5. janúar 2023 Litið um öxl um áramót Fráfarandi framkvæmdastjóri skrifar: Þegar við lítum yfirárið 2022 er ljóst að orku- og veitumál hafa verið í brennidepli. Válynd veður í byrjun árs, vatnsskortur í lónum og skortur á heitu vatni minnir á hve mikilvægt er að hafa orkuöryggi í forgangi og hve langt er frá því að lagaumgjörðin eins og hún hefur þróast síðustu árin stuðli að því. Í byrjun mars var kynnt skýrsla um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra lét vinna með það að markmiði að draga fram staðreyndir á grundvelli faglegra sjónarmiða og upplýsingar um lykilþætti á sviði orkumála. Skýrslan varpar mjög skýru ljósi á stöðuna í þessum mikilvæga málaflokki, bæði hvað varðar orku og innviði. Eitt af því sem þar kom fram er að raforkuþörf heimila, atvinnulífs og orkuskipta til ársins 2040 geti kallað á rúmlega tvöföldun á núverandi raforkuframleiðslu. Markmið stjórnvalda um jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2040 setur orku- og veitufyrirtækjum landsins fyrir ærið verkefni því það er hlutverk þeirra að sinna þörfum samfélagsins fyrir orku og orkuinnviði. Uppbygging orku- og veituinnviða tekur langan tíma og því þarf að sýna mikla framsýni og fyrirhyggju í þessum efnum. Þótt skiptar skoðanir séu um hvað framtíðin beri í skauti sér er ljóst að vaxandi samfélag, þróttmikið atvinnulíf og árangur í loftslagsmálum kallar á stóraukna eftirspurn eftir grænni orku og innviðauppbyggingu sem huga þarf að strax í dag. Ef eitthvað er þá er hraðinn í orkuskiptum nú þegar þannig að veiturnar þurfa að hafa sig allar við og enn er ekki fyrirséð hvaðan græna orkan í orkuskiptin á að koma. Stóra spurningin er hvort stjórnvöld og Alþingi ætla að gera það sem þarf til að fylgja metnaðarfullum markmiðum sínum eftir, meðal annars með því að gera orku- og veitufyrirtækjunum kleift að sinna sínu hlutverki nógu hratt og vel. Nýting vindorku á Íslandi var mikið í sviðsljósinu á árinu og von er á tillögum að lagaumgjörð um hana í febrúar. Samorka hefur talað fyrir því að umgjörðin hér á landi greiði fyrir nýtingu hennar sem eðlilegri viðbót við græna orkuframleiðslu í þágu loftslagsmarkmiða, orkuskipta og orkusjálfstæðis. Umgjörðin þurfi að taka tillit til eiginleika vindorkunýtingar án þess að veittur sé afsláttur af því að taka tillit til náttúrunnar. Nú undir lok ársins vakti Samorka athygli á stöðu hitaveitna um allt land sem margar hverjar eru komnar að þolmörkum með að anna eftirspurn eftir heitu vatni. Gangi eftirspurnarspá Orkustofnunar til ársins 2060 eftir er hætta á að heitavatnsnotkun aukist langt umfram getu þeirra vinnslusvæða sem nú eru til rannsóknar. Hitaveiturnar hafa í gegnum árin unnið sleitulaust að aukinni heitavatnsöflun en þar hefur regluverkið um háhitasvæðin tafið mjög fyrir nauðsynlegum rannsóknum á nýjum svæðum. Þá er mikilvægt að stuðningur við jarðhitaleit á svonefndum köldum svæðum verði aukinn til muna. Ekki er hægt að gera upp árið án þess að minnast á orkukrísuna sem skapast hefur í orkumálum í Evrópu. Af henni þurfum við að draga lærdóm því orkuöryggi, orkusjálfstæði og hagstætt orkuverð er ekki sjálfgefið, ekki heldur hér á landi. Lykilatriðið er að tryggja nægt framboð af innlendri grænni orku (heitu vatni, rafmagni og rafeldsneyti) og byggja upp trausta innviði til að mæta þörfum samfélagsins á hverjum tíma. Við hjá Samorku treystum því að samtalið um orku- og veitumálin haldi áfram af krafti á nýju ári og að niðurstaða fáist í ýmis stór mál sem snerta allt samfélagið. Þar á meðal þarf að halda áfram stuðningi við uppbyggingu fráveitna um allt land ásamt því að eyða óvissu um rekstrargrundvöll vatnsveitna og þeim heimiluð eðlileg arðsemi eigin fjár svo þær geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Eitt brýnasta verkefnið að mati Samorku er uppbygging og viðhald flutnings- og dreifikerfis raforku því aðeins með sterku, áfallaþolnu kerfi sem lágmarkar töp skilar græna orkan sér þangað sem hennar er þörf. Þar hefur flókin lagaumgjörð á ýmsan hátt staðið í vegi fyrir raunverulegum umbótum. Úr þessu þarf að bæta til þess að metnaðarfull markmið um orkuöryggi og árangur í loftslagsmálum verði að veruleika. Í vetrarhörkum nú um hátíðarnar er rétt að minnast þess að í orku- og veitugeiranum vinnur öflugt starfsfólk sem vinnur hörðum höndum að því á hverjum einasta degi að færa fólki lífsgæðin sem felast í heita vatninu, heilnæmu drykkjarvatni, góðri fráveitu og grænu rafmagni. Oft eru verkefnin unnin við erfiðar aðstæður úti í óblíðri náttúru. Þrátt fyrir krefjandi vinnu og ýmsar áskoranir er 90% starfsfólks ánægt í vinnunni samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar félagsins Kvenna í orkumálum, sem er töluvert meiri starfsánægja en gengur og gerist á vinnumarkaðnum. Þetta eru ánægjulegar niðurstöður sem staðfesta svo sannarlega að það er gott að vinna í orku- og veitugeiranum enda horfum við björtum augum til framtíðar. Greinin birtist fyrst í Innherja 2. janúar 2023.
3. janúar 2023 Metnaðarfullt fræðslustarf fyrirtækja: Lykill að framsæknu atvinnulífi Menntamorgnar atvinnulífsins fara af stað aftur 5. janúar næstkomandi 09:00 – 10:00 í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35. Boðið verður upp á morgunkaffi. Menntamorgnar eru samstarfsverkefni SA og aðildarsamtaka. Fundurinn ber yfirskriftina Metnaðarfullt fræðslustarf fyrirtækja – lykill að framsæknu atvinnulífi. Dagskrá Skrautfjöður eða strategískt markmið? Allt um tilnefningar til menntaverðlauna atvinnulífsins – Ásdís Eir Símonardóttir mannauðsstjóri Lucinity og forseti Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi Menntasprotinn okkar – kærkomin viðurkenning og hvatning – Knútur Rafn Ármannsson eigandi og framkvæmdastjóri Friðheima Menntaverðlaunin komin í hús – við settum okkur markmið – Gunnar Egill Sigurðsson forstjóri SamkaupaFundarstjóri er Kristín Lúðvíksdóttir, sérfræðingur hjá SFF. Menntamorgunninn er hugsaður sem hvatning fyrir fyrirtæki og upptaktur að Menntadegi atvinnulífsins sem fer fram 14. febrúar nk. Skráning á fundinn og/eða fyrir streymi
30. desember 2022 Óskað eftir tilnefningum til Menntaverðlauna Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent í Hörpu þriðjudaginn 14. febrúar 2023. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf. Einungis skráðir aðildarfélagar SA eru gildir með tilnefningu. Tilnefningar sendist í tölvupósti til Samtaka atvinnulífsins á verdlaun@sa.is, eigi síðar en mánudaginn 23. janúar. Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum. Menntafyrirtæki ársins er valið og menntasproti ársins útnefndur, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið. Helstu viðmið fyrir menntafyrirtæki ársins eru: að skipulögð og markviss fræðsla sé innan fyrirtækisins að sem flest starfsfólk taki virkan þátt að haldið sé utan um mælikvarða í fræðslumálum að hvatning sé til staðar til frekari þekkingaröflunar Helstu viðmið vegna menntasprota ársins eru: að lögð sé stund á nýsköpun í menntun og fræðslu, innan fyrirtækis og/eða í samstarfi fyrirtækja samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu, innan sem utan fyrirtækja. Skýr og skipulögð gögn hjálpa dómnefnd að meta tilnefningar. Vinsamlega skilið greinargerð, að hámarki þrjár A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar. Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.
23. desember 2022 Opnunartími yfir hátíðar Skrifstofa Samorku verður að mestu lokuð yfir jól og áramót. Starfsfólk er þó í fjarvinnu. Starfsfólk Samorku óskar öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
22. desember 2022 Finnur Beck ráðinn framkvæmdastjóri Samorku Finnur Beck hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja. Finnur hefur verið forstöðumaður málefnastarfs hjá Samorku frá miðju ári 2021. Þar áður starfaði Finnur sem lögfræðingur HS Orku hf. frá árinu 2015 til 2020 og var um tíma settur forstjóri félagsins. Finnur hefur m.a. starfað sem héraðsdómslögmaður hjá Landslögum og hefur sinnt stundakennslu í lögfræði við Háskólann í Reykjavík á sviði fjármunaréttar, stjórnskipunarréttar og alþjóðlegs og evrópsks orkuréttar. „Orku- og veitumálin eru mikilvægur málaflokkur sem snertir samfélagið allt. Framundan eru spennandi verkefni við að tryggja áfram heitt og kalt vatn, grænt rafmagn og góða fráveituþjónustu ásamt því að vinna með stjórnvöldum að jarðefnaeldsneytislausu Íslandi. Ég hlakka til að takast á við þessi verkefni með aðildarfélögum okkar og öflugu teymi Samorku “, segir Finnur. Berglind Rán Ólafsdóttir, stjórnarformaður Samorku: „Finnur hefur umfangsmikla reynslu úr orku- og veitugeiranum. Hann þekkir einnig vel til Samorku, þjónustunnar við aðildarfyrirtækin og hlutverks þeirra sem málsvara orku- og veitufyrirtækja. Það er því fagnaðarefni að ganga frá ráðningu Finns sem framkvæmdastjóra.“ Finnur tekur þegar í stað við stöðu framkvæmdastjóra Samorku af Páli Erland.
30. nóvember 2022 Hugum að hitaveitunni: Er alltaf nóg til? Grein eftir Pál Erland, framkvæmdastjóra Samorku: Jarðhitinn er stærsti orkugjafi á Íslandi. Um 60% af allri orku sem notuð er hér á landi er heitt vatn til húshitunar, baða og annarrar neyslu. Það eru alls 43 TWst sem er tvöfalt meiri orka en framleidd er af rafmagni. Á meðan nágrannalönd okkar kynda húsin sín að stórum hluta með innfluttu jarðefnaeldsneyti notum við heita vatnið okkar, sem er stór liður í því hversu langt við erum komin í að vera óháð öðrum þjóðum um orku. Mikilvægi jarðhitans fyrir íslenskt samfélag lá ekki alltaf í augum uppi. Árhundruðum saman grunaði engan hversu mikill auður væri fólginn djúpt í jarðlögum undir landinu. Fyrst um sinn var jarðhitinn nýttur á stöku stað til þvotta og baða en eftir að við byrjuðum að leiða heitt vatn inn í húsin okkar fyrir um 100 árum varð efnahagslegur og samfélagslegur ávinningur fljótt ljós. Á Íslandi njótum þeirra forréttinda að hafa góðan aðgang að heitu vatni sem hitaveitur landsins sjá um að færa okkur. Í dag eru vel yfir 90% húsa á Íslandi hituð með hitaveitu og allir þekkja lífsgæðin sem fylgja því að fara í góða sturtu, í heitt bað eða skella sér í sund. Nú vitum við einnig hversu mikill ávinningurinn fyrir loftslagið er. Vegna nýtingu jarðhita til húshitunar höfum við komið í veg fyrir árlega losun 20 milljón tonna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið, sem er rúmlega fjórfalt það sem Ísland losar í dag. Það er ekki sjálfgefið að búa að slíkri auðlind og geta nýtt hana. Það var mikið frumkvöðlastarf á sínum tíma og krafðist mikillar framsýni. Það krefst ekki síður mikillar vinnu að viðhalda þeim mikla árangri og ávinningi sem hitaveitan hefur fært okkur. Því þó að orkuskiptum í húshitun sé formlega lokið, þá þarf að viðhalda þeim í takt við vöxt samfélagsins. Gert er ráð fyrir að íbúum á Íslandi hafi fjölgað um 22% árið 2050 miðað við árið 2021 samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar og verði yfir 450.000. Hæsta spá Hagstofunnar gerir svo ráð fyrir að aukningin frá 2021 verði um 70% til ársins 2070 og verði þá rúmlega 625.000. Þessi aukni mannfjöldi mun kalla á samsvarandi aukningu í notkun heits vatns. Samkvæmt jarðhitaspá Orkustofnunar hefur meðalnotkun heimila aukist jafnt og þétt síðustu ár, þrátt fyrir miklar framfarir í einangrun húsa og aukinnar notkunar gólfhita. Hlutur atvinnulífs í eftirspurn eftir jarðvarma mun einnig aukast töluvert miðað við spá Orkustofnunar. Til dæmis er gert ráð fyrir talsverðri fjölgun baðlóna og ylstranda og að eftirspurn vegna fiskeldis muni þrefaldast. Spáin gerir ráð fyrir að þarfir atvinnulífsins taki fram úr jarðvarmanotkun heimila þegar fram líða stundir. Gangi þetta eftir er hætta á að hitavatnsnotkun aukist langt umfram getu þeirra vinnslusvæða sem nú eru í rannsókn. Hitaveiturnar neyðist því til að leita sífellt lengra að nýjum vinnslusvæðum með tilheyrandi kostnaði fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Auk þess er jarðhitaauðlindin viðkvæm og jarðhitasvæði sem henta til nýtingar eru ekki óþrjótandi. Það tekur ár og stundum áratugi að finna heppileg svæði til nýtingar, bora rannsóknarholur og rannsaka hver afkastageta svæðisins er. Eins og staðan er í dag eiga hitaveiturnar fullt í fangi með að anna núverandi heitavatnsnotkun og við blasir að til skerðinga getur komið í kuldaköstum þegar borholur hafa ekki undan. Hitaveiturnar starfa í þágu viðskiptavina sinna og er því umhugað að nýta þær auðlindir og fjármuni sem þeim hefur verið treyst fyrir á sem bestan hátt. Við getum öll tekið þátt í því að fara vel með heita vatnið og þar með lágmarka umhverfisáhrif og kostnað. Ennfremur þurfa stjórnvöld að styðja við jarðhitaleit um allt land svo við getum haldið áfram að njóta þeirra forréttinda sem heita vatnið okkar er. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 17. nóvember 2022.
18. nóvember 2022 Hitaveitur komnar í hámarks afkastagetu Eftirspurn eftir heitu vatni hefur aukist mjög mikið á skömmum tíma. Staðan er nú orðin þannig að núverandi vinnslusvæði eru komin í hámarks afkastagetu og það er því stór áskorun fyrir hitaveitur að anna þessari eftirspurn. Þá blasir við að hún eigi enn eftir að aukast mikið samkvæmt jarðvarmaspá Orkustofnunar til ársins 2060. Jarðhitaleit, leyfisveitingar og rannsóknir taka langan tíma og því engin lausn í sjónmáli. Komið geti til skerðinga á heitu vatni á köldustu dögum ársins. Um þetta var fjallað á opnum fundi Samorku fimmtudaginn 17. nóvember undir yfirskriftinni Hugum að hitaveitunni: Er alltaf nóg til? Fulltrúar þriggja hitaveitna kynntu stöðuna eins og hún er í dag og hvernig aukin eftirspurn hefur haft áhrif á starfsemi þeirra. Þá kynnti Orkustofnun jarðvarmaspána og nýja orkunýtnitilskipun Evrópusambandsins. Að lokum var hvatt til vitunarvakningar meðal almennings um að fara vel með heita vatnið og sóa því ekki að óþörfu. Upptöku af fundinum má sjá neðst í færslunni. Hér má sjá svipmyndir frá fundinum í Hörpu. Ljósmyndir: BIG
Hugum að hitaveitunni Samorka býður til morgunfundar um málefni hitaveitna, stöðu jarðhitaauðlindarinnar og forðamála fimmtudaginn 17. nóvember í Kaldalóni, Hörpu, kl. 9 – 10.30. Boðið verður upp á morgunhressingu frá 8.30. Dagskrá: Staðan tekin hjá veitunumVeitur: Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra Rannsókna og þróunar hjá ORSelfossveitur: Sigurður Þór Haraldsson, veitustjóriNorðurorka: Hjalti Steinn Gunnarsson, fagstjóri hitaveitu Hvernig geta stjórnvöld stutt við sjálfbæra þróun hitaveitna? Marta Rós Karlsdóttir, sviðsstjóri sjálfbærrar orkunýtingar hjá Orkustofnun Almar Barja, fagsviðsstjóri hjá Samorku, tekur saman tölfræði um hitaveitur og gefur hollráð til sparnaðar Fundarstjóri er Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku. Allir eru velkomnir á fundinn og aðgangur er ókeypis, en skráningar er óskað í forminu hér fyrir neðan. Fundinum verður einnig streymt. Gott er að merkja við „going“ við viðburðinn á Facebook til að fá áminningu þegar streymið hefst. Nafn Netfang Fyrirtæki Skrá mig Δ
24. október 2022 Óskað eftir erindum á NORDIWA 2023 Óskað er eftir tillögum að erindum fyrir norrænu fráveituráðstefnuna sem haldin verður í Gautaborg í Svíþjóð dagana 5. -7. september 2023. Ráðstefnan er stærsti viðburður í fráveitumálum á Norðurlöndunum þar sem koma saman; sérfræðingar og framkvæmdastjórar fráveitna, háskólasamfélagið og rannsakendur ásamt helstu ráðgjöfum á sviði fráveitu og fleiri sem hafa áhuga og þekkingu á innviðum veitna. NORDIWA er nú haldin í 18. sinn og að skipulagingu koma samtök rekstraraðila fráveitna á Norðurlöndunum, þar á meðal Samorka. Skilafrestur fyrir tillögur að erindi er til 27. janúar 2023. Allar nánari upplýsingar um ráðstefnuna, helstu umfjöllunarefni og hvernig eigi að senda inn tillögur eru að finna á heimasíðu ráðstefnunnar.