Óttast upphrópanir og firru

„Að sjálfsögðu er það hið besta mál að halda tónleika til stuðnings náttúrunni. Ísland hefur jú mjög græna ímynd, því við erum land hreinu orkunnar,“ segir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, í samtali við Morgunblaðið vegna svokallaðra Náttúrutónleika. Tekur hann fram að hann óttist engu að síður að umræðan um virkjanir og náttúruvernd verði of einsleit og uppfull af upphrópunum. „Það er stundum tilhneiging til þess að velmeinandi baráttufólk fyrir umhverfismálum grípi til frasa sem ekki eigi við rök að styðjast,“ segir Gústaf og nefnir sem dæmi um slíkar upphrópanir þá firru að bráðum verði búið að virkja allt Ísland, að raforka til stóriðju sé niðurgreidd og að álfyrirtæki séu hergagnaframleiðendur.