Heimurinn allur undir

Vegna hlýnunar á lofthjúpi jarðar er nú um allan heim lögð áhersla á mikilvægi þess að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa, sem ekki losa gróðurhúlofttegundir eins og jarðefnaeldsneyti á borð við olíu og kol. Fyrirtækið Geysir Green Energy hefur sett sér það markmið að verða alþjóðlega leiðandi fyrirtæki á sviði jarðvarma. Fyrirtækið leitar markaðstækifæra í virkjun jarðvarma, fjárfestir í þróun og smíði jarðvarmavirkjana, yfirtekur jarðvarmavirkjanir í eigu orkufyrirtækja og tekur þátt í einkavæðingu orkufyrirtækja víðs vegar um heiminn. Markaðssvæðið er heimurinn allur. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Ásgeirs Margeirssonar, forstjóra Geysir Green Energy, á hádegisverðarfundi í kjölfar aðalfundar Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja.

Í erindi sínu fjallaði Ásgeir um vaxandi eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku, og um stofnun og markmið Geysir Green Energy. Hann vitnaði meðal annars í svonefnda Stern-skýrslu um loftslagsmál en samkvæmt henni er framtíðin fólgin í endurnýjanlegri orku sem beisluð er á sjálfbæran hátt.

Gufuafl mæti 10% af orkuþörf Bandaríkjanna árið 2050
Evrópusambandið er meðal þeirra sem sett hafa sér háleit markmið um aukið hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa á næstu árum og áratugum og áætlað hefur verið að árið 2050 verði hægt að mæta 10% af frumorkuþörf Bandaríkjanna með nýtingu gufuafls.

Áratuga reynsla á Íslandi
Ásgeir fjallaði um það hvernig Íslendingar búa yfir áratuga þekkingu og reynslu á sviði jarðvarma, en skortur er á þessari þekkingu víða erlendis þar sem háhitasvæði er að finna. Geysir Green Energy – sem stofnað var nýlega af Glitni, FL Group og VGK Hönnun – leggur áherslu á jarðvarmaorku og hyggst fjárfesta fyrir einn milljarð Bandaríkjadala í verkefnum á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Ásgeir fjallaði um nokkur verkefni sem Geysir Green Energy tengist nú þegar vegna hlutdeildar sinnar í fyrirtækjunum Enex, Enex Kína og Exorku.

Heimurinn allur undir
Markmið Geysis er að verða alþjóðlega leiðandi fyrirtæki á sviði jarðvarma. Fyrirtækið leitar markaðstækifæra í virkjun jarðvarma, fjárfestir í þróun og smíði jarðvarmavirkjana, yfirtekur jarðvarmavirkjanir í eigu orkufyrirtækja og tekur þátt í einkavæðingu orkufyrirtækja víðs vegar um heiminn. Markaðssvæðið er heimurinn allur.

Sjá erindi Ásgeirs Margeirssonar

Sérstaða Íslands í loftslagsmálum

„Enginn vafi er á að bæði einstaklingar og atvinnulíf munu finna fyrir auknum kröfum um að dregið verði úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á næstu árum og áratugum,“ segir í pistli á vef Samtaka atvinnulífsins. Þar segir jafnframt meðal annars: „Atvinnulíf á Íslandi stendur hins vegar almennt vel að vígi á þessu sviði m.a. vegna þess að raforkuframleiðsla á Íslandi veldur ekki útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur bent á að loftslagsbreytingar megi fyrst og fremst rekja til brennslu jarðefnaeldsneytis, landbúnaðar og breytinga á landnotkun. Alþjóðasamfélagið hefur jafnframt viðurkennt sérstöðu Íslands sem felst í nýtingu á endurnýjanlegum orkulindum, t.d. við framleiðslu á áli sem feli í sér minni áhrif á veðurfarskerfi heldur en almennt gerist með álframleiðslu annars staðar í heiminum.“

Sjá nánar á vef Samtaka atvinnulífsins.

Úrdráttur Veðurstofu Íslands á ástandsskýrslu IPCC

Aðalfundur Samorku 9. feb. 2007

Fundurinn verður haldinn föstudaginn 9. feb.  n.k. á Grand Hótel Reykjavík . Hin formlegu aðalfundarstörf hefjast kl. 10.00. Síðan verður hádegisverðarfundur sem hefst kl.12.00 og koma þá boðsgestir til fundar. Á hádegisverðarfundinum verða flutt ávörp, Þorkell Helgason orkumálastjóri flytur erindi um orkumál á krossgötum og Ásgeir Margeirsson forstjóri Geysir Green Energy talar um framtíðarútrás íslenskrar jarðhitaþekkingar.

Sjá dagskrá hér

Skráning fer fram á skrifstofu Samorku, sími: 588 4430 eða með tölvupósti: odda@samorka.is

Fyrsti hátækniiðnaðurinn á Íslandi

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, í Morgunblaðinu:

Í líflegri umræðu um framtíð lands og þjóðar er iðulega lögð áhersla á mikilvægi atvinnugreina sem flokkaðar eru sem hátækni- og þekkingargreinar. Fjallað er um mikilvægi þess að virkja ríkan frumkvöðlaanda íslensku þjóðarinnar og að okkur beri að leggja áherslu á mikilvægi menntunar, rannsókna og nýsköpunar. Þeir munu vandfundnir sem ekki styðja slíka framtíðarsýn og þótt ávallt megi betur gera er staða Íslands blessunarlega að mörgu leyti mjög sterk á þessa mælikvarða í dag. Þá stöðu getum við meðal annars þakkað framsæknu brautryðjendastarfi íslenskra orkufyrirtækja undanfarna áratugi. Nýting endurnýjanlegra orkulinda er gott dæmi um hvoru tveggja menntalandið Ísland og frumkvöðlalandið Ísland.

Nýting orkulinda er þekkingariðnaður
„Orkan virkjuð“ auglýsti nýsameinað verkfræðifyrirtæki, VGK Hönnun, á dögunum og greindi frá því að með sameiningunni væri starfsorka 240 sérfræðinga virkjuð til hins ítrasta. Fram kom að meðal verkefna fyrirtækisins væru rannsóknir, hönnun og ráðgjöf í tengslum við nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Þá hefur fyrirtækið, ásamt Glitni og FL Group, stofnað alþjóðlega fjárfestingarfélagið Geysir Green Energy um sjálfbæra orkuvinnslu, enda mikil tækifæri erlendis á grundvelli þeirrar miklu þekkingar sem Íslendingar hafa þróað á þessu sviði. Hjá íslenskum orkufyrirtækjum starfa nú fleiri hundruð háskóla- og tæknimenntaðra sérfræðinga og stjórnenda, flestir með tækni- eða verkfræðimenntun. Heildarfjöldi ársverka háskólamenntaðra er þó langtum meiri í greininni, samanber auglýsingu verkfræðifyrirtækisins sem fjallað er um hér að framan, en orkufyrirtækin kaupa margvíslega sérfræðiþjónustu af öðrum aðilum á markaði – verkfræðingum, jarðfræðingum, arkitektum og þannig mætti lengi telja. Ennfremur hafa íslensk orkufyrirtæki lengi verið í fararbroddi á sviði sí- og endurmenntunar fyrir iðnmenntað og ófaglært starfsfólk.

Dr. Ágúst Valfells, lektor við Háskólann í Reykjavík, hefur í erindi (sjá sa.is) meðal annars lýst því hvernig virkjun raforku og álframleiðsla voru fyrsti hátækniiðnaðurinn á Íslandi, og hvernig öflugur en „orkugrannur“ hátækni- og þekkingariðnaður í aldarlok spratt að miklu leyti upp úr þeim jarðvegi sem virkjanir og álframleiðsla hefðu átt stóran þátt í að móta. Ágúst sýndi dæmi um hvernig fjöldi nemenda í verk- og tæknifræði, stærðfræði og náttúruvísindum hefur aukist í takt við aukna framleiðslu á raforku síðustu áratugi. Hann fjallaði um gríðarlegt mikilvægi orku- og álframleiðslunnar fyrir þennan hóp og nefndi sem dæmi að Landsvirkjun ein hefði á árunum 2000 til 2004 keypt rannsóknar- og hönnunarþjónustu fyrir tæpa tvo milljarða króna á ári. Nýting endurnýjanlegra orkulinda og álframleiðsla eru hvoru tveggja dæmi um þekkingariðnað sem skiptir gríðarlegu máli fyrir íslenskt mennta- og nýsköpunarumhverfi. Þessar greinar eru þess vegna mikilvægur hluti menntalandsins Íslands og frumkvöðlalandsins Íslands.

Fyrirséð hagstjórnarverkefni
Raunar er stundum á það bent að stórframkvæmdir tengdar nýtingu endurnýjanlegra orkulinda og stóriðju stuðli að þenslu sem aftur trufli starfsumhverfi frumkvöðla og raunar ýmissa fyrirtækja, ekki síst í útflutningi. Er þá einkum horft til hás gengis krónunnar. Í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands kynnti í síðasta mánuði er bent á nokkra áhrifaþætti þenslu undanfarinna missera, en mest vægi er þó ætlað fjárfestingum í orkuverum og stóriðju annars vegar, og breytingum á íbúðalánamarkaði hins vegar. Ljóst er að hlutur stórframkvæmdanna er talsverður en áhrif þeirra eru þó sérstök að því leyti til, líkt og bent er á í skýrslunni, að þau eru að mestu fyrirséð og því hægt að bregðast við þeim í tíma í hagstjórninni. En þótt þenslan og hátt gengi krónunnar verði að einhverju leyti rakin til þessara framkvæmda þá útskýra þær augljóslega ekki að innan ársins 2006 sveiflaðist gengisvísitala krónunnar milli gildanna 103 og 133, svo dæmi sé tekið. Þetta er gríðarleg gengissveifla og ljóst að þarna var eitthvað annað að valda umróti í íslensku efnahagslífi.

Nýting endurnýjanlegra orkulinda er gott dæmi um hátækni- og þekkingariðnað sem styður jafnframt við aðrar slíkar atvinnugreinar og stuðlar þannig með fjölbreyttum hætti að öflugu mennta-, rannsókna- og nýsköpunarumhverfi fyrir íslenskt atvinnulíf.

Ný reglugerð um áhættumat og forvarnir á vinnustöðum

Ný reglugerð nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum tók gildi í nóvember sl. Markmið reglugerðarinnar er að tryggja að fyrir hendi sé kerfisbundið vinnuverndarstarf á vinnustöðum. Atvinnurekandi ber ábyrgð á að koma  því starfi á og það á að taka til fyrirtækisins í heild og á allar vinnuaðstæður sem geta haft áhrif á öryggi og heilsu starfsmanna. Samkvæmt reglugerðinni ber atvinnurekanda að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað.  Áætlunin á að marka stefnu varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað og í henni felst m.a. að það á að gera áhættumat og skipuleggja forvarnir.

Vinnueftirlitið stendur fyrir ráðstefnu þriðjudaginn 23. janúar til að kynna reglugerðina.

Skráning á ráðstefnuna er á netfangið  ingibjorg@ver.is.  Aðgangur er ókeypis.  

Sjá dagskrá á heimasíðu Vinnueftirlitsins  www.vinnueftirlit.is

 

ESB: 20% orku verði endurnýjanleg árið 2020

10. janúar 2007

 

ESB: 20% orku verði endurnýjanleg árið 2020

á Íslandi er hlutfallið rúm 70% og fer vaxandi

 

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur sett sér markmið um að árið 2020 verði 20% orkunotkunar innan sambandsins fengin frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Árið 1997 setti ESB sér markmið um að árið 2010 yrði þetta hlutfall 12%, en nú mun ljóst að það markmið muni ekki nást. Á Íslandi er þetta sama hlutfall hins vegar rúm 70% og fer vaxandi með tilkomu nýrra gufu- og vatnsaflsvirkjana.

 

Orkumálin sett í forgang

Í formennskuáherslum þýsku ríkisstjórnarinnar, sem nú leiðir ráðherraráð ESB, eru orkumálin meðal helstu skilgreindra forgangsmála. Meðal annars er lögð áhersla á nauðsyn aukins öryggis í aðgengi að orkugjöfum innan ESB, og á aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa í orkuneyslu innan sambandsins.

 

Framkvæmdastjórn ESB hefur nú jafnframt sett fram fyrrnefnt markmið um 20% hlutfall endurnýjanlegrar orku árið 2020. Óhætt er að segja að markmið þetta sé metnaðarfullt, í ljósi þess að ekki virðist ætla að takast að ná fyrra markmiði um 12% árið 2010. Hins vegar er mikið ánægjuefni að framkvæmdastjórn ESB hafi sett sér þessi metnaðarfullu markmið, en hvatarnir eru jú m.a. þeir að ná að draga úr losun koltvísýrings sem stafar af brennslu jarðefnaeldsneyta annars vegar, og að auka öryggi í aðgengi að orkugjöfum fyrir almenning og atvinnulíf í löndum ESB hins vegar. Markmið þessi eru sett fram sem hluti af víðtækri stefnumótun ESB á sviðum loftslags- og orkumála.

 

Ólík staða hérlendis

Staðan er hins vegar talsvert önnur á Íslandi. Hér eru rúm 70% orkunotkunar fengin frá endurnýjanlegum orkulindum og fer hlutfallið raunar vaxandi með tilkomu nýrra gufu- og vatnsaflsvirkjana (innflutt orka er einkum notuð við fiskveiðar og samgöngur). Þetta háa hlutfall hreinnar orku vekur sífellt meiri athygli annarra þjóða og íslensk orkufyrirtæki, verkfræðistofur og fjármálafyrirtæki sinna nú fjölþættum verkefnum víða um heim í krafti þeirrar miklu þekkingar sem hér hefur verið þróuð á þessu sviði. Hrein orka og endurnýjanlegir orkugjafar eru þess vegna meðal mikilvægustu eiginleika í „vörumerkinu Íslandi“ og ljóst að Íslendingar eiga gríðarleg tækifæri á sviði orkumála, sem færast sífellt framar á forgangslista sjórnvalda um veröld alla.

 

 

 

Nýr starfsmaður til Samorku

Gústaf Adolf  kemur frá Samtökum atvinnulífsins, þar sem hann hefur s.l. 5 ár gegnt  starfi forstöðumanns stefnumótunar- og samskiptaviðs. Hjá Samorku mun hann gegna starfi aðstoðarframkvæmdastjóra og sem slíkur mun hann starfa að upplýsinga- og kynningarmálum, ásamt því að vera staðgengill framkvæmdastjóra.

Gústaf Adolf hefur störf um n.k. áramót og bíður stjórn og starfsfólk hann velkominn til starfa.

 

Að festast í heygarðshorninu, blaðagrein um rafsegulgeislun.

Samorka hefur á undanförnum árum fylgst vel með þeirri umræðu sem fram hefur farið um hugsanlega skaðsemi af völdum áhrifa háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann. Umræðan um þetta mál, bæði hér á landi og erlendis, hefur á stundum viljað fara út um allar koppagrundir. Með því að smella á tengilinn hér að neðan má lesa grein  Gunnlaugs Björnssonar stjarneðlisfræðings, sem birtist í Morgunblaðinu 29. október s.l. Greinin er ekki minnst athyglisverð fyrir þær sakir að þarna er fjallað um málið á þann  raunhæfa hátt sem við teljum að eigi við  hér á landi.   Lesa grein