27. mars 2017 Vilja auka notkun endurnýjanlegrar orku í fiskimjölsiðnaði Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í dag í Marshall húsinu við Grandagarð í Reykjavík. Landsvirkjun og Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda (FÍF) hafa tekið höndum saman um að stuðla að aukinni notkun endurnýjanlegrar orku í fiskmjölsiðnaði. Fiskmjölsframleiðendur hafa á undanförnum árum notast bæði við olíu og rafmagn í framleiðslu sinni, en þeir hafa keypt skerðanlegt rafmagn af raforkusölum sem Landsvirkjun hefur selt á heildsölumarkaði. Takmarkað framboð á slíku rafmagni og sveiflukennd eftirspurn hjá fiskmjölsframleiðendum hefur gert að verkum að olía hefur verið nauðsynlegur varaaflgjafi í mjölvinnslunni og komið í stað rafmagns þegar á hefur þurft að halda. Með viljayfirlýsingu sem Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Jón Már Jónsson, formaður FÍF, skrifuðu undir í dag er markmiðið að gera fiskmjölsframleiðslu enn umhverfisvænni með því ýta undir notkun rafmagns við vinnsluna, draga þar með úr losun koltvísýrings og styðja um leið við markmið Parísarsamkomulagsins og skuldbindingar Íslands samkvæmt því. Landsvirkjun lýsir því yfir að fyrirtækið muni á næstu árum stuðla eins og hægt er að auknu framboði á skerðanlegu rafmagni á heildsölumarkaði. Um leið ætlar FÍF að stuðla að því að félagsmenn horfi til þess að gera mjölframleiðsluna enn umhverfisvænni og noti endurnýjanlega orkugjafa í stað annarra mengandi orkugjafa. Stefnir FÍF að því að félagsmenn noti skerðanlegt rafmagn eins mikið og framboð og flutningar á slíku rafmagni leyfa. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Landsvirkjunar.
9. mars 2017 ON og N1 í samstarf um hleðslustöðvar ON og N1 ætla að reisa hlöður við hringveginn Orka náttúrunnar og N1 ætla í sameiningu að reisa hlöður fyrir rafbíla meðfram helstu þjóðvegum landsins. Stjórnendur fyrirtækjanna hafa skrifað undir samkomulag um að hlöður ON rísi á afgreiðslustöðvum N1 víðsvegar um land. ON er í forystu um uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum og hefur þegar reist 13 hlöður í samstarfi við ýmsa aðila, þar á meðal N1. ON stefnir að því að opna allan hringveginn fyrir rafbílum á næstu misserum. ON hefur líka aukið mjög upplýsingagjöf til rafbílaeigenda með útgáfu smáforritsins ON Hleðsla fyrir Android og iPhone. ON Hleðsla veitir meðal annars upplýsingar um vegalengd í næstu hlöðu, hvar hún er, hvaða hleðslubúnaður er í henni og hvort hún er laus eða upptekin. N1 rekur 95 stöðvar á Íslandi og þar með víðtækustu þjónustu hér landi fyrir bíla og bifreiðaeigendur. N1 var fyrsta fyrirtækið til að koma upp afgreiðslu á metani og færir með samkomulaginu enn út kvíarnar í umhverfisvænni orku í samgöngum. Bæði fyrirtækin fengu styrk úr Orkusjóði í lok síðasta árs til að byggja upp innviði fyrir orkuskipti í samgöngum. Nánar um samstarfið má lesa á heimasíðu ON.
17. janúar 2017 Umhverfisvæn raforkuframleiðsla á Íslandi Aðeins 22% allrar raforku í OECD ríkjum er framleitt með endurnýjanlegum hætti. Á Íslandi er þetta hlutfall 99,99% . Þetta kemur fram í nýjustu tölum frá Alþjóðaorkumálastofnuninni (IEA). Tölur Alþjóðaorkumálastofnunarinnar ná yfir tímabilið 2014-2016. Þar kemur fram að 60% rafmagns í OECD ríkjum er framleitt með jarðefnaeldsneyti, 18% með kjarnorku, 14% með vatnsafli og loks rúmlega 8% með jarðvarma, vindi, sólarorku eða öðru. Athygli vekur hversu hægt dregur úr umfangi jarðefnaeldsneytis við rafmagnsframleiðsluna í ríkjum OECD, en jafnframt má sjá hlutfallslega aukningu í jarðvarma, vindi, sól og fleiru. Þegar sama tímabil er skoðað fyrir Ísland sést að vatnsafl er að baki um 73% af heildarraforkuframleiðslu á Íslandi og jarðvarmi um 26%. Framleiðsla með jarðefnaeldsneyti er hverfandi. Þar sem hún mælist er líklega um varaaflstöðvar að ræða sem eru keyrðar í gang við rafmagnsleysi í flutnings- eða dreifikerfinu. Að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis er eitt mikilvægasta verkefni sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir í loftslagsmálum. Ítarlegar rannsóknir hafa sýnt fram á hækkandi hitastig jarðarinnar með alvarlegum afleiðingum fyrir komandi kynslóðir.
30. nóvember 2016 Ísland trónir á toppnum Ísland stendur sig best allra þjóða þegar kemur að hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa í rafmagnsframleiðslu, samkvæmt nýjum tölum frá Alþjóða orkumálastofnuninni (IEA). Hér á landi er hlutfallið 99,99% og er mun hærra en í öðrum Evrópulöndum, að Noregi frátöldum þar sem hlutfallið er tæp 98%. Að sama skapi skipar Ísland neðsta sætið þegar hlutfall jarðefnaeldsneytis (olíu, kola og gass) við rafmagnsframleiðslu er borið saman. Þar er hlutfallið 0,01%, hérlendis, en hjá rétt um helmingi samanburðarlanda er hlutfallið um og yfir 50%. Á heimsvísu snýst baráttan gegn losun gróðurhúsalofttegunda einkum að því að minnka losun frá orkuframleiðslu og auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Þessar nýju tölur staðfesta sterka stöðu Íslands. Eins og sjá má standa Eistland, Pólland og Holland frammi fyrir verðugu verkefni þegar kemur að því að auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í rafmagnsframleiðslu, en hlutfall kola, gass og olíu er þar í kringum 90%.
6. október 2016 Orkusalan gefur hleðslustöðvar fyrir rafbíla Orkusalan, dótturfyrirtæki RARIK, gefur öllum sveitarfélögum landsins hleðslustöð fyrir rafbíla, alls um 80 talsins. Með þessu vill fyrirtækið auðvelda rafbílaeigendum að komast leiðar sinnar hringinn í kringum landið. Fyrsta stöðin verður sett upp í Vestmannaeyjum á næstu vikum. Ísland er í lykilstöðu til að leiða rafbílavæðingu heimsins og vill Orkusalan leggja sitt af mörkum með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi. Hleðslustöðvar Orkusölunnar koma til viðbótar hraðhleðslustöðva Orku náttúrunnar, sem eru alls 13 talsins.
23. september 2016 Ísland önnur umhverfisvænsta þjóð heims Ísland er önnur umhverfisvænsta þjóð heimsins samkvæmt nýrri umhverfisvísitölu Yale háskólans í Bandaríkjunum. Þessi skemmtilega staðreynd þarf ekki endilega að koma á óvart því staða Íslands er mjög sterk í alþjóðasamhengi vegna gnægðar vistvænnar orku hér á landi. Hlutfall endurnýjanlegrar orku við rafmagnsframleiðslu og húshitun er ríflega 99% á Íslandi og vegur þyngst í að skila Íslandi svo ofarlega á lista. Einnig er hlutfall útblásturs gróðurhúsalofttegunda vegna bruna jarðefnaeldsneytis við raforku- og varmaframleiðslu 0%. Í öðrum löndum Evrópu nær þessi tala allt að 80%. Finnland kemur best út samkvæmt vísitölunni og Danmörk og Svíþjóð koma fast á hæla Íslandi. Þorsteinn Þorsteinsson hjá Markaðsrýni vakti nýlega athygli á þessa nýju vísitölu Yale, Yale‘s Environmental Performance Index (EPI). Þótt að vísitalan sýni hversu framarlega Ísland er þegar kemur að loftslagsmálum, þá má ná enn betri árangri. Eins og staðan er í dag er hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum lágt í samanburði við önnur lönd, eða 3,3%, en rafbílum fer þó hratt fjölgandi. Þarna liggja langstærstu tækifæri Íslands í loftlagsmálum; Að skipta um orkugjafa í bíla- og skipaflota landsins og minnka þannig útblástur gróðurhúsalofttegunda allverulega. Hægt er að skoða skýrslu Yale í heild sinni á vefnum og lesa sér betur til um forsendur og niðurstöður EPI.
8. september 2016 Samfélagslegur ávinningur af landtengingum fyrir skip Draga mætti verulega úr útblæstri frá sjávargeiranum með því að gera öllum skipum sem liggja við höfn kleift að tengjast rafmagni í landi. Einnig myndu slíkar landtengingar styrkja uppbyggingu byggða við hafnarsvæði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu, sem unnin var fyrir Faxaflóahafnir, Orkuveitu Reykjavíkur, Veitur ohf. og Reykjavíkurborg. Samkvæmt Evróputilskipun skulu öll skip, sem liggja við höfn í tvo tíma eða lengur, tengja sig við rafmagn í landi ef kostur er. Ef slík tenging er ekki til staðar, skipið ekki búið tengibúnaði, eða ef höfnin ræður ekki við að þjónusta tiltekna stærð af skipum, þarf að keyra ljósavélar um borð í skipunum til að halda nauðsynlegum búnaði í gangi með tilheyrandi útblæstri og hávaðamengun. Kostnaður við að bæta landtengingar í höfnum Faxaflóahafna og gera þannig mögulegt að öll skip geti tengst þar rafmagni er um 5,5 milljarðar króna. Það myndi draga verulega úr útblæstri frá sjávargeiranum, eða um tæplega 4% og hafa þannig í för með sér verulegan ávinning fyrir samfélagið. Einnig er gert er ráð fyrir að núverandi raforkusala Faxaflóahafna myndi sjöfaldast. Nánari upplýsingar má sjá í skýrslunni sjálfri, sem umhverfisverkfræðingurinn Darri Eyþórsson vann.
18. ágúst 2016 OR dregur enn úr losun við orkuvinnslu Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög ætla draga úr útblæstri jarðhitalofts við orkuvinnslu ON á háhitasvæðum, styðja við vistvæna samgöngumáta starfsmanna og endurheimta votlendi með því að grafa ofan í skurði á landareignum OR. Þetta kemur fram í loftlagsmarkmiðum OR samstæðunnar þar sem fyrirtækið skuldbindur sig til að minnka kolefnisspor samstæðunnar um helming til ársins 2030. Einnig á að auka endurvinnsluhlutfall útgangs og draga úr matarsóun. Nánar er fjallað um markmiðin á heimasíðu OR.
10. júní 2016 Koltvísýringi breytt í stein á tveimur árum Hægt er að binda koltvísýring sem steintegund í basaltberglögunum við virkjun ON á Hellisheiði að 95 prósentum á tveimur árum en ekki öldum eða árþúsundum eins og áður var talið. Þetta kemur fram í grein í Science, sem er eitt útbreiddasta og þekktasta vísindatímarit heims. Greinin fjallar um CarbFix loftslagsverkefnið sem unnið hefur verið að við jarðgufuvirkjun Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2007. Sjá nánar hér á vef ON.
8. júní 2016 Hátt hlutfall útblásturs í Evrópu vegna raforku- og varmaframleiðslu Ísland er með lægsta hlutfall útblásturs gróðurhúsalofttegunda (CO2) vegna bruna jarðefnaeldsneytis við raforku- og varmaframleiðslu í Evrópu, eða 0%. Eistland stendur verst af Evrópulöndunum, en þar er tæplega 80% af öllum útblæstri tilkominn vegna raforku- og varmaframleiðslu. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Alþjóðabankanum (World Bank). Í fjölmörgum löndum eru yfir 50% af heildarútblæstri vegna raforku- og varmaframleiðslu, meðal annars í Finnlandi og Póllandi, og verður verðugt verkefni að minnka það hlutfall verulega. Í Danmörku er hlutfallið 49%. Mikill munur er á þeim löndum sem lægsta hlutfallið hafa. Ísland og Lúxemborg skera sig úr, með 0% og 8% útblásturs vegna raforku- og varmaframleiðslu. Þar næst kemur Frakkland með 17%, Svíþjóð hefur hefur fjórða lægsta hlutfallið, eða 25% og í Belgíu er hlutfallið 27%. Á Íslandi er notað jarðefnaeldsneyti við raforku- og varmaframleiðslu í undantekningartilfellum, en magnið er það lítið að það mælist ekki í úttekt Alþjóðabankans.