Fullyrðingar um raforkuverð

Morgunblaðsgrein Gústaf Adolfs Skúlasonar:

Á dögunum ritaði Gísli Hjálmtýsson, framkvæmdastjóri Thule Investments, grein í Morgunblaðið þar sem hann fullyrðir að íslensk orkufyrirtæki selji orkuna til lægstbjóðenda. Látið er í veðri vaka að nægt framboð sé á hugsanlegum kaupendum orkunnar á mun hærra verði, en að af einhverjum ástæðum kjósi íslensku orkufyrirtækin fremur að selja á lægri verðum. Vandséð er hvers vegna svo ætti að vera. Hins vegar er í grein Gísla vísað til dæmis af mjög háu verði á endurnýjanlegri orku í Þýskalandi. Þar mun vera um mistök að ræða. Í stað 20 evrusenta reiknar Gísli með 2 evrum á hverja kílóvattstund. Þess má geta að af þessum 20 evrusentum kemur meirihlutinn í formi niðurgreiðslna þýska ríkisins, enda um endurnýjanlega orku að ræða sem flest aðildarríki ESB þurfa að stórefla. Hér á landi er öll raforka hins vegar endurnýjanleg og þarf ekki niðurgreiðslur til.

Arðbær viðskipti
Trúnaður ríkir um verðákvæði í samningum um sölu á raforku til stóriðju, líkt og gildir raunar um raforkusölu til fjölda íslenskra fyrirtækja enda samkeppni í framleiðslu og sölu á raforku hérlendis. Engu að síður hefur komið fram að verðið á raforku til stóriðju er í meðallagi hátt hérlendis í alþjóðlegum samanburði. Er þá byggt á niðurstöðum óháðra alþjóðlegra ráðgjafarfyrirtækja. Einhverjir kunna að gagnrýna þessa niðurstöðu um raforkuverð sem er í meðallagi hátt á heimsvísu. Þarna er hins vegar einfaldlega um að ræða samninga í viðskiptum. Hér á landi hefur launakostnaður til dæmis verið hár og flutningsleiðir langar með hvoru tveggja hráefni og afurðir. Aðalatriðið er að samningarnir sem um ræðir eru eðli málsins samkvæmt sameiginleg niðurstaða raforkusala og raforkukaupenda um arðbær viðskipti og verðmætasköpun.

Gísli leggur til að orkan verði seld í minni einingum og til skemmri tíma, til að fá fram hæsta mögulega verð. Því er til að svara að auðvitað skoða íslensk orkufyrirtæki alla slíka möguleika í sinni ákvarðanatöku um virkjanir og orkusölu. Fráleitt er að gefa í skyn að íslensk orkufyrirtæki gætu selt á mun hærri verðum en kjósi einfaldlega að selja á lægri verðum.