Reglugerð lögum framar?

Eftirfarandi er yfirlýsing frá Samorku sem birt er í Morgunblaðinu:

„Í fréttatilkynningu frá Skipulagsstofnun, sem skilmerkilega er greint frá í Morgunblaðinu í dag miðvikudaginn 28. maí, er því hafnað að stofnunin hafi með úrskurði sínum um mat á umhverfisáhrifum vegna Bitruvirkjunar farið út fyrir hlutverk sitt samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í fréttatilkynningunni er talað um misskilning og 24. grein reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum, sem sagt er að „virðist hafa farið framhjá mörgum sem hafa tjáð sig um málið.“ Umrædd grein reglugerðarinnar hefur engan veginn farið framhjá Samorku, en það krefst hins vegar afar ríks vilja ef túlka á ákvæðið með þeim hætti að stofnunin eigi að lýsa skoðun sinni á framkvæmdinni líkt og gert er í álitinu, en ekki einungis gefa rökstutt álit sitt á því hvort matskýrsla framkvæmdaraðila uppfylli skilyrði laganna. Hitt er svo að ef stjórnvald tekur sér vald, með vísan til reglugerðar, sem ekki er að finna í lögum um sama efni eins og Skipulagsstofnun gerir, þá krefst það nánari skýringa.

Í athugasemdum með frumvarpinu þegar lögum um mat á umhverfisáhrifum var breytt árið 2005, og í nefndaráliti meirihluta umhverfisnefndar, kemur mjög skýrt fram að stofnunin á ekki að segja til um hvort framkvæmd sé í lagi eða ekki heldur er áherslan lögð á að leyfisveitandi sé upplýstur um umhverfisáhrif framkvæmdar og athugasemdir almennings þegar hann tekur afstöðu til umsóknar framkvæmdaraðila um leyfi til framkvæmda. „Í matsferlinu verður ekki tekin afstaða til þess hvort fallast beri á með eða án skilyrða eða leggjast gegn framkvæmd sem lýst hefur verið með fullnægjandi hætti í matsskýrslu framkvæmdaraðila.“ Þetta orðalag í frumvarpinu verður að teljast nokkuð skýrt.

Í fyrrnefndri fréttatilkynningu Skipulagsstofnunar er því hafnað að stofnunin sé með áliti sínu að „hafna“ eða „leggjast gegn“ byggingu Bitruvirkjunar. Það sé enda ekki hlutverk Skipulagsstofnunar. Umrætt álit Skipulagsstofnunar er 39 blaðsíður að lengd. Það hefst á einnar blaðsíðu samantekt um helstu niðurstöður, með þessum orðum: „Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að bygging Bitruvirkjunar sé ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu.“ Hér er sem sagt ekki verið að leggjast gegn framkvæmdinni?“

Fyrri umfjöllun Samorku má nálgast hér, þar sem finna má hlekki í lögin um mat á umhverfisáhrifum, reglugerðina, nefndarálitið og frumvarpið.