19. febrúar 2016 Ávinningur Íslendinga af orku- og veitufyrirtækjum gríðarlegur Framlag orku- og veitufyrirtækja til íslensks samfélags, hvort sem um er að ræða fjárhagslegan ávinning eða minni losun gróðurhúsalofttegunda, er umtalsvert. Bjarni Bjarnason formaður Samorku fór yfir ávinning af orku- og veitustarfsemi á ársfundi samtakanna 2016. Án endurnýjanlegrar orku væri CO2 losun Íslendinga töluvert meiri. Heildarlosun Íslands í dag er um 4,6 milljón tonn ár hvert og hefur verið á svipuðu róli allt frá árinu 1990. Ef hitaveitu nyti ekki við og við þyrftum að nota olíu til að hita húsin okkar, þá væri losunin tæp sex milljón tonn á ári. Ef rafmagn væri framleitt með öðrum hætti en með endurnýjanlegri orku, þá væri losunin um átta milljón tonn. Þar er stóriðja undanskilin. Fjárhagslegur ávinningur fyrir heimilin í landinu er einnig umtalsverður. Mánaðarlegur orku- og veitureikningur fjölskyldu sem býr í Osló er meira en tvöfalt hærri en fjölskyldu í Reykjavík, miðað við algenga notkun í báðum borgum, og tæplega þrefalt hærri hjá fjölskyldu í Kaupmannahöfn. Bjarni talaði einnig um skipulag og áherslur Samorku, en eftir stefnumótun á árinu 2015 var ákveðið að leggja meiri áherslu á ákveðna þætti í starfseminni, líkt og kynningarmál og almenna upplýsingagjöf til samfélagsins. Þá fór hann yfir samsetningu fyrirtækjanna sem standa að Samorku og kynja- og aldursskiptingu starfsmanna innan þeirra, en Bjarni lagði mikla áherslu á að fjölga konum innan orkugeirans. Glærur frá ávarpi Bjarna má sjá hér.
19. janúar 2016 Metár í heitavatnsnokun Árið 2015 var metár í vatnsnotkun hjá hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu. Heildarnotkunin jókst um 10% frá árinu áður og er aukningin milli ára sú mesta sem hefur sést frá aldamótum. Vatnsnoktunin árið 2015 var tæplega 83 milljónir rúmmetra.
7. júní 2015 Erindi Fagfundar veitusviðs Samorku Samanlagt tóku um 180 manns þátt í vel heppnuðum Fagfundi veitusviðs Samorku sem haldinn var á Hótel Borgarnesi dagana 28.-29. maí. Flutt voru rúmlega 40 erindi um málefni hita-, vatns- og fráveitna, auk þess sem fjallað var um öryggismál, umhverfismál, jarðhita, laga- og regluumhverfi veitufyrirtækja og fleira. Farið var í vettvangs- og vísindaferð þar sem m.a. var skoðuð lífræn hreinsistöð á Hvanneyri og Deildartunguhver, þar sem Orkuveita Reykjavíkur bauð upp á hressingu. Hátíðarkvöldverður var haldinn í Hjálmakletti. Tengla á öll erindi fundarins má nálgast hér á vef Samorku.
4. júní 2015 Metmánuður í notkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu Í nýrri frétt frá Orkuveitu Reykjavíkur kemur fram að hver einasti mánuður frá áramótum hefur verið metmánuður í notkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu. Í maí einum var heitavatnsnotkunin 6,3 milljónur tonna, sem er fjórðungsaukning frá sama mánuði árið á undan. Sjá nánar á heimasíðu Orkuveitu Reykjavíkur.
13. maí 2015 Þættirnir Orka Landsins á N4 Sjónvarpsstöðin N4 mun á næstunni sýna þættina Orka Landsins, sem fjalla um orkunýtingu og veitustarfsemi í landinu. Þættirnir eru unnir í samstarfi við Samorku, Orkustofnun og Orkusetur. Fyrsti þátturinn verður sýndur á N4 mánudaginn 18.maí kl. 18.30 (endursýndur á klukkustunda fresti) og fjallar um vatn. Næstu 6 mánudaga heldur þáttaröðin áfram og þá verður fjallað um raforku, jarðvarma og eldsneyti. Hér má sjá stiklu úr þáttunum og frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu N4.