Skrifstofumannanámskeið Samorku

Flutt voru hin fjölbreytilegustu erindi og farið í heimsókn til Hitaveitu Suðurnesja, þar sem þátttakendur fengu góða yfirferð yfir starfsemi fyrirtækisins og starfsmannastefnu. Síðan var Gjáin í svartsengi heimsótt og að lokum var snætt af jólahlaðborði í Bláa Lóninu.

Dagskrá námsskeiðsins: Smellið hér

Nokkrar myndir af þátttakendum og fyrirlesurum: Smellið hér

Veitustjórafundurinn 2005

Á fundinum var farið yfir störf fagráða á líðandi ári og rætt um helstu málefni sem framundan eru á næsta ári.

Sigríður Auður Arnardóttir og Ingibjörg Halldórsdóttir hjá Umhverfisráðuneyti sögðu frá þingmálum á umhverfissviði er varða veiturnar og ríkisstjórnin áætlar að verði afgreidd í vetur á Alþingi. Góðar umræður urðu um erindi þeirra.

Dagskrá fundarins: Smellið hér

Nokkrar myndir frá fundinum: Smellið hér

Múlavirkjun á Snæfellsnesi, ný virkjun

Múlavirkjun á Snæfellsnesi var tekin formlega í notkun við hátíðlega athöfn þann 24. nóv. s.l.  Það er Straumfjarðará sem hefur verið virkjuð og  gefur 3,2 MW afl. Vatni er miðlað úr Baulárvallavatni og Hraunsfjarðarvatni.

Þrír bændur í héraði standa að framkvæmdinni, þeir landeigendur Ástþór Jóhannsson í Dal og Eggert Kjartansson á Hofsstöðum, ásamt athafnamanninum Bjarna Einarssyni bónda í Tröðum.

Fjölmenni var samankomið til að fagna þessum tímamótum í stöðvarhúsinu og í félagsheimilinu Breiðabliki. Ástþór Einarsson bauð gesti velkomna og lýsti aðdraganda og byggingarsögu virkjunarinnar, sóknarpresturinn á Staðarstað Guðjón Skarphéðinsson blessaði mannvirkið og Ellert Eiríksson stjórnarformaður Hitaveitu Suðurnesja gangsetti virkjunina.

Hitaveita Suðurnesja  kaupir alla orku frá virkjuninni og er framleiðslunni fjarstýrt frá stjórnstöð hitaveitunnar í Svartsengi. Það eru hin nýju raforkulög og opnun viðskiptamarkaðarins sem eru forsendur þesss samnings sem gerður hefur verið á milli Múlavirkjunar og Hitaveitu Suðurnesja um viðskiptin, en það samkomulag varð til þess að bændur réðust í þessa myndarlegu framkvæmd.

Myndir frá vígsluathöfninni: Smellið hér

Orkuveita Reykjavíkur fyrstir orkufyrirtækja með vottað umhverfisstjórnunarkerfi

Umhverfisstjórnunarkerfið ISO 14001 byggir á því að kortleggja þá þætti starfseminnar sem hafa áhrif á umhverfið, vinna að stöðugum umbótum og lágmarka þau áhrif eins og kostur er. Upplýsingar um umhverfis-stefnuna þurfa að vera aðgengilegar fyrir notendur.  Um 90 þúsund fyrirtæki í heiminum hafa vottað ISO 14001 en hér á landi er Orkuveitan sjötta fyrirtækið með slíka vottun. Á undan koma Ísal, Borgarplast, Árvakur hf, Hópbílar hf og Hagvagnar hf.  

Samorka óskar Orkuveitu Reykjavíkur til hamingju með þennan áfanga.

Máli um samráð röraframleiðenda í Danmörku lokið með sátt um bætur til fjögurra hitaveitna í Danmörku

Hinn 4. október sl. náðist samkomulag um að ljúka máli um samráð röraframleiðenda. Mál sem byrjaði árið 1995 með að Evrópusambandið hóf rannsókn hjá níu evrópskum röraframleiðendum eftir ákæru frá sænska röraframleiðandanum Powerpipe A/S. Powerpipe kærði þessa röraframleiðendur um samráð um að ýta þeim út af markaðnum eftir að fyrirtækið neitaði þátttöku í samráði um verð og markaðskiptingu. Við rannsókn kom í ljós að hringamyndunin hófst árið 1990 og stóð fram á árið 1996, jafnvel eftir að rannsókn hófst. Fyrirtækin gerðu sig sek um að skipta á milli sín markaðnum, ákveða verð og úthluta hverjir fengju ákveðin tilboð í hitaveiturör. Einnig gerðu þau sig sek um að reyna að ýta keppinauti sem ekki vildi taka þátt út af markaðnum með undirboði og setja þrýsting á efnissala og undirverktaka að skipta ekki við viðkomandi.

EB dæmdi þessa níu röraframleiðendur til greiðslu sektar upp á 690 milljónir danskar krónur í október 1998.  Strax í kjölfarið kröfðu fjórar stærstu hitaveiturnar í Danmörku í Álaborg, Árósum, Kaupmannahöfn og Óðinsvéum áðurnefnd fyrirtæki og auk þess Dansk Rörindustri A/S um bætur fyrir tap sem þær höfðu orðið fyrir vegna yfirverðs á rörum á því tímabili sem samráð um verð sannanlega fór fram.Eftir að ekki gekk né rak í málinu stefndu hitaveiturnar fyrirtækjunum fyrir dómstóla í febrúar 2001 og kröfðust 270 milljón króna danskra í bætur.  Í janúar á þessu ári gerði Dansk Rörindustri A/S samkomulag við Álaborg um að greiða þeim 5 Mkr í bætur. En það var aðeins Álaborg sem hafði gert kröfu á Dansk Rörindustri.

Í júní sl. staðfestir EB dómstóllinn sektargreiðslurnar frá 1998 og þar á ABB að greiða stærsta hlutann, 525 Mkr, vegna leiðandi hlutverks í samráðinu. Í september sl. hófust málaferlin í Danmörk með sveitarfélögin fjögur gegn tveimur röraframleiðendum með málsgögn upp á 10 þúsund blaðsíður sem rúmast í 29 möppum. Og í byrjun október sl. næst samkomulag um 150 Mkr bætur til sveitarfélaganna.  Álaborg fær 54 Mkr, Kaupmannahöfn 32 Mkr, Óðinsvé 54 Mkr og Árósar 10 Mkr.

Heimild: Fjernvarmen 11.2005

 

 

Flestar bilanir í heimæðum og inntökum

Niðurstöður samantektarinnar eru að flestar bilanir eru í heimæðum og inntökum. Algengustu orsakir bilana eru ytri áverkar frá jarðvinnutækjum og lagningagalli við meðhöndlun. Bilunum í samskeytum á hvern kílómetra í lögnum hefur fækkað mikið síðan skráning á bilunum hófst árið 1993 og er nú rúmlega 10% af því sem hún var þá. Einnig hefur bilunum í brunnum fækkað töluvert.  Hinsvegar er fjöldi bilana á km í inntökum svipaðar og í upphafi og bilanir þar sem orsaka er að leita í skemmdum af völdum jarðvinnutækja hefur aukist. Það er því ljóst að ef leita á leiða til að bæta gæði lagna er mesti ávinningurinn fólginn í umbótum á þessum þáttum þ.e. inntökum og fyrirbyggjandi aðgerðum til að hindra skemmdir af völdum jarðvinnuvéla.

Orkuveita Reykjavíkur hefur í samvinnu við Samorku þróað hitaveitubilanaforritið fyrir skráningu á bilunum í vatnsveitum.  Það forrit stendur vatnsveitum til boða.  Þar hafa verið gerðar nokkrar endurbætur sem vert væri að taka inn í hitaveituforritið s.s. eins og að tilgreina jarðvegsgerð og betri útprentun á niðurstöðum. Orkuveitan er einnig að þróa forritið til að skrá bilanir í fráveitum og gagnaveitum.  Einnig er fyrirhugað að útvíkka forritið til skrá öll viðhaldsverkefni og tengja það við rekstrarhandbók Orkuveitunnar. 

 

Umhverfiskostnaður

Það hefur nokkuð erfitt að meta umhverfiskostnað en reyndar hafa verið ýmsar leiðir. Það má gera kröfur um frágang og að lagt sé til hliðar til að færa til sama horfs eftir að notkun mannvirkja lýkur, greiða fyrir losunarheimildir og mengunargjöld. Þær hagfræðiaðferðir sem helst hafa verið notaðar til að mæla umhverfiskostnað eru m.a. skilyrt verðmætamat þar sem fundið er út hvað fólk vill borga fyrir tiltekin umhverfisgæði, ferðakostnaður þ.e. hvað borgar fólk fyrir að fara á ákveðna staði.  lífsgæðamat þ.e. hvaða áhrif hafa tiltekin umhverfisgæði á verð t.d. íbúðar.  Það hefur verið reiknað út að útsýni til Esjunnar hækki íbúðarverð um 10%.  Við gerð rammaáætlunar þar sem virkjunarkostum var raðað með tilliti til umhverfisáhrifa var valið að nota frekar samanburðaraðferðir en ekki fjárhagslegt mat.  Landslag á Íslandi gegnir mikilvægu hlutverki sem tákn þjóðarinnar.  En það vantar skilgreind viðmið til að meta landslag.  Línuhönnun hefur tekið saman skýrslu um aðferðir frá 13 löndum til að meta landslag.  Sjá vefslóð  www.lh.is/pdf/matlandslagi.pdf. 

Þjónusta vistkerfa jarðar er verðmæt, verðmætari en allt hagkerfi heimsins. Verðgildið byggist á þeirri þjónustu sem náttúran veitir okkur og hvað það kostaði okkur ef hún væri ekki til staðar. Ef við ekki tökum tillit til hennar þá er hætta á að við högum okkur heimskulega og gleymum því að við erum hluti af náttúrunni.

 

Vatnsveitufólk frá Ungverjalandi heimsótti Samorku

Það var fríður hópur Ungverskra vatnsveitustjóra sem kom á skrifstofu Samorku 7. okt. s.l.

Erindið var að kynnast samtökunum og fá fræðslu um rekstur vatnsveitna á Íslandi, með sérstakri áherslu á gæðamál og innra eftirlitskerfi veitnanna. Það var María Jóna Gunnarsdóttir sem flutti þeim fróðleikinn og var mál hennar túlkað yfir á Ungversku.

Hreinn ávinningur af umhverfisstjórnun

Umhverfistjórnunarkerfin sem rætt var um voru ISO 14001, Norræni svanurinn, EMAS (Eco-Management and Audit Scheme), Evrópublómið, Green Globe 21, Bláfáninn og Lífræn vottun. Þessir sömu aðilar og stóðu fyrir ráðstefnunni hafa gefið út kynningarrit um umhverfisvottanir, sem dreift var með ráðstefnugögnum. Nokkur íslensk fyrirtæki eru með ISO 14001 og Svaninn, eitt fyrirtæki er með Green Globe 21 sem er fyrir ferðaþjónustufyrirtæki, nokkur eru með Bláfánann sem er fyrir baðstrendur og smábátahafnir og 30-40 eru með lífræna vottun. En ekkert fyrirtæki er með EMAS né Evrópublómið.  Fyrsta fyrirtækið til að fá vottað ISO 14001 var ISAL árið 1997.  Orkuveita Reykjavíkur er í þann mund að fá vottun fyrir ISO 14001 og verður fyrsta orkufyrirtækið til þess hér á landi.

Ávinningur er margvíslegur fyrir utan að vera beint fjárhagslegur.  Það er aukin gæðavitund og ánægðari starfsmenn.  Nokkuð var rætt um að umbun frá stjórnvöldum væri engin við umhverfistjórnun.  Fyrirtæki þyrftu að greiða jafn há eftirlitsgjöld og önnur fyrirtæki sem ekkert gera í umhverfismálum. Og jafn strangar kröfur eru til fyrirtækja um ytra eftirlit í grænu bókhaldi. Nauðsyn er á meira samstarfi opinberra aðila og fyrirtækja til að vinna að umhverfismálum og minnka áhrif atvinnulífs a umhverfið og það er hægt að gera með því að minnka hið opinbera eftirlit með þeim sem standa sig vel.  Umhverfisvitund er að eflast eins og sést á þátttöku í þessari ráðstefnu og þegar Grænfánakynslóðin tekur við breytast viðhorfin fyrir alvöru.