Viljayfirlýsing um orkuskipti og orkuöryggi

Landsnet, ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála, Vestmannaeyjabær, HS Veitur og aðilar úr atvinnulífinu í Vestmannaeyjum hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um aukið afhendingaröryggi og leiðir í átt að fullum orkuskiptum.

Fyrirsjáanlegt er að eftirspurn eftir raforku mun aukast verulega í Vestmannaeyjum í ljósi stefnu stjórnvalda í orkuskiptum. Til að það verði hægt þarf að leggja tvo nýja rafstrengi, Vestmannaeyjastrengi 4 og 5. Viðskiptalegar forsendur eru fyrir lagningu beggja strengjanna samtímis og mikill vilji og áhugi iðnaðar í Vestmannaeyjum til að vaxa og stuðla að orkuskiptum. 

Tekið við undirriturn yfirlýsingarinnar
Undirritun yfirlýsingarinnar

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segir ánægjulegt að geta fylgt eftir þeim tillögum sem fram komu í nýútgefinni skýrslu um málefni Vestmannaeyja sem varða málefnasvið umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. 

„Við höfum séð það í vetur og Eyjamenn hafa fundið fyrir því undanfarna vetur að orkuöryggi er ábótavant í Vestmannaeyjum. Það var ein af ábendingum í skýrslu um málefni Vestmannaeyja sem við koma mínu ráðuneyti síðasta haust að tryggja þurfi orkuöryggi Eyjamanna. Það er ánægjulegt að sjá að Landsnet ætlar að bregðast við stöðunni með því að flýta lagningu strengja til Vestmannaeyja og hefja framkvæmdir á næsta ári. Þetta er mikilvægur þáttur í því að tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt.“  

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum segir að lagning strengjanna sé lykilþáttur í að tryggja raforkuöryggi í Eyjum.

„Raforkuöryggi skiptir íbúa og fyrirtæki í Eyjum miklu máli. Því hefur verið ábótavant eins og kom bersýnilega í ljós þegar bilun varð  í VM3.  Ef horfa á til orkuskipta í Vestmannaeyjum þá verður að tryggja öruggan flutning raforku og hringtengingu. Þessir tveir nýju strengir tryggja það öryggi og eru þeir braut til orkuskipta. Það er afar ánægjulegt að Landsnet skuli hafa flýtt þessu verkefni og ætli að klára það árið 2025.“

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segir að nú þegar hafi verið ákveðið að flýta lagningu á nýju Vestmannaeyjastrengjunum og tryggja þannig afhendingaröryggi raforku í Vestmannaeyjum.

„ Ákvörðun um lagningu á nýjum Vestmannaeyjastreng hefur verið í umræðunni um tíma og höfum við nú þegar ákveðið að flýta framkvæmdum og leggja strengina samhliða sumarið 2025 til að tryggja afhendingaröryggi rafmagns í Vestmannaeyjum og um leið að stuðla að orkuskiptum í Eyjum.  Það er líka æskilegt að leggja tvo strengi samtímis og verður fjárfestingin þannig arðbærari til lengra tíma litið. Það kom berlega í ljós síðasta vetur þegar Vestmannaeyjastrengur 3 bilaði hvað það getur verið erfitt að eiga við bilanir á sjó, á svæði sem er erfitt viðureignar og því mikilvægt að geta tryggt að hægt sé að flytja raforku inn á svæðið.“

Páll Erland forstjóri HS Veitna segir tilkomu tveggja nýrra rafstrengja Landsets vera stórt skref í að auka raforkuöryggi í Vestmannaeyjum og að traustir raforkuinnviðir, bæði flutnings- og dreifikerfin, séu forsenda orkuskipta bæði heimila og atvinnulífs.

„HS Veitur ætla að vinna að árangri í loftslagsmálum í Vestmannaeyjum með fjárfestingu í raforkuinnviðum þannig að hægt verði að tengja nýju rafstrengina VM4 og VM5 við dreifikerfi HS Veitna, sem er forsenda þess að þeir nýtist heimilum og fyrirtækjum í Vestmannaeyjum við orkuskipti og vöxt atvinnulífs.“   

Hér er hægt að nálgast viljayfirlýsinguna.  

Elko menntafyrirtæki ársins og Bara tala menntasproti ársins

Menntaverðlaun atvinnulífsins eru veitt fyrirtækjum sem skara fram úr í fræðslu- og menntamálum. Elko var útnefnt Menntafyrirtæki ársins og Bara tala hlaut Menntasprotann 2024. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór í Hörpu í gær, miðvikudaginn 14. febrúar.

ELKO uppfyllir öll viðmið menntaverðlauna atvinnulífsins með skipulagðri og markvissri fræðslu innan fyrirtækisins þar sem þátttaka starfsfólks er góð enda hvatning til frekari þekkingaröflunar til staðar. Elko sýnir með fræðsluáætlun, skýrum mælikvörðum og mælingum að árangur fræðslustarfsins er mikill og góður.

Ljóst er að stefnumiðuð og markviss vinna í fræðslumálum starfsfólks hefur lagt grunn að mjög góðum árangri í þeirri vegferð fyrirtækisins að auka ánægju starfsfólks og fylgja stefnunni eftir um ánægðustu viðskiptavinina. Þá er eftirtektarvert að fyrirtækið hefur einnig stutt við viðskiptavini sína og sitt ytra umhverfi þegar kemur að menntun og fræðslu, til dæmis með foreldrafræðslu um raftækjanotkun barna.

Bara tala hlaut Menntasprotann árið 2024.

Bara tala er íslenskur menntasproti sem hóf starfsemi sína árið 2023. Bara tala nýtir sér gervigreind og íslenska máltækni til að veita fyrirtækjum og stofnunum stafrænt og gagnvirkt íslenskunám fyrir erlent starfsfólk sitt. Boðið er upp á grunnnámskeið í íslensku fyrir vinnustaði, en einnig er boðið upp á starfstengt íslenskunám sem er þróað í góðu samstarfi við fyrirtækin og er þannig sérsniðið að atvinnulífinu.

Með Bara tala gefst fyrirtækjum tækifæri til að þjálfa starfsfólkið sitt í íslensku með áherslu á orðaforða og setningar sem notast er við á vinnustöðum. Hjá Bara tala er áhersla lögð á hljóð, myndefni og talmál og eykur þar með orðarforða, hlustunarfærni og þjálfar aðfluttra í að tala íslensku.

Í dag hefur fjöldi atvinnurekenda innleitt Bara tala fyrir erlenda starfsfólkið sitt en alls hafa yfir 20 stór fyrirtæki innleitt Bara tala, sjö sveitarfélög og Vinnumálastofnun veitir einnig erlendu fólki í atvinnuleit aðgang að lausninni. Nú síðast gerði Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fimm ára samning við Bara tala um að þróa og innleiða stafræna íslenskukennslu fyrir allt fólk í heilbrigðis-, félags- og umönnunargreinum. Á innan við einu ári hefur Bara tala gjörbylt íslenskukennslu fyrir erlent starfsfólk og ljóst er að lausnin Bara tala er komin til að vera.

Yfirskrift menntadagsins að þessu sinni var Göngum í takt: Er menntakerfið að halda í við þarfir atvinnulífsins? og hér má horfa á fundinn á upptöku: https://vimeo.com/912263935?share=copy

Framkvæmdaleyfi Suðurnesjalínu 2 gildir

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfu Hraunavina, Landverndar,  Landgræðslu- og umhverfisverndarsamtaka Íslands og Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands um að fella úr gildi  ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga frá 30. júní 2023 að veita Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.

Þar með eru öll framkvæmdaleyfi á línuleiðinni í höfn og samið hefur verið við stærsta hluta landeigenda. Hjá ráðuneyti Umhverfis-, orku- og loftslagsmála liggur fyrir beiðni um heimild til eignarnáms á hluta þriggja jarða sem línan liggur um og ósamið er við.  

Ef allt gengur að óskum verður jarðvinna boðin út i vor og framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 munu hefjast síðsumars.

Tökum réttu skrefin

Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku skrifar:

Íslenskt samfélag og atvinnulíf byrjar árið 2024 í þröngri stöðu þegar litið er til orkubúskaps þjóðarinnar. Þá hafa jarðskjálftar og eldgos á Reykjanesskaga stefnt orkuöryggi íbúa á Suðurnesjum í hættu. Stjórnendur og starfsfólk HS Veitna, HS Orku og Grindavíkurbæjar, sem reka innviði á svæðinu, hafa sýnt ótrúlega elju og útsjónarsemi í að verja innviði og tryggja órofa framleiðslu og þjónustu. Sama gildir um Landsnet sem rekur þar flutningskerfi raforku.

Þrátt fyrir ítrekaðar vandaðar greiningar um hættu á orkuskorti og áralangar viðvaranir fyrirtækja í orkumálum virðist íslenskt samfélag nú hafa steytt á skeri. Í greinargerð með frumvarpi til neyðarlaga um raforku sem lagt var fram á Alþingi í desember er rakið hvernig eftirspurn eftir orku er nú meiri en öll raforkuframleiðslan getur staðið undir m.a. vegna stöðu í lónum. Mikilvæg fyrirtæki í íslensku atvinnulífi munu í vetur sæta skerðingum á orkuafhendingu sem leiðir til skertrar starfsemi og ný orkusækin verkefni geta við þessar aðstæður trauðla komist í framkvæmd. Við slíkar aðstæður blasir við efnahagslegt tjón fyrir íslenskt samfélag. Tjón sem hefði mátt með margs konar aðferðum hugsanlega afstýra.

Samfélagið stendur nú frammi fyrir því að þurfa að bregðast við orkuskorti sem líklega mun vara um nokkurt skeið. Í því felst m.a. að gera ráðstafanir til að tryggja orkuöryggi heimila og minni fyrirtækja og koma á fót skilvirkni í viðskiptum með raforku. Í þessum aðstæðum er rétt að horfa til reynslu annarra ríkja og lítt skoðaðra tækifæra til að þróa raforkumarkaðinn enn frekar með þátttöku notenda, stórra sem smárra, sem vilja og geta dregið úr raforkunotkun þegar þörfin er mest. Markmið slíkra aðgerða þarf að vera jákvæð áhrif á neytendur, styðja við orkunýtni, styðja við orkuskipti, senda fjárfestingamerki til markaðarins og tryggja raforkuframboð með sem minnstum tilkostnaði.

Mikilvægt er að á árinu 2024 komist Ísland nær nágrannalöndum okkar í að búa orku- og veitufyrirtækjum umgjörð sem greiðir götu góðra verkefna á sviði orkumála. Margt mætti telja til en hér nægir að nefna fjögur meginatriði.

Í fyrsta lagi þarf að auka skilvirkni í stjórnsýslu og einfalda ferla vegna orkutengdra verkefna. Ísland mun ekki ná orkuskiptamarkmiðum á meðan verkefni á því sviði sofa inni hjá stjórnsýslustofnunum eða sæta ekki málsmeðferðarhraða sem tekur mið af mikilvægi þeirra. Í öðru lagi þarf að setja í lög reglur um einfalda og skilvirka meðferð vindorkukosta sem framsækin fyrirtæki hafa verið að þróa þrátt fyrir að löggjöf hér hafi litlu svarað um hvort eða hvernig þeir skuli afgreiddir. Fyrir tilstuðlan umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hafa birst tillögur starfshóps um einföldun á afgreiðslu vindorkukosta en á nýju ári bíður það Alþingis að koma slíku kerfi á. Í þriðja lagi þurfa stjórnvöld að ljúka vinnu um skattaumgjörð orkuvinnslu. Höfuðmarkmið þeirrar vinnu verður að vera  skattaumgjörð sem tekur mið af afkomu orkuvinnslu, tryggir jafnræði orkuvinnslufyrirtækja, heggur á hnút í samskiptum ríkis og sveitarfélaga hvað þetta snertir og hefur ekki of neikvæð áhrif á fjárfestingar í orkuvinnslu. Í fjórða lagi þarf að fara fram heildarendurskoðun á rammaáætlun. Þó mikilvægt skref hafi verið stigið við afgreiðslu 3. áfanga rammaáætlunar er ljóst að kerfið er of flókið, seinvirkt og ekki til þess fallið að orkufyrirtæki fari hratt af stað með hagkvæmustu verkefni þegar markaðsforsendur eru fyrir hendi eða fyrirsjáanlegar.

Á árinu 2024 munu orku- og veitufyrirtæki halda áfram að undirbúa íslenskt samfélag undir orkuskiptin og jarðefnaeldsneytislaust Ísland. Íslenskur orku- og veitugeiri hefur sjálfur sett sér metnaðarfull markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 og styður heilshugar við sama markmið stjórnvalda. Í loftslagsvegvísi atvinnulífsins er að finna margvíslegar aðgerðir þessara fyrirtækja og orkufyrirtæki eru raunar í fremstu röð í að þróa leiðir til að binda eða vinna með kolefni sem losað er í samfélaginu. Veitufyrirtæki munu halda áfram að þróa vatns- og fráveitur sem veita fólki og fyrirtækjum fyrsta flokks þjónustu en setja umhverfið í öndvegi.

Orku- og veitufyrirtæki munu á árinu 2024 halda áfram vinnu við að tryggja heimilum og fyrirtækjum í landinu aðgengi að öruggum, hagkvæmum og sjálfbærum orku- og veituinnviðum.

Samorka óskar aðildarfyrirtækjum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og framfara á sviði orku- og veitumála. 

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 5. janúar 2024.

Óskað eftir tilnefningum til Menntaverðlauna

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent í Hörpu miðvikudaginn 14. febrúar 2024. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf. 

Athugið að einungis má tilnefna skráð aðildarfélög SA.

Tilnefningar berist í gegnum skráningarsíðu eigi síðar en þriðjudaginn 23. janúar

Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum. Menntafyrirtæki ársins er valið og menntasproti ársins útnefndur, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið. 

Helstu viðmið fyrir menntafyrirtækis ársins eru: 

  • að skipulögð og markviss fræðsla sé innan fyrirtækisins 
  • að sem flest starfsfólk taki virkan þátt 
  • að haldið sé utan um mælikvarða í fræðslumálum 
  • að hvatning sé til staðar til frekari þekkingaröflunar 

Helstu viðmið vegna menntasprota ársins eru: 

  • að lögð sé stund á nýsköpun í menntun og fræðslu, innan fyrirtækis og/eða í samstarfi fyrirtækja 
  • samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu, innan sem utan fyrirtækja. 

Skýr og skipulögð gögn hjálpa dómnefnd að meta tilnefningar. 

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku , Samtaka ferðaþjónustunnar , Samtaka fjármálafyrirtækja , Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi , Samtaka iðnaðarins , Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins . 

Ár umbrota og orkuskorts

Árið 2023 var óvenjulegt þegar litið er til orku- og veitustarfsemi. Í fyrsta lagi stefndu náttúruhamfarir grundvallarinnviðum í hættu á Reykjanesskaga og þar með íbúabyggð fyrir nálægt 30.000 manns. Þetta kallaði á útsjónarsemi og óvenjulegar ráðstafanir orku- og veitufyrirtækja á svæðinu, sveitarfélaga og einstakar aðgerðir af hálfu stjórnvalda. Allt gert til að freista þess að tryggja órofna starfsemi í þágu fólks og fyrirtækja á svæðinu. Raunir Grindvíkinga en líka æðruleysi þeirra hljóta að vera öllum ofarlega í huga um þessi áramót.

Í öðru lagi raungerðist undir lok árs alvarleg staða og raforkuskortur sem í mörg ár hefur verið varað við. Raforkuþörf eykst með vexti hagkerfisins, í takt við umbreytingu orkuskipta og staða vatnslóna vatnsaflsvirkjana getur haft mikil áhrif. Þessi staða var fyrirséð. Raunar hafði Samorka auk fyrirtækja í orku- og veitustarfsemi og stjórnvöld um árabil sett fram greiningar sem drógu fram þessa áhættu. Staðan nú endurspeglar mikilvægi þess að umgjörð orkugeirans verði endurskoðuð í heild og honum m.a. mörkuð mun skilvirkari og fyrirsjáanlegri stjórnsýsla án þess að dregið verði úr kröfum til umhverfismats og -verndar. Að sama skapi þarf að huga að raforkuöryggi heimila og smærri fyrirtækja, hafa jákvæð áhrif gagnvart neytendum, styðja við orkunýtni og orkuskipti og tryggja gagnsæjan og öflugan viðskiptavettvang með raforku sem sendir rétt fjárfestingamerki til markaðarins og notenda. Þetta hafa nágrannaþjóðir okkar gert, meðvituð um mikilvægi grænnar orku og knýjandi þarfar til að skipta út jarðefnaeldsneyti.  Skilvirk og vönduð stjórnsýsla og skilvirkur og öflugur markaður með raforku mun skila okkur hagkvæmri og skynsamlegri nýtingu auðlinda. Þessu til viðbótar er mikilvægt að stjórnvöld ráði til lykta skattaumgjörð orkuvinnslu og komi á fót einfaldari umgjörð um vindorku, hvort tveggja verkefni sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur sett í forgang.

Á árinu unnu aðildarfyrirtæki Samorku að margvíslegum framförum. Á sviði flutnings og dreifingu raforku er unnið að orkuskiptum, bæði verkefnum sem hafa raungerst en einnig mikilvægum áætlunum til að mæta loftslags- og orkuskiptamarkmiðum stjórnvalda. Óvenjulega mikil kuldatíð var sumum hitaveitum áskorun á meðan leit að heitu vatni var viðfangsefnið hjá öðrum. Að tryggja fólki og fyrirtækjum örugga, hagkvæma og sjálfbæra orku- og veituinnviði er stöðugt verkefni sem mörg taka sem gefnum hlut.  Orku- og veitufyrirtækin í landinu munu halda ótrauð áfram því verkefni á árinu 2024.

Samorka þakkar samstarfið á árinu og óskar landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og framfara á sviði orku- og veitumála. 

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaði Morgunblaðsins miðvikudaginn 27. desember.

Hátíðarkveðja og opnunartímar

Samorka óskar öllum gleðilegrar jólahátíðar með þökkum fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.

Skrifstofa Samorku er að mestu leyti opin á milli jóla og nýárs, en best er að hafa samband við starfsfólk með tölvupósti eða síma.

Opnað fyrir pantanir á básum á Fagþingi 2024

Fagþing raforku verður haldið á Hótel Örk í Hveragerði dagana 23. – 24. maí. Fyrirtækjum gefst kostur á að taka þátt í vöru- og þjónustusýningu þingsins á þar til gerðum sýningarsvæðum.

Á fagþinginu kemur starfsfólk aðildarfyrirtækja Samorku saman og má gera ráð fyrir að þar verði forstjórar fyrirtækja í raforkumálum, framkvæmdastjórar, millistjórnendur, starfsfólk í framkvæmdum, innkaupastjórar og almennt starfsfólk. Aðsókn á fagþing Samorku farið vaxandi ár frá ári enda hafa þau fest sig í sessi sem hápunktur fræðslu- og þekkingarmiðlunar fyrir aðildarfyrirtæki Samorku. Við gerum ráð fyrir á þriðja hundrað gestum á þingið. Bás á vöru- og þjónustusýningu er því gott tækifæri til að kynna sig.

Þá stendur þeim fyrirtækjum sem eru með bás til boða að vera með stuttan fyrirlestur eða kynningu í þar til gerðri málstofu. Þetta hefur gefist vel og verið vel sótt.

Allar nánari upplýsingar um sýninguna gefur Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku. Best er að senda fyrirspurnir á lovisa@samorka.is.

Landsvirkjun er umhverfisfyrirtæki ársins

Landsvirkjun var í dag útnefnt Umhverfisfyrirtæki ársins þegar Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru kynnt í dag. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin. Carbon Recycling International hlaut verðlaun fyrir framtak ársins á sviði umhverfismála. 

Landsvirkjun fer með umsjón mikilvægra náttúruauðlinda landsins og gerir það á ábyrgan og auðmjúkan hátt. Lögð er áhersla á að þekkja umhverfisáhrif starfseminnar, draga úr þeim og koma í veg fyrir frávik. 

Fyrirtækið hefur verið með vottað umhverfisstjórnunarkerfi í hátt í 20 ár og hefur sýnt framsýni og forystu þegar kemur að útgáfu og birtingu umhverfisupplýsinga og aðgerða. Lögð er áhersla á að hámarka verðmæti þeirra auðlinda sem fyrirtækinu er falið með sjálfbærni og hagkvæmni að leiðarljósi. Þannig hefur fyrirtækið markvisst innleitt sjálfbæra nýtingu í starfsemi sína, hámarkað nýtni og dregið úr úrgangi og losun tengdri starfsemi sinni. 

Fyrirtækið tekur hlutverk sitt og áhrif í samfélaginu alvarlega og gengur lengra en lög og reglur segja til um þegar kemur að áhrifum frá starfsemi fyrirtækisins. Landsvirkjun leggur áherslu á að styðja við alla virðiskeðju sína í loftslags vegferðinni. Fyrirtækið horfir út fyrir starfsemi sína þegar kemur að samdrætti í samfélagslosun og þeim áhrifum sem Landsvirkjun getur haft á heildarlosun Íslands. Fyrirtækið fékk fyrst íslenskra fyrirtækja hæstu einkunn fyrir stýringu eigin loftslagsáhrifa frá alþjóðlegu samtökunum CDP. 

Landsvirkjun hefur sett sér markmið um nettó kolefnishlutleysi árið 2025 og var með fyrstu fyrirtækjum landsins að kynna markmið sín opinberlega. Fyrirtækið vinnur markvisst að því að draga úr kolefniskræfni raforkuvinnslu sinnar með metnaðarfullri aðgerðaráætlun og skýrum, tölulegum og tímasettum markmiðum sem eru aðgengileg öllum. 

Þar að auki hefur Landsvirkjun nýtt sér framúrskarandi árangur í umhverfismálum til fjármögnunar með útgáfu grænna skuldabréfa fyrst íslenskra fyrirtækja. Því frumkvæði var tekið eftir, bæði erlendis og hérlendis og hafa mörg íslensk fyrirtæki fylgt í spor Landsvirkjunar með slíkum útgáfum. 

Fyrirtækið er í forystu í loftslags- og umhverfismálum og má með sanni segja að aðgerðir og vinnubrögð endurspegli þann metnað og önnur fyrirtæki geti tekið sér Landsvirkjun til fyrirmyndar. Landsvirkjun ber því vel titilinn umhverfisfyrirtæki ársins 2023. 

Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun, þakkaði verðlaunin og þá viðurkenningu sem í þeim fælist fyrir umfangsmikið starf Landsvirkjunar í umhverfis- og loftslagsmálum. „Í umhverfismálum þurfum við öll að vinna saman enda er ávinningurinn okkar allra og komandi kynslóða,“ sagði Jóna. 

Verðlaunamyndbandið sem sýnt var á Umhverfisdegi atvinnulífsins 2023 er Guðni Th. Jóhannesson veitti Landsvirkjun verðlaunin.

CRI hlaut Umhverfisframtak ársins

Carbon Recycling International (CRI) hefur síðastliðin 15 ár skapað sér sérstöðu sem frumkvöðull við hagnýtingu á koltvísýringi á heimsvísu. Emissions-to-liquid (ETL) tækni félagsins umbreytir koltvísýringi og vetni í metanól sem nýta má sem rafeldsneyti eða sem hráefni í efnavinnslu og hefur mun minni umhverfisáhrif en hefðbundið jarðefnaeldsneyti. 

Carbon Recycling International gangsetti nýlega nýja efnaverksmiðju í Kína sem hefur þann möguleika að endurnýta 150.000 tonn af koltvísýring á ári. Íslenskt hugvit og verkfræðileg hönnun CRI mun stuðla að einni bestu orkunýtni í þessari tegund iðnaðarframleiðslu og framleiða um 100.000 tonn af sjálfbæru metanóli á ári. 

Framleiðslutæknin var þróuð og sannreynd í verksmiðju félagsins í Svartsengi. Félagið var þá fyrsta fyrirtækið í heiminum til að framleiða og selja vottað rafeldsneyti. Þrautseigja og framsýni Carbon Recycling International hefur skilað áhrifum út fyrir landsteina og framtak þeirra mun leggja til í baráttu á heimsvísu við samdrátt í losun koltvísýrings. 

Verðlaunamyndbandið sem sýnt var á Umhverfisdegi atvinnulífsins 2023 er Guðni Th. Jóhannesson veitti CRI verðlaunin.

Það er ljóst á þeim fjölda tilnefninga sem bárust inn til umhverfisverðlauna Samtaka atvinnulífsins að umhverfis- og loftslagsmál eru sífellt að verða stærri hluti af daglegum rekstri og ákvarðanatöku fyrirtækja á Íslandi. Fjölmargar umsóknir bárust og fjöldi fyrirtækja vinna ötult starf á þessu sviði.  

Í dómnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sitja Sandra Rán Ásgrímsdóttir, formaður, Elma Sif Einarsdóttir og Reynir Smári Atlason.