Gróðureldar á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk

Nokkur viðbúnaður var hjá Veitum vegna gróðureldanna í Heiðmörk í gærkvöldi. Vatnsból höfuðborgarinnar, og vatnsverndarsvæðið í kringum þau, eru staðsett í Heiðmörk og afar mikilvægt að þau mengist ekki, t.d. af olíu eða öðrum efnum sem geta komist af yfirborði í gegnum jarðlögin og í grunnvatnsstraumana. Haft var samráð við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vegna aukinnar hættu á mengunarslysum, sem skapast getur vegna mikillar umferðar stórra ökutækja er bera með sér töluvert magn eldsneytis inn á vatnsverndarsvæðið.

Auk vatnsverndar var gripið til annarra varúðarráðstafana svo verja mætti mannvirki og búnað vatnsbólanna. Vatnstankar voru settir á yfirfall til að bleyta upp í yfirborði í nágrenni vatnstökumannvirkja og sett var upp brunanhanatenging sem slökkvilið gæti notað í Vatnsendakrikum, einum af þremur vatnstökustöðum Veitna í Heiðmörk, sem slökkvilið gat notað við slökkvistarf. Fyrir voru nokkrir brunahanar í Heiðmörk sem settir voru upp fyrir nokkrum árum vegna hættu á gróðureldum. Mönnun í stjórnstöð var aukin ef færa þyrfti vatnstöku á milli svæða og/eða stýra framleiðslunni handvirkt. Snör handtök viðbragðsaðila komu í veg fyrir að nýta þyrfti þessar ráðstafanir.

Neysluvatn höfuðborgarbúa er tekið úr borholum á vatnstökusvæðunum í Heiðmörk og er ekki talið að gróðureldar á yfirborði af þessari stærðargráðu og á þessum stað hafi mælanleg áhrif á vatnsgæði. Veitur hafa nýverið sett upp efnavöktunarbúnað á báðum aðalvatnslögnum frá Heiðmörk til að vakta í rauntíma möguleg áhrif eldgoss á Reykjanesi á efnasamsetningu vatns. Sá búnaður getur einnig nýst til að meta hugsanlegar breytingar, á þeim þáttum er hann mælir, af öðrum völdum, t.d. gróðurelda. Eins og ávallt verður fylgst vel með gæðum vatnsins og ef talin er ástæða til verður sýnataka aukin frá reglubundu eftirliti.

Frétt frá Veitum.