild sinni, en hún er uppfærð eftir þörfum.

Skráningu á þingið er lokið. Vinsamlegast hafið samband við lovisa@samorka.is fyrir frekari upplýsingar og/eða breytingar á skráningu.

Meiri endurnýjanleg orka til hitunar og kælingar er lykill að orkuskiptum innan ESB 

Evrópskur samstarfsvettvangur um tækni og nýsköpun vegna sjálfbærrar hitunar og kælingar1 stóð fyrir ráðstefnu í Brussel þann 7. maí sem bar yfirskriftina „Collaborative Pathways to Sustainable Heating and Cooling“ eða „Samstarfsleiðir að sjálfbærri hitun og kælingu.“ 

Þeir sem sátu ráðstefnuna komu úr ýmsum áttum, s.s. sérfræðingar úr vísindasamfélaginu, fulltrúar fyrirtækja, hagsmunasamtaka og sérfræðingar frá Evrópusambandinu.  Árið 2023 stóðu endurnýjanlegir orkugjafar undir 26.2% af heildarorkunotkun vegna hitunar og kælingar innan Evrópusambandsins. Vera má að sú tala hafi hækkað eitthvað síðan en það er greinilega verk að vinna að auka hlut grænna orkugjafa og minnka þá um leið notkun jarðefnaeldsneytis. Ekki síst þegar Evrópusambandið ætlar í áföngum að hætta alfarið innflutningi á rússnesku gasi fyrir árslok 2027. Orka sem notuð er til hitunar og kælingar er um helmingur af heildarorkunotkun í aðildarríkjum Evrópusambandsins. ESB hefur því lagt ríka áherslu á að minnka kolefnislosun í þessum geira með því að hraða orkuskiptum enda sé það forsenda fyrir því að ná markmiðum ESB í orku- og loftslagsmálum.  

Beatrice Coda frá rannsókna- og nýsköpunarsviði Evrópusambandsins. 

Fyrirlesarar á ráðstefnunni litu margir til framtíðar, kynntu nýjungar á þessu sviði og ræddu einnig helstu áskoranir og tækifæri í pallborðsumræðum.  Athyglisvert er að sjá hvernig ólíkir orkugjafar eru notaðir til hitunar og kælingar i Evrópu Þar má helst nefna sólarorku, lífefnaeldsneyti og varmadælur og svo auðvitað jarðhita.  Nýsköpun á þessu sviði veltur m.a. á framlögum frá Evrópusambandinu og fulltrúi ESB á ráðstefnunni var einmitt  frá rannsókna- og nýsköpunarsviði Framkvæmdastjórnar ESB, Beatrice Coda. Hún benti m.a. á að Horizon Europe, Rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB, hefði veitt verulegu fé til fjölmargra verkefna til að styðja við þróun endurnýjanlegra orkulausna  fyrir hitun og kælingu. Íslensk fyrirtæki, stofnanir og háskólar geta sótt um styrki úr Horizon og hefur orðið vel ágengt, m.a. í að fá styrki til nýtingar jarðhita. 

Fulltrúar víða að sóttu ráðstefnuna og pallborðsumræður voru líflegar. 

Þá hyggst Evrópusambandið efla hlut jarðvarma með sérstakri aðgerðaáætlun sem nú er í undirbúningi og á að líta dagsins ljós snemma á næsta ári. Samorka mun fylgjast grannt með því ferli enda er Ísland í fremstu röð á heimsvísu í nýtingu jarðvarma og hefur því margt fram að færa. 

Meira um ráðstefnuna: 100% RHC Event 2025 – RHC 

Stefnumótun ESB um hitun og kælingu: Heating and cooling 

Gott grunnvatn er forgangsmál

Verndun og gæði gunnvatns í Evrópu er eitt af forgangsmálum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sagði fulltrúi hennar á fundi í Brussel þann 29. apríl. Framkvæmdastjórnin vinnur nú að „Stefnu um viðnámsþrótt vatns“ eða „European Water Resilience Strategy“. Opið samráðsferli skilaði hátt í sex hundruð umsögnum eða framlögum og haldnir voru þrír hringborðsfundir undir lok mars.

Ný stefnumótunarskýrsla „Grunnvatn í Evrópu – hornsteinn viðnámsþróttar,“ var kynnt á fundinum en að honum stóð sendinefnd þýska sambandsríkisins Hessen gagnvart Evrópusambandinu. Höfundar skýrslunnar leggja fram margvíslegar tillögur um hvernig bæta megi verndun grunnvatns og tryggja gæði þess. Taka þurfi með í reikninginn áhrif loftslagsbreytinga og styrkja fyrrnefnda stefnumótun ESB um viðnámsþrótt vatns. Skýrslan byggir á víðtækum rannsóknargögnum um vatnsból í Þýskalandi, Króatíu og Spáni. Höfundar segja að grunnvatn hafi aldrei verið mikilvægara fyrir fólk, samfélög og vistkerfi. Hinsvegar sé ólíklegt að markmið Vatnatilskipunar Evrópusambandsins (EU Water Framework Directive) náist fyrir árið 2027. 

Isaac Ojea Jimenez, sérfræðingur á umhverfissviði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði frá sjónarmiðum ESB.

Þátttakendur í pallborðsumræðum á fundinum komu úr ýmsum áttum, s.s. vísindamenn fulltrúar hagsmunasamtaka á borð við EurEeu og sérfræðingur frá umhverfissviði framkvæmdastjórnar ESB sem hefur þessi mál á sinni könnu. Hann sagði m.a. að bæta þyrfti eftirlit með grunnvatni, upplýsingamiðlun og samhæfingu auk þess að takast á við mengun. Þess væri að vænta að framkvæmdastjórnin leggi stefnuna fram nú á öðrum ársfjórðungi og að Evrópuþingið taki hana fyrir. 

Evrópustefnan um viðnámsþrótt vatns á að vernda hringrás vatnsins, tryggja nægilegt framboð af hreinu vatni á hagstæðu verði fyrir alla og samkeppnishæfni vatnsgeirans í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Stefnan leggur áherslu á fimm megin svið – stjórnsýslu og innleiðingu, innviði, fjármögnun og fjárfestingu, öryggi og loks fyrirtæki í vatnsgeiranum, nýsköpun og menntun. 

Stefna, lagasetning og reglur Evrópusambandsins á þessu sviði hafa víðtæk áhrif á hér á landi með lögum og reglum sem íslensk stjórnvöld innleiða í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Vatnatilskipun Evrópusambandsins hefur þannig verið innleidd með tilheyrandi breytingum á stjórn vatnamála og nú vinnur Evrópusambandið að uppfærslu og nánari útfærslu neysluvatnstilskipunarinnar (EU Drinking Water Directive). Aðildarfyrirtæki og félög innan Samorku hafa skýra hagsmuni af því að vita hvað er handan við hornið hjá Evrópusambandinu í vatnamálum og Samorka vill að sama skapi upplýsa þau um það sem er á döfinni. Samorka er aðili að EurEau og vinnur þannig að því að tryggja hagsmuni íslenskra vatns- og fráveitna í Brussel. 

Fanny Frick-Trzebitzky (t.v.) kynnti rannsókina og Silke Wettach (t.h.) fréttakona stýrði pallborðsumræðum.

Þá má rifja upp að í desember s.l. fékk Umhverfisstofnun ásamt 22 samstarfsaðilum um 3,5 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu til að vinna að fjölbreyttum verkefnum til að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi. Í þessum hópi eru m.a. fjölmörg sveitarfélög og veitufyrirtæki innan Samorku. 

Sveinn Helgason verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Samorku með Oliver Loebel, framkvæmdastjóra EurEau, sem var meðal þátttakenda í pallborðsumræðunum.

Tenglar með frekari upplýsingum: 

Meira um „European Water Resilience Strategy.“ „Evrópustefnu um viðnámsþrótt vatns.“ 

https://environment.ec.europa.eu/news/call-evidence-begins-eu-water-resilience-strategy-2025-02-04_en

https://www.europarl.europa.eu/legislative-train/theme-sustaining-our-quality-of-life-food-security-water-and-nature/file-european-water-resilience-strategy

Stefnumótunarskýrsla ISOE – The Institute for Social-Ecological Research. „Groundwater in Europe – Cornerstone for Resilience.“ 

https://www.isoe.de/en/publication/groundwater-in-europe-cornerstone-for-resilience

Frétt um styrk sem Umhverfisstofnun fékk frá ESB til að tryggja vatnsgæði: 

https://www.ust.is/umhverfisstofnun/frettir/stok-frett/2024/12/11/3-5-milljarda-styrkur-til-ad-tryggja-vatnsgaedi-a-Islandi

Skýrsla Umhverfisstofnunar Evrópu um viðnámsþrótt vatns 

https://www.eea.europa.eu/is/highlights/mengun-ofnotkun-og-loftslagsbreytingar-ogna

REMIT: Hvað er það?

REMIT er umfjöllunarefni í nýjasta hlaðvarpsþætti Samorku. Þar ræðir Katrín Helga, lögfræðingur Samorku, við þær Hönnu Björgu Konráðsdóttur og Ninnu Ýr Sigurðardóttur hjá Raforkueftirlitinu, um nýjar reglur sem munu taka gildi á næstunni um viðskipti á raforkumarkaði. Þær fjalla um tilurð reglnanna og uppruna þeirra í Evrópu og hvaða þýðingu þær hafa fyrir íslenskar aðstæður. 

Frá upptöku þáttarins.