2. júlí 2008 Tækniskólinn hefur starfsemi Fjöltækniskóli Íslands og Iðnskólinn í Reykjavík hafa verið sameinaðir í Tækniskólann ehf. Nýtt nafn skólans er Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins og er hann stærsti framhaldsskóli landsins. Gert er ráð fyrir að um 1.800 nemendur stundi nám í dagsskóla á haustönn. Innritun í nýja skólann hefur gengið vel og hafa fleiri umsóknir borist í skólann en samanlagt í Iðnskólann í Reykjavík og Fjöltækniskóla Íslands seinustu ár. Tækniskólinn er einkarekinn og er rekstrarfélagið í eigu Samtaka iðnaðarins, Landssambands íslenskra útvegsmanna, Samorku, Samtaka íslenskra kaupskipaútgerða og Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík. Sjá nánar um opnunarhátíð skólans á vef Samtaka iðnaðarins.
28. júní 2008 Óttast upphrópanir og firru „Að sjálfsögðu er það hið besta mál að halda tónleika til stuðnings náttúrunni. Ísland hefur jú mjög græna ímynd, því við erum land hreinu orkunnar,“ segir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, í samtali við Morgunblaðið vegna svokallaðra Náttúrutónleika. Tekur hann fram að hann óttist engu að síður að umræðan um virkjanir og náttúruvernd verði of einsleit og uppfull af upphrópunum. „Það er stundum tilhneiging til þess að velmeinandi baráttufólk fyrir umhverfismálum grípi til frasa sem ekki eigi við rök að styðjast,“ segir Gústaf og nefnir sem dæmi um slíkar upphrópanir þá firru að bráðum verði búið að virkja allt Ísland, að raforka til stóriðju sé niðurgreidd og að álfyrirtæki séu hergagnaframleiðendur.
24. júní 2008 Einkennileg skrif Framtíðarlandsins Framtíðarlandið sendi á dögunum frá sér ritgerð þar sem fjallað er um meinta ríkisstyrki við stóriðju á Íslandi. Ritgerðin er um margt býsna merkileg, en þar er því til dæmis haldið fram að „jákvæð áhrif fullbúinna álvera á viðskiptajöfnuð virðist takmörkuð og tímabundin.“ Útflutningur vaxi að magni til fyrst eftir að álverksmiðja taki til starfa en haldist síðan lítið breyttur. Þetta er afar merkileg niðurstaða og samkvæmt henni skiptir þessi stöðugi útflutningur þá litlu máli fyrir viðskiptajöfnuðinn nema rétt meðan um aukningu er að ræða. Nú er það svo, sem kunnugt er, að álið hefur farið framúr fiskafurðum í útflutningsverðmæti. Að einhverju leyti verður það því miður rakið til niðurskurðar í þorskveiðum. En þessar útflutningstekjur skipta þá litlu máli í framtíðinni samkvæmt röksemdafærslunni í ritgerð Framtíðarlandsins, ef aðrar greinar sigla aftur framúr. Einhver hefði haldið að útflutningstekjurnar væru af hinu góða, hvaða greina sem rekja mætti þær til. Opinberar ábyrgðir reiknaðar sem bein fjárframlögÍ leit ritgerðarinnar að meintum ríkisstuðningi við stóriðju er einkum lögð áhersla á ábyrgð opinberra aðila á lánum orkufyrirtækja í opinberri eigu. Því er blákalt haldið fram að þessar ábyrgðir gætu eins falist í beinum fjárframlögum og síðan er haldið út í æfingu til að reikna út andvirði þessara fjárframlaga miðað við erlent dæmi. Engu virðist skipta að aldrei hefur reynt á þennan meinta kostnað hins opinbera, þessi fjárframlög hafa aldrei komið til. Þá er gengið út frá þeirri forsendu að allar virkjanir sem selji raforku til álvera kosti það sama „á hvert tonn sem framleitt er af áli“ og ekki er litið til þess að virkjanir vegna eldri álvera kunni að vera afskrifaðar að miklu leyti, enda breyti það litlu um „efnahagslegt verðmæti þeirra.“ Afskrifuð virkjun í fullri starfsemi er sem sagt ekkert verðmætari eign en sú sem nýverið hefur tekið til starfa og er enn mjög skuldsett? Fleira mætti týna til og ekki er ætlunin að fara dýpra ofan í þessa ritgerð hér. Það sem vekur hins vegar furðu er hve ríkur vilji virðist vera til að finna efnahagsleg rök gegn bæði virkjunum og stóriðju. Nú hefur Samorka enga sérstaka stefnu um frekari uppbyggingu stóriðju hérlendis, en hins vegar er þarna um að ræða afar verðmæta viðskiptavini íslenskra raforkufyrirtækja og samtökin sjá ekki hvaða ástæður geta legið að baki þeirri mjög svo neikvæðu gagnrýni sem þessi starfsemi sætir. Nær eina erlenda fjárfestingin hérlendisSem fyrr segir vegur ál nú þyngst allra vöruflokka í útlutningstekjum Íslendinga. Íslensk raforkufyrirtæki hafa miklar tekjur og góða arðsemi af orkusölu til þessara fyrirtækja. Þessi fyrirtæki skapa hér mörg vel launuð störf, hafa stuðlað hér að öflugri þekkingaruppbyggingu og hafa mikil afleidd umsvif í för með sér. Loks hefur bein erlend fjárfesting í íslensku atvinnulífi lengstum einskorðast að mestu við þessi fyrirtæki, ef undan eru skilin erlend eignarhaldsfélög í eigu íslenskra aðila sem undanfarin 2-3 ár hafa fjárfest hér mikið fyrir erlent lánsfé. Því miður horfir ekki of vel í dag með sum þessara félaga. Ávallt verður til staðar andstaða við einstakar virkjana- eða stóriðjuframkvæmdir á grundvelli náttúruverndarsjónarmiða. Allir aðilar reyna að koma til móts við slík sjónarmið og sumum hugmyndum um framkvæmdir er einfaldlega hafnað. En þessi sífellda leit að efnahagslegri gagnrýni á þessar atvinnugreinar verður seint skilin.
23. júní 2008 Nýr forseti Eurelectric: Lars G. Josefsson Lars G. Josefsson, forstjóri sænska orkufyrirtækisins Vattenfall, var á dögunum kjörinn forseti Eurelectric, Evrópusamtaka rafiðnaðarins, til þriggja ára. Hann tekur við af Spánverjanum Rafael Miranda, forstjóra spænska orkufyrirtækisins Endesa. Josefsson gegndi áður embætti varaforseta Eurelectric en við því embætti hefur nú tekið Fulvio Conti, forstjóri ítalska orkufyrirtækisins ENEL. Lars G Josefsson er eðlisfræðingur að mennt og hefur verið forstjóri Vattenfall frá því árið 2000. Áður gegndi hann m.a. ýmsum stjórnunarstöðum hjá Ericsson samsteypunni. Árið 2007 hafði Josefsson frumkvæði að stofnun 3C – Combat Climate Change, sem er samstarfsvettvangur yfir 50 stórra alþjóðlegra fyrirtækja sem styðja við þróun markaðslausna til að stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda.
19. júní 2008 Neytendastofa vekur athygli á reglugerð um raforkuvirki Það er mikilvægt að allir rafiðnaðarmenn kynni sér þessar breytingar og tileinki sér þær. Sjá bréf Neytendastofu
16. júní 2008 Sveigjanleikaákvæði Kyoto-bókunarinnar: möguleikar fyrir jarðhitafyrirtæki Iðnríkin sem tóku á sig skuldbindingar um að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2008-2012 geta með verkefnum í þróunarríkjunum aflað sér heimilda til útstreymis sem nýtast heima fyrir. Verkefnin sem ráðist er í verða að draga úr útstreymi í þróunarríkjunum frá því sem ella hefði orðið og uppfylla skilyrði sem almennt eru sett til viðurkenningar verkefnanna. Töluverðir möguleikar eiga að geta falist í því fyrir íslensk jarðhitafyrirtæki að huga að þessum möguleikum þegar undirbúin eru verkefni í þróunarríkjunum, segir á vef Samtaka atvinnulífsins.
2. júní 2008 Erindi fjölsótts og vel heppnaðs Vorfundar á vef Samorku Vorfundur Samorku var haldinn á Akureyri í fimmta sinn dagana 22. og 23. maí 2008. Fundurinn heppnaðist vel í alla staði en fundinn sátu á fjórða hundrað manns og alls voru flutt þar 44 erindi. Fjallað var um laga- og regluumhverfi, virkjanir, jarðhitaleit, flutningskerfi, grenndarálestur mæla, öryggismál, rafmagn í samgöngum, hreinsistöðvar, orkuútrásina, fræðslumál, eftirlitsmál, lagnaval, heilbrigðismál, umhverfismál, minjamál og margt fleira. Í tengslum við fundinn sýndu 23 fyrirtæki vörur sínar og þjónustu á fundarstað. Erindi fundarins má nálgast hér á vef Samorku.
29. maí 2008 Hitaveita í 100 ár: Útilistaverk vígt í Mosfellsbæ laugardaginn 31. maí Laugardaginn 31. maí verður vígt nýtt útilistaverk í Mosfellsbæ, sem Samorka reisir í samvinnu við bæinn í tilefni af 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi, og 20 ára afmæli Mosfellsbæjar. Jafnframt verður vígt nýtt torg við Þverholt, en verkið er hluti af torginu, ásamt með nýju fræðsluskilti sem OR reisir í samstarfi við Mosfellsbæ í tengslum við varðveislu á gömlum hitaveitustokk við torgið. Vígsluhátíðin hefst kl. 13.00, á nýja torginu við Þverholt í Mosfellsbæ, og verður dagskráin sem hér segir: · Skólahljómsveit Mosfellsbæjar leikur · Bæjarstjóri Mosfellsbæjar Haraldur Sverrisson vígir hið nýja torg við Þverholt.· Karlakórinn Stefnir syngur undir stjórn Gunnars Ben.· Formaður afmælisnefndar Samorku, Guðmundur Davíðsson, og forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, Karl Tómasson, vígja hið nýja útilistaverk, sem ber heitið „Hundrað þúsund miljón tonn af sjóðheitu vatni“. Verkið er eftir Kristin Hrafnsson myndlistarmann.· Kjartan Magnússon, stjórnarformaður OR, flytur ávarp og vígir nýtt fræðsluskilti við hitaveitustokk sem enn stendur við enda torgsins, en gerð skiltisins er samstarfsverkefni OR og Mosfellsbæjar.· Loks leikur Orkusveitin – kvintett Reynis Sigurðssonar. Kynnir er Helgi Pétursson. Að vígslu lokinni verður boðið upp á gönguferð fyrir þá sem það vilja á vegum Sögufélags Kjalarnesþings og Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar (UNM) í samvinnu við Orkuveitu Reykjavíkur. Um er að ræða fræðslugöngu með leiðsögn sem ber heitið „Sveitin og heita vatnið“. Gengið verður frá Kjarna, upp með Varmá og að Reykjum og meðal annars áð í Dælustöðinni á Reykjum þar sem boðið verður upp á hressingu. Gestur Gíslason, jarðfræðingur, mun taka á móti gestum þar. Bjarki Bjarnason er leiðsögumaður í ferðinni. Tilefni hátíðarhaldanna er 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi árið 2008, en þar er miðað við frumkvöðulsstarf Stefáns B. Jónssonar á Suður-Reykjum í Mosfellssveit árið 1908. Ennfremur fagnaði Mosfellsbær 20 ára afmæli árið 2007 og ákvað bæjarstjórn af því tilefni að standa að gerð útilistaverks í bænum. Útilistaverkið er hringur, sex metrar að þvermáli. Undir verkinu er rennandi heitt vatn sem myndar gufu upp úr 22 áletruðum grindum úr sögu hitaveitu og Mosfellsbæjar. Í miðju verksins er ljósastaur sem lýsir upp hringinn, gufuna og gróðurinn í kring. Í ályktun dómnefndar segir m.a.: „Hugmyndafræðilegur bakgrunnur nær á skemmtilegan hátt að samtvinna sögu Mosfellsbæjar og sögu hitaveitunnar. Góð tenging er því bæði við söguna, umhverfið og heita vatnið“. Gerð verksins varð samstarfsverkefni Samorku og Mosfellsbæjar.
29. maí 2008 Reglugerð lögum framar? Eftirfarandi er yfirlýsing frá Samorku sem birt er í Morgunblaðinu: „Í fréttatilkynningu frá Skipulagsstofnun, sem skilmerkilega er greint frá í Morgunblaðinu í dag miðvikudaginn 28. maí, er því hafnað að stofnunin hafi með úrskurði sínum um mat á umhverfisáhrifum vegna Bitruvirkjunar farið út fyrir hlutverk sitt samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í fréttatilkynningunni er talað um misskilning og 24. grein reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum, sem sagt er að „virðist hafa farið framhjá mörgum sem hafa tjáð sig um málið.“ Umrædd grein reglugerðarinnar hefur engan veginn farið framhjá Samorku, en það krefst hins vegar afar ríks vilja ef túlka á ákvæðið með þeim hætti að stofnunin eigi að lýsa skoðun sinni á framkvæmdinni líkt og gert er í álitinu, en ekki einungis gefa rökstutt álit sitt á því hvort matskýrsla framkvæmdaraðila uppfylli skilyrði laganna. Hitt er svo að ef stjórnvald tekur sér vald, með vísan til reglugerðar, sem ekki er að finna í lögum um sama efni eins og Skipulagsstofnun gerir, þá krefst það nánari skýringa. Í athugasemdum með frumvarpinu þegar lögum um mat á umhverfisáhrifum var breytt árið 2005, og í nefndaráliti meirihluta umhverfisnefndar, kemur mjög skýrt fram að stofnunin á ekki að segja til um hvort framkvæmd sé í lagi eða ekki heldur er áherslan lögð á að leyfisveitandi sé upplýstur um umhverfisáhrif framkvæmdar og athugasemdir almennings þegar hann tekur afstöðu til umsóknar framkvæmdaraðila um leyfi til framkvæmda. „Í matsferlinu verður ekki tekin afstaða til þess hvort fallast beri á með eða án skilyrða eða leggjast gegn framkvæmd sem lýst hefur verið með fullnægjandi hætti í matsskýrslu framkvæmdaraðila.“ Þetta orðalag í frumvarpinu verður að teljast nokkuð skýrt. Í fyrrnefndri fréttatilkynningu Skipulagsstofnunar er því hafnað að stofnunin sé með áliti sínu að „hafna“ eða „leggjast gegn“ byggingu Bitruvirkjunar. Það sé enda ekki hlutverk Skipulagsstofnunar. Umrætt álit Skipulagsstofnunar er 39 blaðsíður að lengd. Það hefst á einnar blaðsíðu samantekt um helstu niðurstöður, með þessum orðum: „Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að bygging Bitruvirkjunar sé ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu.“ Hér er sem sagt ekki verið að leggjast gegn framkvæmdinni?“ Fyrri umfjöllun Samorku má nálgast hér, þar sem finna má hlekki í lögin um mat á umhverfisáhrifum, reglugerðina, nefndarálitið og frumvarpið.
26. maí 2008 Vandséð annað en Skipulagsstofnun hafi farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt Á dögunum skilaði Skipulagsstofnun áliti á mati á umhverfisáhrifum vegna Bitruvirkjunar, þar sem stofnunin staðfestir að matið hafi verið unnið með lögbundnum hætti en kemst jafnframt að þeirri niðurstöðu að bygging Bitruvirkjunar sé „ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu.“ Vandséð er annað en að með þessari niðurstöðu sé stofnunin komin út fyrir lögbundið hlutverk sitt samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Lögunum var breytt árið 2005 og í frumvarpinu segir meðal annars, um helstu breytingar á lögunum, að í matsferlinu verði ekki tekin afstaða til þess hvort fallast beri á með eða án skilyrða eða leggjast gegn framkvæmd sem lýst hefur verið með fullnægjandi hætti í matsskýrslu framkvæmdaraðila. Hlutverk Skipulagsstofnunar er fyrst og fremst það, í þessu tilfelli, að staðfesta að umhverfismat hafi verið unnið með lögbundnum hætti, sem hún og gerði sem fyrr segir. Hlutverk Skipulagsstofnunar, gagnvart matsskýrslu um umhverfisáhrif, er fyrst og fremst það að staðfesta að umhverfismat hafi verið unnið með lögbundnum hætti, samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þá ber stofnuninni að kynna álit sitt fyrir umhverfisráðherra, framkvæmdaraðila, leyfisveitendum og öðrum umsagnaraðilum, svo og þeim sem gert hafa athugasemdir við frummatsskýrslu á kynningartíma. Ekki ætlað að taka afstöðu, heldur staðfesta lýsinguLögum um mat á umhverfisáhrifum var breytt árið 2005 og í athugasemdum við frumvarpið árið 2005 segir m.a.: „Helstu breytingar sem frumvarp þetta mælir fyrir um eru eftirfarandi: 1. Í matsferlinu verður ekki tekin afstaða til þess hvort fallast beri á með eða án skilyrða eða leggjast gegn framkvæmd sem lýst hefur verið með fullnægjandi hætti í matsskýrslu framkvæmdaraðila.“ Í 11. gr. núgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum er fjallað um álit Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum. Í greininni segir m.a.: „Innan fjögurra vikna frá því að Skipulagsstofnun tekur á móti matsskýrslu skal stofnunin gefa rökstutt álit sitt á því hvort skýrslan uppfylli skilyrði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Í áliti Skipulagsstofnunar skal gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja til grundvallar matinu, og niðurstöðum þess. Jafnframt skal í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu.Telji Skipulagsstofnun að setja þurfi frekari skilyrði fyrir framkvæmdinni eða gera þurfi aðrar eða frekari mótvægisaðgerðir en fram koma í matsskýrslu skal stofnunin tilgreina skilyrðin og mótvægisaðgerðirnar og færa rök fyrir þeim.“ Ákvæði reglugerðar á grundvelli laganna eru nánast alveg samhljóða (sjá 24. grein). Segi ekki til um hvort framkvæmd sé i lagi eða ekkiLögunum var sem fyrr segir breytt árið 2005 og í nefndaráliti meirihluta umhverfisnefndar segir m.a.: „Meiri hlutinn telur mikilvægt að undirstrika tilgang laga um mat á umhverfisáhrifum en hann er að setja reglur um það hvernig framkvæma eigi mat á umhverfisáhrifum þannig að leyfisveitandi sé upplýstur um umhverfisáhrif framkvæmdar og athugasemdir almennings þegar hann tekur afstöðu til umsóknar framkvæmdaraðila um leyfi til framkvæmda. Telur meiri hlutinn rétt að undirstrika það vegna þeirra vangaveltna sem fram komu við umfjöllun málsins um að hvergi í lögum um mat á umhverfisáhrifum væri að finna ákvæði sem hindrað gætu framkvæmd. Bendir meiri hlutinn á að þær tilskipanir sem lög um mat á umhverfisáhrifum byggjast á fela ekki í sér að þessar reglur eigi að segja til um hvort framkvæmd sé í lagi eða ekki heldur er áherslan lögð á að leyfisveitandi sé upplýstur um umhverfisáhrif framkvæmdar og athugasemdir almennings þegar hann tekur afstöðu til umsóknar framkvæmdaraðila um leyfi til framkvæmda [skál. Samorka]. Komin út fyrir lögbundið hlutverk sittÁ dögunum skilaði Skipulagsstofnun áliti á mati á umhverfisáhrifum vegna Bitruvirkjunar, þar sem stofnunin staðfestir að matið hafi verið unnið með lögbundnum hætti en kemst jafnframt að þeirri niðurstöðu að bygging Bitruvirkjunar sé „ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu.“ Vandséð er annað en að með þessari niðurstöðu sé stofnunin komin út fyrir lögbundið hlutverk sitt samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Álitið ekki bindandiLjóst er að álit Skipulagsstofnunar, þess efnis að virkunin sé óásættanleg, er á engan hátt bindandi, hvorki fyrir sveitarfélagið sem fer með skipulagsvaldið, né fyrir iðnaðarráðherra sem veitir nýtingarleyfi.