Ágreiningsefnið í málinu er fyrst og fremst um það hvaða felst í hugtakinu fjármagnskostnaður samkvæmt 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga. Lögin sjálf skilgreina hugtakið ekki, en hins vegar er almennur skilningur sá að fjármagnskostnaður taki bæði til kostnaðar við lántöku og kostnaðar vegna bundins eigi fjár.
Samorka telur ljóst eftir ítarlega skoðun að niðurstaða ráðuneytisins byggist á ákveðnum misskilningi. Í lögskýringargögnum (greinargerð með frumvarpi til vatnsveitulaga, nefndaráliti með frumvarpinu og einnig í greinargerð með frumvarpi til sveitarstjórnarlaga) koma fram mikilvægar upplýsingar sem gefa svör um það hvað átt er við með fjármagnskostnaði í lögum um vatnsveitur sveitarfélaga. Þegar þessi gögn eru rýnd er augljóst að vilji Alþingis stendur til þess að sveitarfélögin, sem eigendur vatnsveitna, geta áskilið sér hæfilegan kostnað vegna eiginfjár sem bundið er í veitunni, þ.e. hæfilegan arð.
Ekki er dregið í efa að þessum rétti til arðs eru settar ákveðnar skorður og þess vegna gert ráð fyrir því í vatnsveitulögunum að ráðherra setji reglugerð hér að lútandi. Reglugerð um þessi atriði hefur ekki verið sett og því skort á leiðbeiningum um með hvaða hætti skuli reikna út þennan kostnað, þ.e. hver sé leyfilegur arður. Reglur hér að lútandi hafa hins vegar verið settar um raforkudreifingu og því ákváðu Veitur að hafa hliðsjón af þeim reglum í tilfelli gjaldskrár vatnsveitunnar. Er þá á því byggt að gera megi ráð fyrir því að svipuð sjónarmið liggi til grundvallar um ákvörðun arðs í sérleyfisstarfssemi hvort sem um raforkudreifingu er að ræða eða rekstur vatnsveitu.
Mikilvægt er að hafa í huga að í umfjöllun fræðimanna um hæfilegan arð af bundnu eigin fé í fyrirtækjum sveitarfélaga er lögð áhersla á mikilvægi þess að um er að ræða raunverulegan kostnað og að með skilyrðingu um arð komi hvatar sem tryggi skynsamlegt eigið fé á móti lánsfé. Slíkt auki jafnfram líkur á fjárfestingu í nauðsynlegum innviðum og þeim sé haldið við af ábyrgð.
Stjórn Samorku og ráðgjafaráð veitufyrirtækja hafa fjallað um málið og er niðurstaðan sú að óska eftir því við Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að þegar í stað verði sett reglugerð um forsendur arðs af bundnu eigin fé og þar með viðurkennt að fjármagnskostnaður taki til bæði lánsfjár og bundins eigin fjár í vatnsveitum sveitarfélaga. Telji ráðuneytið að ástæða sé til þess að jafnframt séu gerðar breytingar á lögum um vatnsveitur sveitarfélag þá verði það gert hið fyrsta.
Stjórn Samorku óskar einnig eftir því að ráðuneytið fari að svo stöddu ekki í boðaða frumkvæðisathugun á gjaldskrám allra vatnsveitna sveitarfélaga í landinu. Áður en til þess kemur er mikilvægt að tekin sé afstaða til þeirra röksemda sem Samorka hefur sett fram í málinu og þar með að forsendur séu nú þegar fyrir hendi fyrir ráðherra að gefa út reglugerð sem veitir leiðsögn um hvað sé hæfilegur arður af bundnu eigni frá, enda ljóst að löggjafarviljinn stendur til þeirrar heimildar.
Í dag 22. mars er alþjóðlegur dagur kalda vatnsins. Þema dagsins í ár er aðgengi að neysluvatni.
Á Íslandi búum við við afar gott aðgengi að hreinu neysluvatni, sem stuðlar að heilbrigði allra landsmanna. Vatnið er okkar helsta auðlind.
Meðalnotkun heimilis í Reykjavík er 165 lítrar af köldu vatni á dag á hvern einstakling, sem er það hæsta sem gerist á Norðurlöndunum. Vatnsnotkun í iðnaði er miklu meiri en heimilisnotkun. Sérstaklega á þetta við um fiskiðnaðinn þar sem mikið vatn er notað til að þvo og kæla fiskinn. Til fiskeldis, iðnaðar, neysluvatns, húshitunar og fleira nýtast 10 rúmmetrar af ferskvatni á sekúndu, eða um tvöfalt rennslu Elliðaánna. Það magn er þó minna en 1% auðlindarinnar á landinu.
Milljarðar manna um allan heim búa ekki svo vel að hafa aðgengi að hreinu neysluvatni og er það eitt af sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna að breyta því fyrir árið 2030.
Orku- og veituþjónusta, eða heitt vatn, kalt vatn, rafmagn og fráveita, þykir nauðsynleg þjónusta á hverju heimili. Afar mismunandi er hversu mikið þarf að greiða fyrir þessa þjónustu í nágrannalöndum Íslands og hversu hátt hlutfall það er af neysluútgjöldum.
Íslensk heimili greiða langlægsta hlutfall neysluútgjalda á Norðurlöndunum fyrir orku- og veituþjónustu. Heimili í Danmörku greiðir rúmlega þrefalt hærra hlutfall en hér á landi.
Sé miðað við gögn frá stærstu veitufyrirtækjum í höfuðborgum Norðurlandanna og útgjaldarannsókn, sem framkvæmd er af hagstofum Norðurlandanna, kemur fram að 3.75% neysluútgjalda meðalheimilis í Reykjavík er varið í orku- og veituþjónustu. Hlutfallið er hins vegar 12% fyrir heimili í Kaupmannahöfn og er hæst þar af Norðurlöndunum. Heimili í Stokkhólmi þarf að greiða svipað hlutfall og í Kaupmannahöfn, eða tæp 11%. Í Osló, þar sem hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum er næstlægst, greiðir meðalheimilið um 7% og í Helsinki er hlutfallið tæplega 9%.
Í Reykjavík er hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum heimila lægst í öllum flokkum; fyrir rafmagn, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu.
Heildarkostnað meðalheimilis fyrir orku- og veituþjónustu í höfuðborgum Norðurlandanna má sjá hér fyrir neðan.
Heimili í Danmörku þarf að greiða rúmlega þrefalt meira fyrir notkun kalda vatnsins á ári hverju en á Íslandi. Ódýrast er að nota kalt vatn á Íslandi af Norðurlöndunum.
Þetta kemur fram í árlegri samantekt Samorku um kaldavatnsnotkun þar sem stuðst er við nýjar tölur frá stærstu veitufyrirtækjum á Norðurlöndum.
Eins og sjá má er sker kostnaðurinn sig úr í Danmörku með tæplega 78 þúsund krónur árlega fyrir kaldavatnsnotkun. Skattar og gjöld hækka þessa tölu mikið, eins og sjá má á næstu mynd hér fyrir neðan, en jafnvel án þeirra er kostnaðurinn mestur þar.
Í Finnlandi kostar kalda vatnið um 45 þúsund á hverju ári og svipað í Noregi, eða um 42 þúsund. Í Svíþjóð og á Íslandi er rukkað minnst fyrir þessa þjónustu. Í Svíþjóð má búast við að greiða rúmlega 25 þúsund krónur árlega fyrir notkun á köldu vatni og á Íslandi 24 þúsund, eða tvö þúsund krónur á mánuði.
Veitur hafa tekið í notkun nýjan vetnisbíl sem ætlaður er til notkunar á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk. Bíllinn, sem er af gerðinni Hyundai ix35, mun auka öryggið í kringum vatnsból Veitna umtalsvert en hingað til hefur umsjónarmaður vatnsverndarsvæðisins ekið um á lekavottuðum díselbíl. Vetni er frumefni og þegar það binst súrefni myndar það vatn. Útblástur bílsins er því hreint vatn og kolefnisspor eldsneytisins ekkert.
Helsta hættan sem að vatnsbólunum stafar er mengun, t.d. af rusli, olíu, skólpi eða öðrum efnum. Þau geta komist í gegnum jarðlögin og í vatnið með miklum grunnvatnsstraumum sem renna neðanjarðar inn í vatnsbólin í Heiðmörk. Mengunarvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir eru nauðsynlegar til að tryggja neytendum á veitusvæði okkar hreint og tært vatn um alla framtíð. Kaupin á vetnisbílnum eru liður í því.
Þrátt fyrir að ganga fyrir vetni er bíllinn sem Veitur taka nú í notkun lekavottaður því í honum eru aðrir vökvar sem ekki mega fara í jörð á vatnsverndarsvæði, eins og frostlögur, rúðupiss og smurolía. En hættan á að frá honum leki jarðefnaeldsneyti i jörð er ekki fyrir hendi.
Metnaðarfull dagskrá verður í boði og fjallað um ýmist dreifikerfi vatns, rekstur vatnsveitna, fræðslu, gæði og meðhöndlun drykkjarvatns, vatnsvernd og fleira. Nálgast má upplýsingar um dagskrána og ráðstefnuna í heild á heimasíðu hennar.
Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og þar koma saman sérfræðingar Norðurlandanna í vatnstengdum fræðum og fjalla um hinar ýmsu hliðar á vatnsveitum og drykkjarvatni.
Veitudagur Samorku var haldinn í fyrsta sinn á Fagþingi hita-, vatns- og fráveitna á Hótel Örk í Hveragerði dagana 23.- 25. maí.
Dagurinn var sérstaklega tileinkaður framkvæmda- og tæknifólki í aðildarfélögum Samorku. Fundargestum var boðið upp á áhugaverða fyrirlestra, þ.m.t. um öryggismál, en svo var skipt í lið og keppt í hinum ýmsu greinum.
Í mælaþrautinni áttu keppendur að „koma fyrir vatnsmæli í húsi“ og líkt var eftir mjög erfiðum aðstæðum sem geta komið upp þegar starfsmenn veitufyrirtækja þurfa að koma upp mælum. Í suðukeppninni var heimæð komið fyrir á dreifilögn undir þrýstingi og tengja þurfti svo heimlögnina við ímyndaða tengigrind húsveitu.
Í suðukeppninni var keppt í suðu á lagnaefni, í röraboltanum átti að kasta bolta og hitta ofan í rör eftir fyrirfram ákveðnum reglum og síðast en ekki síst var keppt í stígvélakasti, þar sem dæmt var eftir lengd og stefnufestu.
Veitt voru verðlaun fyrir hverja þraut fyrir sig, en það voru Selfossveitur sem voru stigahæsta liðið samanlagt og fengu því sigurverðlaun dagsins.
Selfossveitur voru með besta árangur samanlagt í þrautum dagsins
Veitudagurinn þótti heppnast vel og líklegt verður að teljast að hann verði héðan í frá fastur liður á Fagþingum Samorku.
Norræna vatnsveituráðstefnan 2018 verður haldin 11.-13. júní í Osló, Noregi.
Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og þar koma saman sérfræðingar Norðurlandanna í vatnstengdum fræðum og fjalla um hinar ýmsu hliðar á vatnsveitum og drykkjarvatni. Metnaðarfull dagskrá verður í boði og fjallað um ýmist dreifikerfi vatns, rekstur vatnsveitna, fræðslu, gæði og meðhöndlun drykkjarvatns, vatnsvernd og fleira.
Þessari spurningu var leitast við að svara í víðu samhengi á opnum morgunverðarfundi Samorku í morgun, sem haldinn var á Icelandair Hótel Natura með yfirskriftinni Verðmætin í vatninu.
Fjallað var um kaldavatnsauðlindina á Íslandi, vatnsvernd og samstarf við hagsmunaaðila um umgengni á vatnsverndarsvæðum og þegar slys verða við vatnsból, vatnið sem undirstöðu í allri matvælaframleiðslu og ný greining á virði vatnsins fyrir samfélagið var kynnt.
Niðurstaðan var sú að virði hreins vatns er langt umfram bókhaldslegt virði vatnsveitna. Virðið felst ekki síst í þeim kostnaði sem við sleppum við vegna þess hversu auðlindin er ríkuleg hér á landi og að við þurfum hvorki að bæta neinu við vatnið né hreinsa úr. Neikvæð áhrif mengaðs vatns á heilsufar landsmanna væri mælt í milljörðum króna. Það er því ákaflega mikilvægt að sameinast um vernda auðlindina hér á landi og bera virðingu fyrir henni.
Fundurinn var vel sóttur, enda umræðuefnið hvað hæst á baugi í samfélagsumræðunni um þessar mundir.
Fundurinn í heild sinni:
Kristján Geirsson, verkefnastjóri hjá Orkustofnun, fjallaði um vernd og nýtingu vatns á Íslandi
Jón Skafti Gestsson, orku- og umhverfishagfræðingur hjá Lotu, kynnti greiningu sína á virði vatns
Gunnur Ýr Stefánsdóttir, verkefnastjóri Norðurorku, fjallaði um samstarf fyrirtækisins við Neyðarlínuna þegar slys koma upp á vatnsverndarsvæði
Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Veitna og Hlín Benediktsdóttir, rekstrarstjóri vatnsveitu Veitna, fjölluðu um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu
Stefán Magnússon, markaðsstjóri Coca-Cola á Íslandi, talaði um mikilvægi vatnsins fyrir framleiðslu fyrirtækisins
Ekki er talin hætta á heilsufarslegum afleiðingum við neyslu vatns í Reykjavík. Niðurstaða fundar í samstarfsnefnd um sóttvarnir í morgun var sú að mengun sem mældist í neysluvatni víða í Reykjavík og á Seltjarnarnesi sé einangrað fyrirbæri í kjölfar mikilla vatnavaxta.
Samstarfsnefndin telur ekki þörf á að almenningur á svæðum þar sem mengunin hefur mælst sjóði vatn fyrir neyslu og ekki sé þörf á sérstökum varúðarráðstöfunum. Einnig er óhætt að nota neysluvatnið í matvæla- og drykkjarframleiðslu.
Veitur og heilbrigðiseftirlitin á höfuðborgarsvæðinu munu áfram fylgjast með gæðum neysluvatns og mun birta niðurstöður mælinga á sínum vefsíðum. Samstarfsnefndin mun áfram fylgjast náið með ofangreindri mengun og mun birta leiðbeiningar til almennings þegar tilefni gefst til.