Hitaveitur spara losun á við eina og hálfa Kaupmannahöfn

Fyrir átak í uppbyggingu hitaveitna á áttunda áratug síðustu aldar var víða notast við olíu til húshitunar á Íslandi. Ef við værum að nýta sama orkumagn til húshitunar með brennslu olíu og við gerum í dag með nýtingu jarðhita hefði sú olíubrennsla í för með sér losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur 18 milljónum tonna af koldíoxíði á ári. Það er á við eina og hálfa árlega losun Kaupmannahafnar.

Í vikunni fór fram alþjóðleg ráðstefna um jarðvarma í Hörpu í Reykjavík, þar sem samankomnir voru um 700 manns frá 45 löndum til að ræða kosti jarðvarmanýtingar og áskorunum sem þeim fylgja. Nú þegar heimsbyggðin stendur frammi fyrir því að gera gríðarlegar breytingar á orkunýtingu til að ná Parísarmarkmiðum í loftslagsmálum, er horft til þeirrar einstöku stöðu Íslands að 90% allra bygginga eru hituð með jarðvarma. Jarðvarmi finnst á fjölmörgum stöðum um allan heim og líta margir því til íslenskrar sérþekkingar í þeim geira – að hér höfum við á árangursríkan hátt skipt yfir í endurnýjanlegan og sjálfbæran orkugjafa á skömmum tíma.

Orkuskipti í samgöngum stærsta tækifærið

Í dag koma þjóðarleiðtogar saman í New York á Degi jarðar og undirrita Parísarsamkomulagið um sameiginleg markmið þjóða heimsins í loftslagsmálum.  Stóra tækifærið fyrir Ísland í loftslagsmálum er að skipta um orkugjafa í samgöngum þar sem hægt væri að koma í veg fyrir tæplega 20% af árlegum útblæstri gróðurhúsalofttegunda hér á landi. En þrátt fyrir kjöraðstæður hvað varðar aðgengi að endurnýjanlegum orkugjöfum er þróunin í orkuskiptum mjög hæg á Íslandi.

Ísland er fremst í flokki þjóða hvað varðar hlutfall endurnýjanlegrar orku við rafmagnsframleiðslu og húshitun og af því geta Íslendingar verið stoltir. Við ættum auðveldlega að geta vermt efsta sætið þegar kemur að notkun endurnýjanlegrar orku í samgöngum, því hér eigum við gnægð af henni. Svo er hins vegar ekki. Af nýskráðum bílum hér á landi eru aðeins tæplega 4% rafbílar. Til samanburðar má nefna að í Noregi eru tveir af hverjum þremur nýskráðum bílum vistvænir.

Heildarútblástur Íslands nemur 4,5 milljónum tonna á ári hverju og þar af er hlutur samgangna rétt um 18% af heild, eða 800 þúsund tonn. Það er öllum í hag, Íslendingum og heimsbyggðinni allri, að setja í forgang hér á landi að gera samgöngur umhverfisvænni.

Hitaveitur spara 272 þús á hvern íbúa landsins árlega

Sparnaður Íslendinga vegna jarðhita til húshitunar í stað olíu nam 89 milljörðum fyrir árið 2014, eða 272 þúsundum á hvert mannsbarn. Sparnaðurinn er í hreinum gjaldeyri, þar sem olía er flutt inn til landsins. 89 milljarðar eru 8,3% af heildar gjaldeyristekjum Íslands árið 2014.

Hitaveitur Íslendinga spara þar að auki mikla losun gróðurhúsalofttegunda því jarðvarmi er græn, endurnýjanleg orka sem hægt er að virkja með sjálfbærum hætti en svo er ekki með olíu og kol.

Nánari upplýsingar og fleiri tölur má sjá á vef Orkustofnunar, meðal annars sparnaðinn í sögulegu samhengi allt frá því að stigin voru fyrstu skrefin í nýtingu jarðvarma til húshitunar árið 1914.

Ávinningur Íslendinga af orku- og veitufyrirtækjum gríðarlegur

Framlag orku- og veitufyrirtækja til íslensks samfélags, hvort sem um er að ræða fjárhagslegan ávinning eða minni losun gróðurhúsalofttegunda, er umtalsvert. Bjarni Bjarnason formaður Samorku fór yfir ávinning af orku- og veitustarfsemi á ársfundi samtakanna 2016.

Án endurnýjanlegrar orku væri CO2 losun Íslendinga töluvert meiri. Heildarlosun Íslands í dag er um 4,6 milljón tonn ár hvert og hefur verið á svipuðu róli allt frá árinu 1990. Ef hitaveitu nyti ekki við og við þyrftum að nota olíu til að hita húsin okkar, þá væri losunin tæp sex milljón tonn á ári. Ef rafmagn væri framleitt með öðrum hætti en með endurnýjanlegri orku, þá væri losunin um átta milljón tonn. Þar er stóriðja undanskilin.

Fjárhagslegur ávinningur fyrir heimilin í landinu er einnig umtalsverður. Mánaðarlegur orku- og veitureikningur fjölskyldu sem býr í Osló er meira en tvöfalt hærri en fjölskyldu í Reykjavík, miðað við algenga notkun í báðum borgum, og tæplega þrefalt hærri hjá fjölskyldu í Kaupmannahöfn.

Bjarni talaði einnig um skipulag og áherslur Samorku, en eftir stefnumótun á árinu 2015 var ákveðið að leggja meiri áherslu á ákveðna þætti í starfseminni, líkt og kynningarmál og almenna upplýsingagjöf til samfélagsins.  Þá fór hann yfir samsetningu fyrirtækjanna sem standa að Samorku og kynja- og aldursskiptingu starfsmanna innan þeirra, en Bjarni lagði mikla áherslu á að fjölga konum innan orkugeirans.

Glærur frá ávarpi Bjarna má sjá hér.

Rafbílar ódýrari í rekstri – Ísland sýni djörfung í orkuskiptum

Rafbílar eru mun orkunýtnari en olíudrifnir bílar og nota innan við þriðjung þeirrar orku sem núverandi bílafloti landsmanna notar. Þeir eru mun ódýrari í rekstri og væru hagkvæmari fyrir heimilin þrátt fyrir að allir sömu skattar væru lagðir á akstur þeirra og lagðir eru á bensín og díselolíu í dag. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Sigurðar Inga Friðleifssonar, framkvæmdastjóra Orkuseturs, á ársfundi Samorku.

Til að halda sömu skatttekjum þyrfti að leggja á um 6 króna gjald á hvern ekinn kílómetra. Sparnaður venjulegs heimilis næmi engu að síður um einni milljón króna á tíu ára tímabili, þar sem rafbílar eru mun ódýrari í rekstri. Rafbíllinn skilur vissulega eftir sig kolefnisspor vegna framleiðslu á rafhlöðum fyrir þá. En samt sem áður er kolefnissporið miklu minna og útblástursfrí keyrsla bætir það upp.  Hann segir ævintýrið byrjað og að rafbílar gætu orðið eitt þúsund talsins á götunum í ár. Rafhlöðurnar lækka hratt í verði og drægnin fer hratt vaxandi. Sigurður segir að þarna skipti framlag smáþjóðar máli, enda öll raforka hérlendis unnin með endurnýjanlegum orkugjöfum. Hann spyr hver í ósköpunum eigi að sýna djörfung í innleiðingu orkuskipta, ef ekki Ísland? Íslendingar búa við hreina endurnýjanlega orku og eiga nóg af henni, við erum borgríki og tæknivædd – Íslendingar hafi hreinlega enga afsökun.

Hér má sjá glærur frá fyrirlestri Sigurðar Inga, Orkuskipti.

Græn raforka til áliðnaðar sparar yfir 6 milljónir tonna á ári í losun

Loftslagsmálin eru ofarlega á baugi þessi misserin, ekki síst í kjölfar loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París. Stærsta viðfangsefnið á heimsvísu er að draga úr brennslu jarðefnaeldsneyta á borð við olíu og kol og auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa á borð við vatnsafl, jarðvarma og vindorku. Hér á landi er staðan mjög sérstök í þeim efnum, þar sem nær öll raforkuframleiðsla og húshitun grundvallast á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Ýmis tækifæri eru þó til að gera enn betur, ekki síst á sviði samgangna.

Athyglisvert er að bera losun tengda stóriðju, að meðtalinni losun vegna orkuframleiðslunnar, saman við meðaltalslosun í heiminum af sömu sökum. Álframleiðsla á Íslandi, á grundvelli raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, sparar á hverju ári losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu sem nemur um sex milljónum tonna af koldíoxíði (CO2), sé miðað við meðaltalslosun raforkuframleiðslu í heiminum til álframleiðslu, að meðtalinni raforkuframleiðslu. Árleg heildarlosun Íslands er um 4,5 milljónir tonna. Sparnaðurinn nemur því meiru en allri losun Íslands.

Samkvæmt Alþjóðaorkumálstofnuninni (IEA) er losun á koldíoxíði við álframleiðslu á Íslandi 0,1 tonn á hvert tonn af áli, samanborið við 7,6 tonn að meðaltali á heimsvísu, að meðtalinni losun vegna raforkuframleiðslu.

Meðal orkusamsetning vegna álframleiðslu á heimsvísu er með eftirfarandi hætti skv. IEA:  kol (58%), endurnýjanlegir orkugjafar (31%), gas (9,7%), kjarnorka (1,2%) og olía (0,1%). Á Íslandi er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa 100% í álframleiðslu.

Græna raforkan gullkista Norðurlandanna

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Græn raforka gæti orðið næsta stóra útflutningsævintýri Norðurlandanna að mati samtaka raforkufyrirtækja á hinum Norðurlöndunum, sem reyna nú í sameiningu að tryggja bætt aðgengi að evrópskum markaði gegnum þýska flutningskerfið. Á evrópskan mælikvarða er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hátt í öllum ríkjunum og nýlega gaf Alþjóða orkumálastofnunin það út að Norðurlöndin væru eins konar grænt orkuver Evrópu til framtíðar. Að mati norrænu samtakanna er græna raforkan því sannkölluð gullkista Norðurlandanna og nauðsynlegt að efla flutningskerfin til að hægt sé að koma henni á markað, t.d. með aukinni uppbyggingu sæstrengja.

Evrópusambandið hefur lengi haft stefnu um sameiginlegan markað með raforku en víðast hvar vantar töluvert uppá í þeim efnum. Norðurlöndin fjögur – Noregur, Danmörk, Svíþjóð og Finnland – hafa hins vegar verið þarna í fararbroddi með öflugum tengingum sín á milli og raunverulegum samnorrænum raforkumarkaði. Þá hafa verið lagðir sæstrengir frá Norðurlöndum til annarra Evrópuríkja og fleiri slíkir eru í bígerð, m.a. frá Noregi til Bretlands.

Norðurlöndin hafa hins vegar árum saman kvartað undan lélegum aðgangi að þýskum raforkumarkaði sökum veiks flutningskerfis raforku í Norður-Þýskalandi og takmarkaðs aðgangs að því. Hafa samtökin hvatt stjórnvöld sinna ríkja til að hlutast til um bættan aðgang, jafnframt því að beina slíkum óskum til evrópskra eftirlitsaðila. Takmarkað aðgengi að þýskum raforkumarkaði kostaði Norðurlöndin um 500 milljónir danskra króna í töpuðum útflutningstekjum á liðnu ári, eða um 9,5 milljarða ÍSK, miðað við vannýtta flutningsgetu ríkjanna til Þýskalands.

Á Íslandi og í Noregi er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa um 100% í raforkuvinnslu. Þetta hlutfall er um 62% í Svíþjóð, 43% í Danmörku og 31% í Finnlandi. ESB-meðaltalið er rúm 25%.

Græn orka og loftslagsmál: Sérstaða og tækifæri

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Græn orka og loftslagsmál: Sérstaða og tækifæri

Parísarsamkomulaginu í loftslagsmálum er nú fagnað víða um heim. Að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er gríðarleg áskorun fyrir mannkyn, en um leið afar brýnt verkefni. Stærsta viðfangsefnið er að draga úr brennslu á jarðefnaeldsneyti á borð við olíu og kol. Að minnka orkunotkun og/eða auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa á borð við vatnsafl, jarðhita, sólarorku og vindorku. Orkugjafa sem allir hafa vissulega einhver sjónræn áhrif í för með sér, en hverfandi losun gróðurhúsalofttegunda. Þrátt fyrir háleit markmið frá París mun þessi þróun hins vegar taka mjög langan tíma og ljóst að jarðefnaeldsneyti verða áfram nýtt sem orkugjafar víða um heim um langa hríð.

Græna orkan sparar mikla losun
Ísland er sem kunnugt er í algerlega einstakri stöðu, en hér byggir nánast öll raforkuvinnsla og húshitun á endurnýjanlegum orkugjöfum – vatnsafli og jarðvarma. Orkustofnun hefur tekið saman að með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa í stað olíu spörum við andrúmsloftinu um 18 milljón tonn af losun koldíoxíðs árlega (að ógleymdum gríðarlegum gjaldeyrissparnaði). Stofnunin bendir jafnframt á að með nýtingu allra orkukosta sem nú eru til umfjöllunar á vettvangi rammaáætlunar mætti þrefalda þennan sparnað í um 50 milljónir tonna á ári. Til samanburðar losa Frakkar um 320 milljónir tonna árlega í andrúmsloftið, en þar búa 66 milljónir manna. Enginn reiknar auðvitað með þessari þróun rammaáætlunar, en þetta dæmi endurspeglar jákvætt framlag vatnsafls og jarðvarma til loftslagsmála.

Tækifæri framundan
Þrátt fyrir okkar miklu sérstöðu höfum við ýmis tækifæri til að ná enn meiri árangri á þessu sviði, ekki eingöngu með aukinni nýtingu grænna orkugjafa hérlendis. Rafvæðing samgangna er augljóst dæmi, en sú spennandi þróun er sannarlega hafin. Áratugum saman hafa Íslendingar deilt þekkingu sinni af nýtingu jarðvarma með öðrum þjóðum og enn stendur til að efla þá starfsemi. Þá hefur mögulegur sæstrengur til Bretlands verið til skoðunar, en slíkur strengur hefði í för með sér tækifæri til bættrar nýtingar á okkar grænu orku og á móti mætti t.d. minnka brennslu á kolum í Bretlandi.

Við getum því bæði verið stolt af okkar græna orkukerfi og horft bjartsýn til enn aukins framlags okkar til þess til að draga úr hnattrænni losun gróðurhúsalofttegunda.

Bein nýting jarðhita á Parísarfundinum – Upptaka af fundi, erindi og fleira

Jarðvarmaklasinn í samstarfi við utanríkisráðuneytið stóðu fyrir fundi um beina nýtingu jarðhita á Parísarfundinum um loftslagsmál. Þar fluttu erindi: Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra; Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri; Hildigunnur Thorsteinsson, framkvæmdastjóri þróunar Orkuveitu Reykjavíkur; Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar. Fundarstjóri var Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.

Myndband af fundinum, dagskrá hans og erindi má nálgast hér.

Nýting orkulinda Íslands dregur úr gróðurhúsalofttegundum

„Raforkan á Íslandi er nánast eingöngu unnin með vatnsafli og jarðvarma og sú vinnsla hefur í för með sér margfalt minni losun gróðurhúsalofttegunda á orkueiningu en þegar jarðefnaeldsneyti er brennt. Þannig er t.d. losun frá Fljótsdalsstöð (Kárahnjúkavirkjun) um 0,3% af losun frá kolaorkuveri og um 0,6% ef miðað er við jarðgas.“ Þetta kemur m.a. fram í Fréttablaðsgrein Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar. Hann bendir á að aukin nýting vatnsafls og jarðvarma á Íslandi, í stað orkuframleiðslu með brennslu jarðefna annars staðar, geti þannig dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum og sé því ein af leiðunum sem þarf að nota til að ná lokamarkmiði loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.

Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.