19. október 2018 Kalda vatnið ódýrast á Íslandi Heimili í Danmörku þarf að greiða rúmlega þrefalt meira fyrir notkun kalda vatnsins á ári hverju en á Íslandi. Ódýrast er að nota kalt vatn á Íslandi af Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í árlegri samantekt Samorku um kaldavatnsnotkun þar sem stuðst er við nýjar tölur frá stærstu veitufyrirtækjum á Norðurlöndum. Eins og sjá má er sker kostnaðurinn sig úr í Danmörku með tæplega 78 þúsund krónur árlega fyrir kaldavatnsnotkun. Skattar og gjöld hækka þessa tölu mikið, eins og sjá má á næstu mynd hér fyrir neðan, en jafnvel án þeirra er kostnaðurinn mestur þar. Í Finnlandi kostar kalda vatnið um 45 þúsund á hverju ári og svipað í Noregi, eða um 42 þúsund. Í Svíþjóð og á Íslandi er rukkað minnst fyrir þessa þjónustu. Í Svíþjóð má búast við að greiða rúmlega 25 þúsund krónur árlega fyrir notkun á köldu vatni og á Íslandi 24 þúsund, eða tvö þúsund krónur á mánuði. Íslendingar eru ein vatnsríkasta þjóð heims og landsmenn nota kalda og heilnæmt vatnið óspart. Meðalnotkun á heimili er um 500 lítrar á sólarhring sem er það mesta sem gerist í Evrópu. Kalt vatn er ekki selt um rennslismæla hérlendis eins og víðast hvar annars staðar, heldur er kostnaður áætlaður út frá fasteignamati. Þrátt fyrir mikinn vatnsauð og lítinn kostnað, hvetja veitufyrirtæki þó til þess að almenningur beri virðingu fyrir auðlindinni og noti vatnið skynsamlega, til að halda viðhaldskostnaði í skefjum.
28. júní 2018 Vetnisbíll á vatnsverndarsvæði Veitna Veitur hafa tekið í notkun nýjan vetnisbíl sem ætlaður er til notkunar á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk. Bíllinn, sem er af gerðinni Hyundai ix35, mun auka öryggið í kringum vatnsból Veitna umtalsvert en hingað til hefur umsjónarmaður vatnsverndarsvæðisins ekið um á lekavottuðum díselbíl. Vetni er frumefni og þegar það binst súrefni myndar það vatn. Útblástur bílsins er því hreint vatn og kolefnisspor eldsneytisins ekkert. Helsta hættan sem að vatnsbólunum stafar er mengun, t.d. af rusli, olíu, skólpi eða öðrum efnum. Þau geta komist í gegnum jarðlögin og í vatnið með miklum grunnvatnsstraumum sem renna neðanjarðar inn í vatnsbólin í Heiðmörk. Mengunarvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir eru nauðsynlegar til að tryggja neytendum á veitusvæði okkar hreint og tært vatn um alla framtíð. Kaupin á vetnisbílnum eru liður í því. Þrátt fyrir að ganga fyrir vetni er bíllinn sem Veitur taka nú í notkun lekavottaður því í honum eru aðrir vökvar sem ekki mega fara í jörð á vatnsverndarsvæði, eins og frostlögur, rúðupiss og smurolía. En hættan á að frá honum leki jarðefnaeldsneyti i jörð er ekki fyrir hendi.
30. maí 2018 Frestur til að skrá sig á NDWA að renna út Norræna drykkjarvatnsráðstefnan 2018 verður haldin dagana 11. – 13. júní í Osló, Noregi. Frestur til að skrá sig rennur út föstudaginn 1. júní. Skráning á ráðstefnuna. Metnaðarfull dagskrá verður í boði og fjallað um ýmist dreifikerfi vatns, rekstur vatnsveitna, fræðslu, gæði og meðhöndlun drykkjarvatns, vatnsvernd og fleira. Nálgast má upplýsingar um dagskrána og ráðstefnuna í heild á heimasíðu hennar. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og þar koma saman sérfræðingar Norðurlandanna í vatnstengdum fræðum og fjalla um hinar ýmsu hliðar á vatnsveitum og drykkjarvatni.
29. maí 2018 Vel heppnaður Veitudagur Veitudagur Samorku var haldinn í fyrsta sinn á Fagþingi hita-, vatns- og fráveitna á Hótel Örk í Hveragerði dagana 23.- 25. maí. Dagurinn var sérstaklega tileinkaður framkvæmda- og tæknifólki í aðildarfélögum Samorku. Fundargestum var boðið upp á áhugaverða fyrirlestra, þ.m.t. um öryggismál, en svo var skipt í lið og keppt í hinum ýmsu greinum. Í mælaþrautinni áttu keppendur að „koma fyrir vatnsmæli í húsi“ og líkt var eftir mjög erfiðum aðstæðum sem geta komið upp þegar starfsmenn veitufyrirtækja þurfa að koma upp mælum. Í suðukeppninni var heimæð komið fyrir á dreifilögn undir þrýstingi og tengja þurfti svo heimlögnina við ímyndaða tengigrind húsveitu. Í suðukeppninni var keppt í suðu á lagnaefni, í röraboltanum átti að kasta bolta og hitta ofan í rör eftir fyrirfram ákveðnum reglum og síðast en ekki síst var keppt í stígvélakasti, þar sem dæmt var eftir lengd og stefnufestu. Veitt voru verðlaun fyrir hverja þraut fyrir sig, en það voru Selfossveitur sem voru stigahæsta liðið samanlagt og fengu því sigurverðlaun dagsins. Selfossveitur voru með besta árangur samanlagt í þrautum dagsins Veitudagurinn þótti heppnast vel og líklegt verður að teljast að hann verði héðan í frá fastur liður á Fagþingum Samorku. Myndir frá deginum má sjá á Facebooksíðu Samorku
20. apríl 2018 Skráning hafin á norrænu vatnsveituráðstefnuna 2018 Norræna vatnsveituráðstefnan 2018 verður haldin 11.-13. júní í Osló, Noregi. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og þar koma saman sérfræðingar Norðurlandanna í vatnstengdum fræðum og fjalla um hinar ýmsu hliðar á vatnsveitum og drykkjarvatni. Metnaðarfull dagskrá verður í boði og fjallað um ýmist dreifikerfi vatns, rekstur vatnsveitna, fræðslu, gæði og meðhöndlun drykkjarvatns, vatnsvernd og fleira. Skráning á ráðstefnuna er hafin.
17. janúar 2018 Hversu verðmætt er vatnið okkar? Hversu verðmætt er vatnið okkar? Þessari spurningu var leitast við að svara í víðu samhengi á opnum morgunverðarfundi Samorku í morgun, sem haldinn var á Icelandair Hótel Natura með yfirskriftinni Verðmætin í vatninu. Fjallað var um kaldavatnsauðlindina á Íslandi, vatnsvernd og samstarf við hagsmunaaðila um umgengni á vatnsverndarsvæðum og þegar slys verða við vatnsból, vatnið sem undirstöðu í allri matvælaframleiðslu og ný greining á virði vatnsins fyrir samfélagið var kynnt. Niðurstaðan var sú að virði hreins vatns er langt umfram bókhaldslegt virði vatnsveitna. Virðið felst ekki síst í þeim kostnaði sem við sleppum við vegna þess hversu auðlindin er ríkuleg hér á landi og að við þurfum hvorki að bæta neinu við vatnið né hreinsa úr. Neikvæð áhrif mengaðs vatns á heilsufar landsmanna væri mælt í milljörðum króna. Það er því ákaflega mikilvægt að sameinast um vernda auðlindina hér á landi og bera virðingu fyrir henni. Fundurinn var vel sóttur, enda umræðuefnið hvað hæst á baugi í samfélagsumræðunni um þessar mundir. Fundurinn í heild sinni: Kristján Geirsson, verkefnastjóri hjá Orkustofnun, fjallaði um vernd og nýtingu vatns á Íslandi Jón Skafti Gestsson, orku- og umhverfishagfræðingur hjá Lotu, kynnti greiningu sína á virði vatns Gunnur Ýr Stefánsdóttir, verkefnastjóri Norðurorku, fjallaði um samstarf fyrirtækisins við Neyðarlínuna þegar slys koma upp á vatnsverndarsvæði Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Veitna og Hlín Benediktsdóttir, rekstrarstjóri vatnsveitu Veitna, fjölluðu um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu Stefán Magnússon, markaðsstjóri Coca-Cola á Íslandi, talaði um mikilvægi vatnsins fyrir framleiðslu fyrirtækisins
16. janúar 2018 Neysluvatn á höfuðborgarsvæðinu öruggt Ekki er talin hætta á heilsufarslegum afleiðingum við neyslu vatns í Reykjavík. Niðurstaða fundar í samstarfsnefnd um sóttvarnir í morgun var sú að mengun sem mældist í neysluvatni víða í Reykjavík og á Seltjarnarnesi sé einangrað fyrirbæri í kjölfar mikilla vatnavaxta. Samstarfsnefndin telur ekki þörf á að almenningur á svæðum þar sem mengunin hefur mælst sjóði vatn fyrir neyslu og ekki sé þörf á sérstökum varúðarráðstöfunum. Einnig er óhætt að nota neysluvatnið í matvæla- og drykkjarframleiðslu. Veitur og heilbrigðiseftirlitin á höfuðborgarsvæðinu munu áfram fylgjast með gæðum neysluvatns og mun birta niðurstöður mælinga á sínum vefsíðum. Samstarfsnefndin mun áfram fylgjast náið með ofangreindri mengun og mun birta leiðbeiningar til almennings þegar tilefni gefst til. Hægt er að lesa tilkynningu frá sóttvarnalækni í heild sinni á heimasíðu embættisins.
16. janúar 2018 Hvað eru jarðvegsgerlar? Á vef Veitna má finna svör við ýmsum spurningum sem kunna að brenna á fólki eftir að fjölgun jarðvegsgerla mældist í kalda vatninu í Reykjavík. Hætta er ekki á ferðum fyrir almenning, en í varúðarskyni mælir Heilbrigðiseftirlitið að neysluvatn í vissum hverfum borgarinnar sé soðið ef um neytendur er að ræða sem eru viðkvæmir t.d. með lélegt ónæmiskerfi, ungabörn, aldraðir eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Þetta á við um öll hverfi borgarinnar nema Grafarvog, Norðlingaholt, Úlfarsárdal, Kjalarnes auk Mosfellsbæjar, sem fá vatn frá öðrum svæðum í Heiðmörk þar sem ekki hefur mælst gerlafjöldi yfir viðmiðunarmörkum. Fátítt er að óæskilegir gerlar finnist í neysluvatni úr Heiðmörk. Í hlákutíð er þó meiri hætta á að gerlar frá yfirborði berist í grunnvatn. Unnið er eftir skráðu verklagi til að bregðast við þessari hættu. Hér koma spurningarnar og svörin: Eru jarðvegsgerlar hættulegir? Ekki í litlu magni. Nota má vatnið eins og vanalega. Heilbrigðiseftirlitið hefur í varúðarskyni gefið út að viðkvæmt/veikt fólk, ungbörn og aldraðir ættu að drekka soðið vatn. Jarðvegsgerlar er heiti yfir fjölmarga gerla (bakteríur) sem finnast í umhverfi okkar og eru nauðsynlegir fyrir lífríkið og yfirleitt alveg skaðlausir. Hafa fundist E.coli gerlar (saurkólígerlar)? Í síðustu viku fundust E.coli gerlar í þremur sýnum, einn í hverju. Þær holur voru teknar strax úr rekstri. Í staðfestum niðurstöðum nýjustu sýna fundust 2 gerlar í sýni úr holu sem ekki er verið að nota. Má elda úr vatninu? Já, suða drepur jarðvegsgerlana. Hvaðan koma þessi gerlar? Gerlarnir berast með úrkomu af yfirborði ofan í grunnvatn og þaðan í borholurnar. Hláka eykur líkur á að slíkt gerist. Borholur sem safna grunnvatni af litlu dýpi eru viðkvæmari fyrir þessu. Af hverju gerist þetta núna? Það hafa verið sérstakar veðuraðstæður undanfarið. Mikil hláka í kjölfarið á löngum frostakafla. Við slíkar aðstæður kemst yfirborðsvatn auðveldar ofan í grunnvatnið sem við erum svo að dæla úr borholunum. Hversu lengi má búast við að aukið gerlamagn finnist í vatninu? Við teljum líklegt að þar sem hlákuveðrið er búið og komið frost þá séum við að sjá fyrir endann á þessu. Við reynum að staðfesta það með niðurstöðum úr sýnatökum á næstu dögum. Hvernig ætla Veitur að bregðast við? Viðbragðsáætlun vegna hláku er í gildi allan veturinn (borholur í Gvendarbrunnum eru t.d. viðkvæmar fyrir auknu gerlamagni vegna hláku og því ekki í notkun frá október fram til loka mars, samkvæmt áætluninni). Við tökum líka holur úr rekstri í hláku sem eru viðkvæmar fyrir ofanvatninu sem ber gerlana. Viðbragðsáætlunin verður yfirfarin. Sýnatökum verður fjölgað og fyrirbyggjandi aðgerðir skoðaðar. Hversu oft eru tekin sýni? Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tekur sýni úr dreifikerfinu tvisvar í viku. Veitur taka taka að auki sýni í hlákutíð í öllum borholum sem eru í notkun. Það var við slíkt eftirlit sem þessi frávik komu í ljós. Sýnataka hefur verið aukin mjög í ljósi þessara tíðinda. Hversu oft mælast gerlar yfir mörkum í neysluvatninu? Árið 2011 komu síðast staðfestar niðurstöður um frávik í gerlamagni í borholu í Heiðmörk. Af og til gerist það að sýnataka misheppnast þannig að hún sýni aukið gerlamagn sem frekari sýnataka hefur ekki staðfest. Hverjir fá vatnið frá borholum Veitna í Heiðmörk? Vatn frá vatnstökusvæðum Veitna í Heiðmörk fer til íbúa og fyrirtækja í Reykjavík, Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ. Aukinn fjöldi gerla fannst í vatni sem fer til íbúa í Reykjavík NEMA þeirra sem búa í Grafarvogi, Norðlingaholti, Úlfarsárdal, Kjalarnesi auk Mosfellsbæjar, sem fá vatn frá öðrum svæðum í Heiðmörk. Á morgun, miðvikudaginn 17. janúar, býður Samorka á opinn morgunverðarfund sem ber yfirskriftina Verðmætin í vatninu. Á fundinum verður fjallað um mikilvægi vatnsverndar og hversu mikils virði það er okkur. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir, en skráningar er óskað.
28. nóvember 2016 Góð rekstrarniðurstaða OR Hagnaður OR eftir fyrstu níu mánuði ársins nemur 9,4 milljörðum króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu í dag. Nettóskuldir OR hafa lækkað um 17,8 milljarða frá áramótum. Þar af hefur styrking krónunnar skilað 3,8 milljörðum til lækkunar skulda og færist til tekna. Í gær tilkynntu Veitur um gjaldskrárbreytingar sem verða um áramót. Veitur er dótturfyrirtæki OR sem sér um rekstur hitaveitu, vatnsveitu, fráveitu og rafveitu víða á sunnan- og vestanverðu landinu. Sparnaður í rekstrinum gerir fyrirtækinu kleift að lækka gjaldskrá rafmagnsdreifingar um 5,8%. Rafveita Veitna þjónar Reykjavík, Akranesi, Mosfellsbæ, Kópavogi og meirihluta Garðabæjar. Gjaldskrá vatnsveitnanna lækkar um allt að 11,2% en miklar fjárfestingar í fráveitum og hitaveitum leyfa ekki lækkun á þeim gjaldskrám.
20. október 2016 Orku- og veituþjónusta langódýrust á Íslandi Íslensk heimili greiða langminnst fyrir orku- og veituþjónustu á Norðurlöndum. Samanlagt greiða Íslendingar rúmum 400 þúsund krónum minna fyrir kalt og heitt vatn, rafmagn og fráveitu á hverju ári en þar sem þjónustan er dýrust. Sé miðað við heildarreikning fyrir 100 fermetra íbúð og meðalnotkun á ári, greiðir íslenskt heimili aðeins um 247 þúsund krónur fyrir orku- og veituþjónustu. Í Kaupmannahöfn greiða íbúar í sams konar íbúð 655 þúsund krónur, sem er hæsta verðið á Norðurlöndunum og tæpum 34 þúsundum meira á mánuði en á Íslandi. Næstmest borga Finnar, eða um 588 þúsund á ári hverju og Svíar borga 480 þúsund. Orku- og veituþjónusta kostar næstminnst í Noregi, en þar greiðast 431 þúsund krónur árlega, sem er þó tæpum 184 þúsund krónum meira en á Íslandi. Á heildarreikningi heimilanna munar mestu um verð á heitu vatni – Íslendingar greiða langtum minna fyrir það en aðrir íbúar Norðurlanda. Forsendur: Rafmagn: 4.800 kWst ársnotkun. Heitt vatn: 100m2 íbúð, 495 tonna ársnotkun. Kalt vatn: 100m2 íbúð, 240 tonna ársnotkun. ATH! Á Íslandi er notkun ekki mæld, heldur miðuð við stærð húsnæðis. Íslendingar nota meira magn af köldu vatni á mann en aðrir íbúar Norðurlanda. Fráveita: 100m2 íbúð, 240 tonna ársnotkun.